Hoppa yfir valmynd
18. maí 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 137/2009

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 18. maí 2010 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 137/2009.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 24. nóvember 2009, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hafi á fundi sínum þann 20. nóvember 2009 fjallað um greiðslu atvinnuleysisbóta til kæranda. Við samkeyrslu Vinnumálastofnunar við nemendaskrá hafi komið í ljós að kærandi er skráður í nám jafnhliða því að fá greiddar atvinnuleysistryggingar án þess að fyrir liggi námssamningur við stofnunina. Í ljósi þessa hafi greiðslum atvinnuleysistrygginga til hans verið hætt. Jafnframt taldi Vinnumálastofnun að kærandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur frá 1. september til 15. október 2009 að fjárhæð 188.138 kr. sem honum bæri að endurgreiða skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þessari ákvörðun og kærði þær til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 18. desember 2009. Hann krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi segir málið vera þannig vaxið að hann stundi fjarnám í Keili á Ásbrú. Þegar hann hafi verið skráður í námið hafi honum verið tjáð að námið væri ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna vegna þess að námið færi einungis fram á kvöldin og um helgar, en ef um dagskólanám hefði verið að ræða væri það lánshæft. Kærandi hafi allan tímann verið í atvinnuleit sem hafi því miður ekki borið árangur. Það hafi alla tíð verið ætlun hans að vinna fulla vinnu ásamt náminu, enda sé það eingöngu stundað á kvöldin og um helgar.

Í bréfi Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 5. október 2009, kemur fram að við samkeyrslu stofnunarinnar við nemendaskrá, sem gerð hafi verið skv. 4. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, hafi komið í ljós að kærandi sé skráður í nám jafnhliða því að fá greiddar atvinnuleysistryggingar án þess að fyrir lægi námssamningur við stofnunina. Kæranda var jafnframt gefinn kostur á að kanna, innan sjö daga, hjá Vinnumálastofnun hvort hann uppfyllti skilyrði fyrir gerð námssamnings. Í greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 21. apríl 2010, kemur fram að kærandi hafi komið athugasemdum sínum á framfæri er hann mætti á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar þann 8. október 2009. Ekki er þar gerð nánari greind fyrir athugasemdum kæranda.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 21. apríl 2010, kemur fram að samkvæmt gögnum frá Lánasjóði íslenskra námsmanna hafi kærandi verið skráður í 22 ECTS eininga nám hjá Keili á haustönn 2009. Samkvæmt reglum Lánasjóðsins er nám kæranda lánshæft og samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hefur hann þegar fengið greidd námslán vegna haustannar 2009. Í ljósi þess að námið sem kærandi stundaði er lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna og þeim einingafjölda sem hann var skráður í hjá Keili hafi Vinnumálastofnun því ekki talið hann uppfylla skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar.

Í greinargerðinni er vitnað í c-lið 3. gr. og 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og tekið fram að aðstæður kæranda falli hvorki undir 2. né 3. mgr. 52. gr. laganna. Verði af því að álykta að meginregla sú er fram komi í 1. mgr. 52. gr. laganna eigi við um tilvik kæranda. Samkvæmt ákvæði 1. mgr. 52. gr. laganna teljist kærandi ekki tryggður samkvæmt lögunum og af þeirri ástæðu geti hann ekki átt rétt til atvinnuleysisbóta samhliða námi sínu.

Samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar skuli sá sem hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabil sem hann hafi ekki uppfyllt skilyrði laganna, endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi. Þar sem kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar til greiðslu atvinnuleysisbóta telji stofnunin að hann skuli endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið, sbr. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Það er niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum fyrir sama tímabil og hann stundar nám og þiggur framfærslu frá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Jafnframt er það niðurstaða stofnunarinnar að kærandi skuli endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir þann tíma sem hann uppfyllti ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 23. apríl 2010, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 7. maí 2010. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Í 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segir að hver sá sem stundar nám, sbr. c-lið 3. gr., teljist ekki tryggður á sama tímabili enda sé námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar. Í athugasemdum við nefnda lagagrein í frumvarpi því sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar kemur fram sú meginregla að námsmenn eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum og að miðað sé við að það skipti ekki máli hvort um sé að ræða dag- eða kvöldskóla eða fjarnám. Hugtakið nám er svo skilgreint í c-lið 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í kæru sinni vísar kærandi til eldri skilgreiningar á námsmanni sem sagði að sá sem væri í lægra námshlutfalli en 75% teldist ekki stunda nám í skilningi laganna. Þann 8. apríl tóku gildi lög nr. 37/2009 um breytingu á framangreindu ákvæði c-liðar 3. gr., en þar var gerð sú breyting að námshlutfall hefði ekki áhrif að þessu leyti. Í greinargerð með lagabreytingunni þann 8. apríl 2009 kemur fram að þegar metið er hvað skuli teljast nám í skilningi laganna verði eingöngu litið til hvers konar nám sé um að ræða óháð námshlutfalli.

Samkvæmt undantekningarreglu 3. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar skal Vinnumálastofnun meta sérstaklega hvort sá er stundi nám uppfylli skilyrði laganna þrátt fyrir námið enda um svo lágt námshlutfall að ræða að námið teljist ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum 37/2009 um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar, sem tók gildi þann 8. apríl 2009, kemur fram að almenna reglan sé sú að einstaklingar sem stunda nám eigi ekki rétt til atvinnuleysisbóta á sama tímabili, ekki síst þegar námið telst lánshæft samkvæmt reglum um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Þar segir að litið hafi verið svo á að þegar fólk stundar nám sé það ekki á sama tímabili í virkri atvinnuleit líkt og lögin gera ráð fyrir enda megi gera ráð fyrir að viðkomandi sé á námstímanum ekki jafnvakandi fyrir þeim tækifærum sem kunna að bjóðast hvað varðar atvinnu. Hins vegar þyki eðlilegt að veita Vinnumálastofnun ákveðið svigrúm til mats á því hvort einstaklingur teljist í virkri atvinnuleit í skilningi laganna og uppfylli skilyrði þeirra að öðru leyti vilji hann leggja stund á einstök námskeið á framhalds­skóla- eða háskólastigi enda viðurkennt að það geti verið atvinnuleitanda til góðs að vera virkur í samfélaginu með einum eða öðrum hætti. Þetta eigi þó ekki við sé það nám sem viðkomandi stundar lánshæft samkvæmt reglum um Lánasjóð íslenskra námsmanna enda sá sjóður ætlaður til framfærslu námsfólks. Í slíkum tilvikum meti Vinnumálastofnun aðstæður umsækjanda og þá eftir atvikum hvort hlutaðeigandi geti talist í leit að hlutastarfi sem hann getur stundað samhliða náminu og þar með hlutfallslega tryggður. Þurfi þá meðal annars að líta til þess hvernig tímasókn í skóla er háttað, í því skyni að meta líkur á því að hlutaðeigandi geti tekið almennu starfi samhliða náminu. Enn fremur beri að líta til umfangs námsins en miðað er við að um mjög lágt námshlutfall sé að ræða.

Á grundvelli þess að kærandi var í svo miklu námi að nám hans var metið lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna gat kærandi ekki samkvæmt framangreindu átt rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta á sama tíma. Hin kærða niðurstaða Vinnumálastofnunar er því staðfest að því leyti að rétt var að stöðvar þá þegar greiðslu atvinnuleysisbóta til kæranda.

Í 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um leiðréttingu á atvinnuleysisbótum en hún hljóðar svona:

Hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildir um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hefur fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum 54/2006 segir um þessa grein frumvarpsins að gert sé ráð fyrir því að hinn tryggði endurgreiði Atvinnuleysistryggingasjóði þær fjárhæðir sem ofgreiddar eru í þeim tilvikum er hann fékk hærri greiðslur úr sjóðnum en honum bar. Jafnframt segir að þetta eigi við um öll tilvik sem kunna að valda því að hinn tryggði hafi fengið ofgreitt úr Atvinnuleysistryggingasjóði.

Í máli þessu liggur fyrir að kærandi fékk greiddar atvinnuleysisbætur eftir að hann varð námsmaður í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar og uppfyllti því ekki lengur skilyrði laganna. Í samræmi við 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar ber honum því að endurgreiða þá fjárhæð sem Vinnumálastofnun hefur krafið hann um.

 

Úrskurðarorð

Sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að stöðva greiðslu atvinnuleysisbóta til A er staðfest. Kærandi skal greiða Vinnumálastofnun ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. september 2009 til 15. október 2009 að fjárhæð 188.138 kr.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum