Hoppa yfir valmynd
30. mars 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 111/2009

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 30. mars 2010 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 111/2009.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dagsettu þann 24. september 2009, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum þann 21. september 2009 stöðvað greiðslur til kæranda þar sem hann væri ekki í virkri atvinnuleit. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi mótteknu 26. október 2009. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 4. febrúar 2009. Hann var boðaður á fund hjá ráðgjafa þann 26. ágúst 2009, með bréfi dags. 21. ágúst 2009. Fundurinn var liður í eftirliti með stöðu og högum þeirra sem fá greiddar atvinnuleysisbætur. Í boðunarbréfinu var kæranda bent á að það gæti valdið missi bóta ef boðunum í viðtöl hjá stofnuninni væri ekki sinnt. Kærandi mætti ekki á fundinn. Í kæru kæranda til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, móttekinni 26. október 2009, kemur fram að hann hafi ekki fengið boðunarbréf Vinnumálastofnunar á fundinn. Hann hafi þurft að fara til Portúgal vegna þess að hann hafi orðið að mæta þar fyrir rétti.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 23. febrúar 2010, kemur fram að eitt af meginskilyrðum 13. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé að einstaklingur sem þiggi atvinnuleysisbætur sé í virkri atvinnuleit. Kærandi hafi látið hjá líða að mæta á fund er Vinnumálastofnun hafi gert honum að mæta á þann 26. ágúst 2009. Í skýringum kæranda sem fram hafi komið í kæru til úrskurðarnefndar segi hann fjarveru sína á fundi stofnunarinnar stafa af því að hann hafi ekki fengið boðunarbréf frá stofnuninni. Í kærunni komi einnig fram að hann hafi verið staddur í Portúgal og því ekki getað setið fund stofnunarinnar. Bréf Vinnumálastofnunar til kæranda hafi verið send á heimilisfang hans sem er eina aðsetur hans sem skráð er í tölvukerfi Vinnumálastofnunar og er lögheimili hans.

Fram kemur af hálfu Vinnumálastofnunar að það sé grundvallarskilyrði þess að unnt sé að aðstoða umsækjanda um atvinnuleysisbætur við að fá starf við hæfi og gefa honum kost á þátttöku í viðeigandi vinnumarkaðsaðgerðum að atvinnuleitandi sinni þeim boðunum og ábendingum sem sannanlega séu send honum með viðurkenndum hætti. Kærandi hafi ekki tilkynnt um för sína til Portúgal þegar stofnunin hafi boðað hann til fundar. Í ljósi þess að rík skylda hvíli á umsækjendum um atvinnuleysisbætur til þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum sé það mat Vinnumálastofnunar að skýring sú er fram komi í kæru til úrskurðarnefndarinnar geti ekki réttlætt fjarveru kæranda á fundi stofnunarinnar þann 28. ágúst 2009. Þá þyki enn fremur ljóst af skýringum kæranda í kæru til úrskurðarnefndar að kærandi var erlendis og gat því ekki mætt til fundar þann 26. ágúst 2009. Það sé eindregin afstaða Vinnumálastofnunar að á meðan kærandi dveljist erlendis teljist hann ekki uppfylla skilyrði a-liðar 1. mgr. 13. gr. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um að vera í virkri atvinnuleit.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 26. febrúar 2010, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 5. mars 2010. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Kærandi var boðaður til fundar við ráðgjafa Vinnumálastofnunar þann 26. ágúst 2009, með bréfi, dags. 21. ágúst 2009. Tilgangur fundarins var að kanna hvort kærandi uppfyllti skilyrði þess að fá greiddar atvinnuleysisbætur, meðal annarra skilyrðin um virka atvinnuleit og búsetu hér á landi, sbr. a- og c-lið 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi mætti ekki til hins boðaða fundar og í ljós kom að hann var staddur Portúgal þar sem hann þurfti að mæta fyrir rétti. Kærandi tilkynnti Vinnumálastofnun ekki um för sína til Portúgal.

Rík skylda hvílir á umsækjendum um atvinnuleysisbætur til virkrar atvinnuleitar, sbr. 13. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í því felst m.a. að umsækjandi þarf að geta tekið starfi án sérstaks fyrirvara og vera reiðubúinn að gefa Vinnumálastofnun nauðsynlegar upplýsingar til að auka líkur hans á að fá starf við hæfi. Almennt telst sá sem dvelst erlendis ekki uppfylla skilyrði a-liðar 1. mgr. 13. gr. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um virka atvinnuleit. Kærandi dvaldi erlendis án þess að tilkynna Vinnumálastofnun þar um og var það brot á skyldum hans samkvæmt þágildandi 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og 10. gr. sömu laga. Hann mætti heldur ekki á fund stofnunarinnar sem var boðaður sem þáttur í eftirliti með stöðu og högum þeirra sem fá greiddar atvinnuleysisbætur.

Með hliðsjón af ákvæðum 3. mgr. 9. gr., 10. gr., 13. gr. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar staðfest, sbr. einnig úrskurði úrskurðarnefndarinnar frá 21. október 2009 í máli nr. 73/2009 og frá 12. nóvember 2009 í máli nr. 70/2009.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 21. september 2009 um niðurfellingu bótaréttar A er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum