Hoppa yfir valmynd
30. mars 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 113/2009

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 30. mars 2010 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 113/2009.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 27. október 2009, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hafi á fundi sínum þann 7. október 2009 ákveðið að fella niður greiðslur atvinnuleysisbóta til hans fyrir tímabilið 5. júlí til 5. september 2009. Ástæðan var sú að kærandi var erlendis á þessum tíma og staðfesti atvinnuleit sína erlendis frá í júlí 2009. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, með bréfi, dags. 30. október 2009, og krefst þess að honum verði greiddar atvinnuleysisbætur. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi staðfesti atvinnuleit sína á rafrænan hátt frá Bretlandi þann 21. júlí 2009. Hann var í kjölfarið beðinn um að skýra dvöl sína í útlöndum innan sjö daga frá dagsetningu bréfs, þann 28. júlí 2009, þar að lútandi. Hann hafði ekki samband við stofnunina og með öðru bréfi, dagsettu þann 25. ágúst 2009, var kæranda tilkynnt sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að greiðslur atvinnuleysisbóta til hans yrðu stöðvaðar. Kærandi gaf þær skýringar í bréfi sínu, dags. 7. september 2009, að hann hafi verið erlendis frá 5. júlí til 5. september 2009 og því ekki fengið bréf Vinnumálastofnunar í hendur. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 27. október 2009, hafi honum verið tilkynnt að hann fengi ekki greiddar atvinnuleysisbætur fyrir þetta tímabil.

Kærandi óskar þess að ákvörðun Vinnumálastofnunar verði endurskoðuð og henni breytt. Hann kveðst ekki hafa þekkt E-303 eyðublaðið áður en hann fór í atvinnuleit til Englands og enginn á skrifstofu Vinnumálastofnunar í Engjateigi hafi sagt sér frá því. Hann telur það ósanngjarnt að fá ekki atvinnuleysisbætur við virka atvinnuleit í Englandi á meðan fólk fái slíkar bætur á Íslandi án þess að leita að starfi. Slíkt sé ekki í anda laganna. Kærandi kveðst nú hafa fengið starf við akstur hjá X.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 25. febrúar 2010, kemur fram að í 2. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé mælt fyrir um það markmið laganna að tryggja tímabundna fjárhagsaðstoð meðan sá tryggði leiti að nýju starfi eftir að hafa misst sitt fyrra starf. Í III. kafla laganna séu svo tilgreind almenn skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamann. Eitt af meginskilyrðum 13. og 14. gr. laganna sé að einstaklingur sem þiggur atvinnuleysisbætur sé í virkri atvinnuleit. Í 42. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé að finna undantekningu á skilyrðum þeim sem fram komi í 13. og 14. gr. laganna er mæli fyrir um heimild til að greiða atvinnuleysisbætur til þess sem teljist tryggður samkvæmt lögunum og sé í atvinnuleit í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eða stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum. Vinnumálastofnun gefi út E-303 vottorð til staðfestingar á rétti viðkomandi í slíku tilfelli. Kærandi hafi ekki fengið útgefið slíkt vottorð sér til handa.

Í kæru sinni til úrskurðarnefndar haldi kærandi því fram að hann hafi fengið ófullnægjandi upplýsingar um atvinnuleit erlendis hjá Vinnumálastofnun. Vinnumálastofnun kveður þá einstaklinga sem sækja um atvinnuleysisbætur vera boðaða á kynningarfund hjá stofnuninni. Á þessum kynningarfundi sé meðal annars farið ítarlega yfir þær reglur sem lúti að atvinnuleit erlendis og svokölluð E-303 vottorð sem séu nauðsynleg þeim einstaklingum sem hyggi á atvinnuleit erlendis. Þær upplýsingar séu til þess fallnar að koma í veg fyrir að skjólstæðingar stofnunarinnar glati rétti sínum vegna misskilnings eða vankunnáttu. Kærandi hafi mætt á boðaðan kynningarfund stofnunarinnar þann 23. desember 2008.

Fram kemur hjá Vinnumálastofnun að skv. 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar skuli atvinnuleitandi tilkynna Vinnumálastofnun án ástæðulausrar tafar um þær breytingar sem kunni að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti. Það sé óumdeilt í máli þess að kærandi hafi verið í Bretlandi. Hann hafi ekki upplýst Vinnumálastofnun um ferð sína áður en hann hafi horfið af landi brott og hafi því brotið á skyldum sínum gagnvart stofnuninni. Það sé eindregin afstaða Vinnumálastofnunar að á meðan kærandi dveljist erlendis teljist hann ekki uppfylla skilyrði a-liðar 1. mgr. 13. gr. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um að vera í virkri atvinnuleit.

Kæranda var með bréfi, dags. 1. mars 2010, send greinargerð Vinnumálastofnunar og önnur gögn málsins og honum gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 15. mars 2009. Engar athugasemdir hafa borist frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Áður en hin kærða ákvörðun var tekin var kæranda gefinn kostur á að koma fram andmælum við fyrirhugaða ákvörðun Vinnumálastofnunar um niðurfellingu bótagreiðslna vegna þess að hann væri staddur erlendis, sbr. bréf stofnunarinnar til kæranda, dags. 28. júlí 2009. Engin andmæli bárust áður en hin kærða ákvörðun var tekin en í kjölfar hennar reiddi kærandi fram upplýsingar þess efnis að hann hafi verið staddur erlendis á tímabilinu 5. júlí til 5. september 2009. Með hinni kærðu ákvörðun voru þeir dagar dregnir frá við greiðslu atvinnuleysisbóta til kæranda.

Gögn málsins gefa ekki til kynna að Vinnumálastofnun hafi vanrækt skyldur sínar við að veita kæranda almennar upplýsingar um þær skyldur sem á honum hvíldu sem atvinnuleitanda. Þá er ekkert sem bendir til að skort hafi leiðbeiningar um útgáfu E-303 vottorða.

Með hliðsjón af ákvæðum 9. gr., 10. gr., 13. gr. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar staðfest, sbr. einnig úrskurði úrskurðarnefndarinnar frá 21. október 2009 í máli nr. 73/2009, frá 12. nóvember 2009 í máli nr. 70/2009 og frá 18. febrúar 2010 í máli nr. 98/2009.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 7. október 2009 í máli A um að fella niður greiðslu atvinnuleysisbóta á tímabilinu 5. júlí til 5. september 2009 er staðfest.

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum