Hoppa yfir valmynd
11. mars 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 105/2009

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 11. mars 2010 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 105/2009.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 3. september 2009, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum þann 2. september 2009 fjallað um umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur frá 20. júlí 2009. Fallist var á umsókn kæranda en réttur hans til atvinnuleysisbóta var felldur niður í 40 daga í upphafi bótatímabils með vísan til 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Í öðru bréfi Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 19. september 2009, kemur fram að stofnunin hafi staðfest fyrri ákvörðun sína á fundi sínum þann 16. september 2009 og var það gert að fengnum nýjum gögnum. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi 29. september 2009. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og hann fái greiddar atvinnuleysisbætur í 40 daga frá og með 20. júlí 2009. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Í erindi kæranda kemur fram að aðstæður hans hafi verið mjög óvenjulegar. Kærandi starfaði hjá X ehf. Hann kynntist konu frá Filippseyjum og fór út til hennar í ágúst 2008 en hún var þá barnshafandi. Kærandi fór í sex mánaða fæðingarorlof. Hann kveðst hafa ætlað sér aftur í sitt fyrra starf en hann hafi orðið að segja því lausu þar sem hann, kona hans og barn komust ekki til Íslands, meðal annars vegna tregðu og seinagangs Útlendingaeftirlitsins og erfiðleika við gagnaöflun á Filippseyjum og á Íslandi. Enn fremur hafi efnahagskreppan á Íslandi og gengisfall haft áhrif og aukið erfiðleika fjölskyldunnar. Fjölskyldan hafi búið við nauman kost á Filippseyjum hjá tengdaforeldrum kæranda en þau eru fátækir smábændur. Loks hafi utanríkisráðuneytið á Íslandi ákveðið, með hliðsjón af stöðu fjölskyldunnar, að flytja hana til Íslands og eftir það hafi kona kæranda fengið landvistarleyfi. Þau hafi komið til Íslands í júlí 2009 og eftir nokkurra daga starfsleit hafi kærandi skráð sig atvinnulausan og sótt um atvinnuleysisbætur.

Kærandi telur að ástæður sína fyrir starfslokum séu gildar og hafnar því að starfslok megi rekja til ástæðna sem honum séu um að kenna. Í greinargerð Vinnumálastofnunar sé látið í það skína að kærandi hefði betur getað undirbúið eða sleppt ferð sinni til Filippseyja. Hann hafi farið til að vera viðstaddur fæðingu barns síns og eiga með því fyrstu mánuðina, enda hafi hann verið í fæðingarorlofi þann tíma og samkvæmt markmiðum laga um fæðingarorlof sé það markmið þeirra laga og tilgangur að foreldrar séu með börnum sínum fyrstu mánuði eftir fæðingu. Af hálfu kæranda kemur fram að sérstök skylda hvíli á Vinnumálastofnun að upplýsa mál sem þetta til þess að hægt sé að taka ákvörðun í því. Vinnumálastofnun hefði verið í lófa lagið að hafa samband við þá aðila sem kærandi nefnir, til dæmis Útlendingastofnun, ef einhver vafi hafi leikið á vilja hans til þess að koma heim. Hann hafi einnig verið í samskiptum við félags- og tryggingamálaráðuneytið og utanríkisráðuneytið sem að lokum hafi greitt götu fjölskyldu hans varðandi það að koma heim.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 1. febrúar 2010, er vísað í 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Fram kemur að ágreiningurinn snúist um það hvort ástæður kæranda fyrir uppsögn á starfi sínu teljist gildar í skilningi framangreinds lagaákvæðis. Skýringar kæranda lúti aðallega að því að hann hafi talið sig knúinn til að dvelja lengur en fyrirhugað hafi verið á Filippseyjum þar til kona hans fengi landvistarleyfi hér á landi og hafi af þeim sökum sagt upp starfi sínu hjá X ehf. Áformuð ferð til Filippseyja hafi verið farin í þeim tilgangi að vera viðstaddur fæðingur barns kæranda. Heimkomu hafi verið frestað ótímabundið vegna þess að formleg afgreiðsla á landvistar- og atvinnuleyfi fyrir maka kæranda hafi gengið hæglega. Þá vísi kærandi til fjárhagserfiðleika og efnahagsþrenginga hérlendis í skýringum sínum og kæru til úrskurðarnefndar.

Fram kemur af hálfu Vinnumálastofnunar að tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem tryggðir séu og misst hafi fyrra starf sitt, tímabundna fjárhagsaðstoð í þrengingum sínum. Veiti lögin þeim fjárhagslegt úrræði og beri að gera ríkar kröfur til þeirra sem segi upp störfum sínum, um að hafa til þess gildar ástæður samkvæmt lögunum, enda eigi almennt ekki að þiggja atvinnuleysisbætur í stað þess að gegna launuðu starfi. Kæranda hafi mátt vera ljóst að með því að segja starfi sínu lausu á þeim tímum sem nú séu, gæti verið erfiðleikum bundið fyrir kæranda að komast í annað starf. Þá hafi kærandi ekki sýnt fram á að vera hans á Filippseyjum hafi verið óumflýjanleg eða nauðsynleg til að flýta fyrir afgreiðslu landvistar- eða atvinnuleyfis fyrir maka sinn. Telji Vinnumálastofnun að uppsögn kæranda á starfi sínu megi rekja til ákvarðana sem kærandi hafi tekið sjálfur og það sé mat stofnunarinnar að ástæður þær er kærandi gefi fyrir uppsögn sinni hjá X ehf. teljist ekki gildar ástæður í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 3. febrúar 2010, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 17. febrúar 2010. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi sem barst 16. febrúar síðastliðinn.

 

2.

Niðurstaða

Mál þetta lýtur að túlkun á 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en hún er svohljóðandi:

Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að 40 dögum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem missir starf af ástæðum sem hann á sjálfur sök á.“

Almenn lagarök mæla með því að ákvæði 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um niðurfellingu bótaréttar skuli fyrst og fremst beitt þegar viðkomandi einstaklingur segir starfi sínu lausu og sækir í kjölfar þess um atvinnuleysisbætur. Í skilningi 1. mgr. 54. gr. er orðalagið „gildar ástæður“ skýrt þröngt, sem þýðir í raun að fá tilvik falla þar undir.

Í athugasemdum við 1. mgr. 54. gr. í frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar segir að nefnd er fjallaði um efni laganna hafi tekið afstöðu til þess hvað gætu talist gildar ástæður og komist að þeirri niðurstöðu að það væri erfiðleikum bundið að skilgreina nákvæmlega slíkar ástæður í lögum og reglugerðum þar sem ástæður þess að fólk segi störfum sínum lausum eða missi þau geti verið af margvíslegum toga. Því sé lagt til að lagaregla þessi verði áfram matskennd og Vinnumálastofnun sé þar með falið að meta hvernig atvik og aðstæður þess máls er fyrir henni liggur falli að umræddri reglu. Stofnuninni beri því að líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða við ákvarðanir um hvort umsækjendur um atvinnuleysisbætur skuli sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Við úrlausn þessa máls verður að líta til þess að kærandi var í fæðingarorlofi þegar hann afréð, skömmu fyrir efnahagshrunið 2008, að dveljast um nokkra hríð í Filippseyjum með þarlendri barnsmóður sinni. Síðustu greiðslur Fæðingarorlofssjóðs til hans bárust í febrúar 2009. Fyrirætlanir hans og barnsmóður hans var að flytja til Íslands áður en fæðingarorlofinu lyki. Kærandi hefur skýrt það ítarlega hvað olli því að þessar fyrirætlanir runnu í sandinn og hafa þær ekki verið vefengdar í sjálfu sér. Um það leyti sem greiðslum Fæðingarorlofssjóðs til kæranda lauk sagði hann starfi sínu lausu hjá X ehf.

Þegar aðstæður kæranda eru metnar í heild sinni þá verða þær að teljast um margt óvenjulegar, sérstaklega með hliðsjón af þeim erfiðleikum að útvega barnsmóður hans leyfi til að dveljast á Íslandi til lengri tíma. Þrátt fyrir þetta verður að fallast á það með Vinnumálastofnun að kæranda hafi ekki tekist að sýna fram á að vera hans á Filippseyjum hafi verið óumflýjanleg eða nauðsynleg til að flýta fyrir afgreiðslu landvistar- eða atvinnuleyfis fyrir maka sinn. Ákvörðun kæranda að segja starfi sínu lausu, án þess að hafa tryggt sér annað starf í staðinn, studdist því ekki við gildar ástæður í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Með hliðsjón af þessu verður að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 19. september 2009 um niðurfellingu bótaréttar A í 40 daga er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum