Hoppa yfir valmynd
18. febrúar 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 100/2009

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 18. febrúar 2010 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 100/2009.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 28. ágúst 2009, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hafi tekið þá ákvörðun að hafna greiðslu atvinnuleysisbóta til hans. Höfnunin var byggð á því að skilyrði 1. gr., sbr. 1. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, væru ekki uppfyllt þar sem hann væri með gildan ráðningarsamning við X hf. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með bréfi, dags. 11. september 2009. Hann krefst þess að honum verði greiddar atvinnuleysisbætur þann tíma sem skipið sem hann var á var í rekstrarstöðvun eða frá miðjum júní til loka ágúst 2009. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi hefur lengi starfað til sjós hjá X hf. en þó ekki alveg samfellt. Samkvæmt ráðningarsamningi hans við fyrirtækið, dags. 6. október 2004, hóf hann þar störf sem háseti þann 31. mars 1997. Samkvæmt vottorði vinnuveitenda, dags. 8. júlí 2009 starfaði kærandi sem matsveinn á m.b. Y frá 17. maí 2006 til 4. maí 2007, frá 30. ágúst 2007 til 30. maí 2008, frá 17. október 2008 til 23. október 2008, frá 10. desember 2008 til 18. desember 2008 og frá 1. janúar 2009 til 15. júní 2009. Samkvæmt vottorði vinnuveitenda, dags. 9. júlí 2009, starfaði kærandi hjá fyrirtækinu Z ehf. frá 15. júní 2008 til 1. desember 2008. Kærandi var auk þess í Tækniskólanum frá 20. ágúst 2008 til 19. desember 2008, sbr. staðfestingu skólans þar að lútandi. Samkvæmt bréfi B hjá X hf., dags. 29. október 2009, var kærandi háseti og matsveinn á m.b. Y til 15. júní 2009 og hann kom aftur 30. ágúst 2009. Skipið var ekki gert út um sumarið. Samkvæmt upplýsingum B símleiðis þann 3. febrúar 2010 virðist hafa farist fyrir að gera nýjan skriflegan ráðningarsamning við kæranda, en hún kvað kæranda hafa starfað lengi hjá fyrirtækinu og verið í launalausu leyfi síðastliðið sumar.

Kærandi kveðst hafa sagt upp hjá X hf. í maí 2008 og farið að vinna hjá Z ehf. og auk þess farið í skóla haustið 2008. Hann hafi beint uppsögninni að skipstjóranum sem hafi ekki látið útgerðina vita um hana. Kærandi kveðst síðan hafa hafið störf að nýju á sama skipi í janúar 2009 og hafi þá verið lausamaður og leyst af á dekki, en ekki fastráðinn. Skipið hafi stoppað yfir sumarið tímabundið og aftur farið á veiðar í ágúst og hafi hann þá fengið fastráðningu sem vaktformaður á dekki.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur þann 6. júlí 2009. Í vottorði vinnuveitanda, dags. 8. júlí 2009, var ástæða starfsloka kæranda tilgreind sem tímabundin rekstrarstöðvun.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 18. nóvember 2009, kemur fram að með bréfi, dags. 4. ágúst 2009, hafi kæranda verið tilkynnt að afgreiðslu umsóknar hans væri frestað þar sem ekki hafi legið skýrt fyrir hvernig ráðningu hans hafi verið háttað hjá X hf. Hafi af því tilefni verið óskað eftir ráðningarsamningi eða staðfestingu á ráðningarforminu frá vinnuveitanda. Kærandi hafi orðið við þessari beiðni og þann 13. ágúst hafi borist ráðningarsamningur frá X hf. Þá hafi einnig borist tölvupóstur frá vinnuveitanda þann 8. ágúst 2009 þar sem fram hafi komið lögskráningardagar kæranda og ummæli um að kærandi hafi verið fastráðinn á tímabilinu.

Vitnað er til þess að í 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segi að lögin gildi um þá sem verði atvinnulausir og í 2. gr. laganna sé tekið fram að markmið þeirra sé að tryggja tímabundna fjárhagsaðstoð meðan atvinnulausir séu að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt. Þá segi meðal annars í 1. mgr. 9. gr. laganna að launamönnum sé heimilt að sækja um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar þegar þeir verði atvinnulausir. Það sé ljóst að ráðningarsamband sé til staðar milli kæranda og vinnuveitanda hans enda hafi kærandi aftur hafið vinnu sína hjá fyrirtækinu. Við undirbúning að umsögn sinni hafi Vinnumálastofnun leitað eftir upplýsingum hjá X hf. til að fá það endanlega staðfest hvernig ráðningarsambandi kærandi við fyrirtækið hafi verið háttað. Í tölvupósti dags. 29. október 2009 frá starfsmanni X hf. sé staðfest að kærandi hafi verið „um borð“ á skipinu Y , til 15. júní 2009 og komið aftur þann 30. ágúst 2009. Þá segi þar einnig að skipið hafi ekki verið gert út frá 25. júní til 15. ágúst 2009.

Það sé ljóst að sá sem sé tímabundið frá vinnu sinni líkt og hér um ræði, sé ekki í virkri atvinnuleit, sbr. a-lið 1. mgr. 13. gr. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, enda muni atvinnuleit að jafnaði aðeins ná til að gegna störfum innan þess tímaramma sem rekstrarstöðvun vari. Þá sé skv. f-lið 1. mgr. 13. gr. laganna gert ráð fyrir því að umsækjandi leggi fram vottorð fyrrverandi atvinnuveitanda, sbr. 16. gr., og skuli þar meðal annars greina ástæður þess að launamaður hætti störfum hjá vinnuveitanda. Ekki verði ætlað að vinnuveitandi sá er eigi í hlut geti talist vera fyrrverandi vinnuveitandi í skilningi laganna.

Það sé mat Vinnumálastofnunar að þrátt fyrir að kærandi hafi ekki verið við störf á skipinu Y vegna þess að skipið hafi ekki verið gert út tímabundið, þá hafi hann verið með gildan ráðningarsamning við X hf. á því tímabili sem kærandi sótti um atvinnuleysisbætur. Kærandi hafi því ekki verið atvinnulaus í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 1. gr., 2. gr. og 1. mgr. 9. gr. laganna. Þá uppfylli kærandi ekki skilyrði a-liðar 1. mgr. 13. gr. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 1. desember 2009, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 15. desember 2009. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Samkvæmt 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar gilda lögin um þá sem verða atvinnulausir. Í 2. gr. laganna er tekið fram að markmið þeirra sé að tryggja tímabundna fjárhagsaðstoð meðan atvinnulausir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar geta þeir launamenn sem misst hafa starf sitt sótt um greiðslu atvinnuleysisbóta.

Samkvæmt gögnum málsins var kærandi með gildan ráðningarsamning við X hf. þegar hann sótti um atvinnuleysisbætur og því ekki atvinnulaus í skilningi laganna. Þegar af þeirri ástæðu ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 27. ágúst 2009 í máli A um synjun atvinnuleysisbóta er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum