Hoppa yfir valmynd
21. janúar 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 88/2009

 

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 21. janúar 2010 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 88/2009.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að kærandi, A, fékk greiddar atvinnuleysistryggingar á árinu 2007. Hann sótti um atvinnuleysistryggingar á ný þann 19. maí 2009 og kom þá inn á sama bótatímabil skv. 3. mgr. 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, og lauk töku tekjutengdra atvinnuleysistrygginga þann 1. júlí 2009 þar sem réttur til tekjutengingar frá því hann var síðast skráður á atvinnuleysisbætur var ekki fullnýttur. Kærandi vildi ekki una þessari niðurstöðu og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi dagsettu 6. ágúst 2009. Hann krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun telur að réttur kæranda til tekjutengdra atvinnuleysisbóta sé fullnýttur.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur með rafrænni umsókn sem var móttekin 27. maí 2009. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 19. maí 2009, var afgreiðslu umsóknar kæranda frestað og óskað eftir því að hann legði fram afrit af ráðningarsamningi sínum við X, þar sem ekki lægi fyrir hvernig ráðningu hans væri háttað og þar með ekki ljóst hvort skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, væru uppfyllt.

Kærandi fékk greiddar atvinnuleysistrygginga á árinu 2007. Síðasti skráningardagur var 31. maí 2007 og bárust síðustu greiðslur til hans þann 2. júlí 2007. Hann fékk greiddar fullar atvinnuleysistryggingar á þessu tímabili. Kærandi sótti um atvinnuleysistryggingar á ný þann 19. maí 2009 og kom þá inn á sama bótatímabil skv. 3. mgr. 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og lauk töku tekjutengdra atvinnuleysistrygginga þann 1. júlí 2009 þar sem réttur til tekjutengingar frá því hann var síðast skráður á atvinnuleysisbætur var ekki fullnýttur.

Af hálfu kæranda kemur fram að hann hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur í júní 2009 með tekjutengingu, en ekki júlí vegna þess að hann hafi þegið bætur í tæpa tvo mánuði árið 2007. Hefði hann vitað þetta áður en hann sótti um bæturnar hefði hann ekki sótt um fyrr en 1. júní 2009 og þannig farið inn á nýtt bótatímabil. Samkvæmt upplýsingum kæranda var hann ekki látinn vita af þessu áður en hann sótti um bætur. Talað sé um tekjutengingar á kynningarfundum Vinnumálastofnunar og þá þannig að tekjutengingin sé þrír mánuðir en aldrei hafi verið minnst á bótatíma.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 28. október 2009, er vísað til þess að í 1. mgr. 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar skuli sá sem telst tryggður skv. III. eða IV. kafla laganna öðlast rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta í allt að þrjá mánuði frá þeim tíma er grunnatvinnuleysisbætur skv. 33. gr. hafi verið greiddar í samtals tíu virka daga nema annað leiði af lögunum. Samkvæmt 3. mgr. 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar haldi tímabil skv. 1. mgr. 29. gr. áfram að líða þegar sá tryggði sæki aftur um atvinnuleysisbætur eftir að hafa starfað skemur en 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur.

Skilyrði 31. gr. laga um atvinnuleysistryggingar fyrir því að nýtt tímabil skv. 29. gr. hefjist áður en fyrra tímabili ljúki að fullu sé að hinn tryggði sæki að nýju um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að hafa starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í a.m.k. 24 mánuði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur. Þannig sé gert ráð fyrir að umsækjandi um atvinnuleysisbætur sem fari aftur inn í kerfið eftir skemmri tíma en 24 mánuði á vinnumarkaði eigi ekki rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum heldur grunnatvinnuleysisbótum, hafi hann fullnýtt rétt sinn skv. 1. mgr. 31. gr. laganna. Kærandi hafi sótt að nýju um atvinnuleysisbætur áður en 24 mánuðir voru liðnir frá því að hann fékk síðast greiddar bætur frá Vinnumálastofnun.

Kærandi bendi á það í kæru til úrskurðarnefndar atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerða að einungis muni átta vinnudögum á nýju bótatímabili og að mögulega hefi hann getað beðið með að skrá sig hjá Vinnumálastofnun þannig að kærandi ætti rétt á nýju tekjutengdu tímabili. Vinnumálastofnun telur rétt að ítreka að 3. mgr. 31. gr. laga um atvinnuleysistryggingar setji það skilyrði að um a.m.k. 24 mánaða samfellda vinnusögu sé að ræða en ekki tiltekna fjarveru umsækjenda úr atvinnuleysistryggingakerfinu. Kærandi hafi starfað á innlendum vinnumarkaði í 15 mánuði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur. Skilyrði 31. gr. laga um atvinnuleysistryggingar fyrir því að nýtt tekjutengt tímabil skv. 29. gr. hefjist áður en fyrra tímabili ljúki að fullu sé því ekki uppfyllt.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 3. nóvember 2009, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 17. nóvember 2009. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Kærandi sótti um atvinnuleysistryggingar þann 19. maí 2009. Hann hafði áður fengið greiddar atvinnuleysistryggingar á árinu 2007 fram til 2. júlí 2007. Í millitíðinni hafði hann verið í starfi í 15 mánuði.

Þegar kærandi sótti á ný um atvinnuleysisbætur þann 19. maí 2009 kom umsókn hans á sama bótatímabil, sbr. 3. mgr. 29.gr. laga um atvinnuleysistryggingar, en samkvæmt ákvæðinu heldur þriggja ára bótatímabil laganna áfram að líða þegar hinn tryggði sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að hafa starfað í skemmri tíma en 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur.

Samkvæmt 32. gr. laga um atvinnuleysisbætur greiðast tekjutengdar atvinnuleysisbætur í allt að þrjá mánuði á bótatímabili. Í tilviki kæranda er það engum vafa undirorpið að greiðslur til hans á árinu 2007 og 2009 tilheyrðu sama bótatímabili og gat því ekki komið til þess að kærandi fengi tekjutengdar atvinnuleysisbætur lengur en í þrjá mánuði. Greiðslu tekjutengdra atvinnuleysisbóta til kæranda lauk þannig þann 1. júlí 2009.

 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar varðandi nýtingu tekjutengingar atvinnuleysisbóta í máli A er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum