Hoppa yfir valmynd
9. desember 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 67/2009

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 9. desember 2009 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 67/2009.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að kærandi, A, sótti um atvinnuleysisbætur með rafrænni umsókn þann 8. apríl 2009 sem var staðfest skriflega samdægurs. Kærandi var reiknaður með 34% bótarétt en Vinnumálastofnun bárust síðar gögn um vinnu kæranda á árinu 2007 og á fundi þann 15. júní 2009 var bótaréttur hans endurskoðaður og hækkaður í 55% bótarétt í samræmi við reglur um launamenn skv. a-lið 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi óskar fullra atvinnuleysisbóta og er kæra hans til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða dagsett 16. júní 2009. Vinnumálastofnunar krefst þess að hin kærða ákvörðun standi.

Af hálfu Vinnumálastofnunar kemur fram að samkvæmt útskrift úr hlutafélagaskrá sé kærandi stjórnarmaður í félaginu X ehf. Hann sé jafnframt stofnandi þess og handhafi prókúruumboðs. Starfsemi félagsins gangi út á rekstur trésmíðaverkstæðis, almenna byggingastarfsemi og fleira. Kærandi fer fram á að ákvörðun Vinnumálastofnunar um að greiða honum hlutfallsbætur verði endurskoðuð og jafnframt kannað hvort hann eigi rétt á bótum samkvæmt V. kafla laga um atvinnuleysistryggingar, 23. og 24. gr. Kærandi segir að þeir vinni saman þrír starfsmenn við lítið trésmíðaverkstæði og séu þeir allir eigendur. Allt árið 2008 hafi verið verkefnaskortur og þar sem hann sé elstur hafi hann dregið úr vinnu til að félagar hans hefðu meiri vinnu. Annar þeirra sé að kaupa sína fyrstu íbúð og hinn sé með tvö börn á framfæri. Kærandi telur það einkennilegt jafnræði að hann sem hafi starfað á vinnumarkaði í 45 ár og greitt sín gjöld skuli ekki njóta sömu kjara og aðrir sem hafi starfað mun styttra. Auk þess megi segja að hann sé búinn að vera hálf atvinnulaus í eitt ár. Tregða hans til þess að sækja um atvinnuleysisbætur á þeim tíma virðist vinna gegn honum núna.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 22. september 2009, kemur fram að skv. a-lið 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar teljist sá vera launamaður innan atvinnuleysis­tryggingakerfisins sem vinni launuð störf í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði og greitt sé tryggingagjald vegna starfsins samkvæmt lögum um tryggingagjald. Kærandi teljist því launamaður, sbr. a-lið 3. gr. laganna, og ákvarðist réttur hans af þeim ákvæðum laganna er lúti að réttindum launafólks innan kerfisins. Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laga um atvinnuleysistryggingar skuli launamaður, sbr. a-lið 3. gr. laganna, leggja fram vottorð fyrrverandi vinnuveitanda er hann sækir um atvinnuleysisbætur. Vinnumálastofnun sé heimilt að óska eftir frekari upplýsingum frá vinnuveitanda og skattyfirvöldum til að staðreyna þær upplýsingar er fram komi í vottorði, sbr. 2. mgr. 16. gr. laganna.

Samkvæmt 1. mgr. 58. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, skuli endurgjald fyrir vinnu manns sem reiknar sér endurgjald skv. 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt eigi vera lægra en launatekjur hans hefðu orðið ef unnið hefði verið fyrir ótengdan eða óskyldan aðila. Gildi ákvæðið um vinnu við atvinnurekstur eða starfsemi sem rekin sé í sameign með öðrum og einnig um vinnu manns við atvinnurekstur lögaðila þar sem hann sé ráðandi aðili vegna eignar- eða stjórnunaraðildar. Til að finna starfshlutfall kæranda á ávinnslutímabilinu telji Vinnumálastofnun, í ljósi 2. mgr. 16. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og 1. mgr. 58. gr. laga um tekjuskatt, því skylt að líta til viðmiðunarfjárhæðar sem fjármálaráðherra gefur út fyrir hverja starfsgrein við upphaf hvers tekjuárs á grundvelli laga um tekjuskatt.

Starfsemi hjá X ehf. myndi bótarétt kæranda. Kærandi reki fyrirtækið ásamt tveimur öðrum einstaklingum. Sérsmíði falli því í starfaflokk D1 samkvæmt reglum um reiknað endurgjald sem settar eru skv. 3. málsl. 1. mgr. 58. gr. laga um tekjuskatt. Samkvæmt starfaflokki D1 sé lágmarksviðmiðun fyrir reiknað endurgjald manna sem vinni við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, 331.000 kr. á mánuði. Reiknað endurgjald kæranda samkvæmt skattframtali fyrir tekjuárið 2007 hafi verið 2.197.161 kr. eða 183.097 kr. á mánuði. Því reiknist bótaréttur hans 55%.

Kærandi óski eftir því í kæru sinni til úrskurðarnefndarinnar að tekjur hans fyrir árið 2007 séu teknar með við útreikning á bótarétti kæranda. Taka skuli fram að við útreikning á bótarétti kæranda hafi verið tekið mið af tekjum fyrir árið 2007 í samræmi við 3. mgr. 24. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða send greinargerð og gögn frá Vinnumálastofnun, dags. 24. september 2009 og gefinn kostur á að tjá sig þar að lútandi fyrir 8. október 2009. Hann nýtti sér það ekki.

 

2.

Niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar telst sjálfstætt starfandi einstaklingur að fullu tryggður samkvæmt lögunum eftir að hafa greitt mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi er nemur að lágmarki viðmiðunarfjárhæð fjármálaráðherra í viðkomandi starfsgrein og tryggingagjald samfellt á síðustu tólf mánuðum áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum. Þá segir í 2. mgr. framangreinds ákvæðis að hið sama gildi um sjálfstætt starfandi einstakling sem hefur greitt mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi sem er lægra en viðmiðunarfjárhæð fjármálaráðherra í viðkomandi starfsgrein og tryggingagjald á síðustu tólf mánuðum áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar en þá ákvarðast tryggingahlutfall hans af hlutfalli fjárhæðar reiknaðs endurgjalds sem greitt hefur verið af og viðmiðunarfjárhæðar.

Í tilviki kæranda var farið að ofangreindum reglum þegar bótaréttur hans var ákvarðaður með hliðsjón af þeim tekjum sem hann hafði 2007. Engin rök styðja þá kröfu kæranda að horfa til tekna sem hann hafði aflaði fyrir upphaf árs 2007. Er hin kærða ákvörðun því staðfest.

 

Úrskurðarorð

Sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að reikna kæranda, A 55% bótarétt er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum