Hoppa yfir valmynd
12. nóvember 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 70/2009

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 12. nóvember 2009 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 70/2009.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 7. maí 2009, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hafi tekið þá ákvörðun á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, sbr. 1. mgr. 13. gr. og f-lið 1. mgr. 14. gr. sömu laga, að stöðva greiðslu atvinnuleysisbóta til hans. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með rafpósti, dags. 1. júlí 2009, og krefst þess að honum verði greiddar atvinnuleysisbætur. Kærandi krefst þess einnig að hann njóti réttar til atvinnuleysisbóta samkvæmt svokölluðu E303 vottorði. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Af hálfu kæranda kemur fram að hann sé fluttur til B-lands og hafi byrjað að vinna þar 5. júní sl. Hann kveðst hafa fengið atvinnuleysisbætur frá því í desember 2008 en í maí 2009 hafi hann ekki getað stimplað sig inn. Hann hafi þá komst að því að hann ætti rétt á bótum frá Íslandi í þrjá mánuði eftir að hann kom til B-lands. Hann kveðst koma til Íslands 19. júlí 2009 þar sem hann eigi von á barni 10. ágúst 2009 og síðan muni fjölskyldan fara til B-lands.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 18. september 2009, kemur fram að kæranda hafi verið tilkynnt sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hans og jafnframt að afskrá hann af atvinnuleysisskrá. Ákvörðunin hafi verið tekin á grundvelli a-liðar 1. mgr. 13. gr. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Fyrir stofnuninni hafi legið gögn þess efnis að kærandi hefði staðfest atvinnuleit sína á rafrænan hátt frá B-landi. Þessar staðfestingar hafi verið skráðar frá erlendum uppruna allt frá mars 2009.

Vinnumálastofnun kveður eitt af meginskilyrðum 13. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar vera að einstaklingur sem þiggi atvinnuleysisbætur sé í virkri atvinnuleit. Nánar sé kveðið á um það í liðum a–h í 1. mgr. 14. gr. hvað teljist vera virk atvinnuleit. Meðal annars sé gert ráð fyrir að sá einstaklingur sem þiggi atvinnuleysisbætur hafi vilja og getu til að taka við starfi án sérstaks fyrirvara og sé jafnframt reiðubúinn til að taka við starfi hvar sem er á Íslandi, sbr. c- og d-liði 1. mgr. 14. gr. Þessi ákvæði sem lúti að virkri atvinnuleit hafi verið túlkuð á þann veg að þeim sem þiggi atvinnuleysisbætur sé ekki heimilt að dveljast erlendis í lengri eða skemmri tíma enda komi það í veg fyrir að þeir fullnægi skilyrðum laganna. Þessi skilningur Vinnumálastofnunar sé í samræmi við margra ára framkvæmd á þessu sviði.

Fram kemur af hálfu Vinnumálastofnunar að henni sé skv. 42. gr. laga um atvinnuleysistryggingar heimilt að greiða atvinnuleysisbætur til þess sem teljist tryggður samkvæmt lögunum og sé í atvinnuleit í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eða stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum. Vinnumálastofnun gefi út E303 vottorð til staðfestingar á rétti viðkomandi í slíku tilfelli. Kærandi hafi ekki fengið slíkt vottorð útgefið.

Vinnumálastofnun segir að skv. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar geti sá er aflar sér atvinnuleysisbóta með svikum misst rétt sinn samkvæmt lögunum í allt að tvö ár. Kæranda hafi borið að tilkynna Vinnumálastofnun um dvöl sína í B-landi skv. 59. gr. laganna. Eðli dvalarinnar og lengd hafi ekki áhrif á þessa skyldu.

Kæranda var með bréfi dags. 23. september 2009 sent á heimilisfang sitt á Íslandi afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og öðrum gögnum málsins og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Enn fremur voru honum send sömu gögn í rafpósti þann 9. nóvember 2009. Frekari athugasemdir hafa ekki borist frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Samkvæmt samskiptasögu Vinnumálastofnunar og kæranda var kærandi boðaður í viðtal þann 7. maí sl. en hann mætti ekki í það viðtal. Áður en til þess kom hafði Vinnumálastofnun undir höndum gögn er bentu til þess að kærandi hafi tvívegis staðfest atvinnuleit sína á rafrænan hátt frá B-landi. Í framhaldinu voru greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda stöðvaðar, sbr. bréf stofnunarinnar til kæranda, dags. 7. maí 2009, og var kæranda gefinn kostur á að óska eftir rökstuðningi stofnunarinnar fyrir ákvörðun sinni, sbr. 21. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Kærandi falaðist ekki eftir því heldur lagði hann fram kæru þá sem hér er til umfjöllunar.

Miðað við þau gögn sem lágu fyrir 7. maí sl. þá bar Vinnumálastofnun að rannsaka málið frekar og veita kæranda andmælarétt áður en hin kærða ákvörðun var tekin. Við töku hinnar kærðu ákvörðunar braut Vinnumálastofnun því á rannsóknarreglu og andmælareglu stjórnsýslulaga, sbr. 10. og 13. gr. laganna, og er niðurstaða um þetta í samræmi við úrskurð úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða í máli nr. 73/2009 frá 21. október 2009.

Það er óumdeilt í máli þessu að kærandi var staddur í B-landi eftir að hann var kominn á atvinnuleysisbætur á Íslandi. Hann upplýsti ekki Vinnumálastofnun um þetta áður en hann hvarf af landi brott og braut því á skyldum sínum gagnvart stofnuninni, sbr. 3. mgr. 9. gr., 10. gr., h-lið 1. mgr. 14. gr., sbr. 2. mgr. 14. gr. og 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Með hliðsjón af þessu er það mat úrskurðarnefndarinnar að það leiði ekki sjálfkrafa til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar að Vinnumálastofnun hafi brotið á rannsóknar- og andmælareglum stjórnsýsluréttar, sbr. áðurnefndan úrskurð í máli nr. 73/2009.

Kærandi var ekki lengur í virkri atvinnuleit í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar þegar hann fór af landi brott í ótiltekinn tíma. Hann upplýsti ekki Vinnumálastofnun um þetta brotthvarf sitt frá landinu. Í ljósi þessa er sú ákvörðun Vinnumálastofnunar staðfest að kærandi hafi ekki átt rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta frá og með 7. maí 2009.

Sú ákvörðun Vinnumálastofnunar er einnig staðfest að kærandi eigi ekki rétt til útgáfu E303 vottorðs enda telst hann ekki hafa verið tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar þegar hann óskaði eftir útgáfu þess vottorðs. Kærandi uppfyllti því ekki skilyrði þess að fá slíkt vottorð útgefið, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar í máli A synjun atvinnuleysisbóta er staðfest. Sú ákvörðun stofnunarinnar að synja honum um útgáfu E303 vottorðs er einnig staðfest.

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum