Hoppa yfir valmynd
12. nóvember 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 57/2009

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 12. nóvember 2009 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 57/2009.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi dags. 9. júní 2009, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hefði á fundi sínum þann 3. júní 2009 fjallað um umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur frá 3. apríl 2009. Fallist var á umsókn kæranda en réttur hennar til atvinnuleysisbóta var felldur niður í 40 daga í upphafi bótatímabils með vísan til starfsloka hennar, sbr. 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi mótteknu 19. maí 2009. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og hún fái greiddar atvinnuleysisbætur í umrædda 40 daga. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Í erindi kæranda kemur fram að hún hafi unnið hjá X ehf. en vinnutíminn hafi verið kl. 18.00–23.30. Hún sé með börn og þessi vinnutími henti henni ekki. Hún hafi fundið aðra vinnu með hentugum vinnutíma kl. 10.00–17.30, en á þeim tíma séu börn hennar í leikskóla.

Í vottorði X ehf., dags. 3. apríl 2009, kemur fram að kærandi hafi unnið hjá fyrirtækinu frá 1. febrúar 2006 til 16. nóvember 2007 í 100% starfi. Hún hafi þá farið í fæðingarorlof og komið aftur til vinnu 17. nóvember 2008 og unnið til 1. mars 2009 í 69% starfi, en þá sagði hún upp starfinu. Samkvæmt vottorði Y hefur kærandi unnið þar frá 18. desember 2008 í 81,25% starfi og er þar enn. Samkvæmt tilvitnuðum vottorðum vann kærandi á báðum stöðum í samtals rúmlega 150% starfi frá 18. desember 2008 til 1. mars 2009. Kærandi er í 81,25% starfi og óskar eftir atvinnuleysisbótum á móti því hlutfalli.

Í bréfi Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 27. apríl 2009, segir að á fundi stofnunarinnar þann 27. apríl 2009 hafi verið fjallað um umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur og ákveðið að fresta afgreiðslu umsóknarinnar og óska eftir skriflegri afstöðu kæranda á ástæðum uppsagnarinnar skv. 10. gr. og 13. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, til þess að hægt væri að meta rétt hennar til atvinnuleysistryggingar. Enn fremur kemur fram í bréfinu að Vinnumálastofnun muni óska eftir skýringum X ehf. á ástæðum starfslokanna skv. 10. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 16. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 10. september 2009, er vísað til 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Bent er á að í athugasemdum við 1. mgr. 54. gr. í frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar segi að erfitt geti reynst að henda reiður á þeim tilvikum sem teljist til gildra ástæðna. Vegna þessa hafi verið lagt til að þessi lagaregla yrði matskennd og Vinnumálastofnun falið þetta mat með hliðsjón af hverju máli fyrir sig. Í máli þessu liggi fyrir að kærandi hafi sagt starfi sínu lausu vegna óánægju með vinnutíma. Ekki sé unnt að ráða af gögnum málsins hvort einhver ágreiningur um vinnutíma hafi legið fyrir milli kæranda og vinnuveitanda hennar né hvort kærandi hafi reynt að semja við vinnuveitanda um að hnika til vinnutíma. Það hafi verið mat Vinnumálastofnunar að óánægja með vinnutíma flokkist ekki sem gild ástæða í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 16. september 2009, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 30. september 2009. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Mál þetta lýtur að túlkun á 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en hún er svohljóðandi:

„Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að 40 dögum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem missir starf af ástæðum sem hann á sjálfur sök á.“

Almenn lagarök mæla með því að ákvæði 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um niðurfellingu bótaréttar skuli fyrst og fremst beitt þegar viðkomandi einstaklingur segir starfi sínu lausu og sækir í kjölfar þess um atvinnuleysisbætur. Í skilningi 1. mgr. 54. gr. er orðalagið „gildar ástæður“ skýrt þröngt, sem þýðir í raun að fá tilvik falla þar undir.

Í athugasemdum við 1. mgr. 54. gr. í frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar segir að nefnd er fjallaði um efni laganna hafi tekið afstöðu til þess hvað gætu talist gildar ástæður og komist að þeirri niðurstöðu að það væri erfiðleikum bundið að skilgreina nákvæmlega slíkar ástæður í lögum og reglugerðum þar sem ástæður þess að fólk segi störfum sínum lausum eða missi þau geti verið af margvíslegum toga. Því sé lagt til að lagaregla þessi verði áfram matskennd og Vinnumálastofnun sé þar með falið að meta hvernig atvik og aðstæður þess máls er fyrir henni liggur falli að umræddri reglu. Stofnuninni beri því að líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða við ákvarðanir um hvort umsækjendur um atvinnuleysisbætur skuli sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Með vísan til síðastgreindrar lagareglu og athugasemda með henni er fallist á forsendur Vinnumálastofnunar að óánægja með vinnutíma geti ekki talist gild ástæða uppsagnar. Því verður ekki komist hjá því að líta svo á að uppsögn kæranda á starfi sínu hjá X ehf. hafi verið af ástæðum sem kærandi ákvað sjálf.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 3. júní 2009 um niðurfellingu bótaréttar A í 40 daga er staðfest.

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum