Hoppa yfir valmynd
21. október 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 50/2009

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 21. október 2009 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 50/2009.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 16. febrúar 2009, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hafi á fundi sínum sama dag ákveðið að hafna umsókn hans um atvinnuleysistryggingar, með vísan til þágildandi c-liðar 3. gr. og 3. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, þar sem hann var skráður í nám. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi dags. 12. mars 2009. Vinnumála­stofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Samkvæmt vottorði vinnuveitanda, dags. 29. desember 2008, lét kærandi af störfum vegna samdráttar hjá X ehf. þann 31. desember 2008. Hann starfaði þar sem pípulagningameistari.

Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 21. janúar 2009, var kæranda tilkynnt að stofnunin hafi ákveðið að fresta afgreiðslu umsóknarinnar og óska eftir því að kærandi leggi fram skólavottorð þar sem fram kæmi í hvaða námi hann væri og námshlutfall frá háskólanum Y þar sem hann var skráður í fjarnám. Eins og fram hefur kemur var hin kærða ákvörðun tekin 16. febrúar 2009 en málið var tekið upp á ný á fundi úthlutunarnefndar þann 18. mars 2009. Með bréfi dags. 24. mars 2009 tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda að nefndin hefði tekið undir ákvörðun stofnunarinnar með sömu rökum.

Í máli þessu liggur fyrir bréf frá verkefnisstjóra iðnfræðináms í háskólanum Y dags. 20. febrúar 2009. Þar kemur fram að kærandi hafi stundað fjarnám í byggingaiðnfræði frá hausti 2007. Námið sé í heild sinni 90 ECTS einingar og þannig uppbyggt að nemendur ljúki því á þremur árum með vinnu, þ.e. taki það á hálfum hraða og séu þannig í 50% námi. Nemendur taki því 12–15 einingar á önn þ.e. séu eina önnina í 12 einingum og aðra önnina í 15 einingum og ljúki með 12 eininga lokaverkefni. Nemendur fái ekki námslán með þessu fyrirkomulagi enda í fullri vinnu með náminu. Verkefnisstjórinn kveðst gera sér fulla grein fyrir því að þeir sem komi að úthlutunarmálum atvinnuleysisbóta séu ekki öfundsverðir af sínu hlutskipti og þurfi að fara eftir ákveðnum reglum, en hann mæli eindregið með því að kærandi verði ekki fyrir skerðingu atvinnuleysisbóta þar sem hann hafi unnið fulla vinnu með náminu eins og ætlast sé til með áðurnefndu námsfyrirkomulagi.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 11. september 2009, er vísað til þágildandi c-liðar 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þágildandi 52. gr. laganna áður en þeim var breytt með lögum nr. 37/2009. Það sé ljóst af tilvitnuðum ákvæðum að það sé ekki tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar að tryggja námsmönnum framfærslu á meðan þeir stundi nám. Í athugasemdum við frumvarp það sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar árið 2006 sé því í umfjöllun um 52. gr. frumvarpsins haldið fram, að það sé meginregla að námsfólk eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum, hvort sem um sé að ræða dag- eða kvöldskóla eða fjarnám. Samkvæmt undantekningarreglu 3. mgr. 52. gr. laganna skuli Vinnumálastofnun meta sérstaklega hvort sá er stundar nám en er í lægra námshlutfalli en 75% uppfylli skilyrði laganna þrátt fyrir námið. Í athugasemdum með 52. gr. í frumvarpi sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar segi meðal annars að mælst sé til þess að aðstæður séu metnar heildstætt og þá einkum með tilliti til þess hvort umsækjandi teljist geta verið í virkri atvinnuleit, sbr. 13. og 14. gr. laga um atvinnuleysis­tryggingar. Stofnunin bendi á að hér sé um undanþáguákvæði að ræða sem beri samkvæmt almennum lögskýringarreglum að túlka þröngt. Stofnunin hafi litið svo á að í undantekningartilvikum sé heimilt að stunda nám í kvöldskóla og fjarnámi, sem nemi þó aldrei meira en 50% námi þar sem gert sé ráð fyrir að atvinnuleitandi sé á sama tíma í virkri atvinnuleit og reiðubúinn að taka starfi ef það býðst. Kærandi hafi aftur á móti verið í 60% námi og geti því ekki fallið undir þetta verklag við mat á heimild til undanþágu til að stunda nám jafnhliða því að fá greiddar atvinnuleysisbætur. Lög um atvinnuleysistryggingar feli Vinnumálastofnun mikið stjórnsýslulegt mat þar sem hafa skuli einstaklingsbundin sjónarmið að leiðarljósi. Stofnunin hafi talið nauðsynlegt að setja sér viðmiðunarreglur við mat á því hvenær hún veiti undanþágur frá hinum ýmsu ákvæðum laganna til að gæta jafnræðis, gagnsæis og sanngirni í störfum sínum svo ákvæðum stjórnsýslulaga sé sem best gætt. Vinnumálastofnun kveður það ekki vera sitt hlutverk að meta hve mikið nám einstaklingar stunda með starfi sínu en þegar komi að því að fá greiddar atvinnuleysisbætur og stunda nám sem er lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna horfi málið öðruvísi við, sbr. þágildandi 3. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Það hafi verið mat stofnunarinnar að kærandi ætti við þær aðstæður sem komnar voru upp í þjóðfélaginu veturinn 2008–2009 að snúa sér til Lánasjóðs íslenskra námsmanna um framfærslu til að geta stundað nám sitt. Nám það sem kærandi stundi sé lánshæft hjá lánasjóðnum og hefði hann einungis þurft að bæta við einni námsgrein til að fá framfærslu þar.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 16. september 2009, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 30. september 2009. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur þann 1. janúar 2009. Á þeim tíma var eftirfarandi ákvæði í c-lið 3. gr. laga nr. 54/2006:

Nám: 75-100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur er átt við 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúnings og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms.

Í þágildandi 3. mgr. 52. gr. laganna sagði:

Vinnumálastofnun skal jafnframt meta sérstaklega hvort sá er stundar nám en er í lægra námshlutfalli en 75% uppfylli skilyrði laganna þrátt fyrir námið. Umsækjandi um atvinnuleysisbætur skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um námshlutfallið.

Í greinargerð með síðastgreindu ákvæði sagði:

Þá er gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun meti sérstaklega hvort atvinnuleitandi sem stundar nám í skilningi frumvarpsins en er í lægra námshlutfalli en 75% uppfylli skilyrði frumvarpsins þrátt fyrir námið. Er mikilvægt að Vinnumálastofnun meti aðstæður atvinnuleitanda heildstætt og þá einkum með tilliti til þess hvort hann teljist geta verið í virkri atvinnuleit.

Kærandi hefur frá hausti 2007 stundað fjarnám við háskólann Y með vinnu sinni eins og kemur fram í gögnum málsins. Þá kemur fram í vottorði vinnuveitanda kæranda að hann hafi starfað í 100% starfshlutfalli á ávinnslutímabili fram að uppsögn. Þann 31. desember 2008 var honum sagt upp starfi sínu vegna samdráttar. Allar líkur eru því á að kærandi hafi getað verið í virkri atvinnuleit þrátt fyrir nám sitt, enda hafði hann alltaf sinnt náminu með fullri vinnu. Þá er staðfest í gögnum málsins að fyrirkomulag náms kæranda sé með því móti að nemendur taki námið með hálfum hraða enda sé það skipulagt sem nám með vinnu. Það má ætla að ekki sé um það að ræða að kærandi geti ákveðið að taka nám sitt hraðar en hann hefur gert enda bundinn af því skipulagi námsins sem sett hefur verið upp af hálfu námsstofnunar.

Með vísan til alls framangreinds er það mat úrskurðarnefndarinnar að kærandi uppfylli skilyrði laganna til greiðslu atvinnuleysisbóta, sbr. ákvæði c-liðar 3. gr. og 3. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 18. mars 2009 í máli A er felld úr gildi. Kærandi á rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta frá 1. janúar 2009.

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum