Hoppa yfir valmynd
21. október 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 34/2009

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 21. október 2009 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 34/2009.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 13. október 2008, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum þann 7. október 2008 fjallað um umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur frá 10. september 2008. Fallist var á umsókn kæranda en réttur hennar til atvinnuleysisbóta var felldur niður í 40 daga í upphafi bótatímabils með vísan til 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi fékk greiddar bætur að liðnum 40 dögum frá skráningu hennar hjá Vinnumálastofnun þann 5. janúar. Kærandi kærði niðurstöðu Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi dagsettu 27. mars 2009. Kærandi krefst þess að felld verði úr gildi sú ákvörðun að hún skuli sæta 40 daga biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.. Til vara krefst hún þess að biðtíminn byrji að líða strax að loknu fæðingarorlofi hennar þann 14. október 2008. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur með umsókn dagsettri 10. september 2008. Samkvæmt vottorði vinnuveitanda, dags. 16. september 2008, sagði kærandi sjálf upp starfi sínu hjá X ehf. þar sem hún hafði ekki barnagæslu að fæðingarorlofi loknu. Vinnumála­stofnun gaf kæranda skriflega kost á að koma á framfæri afstöðu sinni til ástæðna starfslokanna með bréfi, dags. 24. september 2008, og veitti henni sjö daga frest til þess. Kærandi nýtti sér þetta ekki og þann 7. október 2008 tók Vinnumálastofnun ákvörðun um frestun bótagreiðslna til hennar í 40 daga frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir skv. 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi var boðuð í viðtal á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar á Y þann 30. september 2008 og kom fram í því samtali að þar sem hún væri í fæðingar­orlofi til 14. október 2008 ætti hún ekki rétt á greiðslum úr atvinnuleysis­tryggingasjóði að svo stöddu.

Kærandi kveður ástæðu þess að hún hafi ekki getað hafið störf að loknu fæðingarorlofi vera þá að ekki hafi verið hægt að fá barnagæslu í heimabæ hennar. Hún hafi því tekið þá erfiðu ákvörðun að hætta í vinnunni sem hafi leitt til þess að hún hafi þurft að bíða í 40 daga eftir atvinnuleysisbótum. Eftir að fæðingarorlofi hennar lauk beið hún í 40 daga en óskaði að því loknu eftir skráningu hjá Vinnumálastofnun. Þá kom hins vegar í ljós að umræddur 40 daga frestur byrjaði ekki að líða fyrr en við skráninguna og hún þurfti að bíða aðra 40 daga eftir atvinnuleysisbótum. Kærandi kveðst hafa fengið misvísandi upplýsingar hjá starfsmönnum Vinnumálastofnunar varðandi sín mál þar.

Kærandi sótti að nýju um atvinnuleysisbætur þann 5. janúar 2009 og var samþykkt svokölluð endurkoma þann 7. janúar 2009. Kærandi hafi því hafið formlega töku atvinnuleysisbóta frá þeim degi, en þar sem hún hafði ekki tekið út 40 daga biðtímann samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 13. október 2008 hafi greiðslur til hennar ekki hafist fyrr en að honum loknum, sbr. 3. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur frá 2. mars til 19. maí 2009 en þá flutti hún af landi brott.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 7. september 2009, kemur fram að skv. 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar skuli sá sem telst tryggður samkvæmt lögunum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna, ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en að 40 dögum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur. Í athugasemdum við 1. mgr. 54. gr. í frumvarpi til laga um atvinnuleysis­tryggingar segi að erfitt geti reynst að henda reiður á þeim tilvikum sem teljist til gildra ástæðna. Vegna þess hafi verið lagt til að þessi lagaregla yrði matskennd og Vinnumálastofnun falið þetta mat með hliðsjón af hverju máli fyrir sig. Í þessu máli liggi fyrir að kærandi hafi sagt starfi sínu lausu vegna þess að hún hafi ekki haft barnagæslu. Vinnumála­stofnun hafi ekki talið að skortur á barnagæslu geti verið gild ástæða fyrir uppsögn á starfi samkvæmt nefndri lagagrein enda hafi kærandi þá ekki uppfyllt hin almennu skilyrði 13. og 14. gr. laganna um virka atvinnuleit. Það sé því mat Vinnumálastofnunar að ástæður þær sem kærandi gefi fyrir starfslokum sínum samkvæmt ofangreindu séu ekki gildar í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Vinnumálastofnun vitnar einnig til 3. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og segir að kærandi hafi ekki unnið í tíu daga eða meira á því tímabili frá því ákvörðun um 40 daga biðtíma var tekin og þar til hún sótti rétt sinn til bóta á ný. Af því leiði að biðtíminn sem ákvarðaður hafði verið þann 7. október 2008 hafi ekki verið fallinn niður heldur hafi hann byrjað að líða þann 7. janúar 2009.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 14. september 2009, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og meðfylgjandi gögnum og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 28. september 2009. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Mál þetta lýtur meðal annars að túlkun á 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en hún er svohljóðandi:

Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að 40 dögum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem missir starf af ástæðum sem hann á sjálfur sök á.“

Í skilningi 1. mgr. 54. gr. er orðalagið „gildar ástæður“ skýrt þröngt sem þýðir í raun að fá tilvik falla þar undir. Um er að ræða matskennda lagareglu og Vinnumálastofnun er falið að meta hvernig atvik og aðstæður þess máls er fyrir henni liggur falli að umræddri reglu. Í því sambandi ber stofnuninni að líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða.

Kærandi sagði starfi sínu lausu af þeirri ástæðu að hún ætti ekki kost á barnagæslu að loknu fæðingarorlofi þann 14. október 2008. Fallist er á það mat Vinnumálastofnunar að skortur á barnagæslu geti almennt ekki talist gild ástæða fyrir uppsögn á starfi. Þá er tekið undir þau rök Vinnumálastofnunar að ef skortur á barnapössun teldist gild ástæða fyrir uppsögn yrði af sömu að telja slíka ástæðu koma í veg fyrir virka atvinnuleit sem um leið útilokar rétt til atvinnuleysisbóta. Í ljósi þess sem að framan greinir er ástæða kæranda fyrir uppsögn á starfi sínu ekki talin vera gild ástæða í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Því ber að staðfesta þá ákvörðun Vinnumálastofnunar að fella niður bótarétt kæranda í 40 bótadaga í upphafi bótatímabils.

Af hálfu kæranda kom fram að vegna ófullnægjandi upplýsinga hafi hún beðið í 40 daga frá lokum fæðingarorlofs þar til hún óskaði eftir bótum frá Vinnumálastofnun. Hún hafi ekki áttað sig á því að hún þyrfti að skrá sig að nýju hjá Vinnumálastofnun til að 40 daga biðtíminn byrjaði að líða.

Ljóst er að á fundi með starfsmanni þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar þann 30. september 2008 kom fram að kærandi myndi ljúka töku fæðingarorlofs þann 14. október. Með bréfi dagsettu þann 13. október var kæranda tilkynnt sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að samþykkja umsókn hennar um atvinnuleysisbætur, en fella rétt hennar niður í 40 daga í upphafi bótatímabils. Almennt verður að telja að kærandi hafi mátt skilja þær upplýsingar sem komu fram í tilkynningu Vinnumálastofnunar á þann veg að hún ætti rétt á bótum að liðnum 40 dögum frá lokum fæðingarorlofs þann 14. október. Hvorki orðalag bréfsins né lög um atvinnuleysistryggingar styðja þá niðurstöðu að biðtími kæranda skyldi ekki hefjast fyrr en hún hefði skráð sig að nýju hjá Vinnumálastofnun.

Á grundvelli þess sem að framan segir telst 40 daga biðtími hafa byrjað að líða strax að loknu fæðingarorlofi kæranda þann 14. október. Kærandi á því rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta frá 5. janúar til 1. mars 2009.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 7. október 2008 um niðurfellingu bótaréttar A í 40 daga er staðfest. Kærandi á rétt á atvinnuleysisbótum frá 5. janúar til 1. mars 2009.

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum