Hoppa yfir valmynd
14. október 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 42/2009

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 14. október 2009 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 42/2009.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 14. maí 2009, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum þann 6. maí 2009 fjallað um umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur frá 23. febrúar 2009. Umsókn kæranda var hafnað þar sem vinna hans á ávinnslutímabili bótaréttar náði ekki því lágmarki sem kveðið er á um í 19. gr., sbr. þágildandi b-lið 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæra til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða er dagsett 7. febrúar 2009. Kærandi krefst þess að fá greiddar atvinnuleysisbætur frá dagsetningu umsóknar en Vinnumálastofnunar krefst þess að hin kærða ákvörðun standi.

Kærandi var, samkvæmt vinnuveitendavottorði, framkvæmdastjóri fyrirtækisins X sf. og starfaði þar fram til 1. febrúar 2009 í 100% starfshlutfalli og lét þá af störfum vegna tímabundinnar rekstrarstöðvunar. Samkvæmt upplýsingum frá Creditinfo Ísland, uppfærðum 6. maí 2009, er kærandi í framkvæmdastjórn fyrirtækisins en engir stjórnarmenn eru skráðir, enginn prókúruhafi, engir endurskoðendur og engir stofnendur eru þar heldur skráðir. Kærandi heldur því fram að hann hafi verið launþegi hjá X sf. en hann hafi ekki verið sjálfstætt starfandi einstaklingur. Kærandi mótmælir því að X sf. hafi ekki staðið skil á tryggingagjaldi fyrir árið 2008 og vísar til skilagreinar frá sýslumanninum í Kópavogi því til stuðnings.

Af hálfu Vinnumálastofnunar kemur fram að það sé ljóst af 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að eitt af skilyrðum þess að vera sjálfstætt starfandi og njóta atvinnuleysisbóta sé að staðið hafi verið skil á reiknuðu endurgjaldi og tryggingargjaldi vegna viðkomandi. Það sé ljóst að ekki hafi verið staðið skil á öllu því tryggingargjaldi sem fyrirtækinu X sf. hafi verið skylt að skila inn vegna starfsmanna fyrirtækisins, sbr. meðfylgjandi álagningarseðil fyrir árið 2008. Tryggingargjald sé ein heildartala vegna allra starfsmanna fyrirtækisins og sé ekki sérgreint miðað við hvern starfsmann hjá því fyrirtæki sem skilar inn tryggingagjaldinu samkvæmt meðfylgjandi yfirlýsingu frá embætti Ríkisskattstjóra. Eins og sjá megi af skjali frá Ríkisskattstjóra sem sé merkt 7G og prentað út 16. mars sl. hafi engri staðgreiðslu verið skilað af uppgefnum launum kæranda til skattyfirvalda. Vinnumálastofnun hafi ekki borist nein gögn þess efnis að greiðslur staðgreiðslu og tryggingagjalds fyrir kæranda hafi átt sér stað af hálfu X sf. og hafi honum því verið synjað um greiðslu atvinnuleysistrygginga.

 

2.

Niðurstaða

Sjálfstætt starfandi einstaklingar eru tryggðir samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar þegar þeir verða atvinnulausir skv. 1. gr., sbr. b-lið 3. gr. laganna. Í IV. kafla laganna er fjallað um skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum sjálfstætt starfandi einstaklinga. Samkvæmt h-lið 1. mgr. 18. gr. laganna telst sjálfstætt starfandi einstaklingur tryggður samkvæmt lögunum ef hann hefur staðið skil á greiðslu tryggingagjalds og staðgreiðsluskatts af reiknuðu endurgjaldi samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda við stöðvun rekstrar.

Samkvæmt gögnum sem hafa verið lögð fyrir úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta og frekari skýringum á þeim gögnum sem úrskurðarnefndin hefur aflað sér frá innheimtumanni ríkissjóðs hefur það verið staðfest að staðið hefur verið skil á tryggingagjaldi og staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi vegna kæranda á ávinnslutímabili. Á grundvelli þess og alls ofangreinds á kærandi rétt til atvinnuleysisbóta með vísan til b-liðar 3. gr. og 2. mgr. 19. gr. laga um atvinnuleysisbætur. Með því er hin kærða ákvörðun felld úr gildi.


Úr­skurðar­orð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 6. maí 2009 um synjun á bótarétti A er felld úr gildi. Kærandi á rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta frá móttöku umsóknar.

 

Brynhildur Georgsdóttir, for­maður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum