Hoppa yfir valmynd
1. október 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 55/2009

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 1. október 2009 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 55/2009.

 

1.

Málsatvik og kæruefni 

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 19. febrúar 2009, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum þann 19. febrúar 2009 fjallað um umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur frá 17. desember 2008. Umsókn kæranda var hafnað þar sem vinna kæranda á ávinnslutímabili bótaréttar náði ekki því lágmarki sem kveðið er á um skv. 2. mgr. 19. gr., sbr. 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi krefst þess að fá greiddar atvinnuleysisbætur frá dagsetningu umsóknar en Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi krafðist þess, með bréfi til Vinnumálastofnunar, dags. 2. mars 2009, að Vinnumálastofnun rökstyðji nánar ákvörðun sína. Rökstuðningur Vinnumálastofnunar var veittur með bréfi stofnunarinnar, dags. 9. mars 2009.

Samkvæmt lýsingu kæranda var hún sjálfstætt starfandi í fullu starfi við X í yfir 20 ár eða þar til halla fór undan fæti vegna samdráttar. Tekjurnar hafi verið lágar þrátt fyrir að um fullt starf hafi verið að ræða og hún hafi greitt tryggingargjald einu sinni á ári við álagningu opinberra gjalda í ágúst ár hvert. Samkvæmt greiðsluáætlun, dags. 19. janúar 2009, sem er meðal gagna málsins, var henni gert að greiða þing- og sveitarsjóðsgjald, staðgreiðslu og tryggingagjald að fjárhæð 67.769 kr.

Af hálfu kæranda er því mótmælt að svo virðist sem Vinnumálastofnun telji kæranda hvorki launamann né sjálfstæðan atvinnurekanda. Það verði ekki talið að það hafi verið ætlun löggjafans að niðurlagsákvæði b-liðar 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé túlkað þannig að kærandi eigi hvorki rétt á bótum sem launamaður né sem sjálfstætt starfandi einstaklingur. Kærandi hafi haft sinn eigin sjálfstæða rekstur við X að aðal- og eina starfi áratugum saman. Starfið sé umfangsmikið, þó eftirtekjan hafi verið grátlega lág. Sú skýring með b-lið 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að um mjög umfangslitla atvinnustarfsemi sé að ræða eigi því ekki við í tilviki kæranda. Það að kærandi hafi haft af starfi sínu afar lágar tekjur geti eitt og sér ekki leitt til skerðingar bótaréttar. Þá sé ekki hægt að túlka „umfangslitla“ með þeim hætti að með umfangi sé átt við tekjur eingöngu, heldur hljóti að verða að taka mið af umfangi starfsins sjálfs (100% vinna í sjálfstæðum rekstri). Telja verði að túlkun Vinnumálastofnunar á þessu ákvæði svo þrönga að um sé að ræða skerðingu á stjórnarskrárvernduðum mannréttindum kæranda. Það verði einnig að beita þeirri almennu lögskýringu að íþyngjandi ákvæði því sem hér um ræðir beri að túlka þröngt. Skerðing réttinda kæranda verði að eiga sér skýra lagastoð og verði ekki litið svo á að ákvæðið sé nógu skýrt til þess að skerða bótaréttindi sjálfstætt starfandi einstaklings í 100% starfi. Hafi skattyfirvöld og innheimtumenn ríkissjóðs talið að kæranda hafi borið að skila þessum lögboðnu gjöldum oftar en einu sinni á ári hefði þeim borið skylda til að upplýsa hana um það, en það hafi aldrei verið gert.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 19. júní 2009, er vísað til þess að b-liður 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, eins og hann var í gildi þegar umrædd ákvörðun var tekin, skilgreini sjálfstætt starfandi einstakling sem hvern þann sem starfi við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi í því umfangi að honum sjálfum sé gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt reglum fjármálaráðherra, skil á staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjaldi vegna starfs síns. Sjálfstætt starfandi einstaklingur sem greiðir staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjaldi einu sinni á ári teljist ekki vera sjálfstætt starfandi einstaklingur í skilningi laganna. Þá segi í h-lið 1. mgr. 18. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. b-lið 3. gr., sem hafi staðið skil á greiðslu tryggingagjalds og staðgreiðsluskatts af reiknuðu endurgjaldi samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda við stöðvun rekstrar, teljist tryggður samkvæmt lögunum. Við vinnslu umsóknar kæranda hafi verið leitað eftir gögnum um greiðslu tryggingargjalds og staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi kæranda hjá skattayfirvöldum, sbr. 4. mgr. 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt þeim gögnum hafði ekki verið greitt mánaðarlega staðgreiðsla af sjálfstæðum atvinnurekstri á ávinnslutímabilinu. Þá sé það ljóst að þegar umsókn kæranda hafi verið tekin til meðferðar hjá stofnuninni hafði ekki verið staðið skil á mánaðarlegri staðgreiðslu af sjálfstæðum atvinnurekstri vegna tekjuáranna 2006 til 2009 og reiknist því ekki bótahlutfall vegna sjálfstæðrar starfsemi á þessum tíma, sbr. 2. mgr. 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þar sem kærandi hafi hvorki uppfyllt skilyrði 3. gr. né 2. mgr. 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hafi umsókn hennar um atvinnuleysisbætur verið hafnað.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 22. júní 2009, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 6. júlí 2009. Kærandi sendi bréf dags. 2. júlí 2009 og ítrekaði fyrri kröfur en kvaðst engu hafa við að bæta fyrri athugasemdir sínar og röksemdir.

 

2.

Niðurstaða

Svo að umsækjandi um atvinnuleysisbætur eigi rétt á atvinnuleysisbótum þarf hann að jafnaði að hafa verið launamaður eða sjálfstætt starfandi einstaklingur áður en hann missti sitt fyrra starf. Kærandi telur sig hafa verið sjálfstætt starfandi einstakling, sem hafi misst sitt fyrra starf þegar hún sótti um atvinnuleysisbætur í janúarmánuði 2009. Þegar umsókn kæranda barst var skilgreining á sjálfstætt starfandi einstaklingi svohljóðandi, sbr. þágildandi b-lið 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar:

Sjálfstætt starfandi einstaklingur: Hver sá sem starfar við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi eða starfar á vegum sameignarfélags, einkahlutafélags eða hlutafélags eða tengdra félaga, þar sem hann hefur ráðandi stöðu vegna eignar- eða stjórnunaraðildar, í því umfangi að honum er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt reglum fjármálaráðherra, skil á staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjaldi. Sá sem greiðir staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjaldi einu sinni á ári telst ekki vera sjálfstætt starfandi einstaklingur í skilningi laga þessara.

Hin kærða ákvörðum var tekin á meðan þessi skilgreining var við lýði en henni var breytt með tilteknum hætti með 1. gr. laga nr. 37/2009. Þær breytingar skipta hér ekki máli þar sem taka verður mið af þeim reglum sem giltu þegar hin kærða ákvörðun var tekin. Af tilvitnaðri skilgreiningu leiðir að sjálfstætt starfandi einstaklingur hafi meðal annars þurft að hafa staðið skil á staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingargjaldi með reglulegum hætti, sbr. fyrri málslið þágildandi b-liðar 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt orðanna hljóðan taldist sá ekki sjálfstætt starfandi einstaklingur sem greiddi staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingargjaldi einu sinni á ári, sbr. síðari málslið þágildandi b-liðar 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Í tilviki kæranda liggja fyrir upplýsingar frá skattyfirvöldum um skil hennar á staðgreiðslu og tryggingagjaldi árin 2006–2008. Samkvæmt þeim upplýsingum hafa engin skil verið gerð vegna slíks í tilviki kæranda á síðustu tólf mánuðum áður en sótt var um greiðslu atvinnuleysisbóta eða árið 2008 og því ekki unnt að fallast á að henni hafi skapast réttur til greiðslu atvinnuleysisbóta. Í því samhengi er áréttað vegna fullyrðingar í kæru um að laun kæranda hafi verið rýr og aldrei farið yfir skattleysismörk, að skrá skattyfirvalda ber það ekki með sér að greitt hafi verið tryggingagjald vegna slíkra launa á ofangreindu tímamarki.

 

Úrskurðarorð 

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 19. febrúar 2009 um synjun á bótarétti A er staðfest.

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum