Hoppa yfir valmynd
1. október 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 11/2009

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 1. október 2009 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 11/2009.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 5. janúar 2009, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum þann 17. desember 2008 fjallað um umsókn hennar um atvinnuleysisbætur frá 3. nóvember 2008. Fallist var á umsókn kæranda en réttur hennar til atvinnuleysisbóta var felldur niður í 40 daga í upphafi bótatímabils með vísan til 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi mótteknu 29. janúar 2009. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og hún fái greiddar atvinnuleysisbætur frá umsóknardegi þann 3. nóvember 2008. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Í erindi kæranda kemur fram að henni hafi verið sagt upp störfum hjá X í kjölfar áminningar. Hún hafi stefnt X fyrir dóm til ógildingar áminningunni þar sem hún hafi verið ólögmæt og ekki í samræmi við heimild laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996. Að mati kæranda liggur ekki fyrir að uppsögn hafi verið af ástæðum sem kærandi á sök á skv. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Samkvæmt vottorði vinnuveitanda, dags. 4. nóvember 2008, starfaði kærandi sem náms- og starfsráðgjafi hjá X frá 1. nóvember 2005 til 31. október 2008. Í sama vottorði kemur fram að kæranda hafi verið sagt upp í kjölfar áminningar skv. 21. og 43. gr. laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Í 21. gr. laganna er gerð grein fyrir forsendum þess að forstöðumaður stofnunar veiti starfsmanni skriflega áminningu. Í 43. gr. laganna kemur fram að forstöðumaður stofnunar hafi rétt til að segja starfsmanni upp störfum eftir því sem fyrir er mælt í ráðningarsamningi.

Kærandi starfaði hjá X. Í stefnu sem kærandi lagði fram í Héraðsdómi Y hinn 3. febrúar 2009 kemur fram að í bréfi, dags. 22. maí 2008, hafi forstjóri X tilkynnt kæranda að ráðgert væri að áminna hana í starfi skv. 21. gr. laga nr. 70/1996. Áminningin snúi að samskiptaerfiðleikum milli hennar og annarra starfsmanna þjónustuskrifstofunnar og óásættanlegrar framkomu í þeirra garð. Lögfræðingur Bandalags háskólamanna sendi fyrir hönd kæranda andmæli vegna bréfs X þann 5. júní 2008, þar sem mótmælt er hugsanlegri veitingu áminningar enda séu skilyrði hennar sem kveðið sé á um í 21. gr. laga nr. 70/1996 ekki fyrir hendi í tilviki kæranda. Stefnanda var síðan veitt áminning þann 6. júní 2008 með bréfi dagsettu þann sama dag. Í bréfinu kemur fram að eftir að hafa farið yfir andmæli stefnanda vegna bréfsins frá 22. maí 2008 sé það niðurstaða stofnunarinnar að stefnandi hafi brotið starfsskyldur sínar skv. 21. gr. laga nr. 70/1996 með því að vera mjög ósamvinnufús og valda miklum samstarfsörðugleikum á vinnustað. Í greindri háttsemi felist það meðal annars að bera samstarfsmann alvarlegum ásökunum sem ekki eigi sér stoð, taka ekki þátt í eðlilegu samstarfi, svo sem símsvörun og afgreiðslu á annatímum þrátt fyrir fyrirmæli þar um, gagnrýna störf samstarfsmanna, þ.m.t. yfirmanns, og neita viðtöku bréfs um boðun áminningar úr hendi stofnunarinnar. Í bréfinu kom einnig fram að kæranda var gefinn kostur á að ráða bót á ávirðingum fyrir 30. júlí 2008 en ella kunni henni að verða sagt upp störfum. Kæranda var sagt upp störfum með bréfi dagsettu 31. júlí 2008. Hún óskaði eftir skriflegum rökstuðningi og barst hann með bréfi dagsettu 12. ágúst 2008. Þar kemur fram að uppsögn kæranda komi til vegna þess að hún þyki ekki hafa bætt ráð sitt frá því henni hafi verið veitt skrifleg áminning með bréfi dagsettu 6. júní 2008. Rökstuðningur áminningar og uppsagnar sé sá að kærandi hafi brotið starfsskyldur sínar með því að vera mjög ósamvinnufús og hafa valdið miklum samstarfsörðugleikum á vinnustað.

Í bréfi lögmanns kæranda, dags. 29. september 2008, var uppsögninni mótmælt sem ólögmætri og skorað á X að draga hana til baka. Í bréfinu kom meðal annars fram að þrátt fyrir að kæranda hafi verið gefinn kostur á að andmæla væntanlegri áminningu virðist sem ekki hafi verið tekið tillit til andmæla hennar. Þá hafi tímabilið frá áminningunni til uppsagnar einkennst af fjarveru vegna sumarleyfa, enginn óvilhallur aðili hafi verið til staðar á vinnustaðnum og að auki hafi kærandi verið í sumarleyfi á þessum tíma.

Svar X er dagsett 10. október 2008. Þar kemur fram að kærandi hafi brotið gegn 21. gr. laga nr. 70/1996 með því að neita að taka við áminningarbréfi úr hendi forstjóra og starfsmannastjóra X þann 6. júní 2008. Þá hafi það verið mat yfirmanns þjónustuskrifstofunnar eftir samtal við Z og fulltrúa samstarfsaðila kæranda að samstarfsörðugleikar hefðu síst lagast á tímabilinu frá 6. júní til 30. júlí og því hafi ekki verið aðrir kostir en að segja kæranda upp störfum.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 17. mars 2009, kemur fram að deilt sé um hvort ástæða uppsagnar kæranda teljist gild ástæða í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í greinargerð er fylgdi frumvarpi því sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar segi að erfitt geti reynst að telja upp endanlega þau tilvik sem gætu fallið undir 1. mgr. 54. gr. Lagareglan sé því matskennd og Vinnumálastofnun falið að meta hvernig atvik og aðstæður hvers máls falli að reglunni. Skuli stofnunin því líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða og hafa í huga að um íþyngjandi ákvörðun er að ræða. Af hálfu Vinnumálastofnunar kemur fram að málsatvik séu ítarlega reifuð í gögnum málsins. Stofnunin telji að kærandi hafi misst starf sitt af ástæðum sem hún á sjálf sök á enda hafi stofnunin veitt kæranda áminningu á grundvelli 21. gr. laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Telji stofnunin að sé starfsmanni sagt upp í kjölfar slíkrar áminningar sé skilyrðum tilvitnaðrar 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar fullnægt til að umsækjandi um atvinnuleysisbætur missi bótarétt í 40 daga.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 19. mars 2009, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 2. apríl 2009. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Mál þetta lýtur að túlkun á 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en hún er svohljóðandi:

Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að 40 dögum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem missir starf af ástæðum sem hann á sjálfur sök á.“

Almennt er talið að fá tilvik geti talist vera gildar ástæður fyrir uppsögn starfsmanns og hið sama gildir þegar sök starfsmanns á uppsögn er metin. Segja má að með sök í þessu sambandi sé átt við tilvik sem eru þess eðlis að leggja megi þau að jöfnu við uppsögn af hálfu starfsmanns, þ.e. starfsmaður hafi mátt segja sér að hegðunin gat leitt til uppsagnar. Ekki verður talið að ástæður sem falla undir heimild til áminningar og uppsagnar samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins skuli sjálfkrafa teljast sök í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar.

Í máli þessu liggur fyrir að kærandi vildi halda vinnu sinni og ekki er fallist á að ástæður þær sem X gaf vegna áminningar og uppsagnar hennar skuli teljast sök í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Ákvörðun Vinnumálastofnunar er því felld úr gildi.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 17. desember 2008 um niðurfellingu bótaréttar A í 40 daga er felld úr gildi. Kærandi skal eiga rétt á atvinnuleysisbótum frá umsóknardegi um atvinnuleysisbætur.

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Ragnhildur Jónasdóttir

Helgi Áss Grétarsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum