Hoppa yfir valmynd
30. júní 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 36/2009

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 30. júní 2009 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 36/2009.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 26. mars 2009, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hafi á fundi sínum þann 26. mars 2009 tekið þá ákvörðun að fella niður greiðslu atvinnuleysisbóta til hennar. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með bréfi, dags. 6. apríl 2009. Kærandi gerir þær kröfur að ákvörðun Vinnumálastofnunar verði felld úr gildi og að henni verði greiddar atvinnuleysisbætur. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Í kæru kæranda kemur fram að hún hafi búið á Íslandi frá árinu 1999 og að hún eigi íslenskan eiginmann. Bróðir kæranda hafi boðið henni til B-lands í janúar 2009 til þess að halda upp á nýtt ár. Hún hafi ætlað að vera þar í 18 daga en hafi fengið sýkingu í eyra skömmu eftir komuna til B-lands og farið í aðgerð 26. febrúar 2009. Fram kemur að læknir kæranda hafi ráðlagt henni að fljúga ekki í að minnsta kosti þrjá mánuði eftir aðgerðina.

Í vottorði C læknis, dags. 7. apríl 2009, kemur fram að kærandi hafi verið í flókinni aðgerð á vinstra eyra vegna sýkingar. Jafnframt hafi hún verið í aðgerð á nefi vegna sýkingar. Henni hafi verið tjáð af læknum sínum á B-landi að hún megi ekki fljúga í þrjá mánuði frá febrúar 2009 og hún megi ekki hefja störf fyrr en 1. september 2009. Meðal gagna málsins er einnig vottorð frá spítalanum á B-landi þar sem gerð er grein fyrir veikindum kæranda og þeim aðgerðum sem gerðar voru og enn fremur kemur þar fram það álit að kærandi geti snúið aftur til vinnu í september næstkomandi.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 15. maí 2009, kemur fram að Vinnumálastofnun hafi tekið ákvörðun þann 26. mars 2009 um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda þar sem hún var ekki í virkri atvinnuleit eða búsett hér á landi, sbr. a- og c-lið 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þessi ákvörðun var tekin eftir að stofnunin hafði samkeyrt gagnagrunna í mars síðastliðnum og komið hefði verið í ljós að kærandi væri að þiggja atvinnuleysisbætur á sama tíma og hún væri ekki á landinu. Kærandi var því stödd erlendis án þess að tilkynna stofnuninni um það, en slíkt leiði til þess að atvinnuleysisbætur séu ekki greiddar þann tíma sem á dvölinni standi.

Af hálfu Vinnumálastofnunar kemur fram að í 2. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé mælt fyrir um markmið laganna. Í ákvæðinu segi að markmið laganna sé að tryggja tímabundna fjárhagsaðstoð meðan hinir tryggðu leita að nýju starfi eftir að hafa misst sitt fyrra starf. Í III. kafla laganna séu tilgreind almenn skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna. Nauðsynlegt sé að uppfylla skilyrði liða a–g sem sé að finna í 1. mgr. 13. gr. laganna. Mæli fyrrnefndur a-liður fyrir um að atvinnuleysisbótaþegi sé í virkri atvinnuleit, sbr. 14. gr. laganna, en í virkri atvinnuleit felist meðal annars að bótaþegi sé fær til flestra almennra starfa og hafi vilja og getu til að taka starfi án sérstaks fyrirvara, sbr. a- og c-liði í 14. gr. laganna. Þá sé það og gert að almennu skilyrði í 13. gr. að launamaður sé búsettur hér á landi. Þá beri og að geta þess að í 1. mgr. 51. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segi að sá sem njóti sjúkradagpeninga samkvæmt lögum um sjúkratryggingar teljist ekki tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysisbætur á sama tímabili. Með vísan til a-liðar 1. mgr. 13. gr., sbr. 14. gr. og c-lið 1. mgr. 13. gr., standi ekki efni til þess að greiða atvinnuleysisbætur meðan bótaþegi dveljist í útlöndum og sé ekki í virkri atvinnuleit. Þá beri og að líta til þess að kærandi sé óvinnufær þangað til í september 2009 samkvæmt vottorði lækna og geti því ekki talist í virkri atvinnuleit þegar af þeirri ástæðu.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 20. maí 2009, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 3. júní 2009. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Í 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er gerð grein fyrir gildissviði laganna og kemur þar fram að lögin gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir. Í 2. gr. laganna segir að markmið laganna sé að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt. Í 1. mgr. 9. gr. laganna kemur meðal annars fram að launamönnum og sjálfstætt starfandi einstaklingum sé heimilt að sækja um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar þegar þeir verða atvinnulausir. Þá er gerð grein fyrir því í a-lið 1. mgr. 13. gr. laganna að launamaður sem uppfylli það skilyrði að vera í virkri atvinnuleit, sbr. 14. gr., teljist tryggður samkvæmt lögunum og í c-lið sömu málsgreinar er það skilyrði sett að launamaður verði að vera búsettur hér á landi.

Kærandi fór til B-lands í janúarmánuði síðastliðnum og hugðist dvelja þar í 18 daga. Vegna veikinda var henni ráðlagt að fljúga ekki fyrr en í september næstkomandi. Aðstæður kæranda breyttust með þeim hætti að hún er bundin erlendis vegna veikinda þangað til í september næstkomandi og getur hún því ekki verið í virkri atvinnuleit hér á landi á þeim tíma. Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið uppfyllir kærandi ekki skilyrði 1. mgr. a- og c-liða 13. gr. laga um atvinnuleysisbætur og er hin kærða ákvörðun því staðfest.

 

Úr­skurðar­orð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 26. mars 2009 í máli A um synjun atvinnuleysisbóta er staðfest.

 

Brynhildur Georgsdóttir formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum