Hoppa yfir valmynd
15. maí 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 25/2009

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 15. maí 2009 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 25/2009.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 10. febrúar 2009, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum þann 10. febrúar 2009 fjallað um umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur frá 5. janúar 2009. Fallist var á umsókn kæranda en réttur hans til atvinnuleysisbóta var felldur niður í 40 daga í upphafi bótatímabils með vísan til 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi mótteknu 9. mars 2009. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi starfaði sem framleiðslustarfsmaður hjá X í fullu starfi frá 1. október 2008. Kæranda var sagt upp störfum þann 11. desember 2008, en hann var þá á reynslutíma. Í bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 27. janúar 2009 er gerð grein fyrir símtali við B hjá X. Þar kemur fram að ástæða uppsagnar kæranda hafi verið brot í starfi vegna hegðunarvandamála og hafi honum verið sagt upp á reynslutíma.

Af hálfu kæranda kemur fram að hann hafi eitt kvöldið verið við drykkju ásamt starfsfélögum sínum í húsi sem X hafi verið með á leigu fyrir starfsfólk í X. Hann hafi gert gat á vegg og allt hafi orðið vitlaust. Hann hafi skömmu síðar verið boðaður á fund og verið sagt upp störfum. Kærandi kveðst hafa játað verknaðinn og ekki skorast undan ábyrgð og hafi boðist til þess að borga viðgerðina. Því tilboði hafi verið hafnað. Að mati kæranda hefði hann átt að fá áminningu eins og aðrir sem að þessu hafi komið hafi fengið. Hann hafi viljað allt til vinna til þess að halda vinnunni, hann eigi íbúð og bíl sem hann sé að greiða af og lendi nú í erfiðleikum.

Kærandi er ósáttur við þá niðurstöðu Vinnumálastofnunar að hann eigi ekki rétt á bótum fyrr en að loknum 40 daga biðtíma. Sú niðurstaða sé byggð á upplýsingum frá X um að hann hafi brotið af sér í starfi og þar af leiðandi verið sagt upp störfum. Kærandi kveðst ekki hafa brotið af sé í starfi. Hann hafi verið notaður sem blóraböggull í máli sem forsvarsmenn X hafi verið í vandræðum með að loka og hafi þetta verið auðveldasta leiðin fyrir þá að klára það. Kærandi kveðst einungis óska eftir sanngjarnri og réttri niðurstöðu í þessu máli. Hann sé nú þegar kominn í mikil vandræði fjárhagslega vegna þessa máls og sjái fram á gjaldþrot innan skamms þar sem hann hafi þurft að leita til sveitarfélagsins til þess eins að framfleyta sér.

Í athugasemdum Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 16. mars 2009, kemur meðal annars fram að deilt sé um hvort kærandi hafi misst starf sitt af ástæðum sem hann eigi sjálfur sök á í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Óumdeilt sé að kæranda hafi verið sagt upp starfi sínu hjá vinnuveitanda sínum. Í ráðningarsamningi kæranda komi fram að hann hafi skuldbundið sig til að virða almennar reglur fyrirtækisins. Eins og fram komi í kæru kæranda og þeim gögnum sem henni hafi fylgt hafi kærandi gert gat á vegg í hófi í húsi á vegum vinnuveitandans. Hafi það verið mat vinnuveitandans að slík háttsemi væri ekki starfsmanninum til framdráttar og gæfi ekki góða mynd af væntanlegri hegðun hans í starfi til frambúðar sérstaklega með tilliti til þess hversu strangar öryggisreglur gildi um störf hjá vinnuveitandanum. Jafnframt sé það sjónarmið viðurkennt í vinnurétti að meðan starfsmaður er á reynslutíma hafi vinnuveitandi ríkar heimildir til að segja starfsmanni upp.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 19. mars 2009, sent afrit af athugasemdum Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 2. apríl 2009. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Mál þetta lýtur að túlkun á því hvort kærandi hafi misst starf sitt af ástæðum sem hann á sjálfur sök á, sbr. 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en hún hljóðar svo:

Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að 40 dögum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem missir starf af ástæðum sem hann á sjálfur sök á.“

Kæranda var sagt upp starfi hjá X í kjölfar þess að hann gerði gat á vegg í veislu að kvöldlagi sem vinnufélagar hans héldu í húsi sem fyrirtækið var með á leigu fyrir starfsfólk X. Kærandi kveðst hafa játað að hafa gert gat á vegginn og boðist til þess að greiða fyrir viðgerð. Ekki var um að ræða brot í starfi heldur atburð sem átti sér stað utan vinnutíma. Þrátt fyrir aukið svigrúm vinnuveitanda til uppsagnar á meðan reynslutíma stendur fellur hegðun kæranda ekki undir sök í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að fella beri þann þátt ákvörðunar Vinnumálastofnunar úr gildi er lýtur að niðurfellingu bótaréttar í 40 daga. Kærandi á rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta í 40 daga frá og með 5. janúar 2009.

 

Úr­skurðar­orð

Sá þáttur ákvörðunar Vinnumálastofnunar frá 10. febrúar 2009 að fella niður bótarétt A í 40 daga er felldur úr gildi. Hann á rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta í 40 daga frá og með 5. janúar 2009.

  

Brynhildur Georgsdóttir, for­maður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum