Hoppa yfir valmynd
15. maí 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 18/2009

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 15. maí 2009 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 18/2009.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 16. janúar 2009, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum þann 8. janúar 2009 fjallað um umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur frá 14. nóvember 2008. Fallist var á umsókn kæranda en réttur hennar til atvinnuleysisbóta var felldur niður í 40 daga í upphafi bótatímabils með vísan til 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi mótteknu 19. febrúar 2009. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi starfaði sem tækniteiknari hjá X í 90% starfið árið 2006 í 90% starfi og í 72% starfi árið 2007. Hún sagði starfi sínu lausu þann 30. nóvember 2007. Í kæru kæranda, móttekinni 19. febrúar 2009, segir að ástæður uppsagnarinnar hafi verið þær að hún var ráðin til starfa sem tækniteiknari á rafmagnsdeild, en seinna hafi henni verið boðin staða sem aðstoðarmaður yfirverkfræðings. Þeirri stöðu hafi fylgt meiri umsvif og ábyrgð en kæranda hafi verið boðin sömu laun og hún hafði áður. Henni hafi verið misboðið og hafi hún sagt upp af þeim sökum.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur þann 14. nóvember 2008. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 3. desember 2008, var afgreiðslu umsóknar kæranda frestað vegna upplýsinga um starfslok sem fram komu á vottorði vinnuveitanda, X, dags. 21. nóvember 2008. Fram kom í bréfinu að líkur væru á því að kærandi ætti ekki rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en að loknum biðtíma, sbr. X. kafla laga um atvinnuleysistryggingar. Kæranda var gefinn kostur á að koma með skýringar og andmæli vegna væntanlegrar ákvörðunar Vinnumálastofnunar innan sjö virkra daga en hún nýtti sé ekki þann kost.

Í athugasemdum Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðs­aðgerða, dags. 15. apríl 2009, kemur meðal annars fram að deilt sé um hvort ástæða uppsagnar kæranda teljist gild í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Það sé óumdeilt að kærandi hafi sagt upp starfi sínu hjá vinnuveitanda og því líklegt að aðstæður hennar eigi undir 1. mgr. 54. gr. laganna. Ástæður þær er kærandi nefni í kæru sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða snúi að því að kæranda hafi verið boðin ný staða hjá sama vinnuveitanda sem fylgdi meiri umsvif og ábyrgð en kæranda hafi verið boðin sömu laun og áður. Hafi kæranda verið misboðið vegna þessa og því sagt starfi sínu lausu. Þá kemur fram hjá Vinnumálastofnun að almennt geri lög um atvinnuleysistryggingar ráð fyrir því að segi starfsmaður upp starfi sínu megi hann búast við því að hann eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum í 40 daga, sbr. 1. mgr. 54. gr. Kærandi nefni þær ástæður að henni hafi verið falin aukin ábyrgð og umsvif á vinnustað án þess að því hafi fylgt launahækkun. Kærandi hafi ekki fært fram nein gögn fyrir því að staða sú sem henni hafi verið boðin hafi leitt til meiri umsvifa og ábyrgðar svo sem hún staðhæfi í bréfi sínu til úrskurðarnefndar. Að mati Vinnumálastofnunar geti þær ástæður sem kærandi færi fram ekki talist gildar í skilningi laganna og því eigi kærandi að sæta biðtíma.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 17. apríl 2009, sent afrit af athugasemdum Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 4. maí 2009. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Mál þetta lýtur að túlkun á 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sem er svohljóðandi:

Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að 40 dögum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem missir starf af ástæðum sem hann á sjálfur sök á.“

Ágreiningur máls þessa snýst um það hvort ástæður kæranda fyrir uppsögn á starfi sínu teljist gildar í skilningi framangreinds ákvæðis. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar var 1. mgr. 54. gr. laganna skýrð nánar og það áréttað að eitt af markmiðum vinnumarkaðskerfisins sé að stuðla að virkri atvinnuþátttöku fólks. Með hliðsjón af því sé ekki gefinn kostur á að fólk segi upp starfi sínu til að fá greiddar atvinnuleysisbætur án þess að sérstakar ástæður liggi að baki uppsögninni í tilvikum þegar annað starf er ekki í boði.

Kærandi sagði starfi sínu lausu vegna þess að henni misbauð að fá ekki launahækkun samhliða boði um annað starf hjá fyrirtækinu sem að hennar sögn fylgdi meiri umsvif og ábyrgð en fyrra starfi. Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða telst þessi ástæða ekki gild í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og því ber að staðfesta ákvörðun Vinnumálastofnunar.

 

Úr­skurðar­orð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 8. janúar 2009 um niðurfellingu bótaréttar A í 40 daga er staðfest.

  

Brynhildur Georgsdóttir, for­maður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum