Hoppa yfir valmynd
20. apríl 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 15/2009

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 20. apríl 2009 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 15/2009.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 22. desember 2008, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum þann 17. desember 2008 fjallað um umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur frá 22. október 2008. Umsókn kæranda var hafnað samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kæra til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða er dagsett 9. febrúar 2009. Kærandi krefst þess að fá greiddar atvinnuleysisbætur frá dagsetningu umsóknar en Vinnumálastofnunar krefst þess að hin kærða ákvörðun standi.

Kærandi var, samkvæmt vinnuveitendavottorði, dags. 22. október 2008, framkvæmdastjóri fyrirtækis í sinni eigu, X ehf. Hann starfaði hjá fyrirtækinu á árunum frá 2006 til 2008 og lét af störfum þegar fyrirtækið var selt 20. október 2008. Samkvæmt yfirliti úr staðgreiðsluskrá vegna áranna 2007 og 2008 var engin staðgreiðsla greidd vegna kæranda á tímabilinu. Kærandi lýsir því að fyrirtæki hans hafi verið óheppið í verkefnum sínum. Þá hafi fyrirtæki hans gengið til samstarfs um stórt verkefni við annað fyrirtæki sem ekki hafi staðið undir væntingum og ekki staðið við gerða samninga. Í ofanálag hafi fyrirtæki kæranda ítrekað lent í tjóni sem hafi mátt rekja til vanrækslu samstarfsaðilans. Að sögn kæranda fór fjárhagurinn við þetta úr skorðum og olli því að hann gat ekki greitt sjálfum sér laun. Kærandi hafi ákveðið að selja fyrirtæki sitt sem hann hafi gert með samningi þann 20. október 2008. Fyrirtækið hafi verið selt skuldlaust en þannig hafi kærandi viljað skilja við það og hafi hann því tekið á sig miklar persónulegar skuldir. Kærandi segir að hefði hann sett sjálfan sig í forgang og greitt sér laun og ekki staðið í skilum með opinber gjöld og önnur launatengd gjöld þá ætti hann rétt á atvinnuleysisbótum.

Vinnumálastofnun vísar til þess að í 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé gert ráð fyrir því að sjálfstætt starfandi einstaklingar séu tryggðir samkvæmt lögunum þegar þeir verði atvinnulausir. Nánar sé gerð grein fyrir skilgreiningu á sjálfstætt starfandi einstaklingum í b-lið 3. gr. laganna. Í IV. kafla laganna sé fjallað um skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum sjálfstætt starfandi einstaklinga. Í a–i-liðar 1. mgr. 18. gr. sé mælt fyrir um almenn skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum sjálfstætt starfandi. Í h-lið 1. mgr. sé að finna það skilyrði að umsækjandi verði að hafa staðið skil á greiðslu tryggingagjalds og staðgreiðslu skatts af reiknuðu endurgjaldi samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda til að eiga rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta. Í 19. gr. laganna sé mælt fyrir um ávinnslutímabil sjálfstætt starfandi einstaklinga. Þar segi að sjálfstætt starfandi einstaklingur teljist að fullu tryggður samkvæmt lögunum eftir að hafa starfað samfellt á síðustu tólf mánuðum á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar. Í 4. mgr. 19. gr. sé mælt fyrir um að þegar finna skuli vinnuframlag sjálfstætt starfandi einstaklinga skuli miða við skýrslur skattyfirvalda, sbr. h-lið 1. mgr. 18. gr. Kærandi hafi ekki greitt sér laun á ávinnslutímabilinu og verði því að álykta á þann veg að bótaréttur hans sé enginn í samræmi við ákvæði laganna.

 

2.

Niðurstaða

Sjálfstætt starfandi einstaklingar eru tryggðir samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar þegar þeir verða atvinnulausir skv. 1. gr., sbr. b-lið 3. gr. laganna. Í IV. kafla laganna er fjallað um skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum sjálfstætt starfandi einstaklinga. Samkvæmt h-lið 1. mgr. 18. gr. laganna telst sjálfstætt starfandi einstaklingur tryggður samkvæmt lögunum ef hann hefur staðið skil á greiðslu tryggingagjalds og staðgreiðsluskatts af reiknuðu endurgjaldi samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda við stöðvun rekstrar. Í 4. mgr. 19. gr. laganna segir að til að finna vinnuframlag sjálfstætt starfandi einstaklinga á ávinnslutímabili skv. 1. og 2. mgr. lagagreinarinnar skuli taka mið af skrám skattyfirvalda, sbr. einnig h-lið 1. mgr. 18. gr.

Samkvæmt yfirliti úr staðgreiðsluskrá voru engin opinber gjöld greidd vegna kæranda árin 2007 og 2008. Ódagsettur launaseðill og skilagrein staðgreiðslu af launum sem kærandi lagði fram 3. mars 2009 breytir engu hér um. Með því er staðfest að kærandi stóð ekki skil á greiðslu tryggingagjalds og staðgreiðsluskatts af reiknuðu endurgjaldi. Með vísan til 1. gr., h-liðar 1. mgr. 18. gr. og 4. mgr. 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar á kærandi ekki rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta og ber því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

 

Úr­skurðar­orð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 17. desember 2008 um synjun á bótarétti A er staðfest.

 

Brynhildur Georgsdóttir, for­maður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum