Hoppa yfir valmynd
20. apríl 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 39/2008

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 20. apríl 2009 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 39/2008.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 11. desember 2008, var kæranda, A, tilkynnt að réttur hans til atvinnuleysisbóta væri felldur niður í 40 daga, sem ella hefðu verið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir, frá móttöku umsóknarinnar. Ákvörðunin var byggð á 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi kærði niðurstöðu Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með bréfi mótteknu þann 18. desember 2008. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og hann fái greiddar atvinnuleysisbætur í 40 daga frá móttöku umsóknarinnar. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi starfaði sem bifreiðastjóri hjá X ehf. frá 17. mars 2008 þar til hann sagði þar upp störfum 1. október 2008. Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 31. október 2008. Í tölvupósti kæranda til Vinnumálastofnunar á Suðurnesjum, dags. 8. nóvember 2008, kemur fram að hann hafi ekið samkvæmt nokkurn veginn ákveðinni áætlun en síðan hafi verið bætt inn um hádegisbilið á virkum dögum ýmiss konar akstri með fötluð börn sem öll hafi sínar sérþarfir. Sem dæmi hafi tíu ára drengur stungið af einn daginn og hafi annar bílstjóri hlaupið hann uppi og síðan orðið að bera hann upp á aðra hæð vegna þess að drengurinn hafi ekki verið á því að fara í sjúkraþjálfun. Fjöldi barna í þessum ferðum sé breytilegur, frá 1–4 eða jafnvel fleiri, það sé enginn umsjónarmaður með börnunum, engar sérstakar kröfur séu gerðar til bílstjóranna varðandi þekkingu á skyndihjálp og þeir hafi ekki símanúmer þeirra sem börnin eru að koma frá eða fara til. Kærandi kveðst hafa lýst óánægju sinni með þennan akstur og þá hafi verið sagt við hann að hann gæti unnið annars staðar. Kærandi taldi sig ekki geta unnið við þessar aðstæður og treysti sér ekki til þess að bera þá ábyrgð sem fylgdi börnunum og hann hafi því sagt upp störfum. Af hans hálfu kemur einnig fram að hann hafi ekki þolinmæði, skap eða kunnáttu til að vera í akstri með börnin og aldrei hafi verið talað um þessa viðbót við annan akstur. Dagurinn sé langur fyrir, vinnudagurinn hefjist kl. 5.00 á morgnanna og standi til kl. 19.30, en yfirleitt sé hlé á milli kl. 10.00 og 12.00. Síðan sé aftur ekið á kvöldin milli 21.15 og 22.00. Kærandi tekur fram að bílstjóri sé alltaf ábyrgur fyrir farþegum í bíl sínum.

Í tölvupósti B fyrir hönd X ehf., dags. 2. desember 2008, til Vinnumálastofnunar, kemur fram að starf kæranda hafi ekki verið bundið við neitt ákveðið verkefni við ráðningu þó að aðalstarf hans hafi verið að aka starfsfólki til og frá S og annast strætisvagnaferðir í R. Honum hafi verið fyllilega kunnugt að starfsemi X væri mjög víðtæk og spanni almennar hópferðir, akstur með fatlaða á vegum sveitarfélaganna á T, strætisvagnaferðir, starfsmannaakstur og áhafna­akstur fyrir U. Honum hafi verið ljóst í upphafi að þó svo að ákveðin beinagrind væri í fyrirtækinu þá yrðu allir að ganga í öll störf. Fyrir nokkrum misserum hafi ferðaþjónusta fatlaðra „sprungið“ og hafi orðið að aka nokkrum einstaklingum í lausum tíma hjá kæranda og öðrum starfsmanni. Þeir hafi tekið þessum breytingum vel og séu þessir einstaklingar börn sem sé fylgt úr skóla inn í bíl og eigi bílstjórarnir að fullvissa sig um að þau komist til skila á sinn stað. Í einu tilfelli hafi sérkennari eins barnsins sem er með mikla hreyfiþörf verið annars hugar þegar barnið tók á rás og hafi kærandi tekið það upp á sitt einsdæmi að hlaupa barnið uppi. Honum hafi fundist sér misboðið við þá athöfn.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 9. febrúar 2009, kemur fram að óumdeilt sé að kærandi sagði upp starfi sínu hjá vinnuveitanda. Það sé því ljóst að líklegt sé að aðstæður kæranda eigi undir 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Vinnumálastofnun telji að ástæður þær sem kærandi hafi fært fram fyrir uppsögn starfs síns teljist ekki gildar í skilningi 1. mgr. 54. gr. laganna. Aukning á vinnuskyldum innan vinnutíma sem áður hafi ekki verið nýttur geti ekki talist óeðlileg enda segi í gögnum þeim sem stofnunin hafi undir höndum bæði frá kæranda og fyrrum vinnuveitanda að sá tími sem nýttur hafi verið í nýtt verkefni hafi áður verið „pása“ eða „hangs tími hjá honum og öðrum starfsmanni“. Óánægja kæranda með að í þessu nýja verkefni hafi falist hálfgerð gæsla eða að þeim bílstjórum sem þessu sinntu hafi ekki verið séð fyrir skyndihjálparnámskeiðum eða símanúmerum til að hringja í ef eitthvað kæmi upp á geti heldur ekki réttlætt uppsögn kæranda enda ætti að vera lítið mál að bæta úr þeim vandkvæðum í samstarfi verkkaupa og fyrrum vinnuveitanda sé nauðsyn og vilji til. Vangaveltur kæranda um mögulega ábyrgð hans kæmi eitthvað fyrir séu varla öðruvísi hvort sem hlutverk hans sé að keyra fullorðna eða fötluð börn þannig að ekki verði heldur talið að þau réttlæti uppsögn hans.

 

2.

Niðurstaða

Mál þetta lýtur að túlkun á 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en hún er svohljóðandi:

„Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að 40 dögum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem missir starf af ástæðum sem hann á sjálfur sök á.

Almenn lagarök mæla með því að ákvæði 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um niðurfellingu bótaréttar skuli fyrst og fremst beitt þegar viðkomandi einstaklingur segir starfi sínu lausu og sækir í kjölfar þess um atvinnuleysisbætur. Í skilningi 1. mgr. 54. gr. er orðalagið „gildar ástæður“ skýrt þröngt, sem þýðir í raun að fá tilvik falla þar undir.

Í athugasemdum við 1. mgr. 54. gr. í frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar segir að nefnd er fjallaði um efni laganna hafi tekið afstöðu til þess hvað gætu talist gildar ástæður og komist að þeirri niðurstöðu að það væri erfiðleikum bundið að takmarka slíkar ástæður í lögum og reglugerðum þar sem ástæður þess að fólk segi störfum sínum lausum eða missi þau geti verið af margvíslegum toga. Því sé lagt til að lagaregla þessi verði áfram matskennd og Vinnumálastofnun sé þar með falið að meta hvernig atvik og aðstæður þess máls er fyrir henni liggur falli að umræddri reglu. Stofnuninni beri því að líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða við ákvarðanir um hvort umsækjendur um atvinnuleysisbætur skuli sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Ágreiningur í máli þessu snýst um það hvort kærandi hafi haft gildar ástæður til þess að segja starfi sínu lausu. Kærandi tilgreinir nokkrar ástæður fyrir óánægju sinni í starfi, m.a. hafi verið bætt við akstri með fötluð börn en vinnutíminn hafi verið langur fyrir. Enginn umsjónarmaður hafi verið með börnunum, engar kröfur gerðar til bílstjóranna varðandi þekkingu á skyndihjálp og þeir hafi ekki fengið símanúmer þeirra sem börnin koma frá eða fara til. Það kom fram í gögnum málsins að umræddum akstri var bætt inn í lausan tíma hjá bílstjórunum. Ekki verður séð að framangreindar ástæður geti talist gildar ástæður til uppsagnar á starfi, sérstaklega í ljósi þess að kærandi virðist lítið hafa reynt að stuðla að því að bætt yrði úr því sem hann var ósáttur við og þannig látið reyna á hvort færa mætti hlutina til betri vegar.

Af öllu framangreindu virtu verður ekki fallist á að kærandi hafi haft gildar ástæður til að segja starfi sínu lausu skv. 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar er því staðfest.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 3. desember 2008 um frestun á greiðslu atvinnuleysisbóta til A í 40 daga er staðfest.

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum