Hoppa yfir valmynd
1. apríl 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 40/2008

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 1. apríl 2009 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 40/2008.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 10. nóvember 2008, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum þann 3. nóvember 2008 fjallað um umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur frá 13. október 2008. Fallist var á umsókn kæranda en réttur hennar til atvinnuleysisbóta var felldur niður í 40 daga í upphafi bótatímabils með vísan til 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi mótteknu 18. desember 2008. Kærandi fer þess á leit að kæra hennar verði tekin til greina og að ákvörðun um að hún þurfi að sæta 40 daga biðtíma verði ógilt. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi starfaði sem almennur starfsmaður hjá X hf. frá 1. september 2007 til 31. maí 2008. Hún sagði sjálf upp störfum, en henni og atvinnuveitanda ber ekki saman um ástæður uppsagnarinnar. Í bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 3. nóvember 2008, er rakið efni símtals starfsmanns stofnunarinnar við starfsmannastjóra X hf., B. Haft er eftir starfsmannastjóranum að hann hafi viðurkennt að nýráðinn framkvæmdastjóri fyrirtækisins hafi fyrir mistök sett kæranda á rangan launataxta þannig að hún hafi um tíma verið á of lágum launum. Þegar þetta hafi komið í ljós hafi það verið leiðrétt og haldinn fundur með kæranda. Hún hafi enn verið óánægð þrátt fyrir leiðréttinguna og þegar málið hafi verið betur skoðað hafi virst sem kastast hefði í kekki milli hennar og samstarfskonu hennar. Þrátt fyrir tilraunir til sátta hafi ekki verið hægt að leysa þennan samskiptavanda.

Af hálfu kæranda kemur fram að eftir að hún hafði starfað hjá X hf. í sjö mánuði hafi hún komist að því að hún hafi verið svikin um hluta launagreiðslna allan starfstíma sinn hjá fyrirtækinu. Í kjölfarið hafi hún átt viðræður við samstarfsmenn og yfirmenn sína og þótt ljóst að ekkert traust hafi lengur verið til staðar milli hennar og fyrirtækisins. Hafi því verið brostnar forsendur fyrir áframhaldandi störfum hennar þar. Kærandi vekur athygli á því að hún hætti hjá X hf. í maí 2008 og sé því liðinn lengri tími frá starfslokum en 40 daga biðtíminn sem X. kafli laga um atvinnuleysistryggingar gerir ráð fyrir. Í bréfi kæranda til Vinnumálastofnunar, dags. 20. nóvember 2008, áréttar kærandi að ekki hafi verið um ágreining að ræða milli hennar og vinnuveitanda um launakjör, vinnutíma eða aðstæður á vinnustað, heldur hafi verið um trúnaðarbrest að ræða milli starfsmanns og fyrirtækis í kjölfar þess að fyrirtækið hafi með ósiðlegum og hugsanlega saknæmum hætti svikið hana um launagreiðslur. Í kæru kæranda til úrskurðarnefndarinnar, dags. 9. desember 2008, segir að hún hafi setið fund með yfirmanni og samstarfsmönnum sínum um úrlausn máls þessa. Hafi niðurstaða fundarins verið sú að brostnar forsendur væru fyrir áframhaldandi störfum hennar og að ekki hafi komið fram ásættanleg lausn í málinu. Hún hafi orðið fyrir miklu áfalli að komast að öllum smáatriðum þeirra svika sem hún mátti þola. Hafi því legið að baki uppsögninni bæði gildar lagalegar ástæður og einnig fullgildar persónulegar ástæður. Með hliðsjón af framburði sínum, ákvæðum laga, almennum túlkunarreglum, sjónarmiðum í vinnumarkaðsrétti, skyldum atvinnurekanda og starfsmanna og málsatvikum verði að telja að kærandi hafi haft fullgildar ástæður í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar til þess að segja starfi sínu hjá X hf. lausu og eigi því ekki að sæta 40 daga biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Í athugasemdum Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 18. febrúar 2009, kemur meðal annars fram að deilt sé um hvort ástæða uppsagnar kæranda teljist gild ástæða í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Það sé óumdeilt að kærandi hafi sagt upp starfi sínu hjá vinnuveitanda. Það sé því ljóst að líklegt sé að aðstæður kæranda eigi undir 1. mgr. 54. gr. laganna, en þó beri að meta hvort ástæður hennar teljist gildar. Ekki komi fram af hálfu kæranda í bréfi hennar til stofnunarinnar, dags. 30. október 2008, um hversu háar fjárhæðir sé að ræða sem vinnuveitandi vanrækti að greiða kæranda. Ætla megi að það skipti máli þegar starfsmaður ákveður að segja upp starfi sínu. Beri að veita því athygli að svo virðist sem kærandi hafi ekki tekið eftir þessum skertu launagreiðslum um allt að sjö mánaða skeið áður en hún greip til aðgerða. Þar sem þessar launagreiðslur voru síðar leiðréttar, sem óumdeilt er, þyki djúpt tekið í árinni hjá kæranda þegar orð eins og óheiðarleiki og svik eru látin falla í kæru til úrskurðarnefndarinnar. Fyrrverandi vinnuveitandi kæranda haldi því fram að misbrestur hafi orðið á launagreiðslum vegna vanþekkingar nýráðins framkvæmdastjóra og þær greiðslur sem upp á vantaði hafi verið leiðréttar um leið og kvörtun hafi borist frá kæranda.

Fram kemur að Vinnumálastofnun telji að kæranda hefði verið í lófa lagið að koma að nánari gögnum um þær upphæðir sem vinnuveitandi greiddi henni ekki á réttum tíma til að renna frekari stoðum undir þá fullyrðingu sína að uppsögn hennar sé eingöngu byggð á þeirri misfærslu sem orðið hafði á launagreiðslum. Í kæru kæranda til úrskurðarnefndar megi einnig sjá merki um slæmt samstarf kæranda og annarra samstarfsmanna enda virðist kærandi endanlega hafa ákveðið að segja upp að loknum fundi með yfirmanni og samstarfsmönnum. Af því megi ráða að eitthvað meira hafi valdið uppsögninni heldur en eingöngu vanefndir á launagreiðslum enda vandséð hvaða erindi aðrir samstarfsmenn hefðu átt á fund sem eingöngu snerist um slíkt mál. Hljóti því aðrar ástæður einnig að liggja að baki uppsögn kæranda en ágreiningur um greiðslu launa.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 24. febrúar 2009, sent afrit af athugasemdum Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 10. mars 2009. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Mál þetta lýtur að túlkun á 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sem er svohljóðandi:

 

Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að 40 dögum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem missir starf af ástæðum sem hann á sjálfur sök á.“

 

Ágreiningur málsins snýst um það hvort ástæður kæranda fyrir uppsögn á starfi sínu teljist gildar ástæður í skilningi framangreinds ákvæðis. Kærandi starfaði hjá X hf. frá 1. september 2007 til 31. maí 2008. Ágreiningslaust er að fyrstu sjö mánuði starfsins voru kæranda greidd of lág laun. Kærandi og vinnuveitandi eru ósammála um ástæður þessa launamunar, kærandi kveður launamuninn tilkominn vegna óheiðarleika og svika af hálfu starfsmanns en starfsmannastjóri fyrirtækisins segir þetta hafa verið fyrir mistök. Kæranda var síðan greiddur umræddur launamunur.

Í greinargerð með ákvæði 1. mgr. 54. gr. laganna er tekið fram að það skuli metið í hverju tilviki fyrir sig hvort ástæður uppsagnar starfsmanns teljist vera gildar ástæður. Líta beri til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða við slíkt mat. Í ljósi þess að um íþyngjandi ákvörðun sé að ræða skuli gerðar ríkar kröfur um að þegar ákvarðanir um biðtíma séu teknar liggi fyrir hvaða ástæður lágu raunverulega að baki því að launamaður sagði upp starfi sínu án þess að hafa annað starf í hendi.

Óumdeilt er í málinu að þau laun sem voru vangreidd samkvæmt réttindum kæranda voru greidd þegar kærandi gerði athugasemdir. Því er ekki fallist á að kærandi hafi haft gilda ástæðu til uppsagnar á þessum forsendum. Ekki hefur verið sýnt fram á að kærandi hafi haft aðrar gildar ástæður fyrir uppsögn sinni. Hin kærða ákvörðun er staðfest.

 

Úr­skurðar­orð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 3. nóvember 2008 um niðurfellingu bótaréttar A í 40 daga er staðfest.

 

Brynhildur Georgsdóttir for­maður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum