Hoppa yfir valmynd
11. desember 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 18/2008

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 11. desember 2008 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli nr. 18/2008.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 1. ágúst 2008, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum þann 30. júlí 2008 fjallað um umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur frá 5. júní 2008. Fallist var á umsókn kæranda en réttur hans til atvinnuleysisbóta var felldur niður í 40 daga í upphafi bótatímabils með vísan til 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi sem var ódagsett, en móttekið 8. ágúst 2008. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og hann fái greiddar atvinnuleysisbætur í 40 daga frá og með 5. júní 2008. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi starfaði sem lagermaður hjá X hf. frá því í apríl 2007 þar til honum var sagt upp störfum. Uppsögnin tók gildi 29. maí 2008. Með umsókn, dags. 5. júní 2008, sótti kærandi um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun. Samkvæmt vinnuveitendavottorði, dags. 26. júní 2008, var kæranda sagt upp en ástæður uppsagnarinnar voru þar ekki tilgreindar. Starfsmaður Vinnumálastofnunar hafði símasamband við vinnuveitanda kæranda og fékk þær upplýsingar að honum hefði verið sagt upp vegna þess að hann mætti illa til vinnu, skilaði sér ekki á réttum tíma og hafi að þeirra mati verið mikið frá vinnu vegna veikinda. Minnisblað starfsmannsins um símtalið er dagsett 26. júní 2008.

Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 26. júní 2008, var kæranda tilkynnt að afgreiðslu á umsókn hans hafi verið frestað vegna upplýsinga um starfslok sem fram kæmu á vottorði vinnuveitanda. Fram kom í bréfinu að líkur væru á að kærandi ætti ekki rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en að loknum biðtíma, sbr. X. kafla laga um atvinnuleysistryggingar.

Í tölvupósti kæranda til Vinnumálastofnunar, dags. 1. júlí 2008, andmælti hann því að hann hafi algjörlega valdið því að honum hafi verið sagt upp starfi hjá X. Eins og fram kæmi í læknisvottorði, sem fylgdi andmælabréfinu, væri hann veikur í baki og gæti illa stundað vinnu sem innihéldi miklar og þungar lyftingar eins og við lagerstörf. Það hafi haft áhrif á mætingu kæranda vegna svefnraskana og stöðugs sársauka. Þá segir orðrétt í andmælabréfi kæranda: „Þó svo að líkur megi leiða að því að einhverju leyti hafi ég haft áhrif á þess uppsögn mína vegna þunglyndis og lítillar starfsgleði sökum þessara þátta þá hygg ég að þetta sé aðal ástæða þessarar uppsagnar enda útskýri þetta dræma mætingu mína og litla getu mína til þess að halda góðri mætingu sökum svefnraskana og krónískra verkja.“

Meðal gagna málsins er læknisvottorð B, læknis, dagsett 27. júní 2008. Þar kemur fram að kærandi sé ekki fær um að sinna líkamlega erfiðum störfum sem reyna mikið á bakið í kjölfar slyss.

Á ódagsettu og óundirrituðu upplýsingablaði starfsmanns Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi verið valdur að uppsögn og beri því að fresta greiðslu atvinnuleysisbóta um 40 daga. Á óundirrituðu minnisblaði en dagsettu 28. júlí 2008 kemur fram að starfsmaður Vinnumálastofnunar hafði símasamband við lagerstjóra X þann dag. Fram kom í máli lagerstjórans að starf kæranda og annarra á lagernum hafi ekki verið líkamlega erfitt enda nútíma léttitæki þannig gerð úr garði að vinnan verður auðveld. Kærandi hafi fengið mörg tækifæri en iðulega borið við bakveiki sem enginn á starfsstaðnum hafi skynjað að væri til staðar. Í öllu falli hafi slík bakveiki ekki réttlætt hinar miklu fjarvistir kæranda.

Með bréfi Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 1. ágúst 2008, var honum tilkynnt að stofnunin hefði á fundi sínum 30. júlí 2008 tekið hina kærðu ákvörðun og að hún væri reist á 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi kærði þessa ákvörðun með kæru sem var móttekin 8. ágúst 2008. Með kærunni fylgdu engar skýringar heldur eingöngu umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur og áðurnefnt læknisvottorð. Úrskurðarnefndin óskaði eftir athugasemdum Vinnumálastofnunar með bréfi, dags. 14. ágúst 2008.

Í athugasemdum Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndarinnar, dags. 28. október 2008, kemur meðal annars fram að kæranda hafi verið sagt upp störfum hjá X þar sem hann hafi mætt illa, ekki skilað sér á réttum tíma og hafi verið mikið frá vinnu vegna veikinda. Með vísan til þess megi rekja uppsögnina til ástæðna sem hann sjálfur eigi sök á. Umsókn kæranda hafi því verið samþykkt en með vísan til ástæðna uppsagnarinnar hafi bótaréttur hans verið felldur niður í 40 daga, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar hans um atvinnuleysisbætur á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 29. október 2008, sent afrit af gögnum og athugasemdum Vinnumálastofnunar um málið og gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum fyrir 12. nóvember 2008. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Mál þetta lýtur að túlkun á 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sem er svohljóðandi:

Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að 40 dögum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem missir starf af ástæðum sem hann á sjálfur sök á.“

Ágreiningur málsins snýst um það hvort kærandi hafi misst starf sitt af ástæðum sem hann sjálfur átti sök á. Við mat á því ber að líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða, sbr. athugasemdir um ofangreint ákvæði í frumvarpi því sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar. Jafnframt verður að hafa í huga að ákvörðun um frestun greiðslu í 40 bótadaga er íþyngjandi í garð umsækjanda um atvinnuleysisbætur.

Í vinnurétti gilda almennar reglur um skyldur vinnuveitenda og launþega. Ein frumskylda launþega er að mæta í vinnuna og sinna starfi sínu. Verði misbrestur á slíku öðlast vinnuveitandi heimildir til að segja launþega upp eða eftir atvikum að rifta ráðningarsamningi. Á hvorn veginn sem er ber vinnuveitanda skylda að tilkynna ráðningarslitin með sannanlegum hætti. Eftir atvikum getur slík tilkynning haft að geyma þýðingarmiklar upplýsingar um ástæður ráðningarslitanna. Í máli eins og þessu er æskilegt að Vinnumálastofnun afli sér afrits af uppsagnarbréfi eða afritum af öðrum gögnum sem til urðu þegar til ráðningarslitanna kom. Slík gögn geta verið mikilvæg ef ágreiningur er uppi um hvort umsækjandi atvinnuleysisbóta hafi sjálfur átt sök á uppsögn í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Samkvæmt tveimur símtölum sem starfsmenn Vinnumálastofnunar áttu við yfirmenn kæranda þá sinnti hann ekki starfsskyldum sínum. Með tölvubréfi kæranda, dags. 1. júlí 2008, kemur meðal annars fram að leiða megi líkur að því að hann hafi sjálfur átt sök á uppsögn sinni vegna þunglyndis og lítillar starfsgleði. Jafnframt telur hann líklegt að aðalástæða uppsagnar hafi verið dræm mæting hans sem hann rekur til svefnraskana og verkja.

Framlagt læknisvottorð er dagsett eftir að kæranda var sagt upp störfum og í því kemur fram að kærandi geti ekki sinnt líkamlega erfiðum störfum sem reyna mikið á bakið. Fram hefur komið að starf kæranda var ekki líkamlega erfitt. Sönnunargildi læknisvottorðsins er því takmarkað og hefur ekki úrslitaþýðingu í máli þessu.

Nægjanlega er í ljós leitt að kærandi mætti illa í vinnu og sinnti illa starfsskyldum sínum. Því verður talið að kærandi hafi sjálfur átt sök á því að honum var sagt upp störfum og vega upplýsingar frá honum sjálfum þungt við mat á því. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

 

Úr­skurðar­orð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 18. júlí 2008 um niðurfellingu bótaréttar A í 40 daga er staðfest.

 

Brynhildur Georgsdóttir for­maður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum