Hoppa yfir valmynd
12. september 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 2/2008

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 12. september 2008 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli nr. 2/2008.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að Vinnumálastofnun á Norðurlandi vestra samþykkti þann 18. desember 2007 umsókn kæranda, A, mótt. 22. nóvember 2007, um atvinnuleysisbætur. Réttur kæranda til atvinnuleysisbóta var hins vegar felldur niður í 40 daga í upphafi bótatímabils með vísan til 1. mgr. 55. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar á þeim grundvelli að hann hafi hætt námi án gildra ástæðna þann 6. september 2007. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi dags. 18. janúar 2008.

Síðasta starfi kæranda lauk 20. ágúst 2007 og í framhaldi af því var hann skráður til náms við framhaldsskólann X tímabilið 22. ágúst til 6. september 2007 þegar hann sagði sig úr námi. Í bréfi Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 4. desember 2007, var upplýst að afgreiðslu umsóknar hans hafi verið frestað þar sem líkur væru á að hann ætti ekki rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en að loknum 40 daga eða eftir atvikum 60 daga biðtíma, sbr. 55. gr. laga nr. 54/2006. Kæranda var veittur sjö daga frestur til að koma að skýringum og andmælum vegna væntanlegrar ákvörðunar Vinnumálastofnunar um frestun. Engar athugasemdir bárust frá kæranda innan frestsins og var hin kærða ákvörðun þá tekin og kynnt kæranda með bréfi dags. 20. desember 2007.

Kærunni til úrskurðarnefndarinnar fylgdi læknisvottorð B geðlæknis, dags. 14. janúar 2008. Þar kemur fram að kærandi hafi verið óvinnufær með öllu vegna sjúkdóms frá 20. ágúst 2007 til 7. nóvember 2007. Starfsmaður úrskurðarnefndarinnar hafði símasamband bæði við kæranda og B geðlækni þann 25. júní 2008. Kærandi kvaðst hafa verið greindur með geðrof fljótlega eftir að hann sagði sig úr námi og hann kvað geðlækni sinn telja að ástæða námslokanna hafi verið sjúkdómsástand hans. Kærandi kvaðst hafa verið á geðdeild sjúkrahússins Y í nokkrar vikur fljótlega eftir að hann hætti í námi. Að sögn B geðlæknis hafði kærandi enga einbeitingu vegna geðrænna veikinda sinna og ofmat sig þegar hann skráði sig í nám. Geðlæknirinn sagði manninn hafa verið mjög veikan og staðfesti að hann hefði legið inni á geðdeild sjúkrahússins Y síðastliðið haust.

Úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða gaf Vinnumála­stofnun kost á að tjá sig um efni málsins með bréfi, dags. 24. janúar 2008, en engin svör bárust. Í ljósi þeirra upplýsinga sem aflað var með samtölum við kæranda og geðlækni hans þann 25. júní 2008 var Vinnumálastofnun að nýju gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum með bréfi, dags. 7. júlí 2008, og var veittur frestur til 21. júlí 2008. Engin svör bárust frá Vinnumálastofnun.


2.

Niðurstaða

Ákvæði 1. mgr. 55. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar fjallar um þau atvik er námi er hætt án gildra ástæðna. Í 1. mgr. 55. gr. segir eftirfarandi:

„Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur hætt námi, sbr. c-lið 3. gr., án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að 40 dögum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur. Staðfesting frá viðkomandi skóla um að námi hafi verið hætt skal fylgja umsókninni.“

Kærandi hætti í námi 6. september 2007 og sótti um atvinnuleysisbætur 22. nóvember 2007. Umsóknin var samþykkt en bótagreiðslum var frestað í 40 daga vegna þess að kærandi var talinn hafa hætt námi án gildra ástæðna. Engir annmarkar voru á málsmeðferð Vinnumálastofnunar áður en hin kærða ákvörðun var tekin.

Enginn rökstuðningur kom fram í kærunni en henni fylgdi vottorð geðlæknis, dags. 14. janúar 2008, þar sem sagði að kærandi hafi verið óvinnufær með öllu frá 20. ágúst 2007 til 7. nóvember 2007. Samkvæmt upplýsingum sem aflað var símleiðis þann 25. júní 2008 hjá kæranda og geðlækni hans var kærandi alvarlega veikur haustið 2007 og ófær um að stunda nám.

Telja verður í ljós leitt að kærandi hafi hætt námi vegna veikinda og leiða má líkur að því að eðli veikindanna hafi stuðlað að því að hann lagði ekki fyrr fram læknisvottorð um sjúkdómsástand sitt. Kærandi telst því hafa hætt námi af gildum ástæðum og skilyrði 1. mgr. 55. gr. laga nr. 54/2006 fyrir niðurfellingu bóta eru ekki uppfyllt.

Með vísan til framanritaðs ber að fella úr gildi þann þátt ákvörðunar Vinnumálastofnunar á Norðurlandi vestra að fella niður bótarétt kæranda í 40 daga.

 

Úr­skurðar­orð

 Sá þáttur ákvörðunar Vinnumálastofnunar á Norðurlandi vestra frá 18. desember 2007 að fella niður bótarétt A í 40 daga er felldur úr gildi. Kærandi á rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta í 40 daga frá móttöku umsóknar hans um atvinnuleysisbætur þann 22. nóvember 2007.

 

 Brynhildur Georgsdóttir, for­maður

 Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum