Hoppa yfir valmynd
29. október 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 13/2008

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 29. október 2008 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli nr. 13/2008.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að kærandi, A, fékk greiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu 11. ágúst 2006 til 7. júlí 2008. Við upphaf töku atvinnuleysisbóta lagði kærandi skattkort sitt inn hjá Verzlunarmannafélagi Reykjavíkur, sem þá annaðist útborgun atvinnuleysisbóta. Þegar kærandi fékk 50% atvinnu í lok ársins 2006 skilaði hún skattkorti sínu til nýs vinnuveitanda og nýtti það framvegis að fullu þar. Í mars síðastliðnum komst kærandi að því að engin staðgreiðsla hafði verið dregin af atvinnuleysisbótum hennar á árinu 2007 og 2008 þar sem láðst hafði að skrá skattkort hennar úr greiðslukerfi atvinnuleysisbóta. Af þessum sökum hafði hún nýtt meira af skattkortinu en réttur henni leyfði og skuldaði því útsvar og tekjuskatt vegna atvinnuleysisbótanna. Kærandi gerir þá kröfu að vegna mistaka við umsýslu skattkorts hennar hjá Vinnumálastofnun taki stofnunin á sig skattskuld hennar sem við ritun kærunnar var 180.000 kr. Vinnumálastofnun krefst þess að kærunni verði vísað frá þar sem engin stjórnvaldsákvörðun liggi fyrir af hálfu Vinnumálastofnunar.

Kærandi fékk greiddar atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun tímabilin 11. ágúst 2006 til 1. júní 2007, 18. júní til 11. júlí 2007, 24. júlí til 18. september 2007 og 27. september 2007 til 7. júlí 2008. Þann 21. ágúst 2006 lagði kærandi inn skattkort sitt hjá Verzlunarmannafélagi Reykjavíkur (VR) sem þá annaðist útborgun atvinnuleysisbóta og umsýslu skattkorta á grundvelli þjónustusamnings við Vinnumálastofnun. Greiðslustofa Vinnumálastofnunar tók við útborgun atvinnuleysisbóta þann 1. apríl 2007 og um leið fluttist umsýsla skattkorta þangað. Í desember 2006 fékk kærandi 50% vinnu hjá X og í framhaldinu sótti hún skattkort sitt til VR og afhenti nýjum vinnuveitanda. Við gerð skattskýrslu í lok mars síðastliðnum tók kærandi eftir því að á launamiða frá Vinnumálastofnun var engin afdregin staðgreiðsla. Þegar kærandi leitaði skýringa á þessu kom í ljós að láðst hafði að skrá skattkortið út úr greiðslukerfi atvinnuleysisbóta í lok ársins 2006 og því hafði það verið nýtt við greiðslur atvinnuleysisbóta allan tímann sem hún hafði fengið greiddar atvinnuleysisbætur. Þann 19. mars sl. var skattkort kæranda skráð út úr greiðslukerfi atvinnuleysisbóta.

Vegna framangreindra mistaka hafði kærandi nýtt meira af skattkorti sínu en réttur hennar leyfði og því hafði myndast skuld hjá skattayfirvöldum vegna vangoldins útsvars og tekjuskatts. Við ritun kæru kæranda var skuldin að fjárhæð 180.000 kr. Kærandi leitaði til skattyfirvalda og óskaði eftir niðurfellingu skuldarinnar vegna þeirra mistaka er lágu að baki skuldinni. Beiðninni var synjað.

Þann 23. júní 2008 barst úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða kæra frá kæranda. Í kærunni gerir kærandi þá kröfu að vegna mistaka Vinnumálastofnunar taki stofnunin á sig skattskuld hennar vegna áranna 2007 og 2008.

Þann 6. ágúst 2008 barst úrskurðarnefndinni umsögn Vinnumálastofnunar vegna kæru kæranda. Í umsögninni er tekið fram að óumdeilt sé að atvik voru með þeim hætti sem lýst er í kæru kæranda og reifað er hér að framan. Hins vegar liggi engin ákvörðun fyrir af hálfu Vinnumálastofnunar og ákvörðun á fyrra stjórnsýslustigi liggi því ekki fyrir. Kæruheimild sé því ekki fyrir hendi þar sem kæruheimild til æðra stjórnvalds stofnist ekki fyrr en stjórnvaldsákvörðun liggur fyrir skv. 26. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

2.

Niðurstaða

Deilumál það sem hér er til umfjöllunar lýtur að meintri skuld kæranda við skattayfirvöld sem er tilkomin vegna þess að skattkort hennar var ofnýtt á tilteknu tímabili. Kærandi telur að Vinnumálastofnun beri ábyrgð á skuldinni og beri að endurgreiða sér fjárhæð hennar. Þessi krafa kæranda er ekki reist á lögum um atvinnuleysistryggingar eða lögum um vinnumarkaðsaðgerðir.

Hlutverk úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða er að kveða upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, og laga um vinnumarkaðsaðgerðir, nr. 55/2006, sbr. 2. mgr. 11. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og 9. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir. Nefndin hefur því ekki vald til að taka kröfu kæranda til efnislegrar meðferðar, þ.e. um valdþurrð er að ræða. Þá verður ekki séð að Vinnumálastofnun hafi tekið stjórnvaldsákvörðun í máli þessu í skilningi 1. ml. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.

Af framangreindum ástæðum er óhjákvæmilegt að vísa þessu máli frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða. Kjósi kærandi að leita réttar síns vegna þessa máls getur hún leitað til réttra stjórnvalda og eftir atvikum til dómstóla.

Úr­skurðar­orð

Kæru A er vísað frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.

Brynhildur Georgsdóttir, for­maður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum