Hoppa yfir valmynd
1. júlí 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 3/2008

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 1. júlí 2008 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli nr. 3/2008.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 29. janúar 2008, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hefði, hinn 28. janúar 2008, fjallað um umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur frá 16. janúar 2008. Réttur kæranda til atvinnuleysisbóta var hins vegar felldur niður í 40 daga í upphafi bótatímabils með vísan til 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar á þeim grundvelli að kærandi hafi sagt upp starfi sínu hjá X ehf. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með ódagsettu erindi, mótteknu 7. febrúar 2008.

Í erindi kæranda kemur fram að hann kæri þá ákvörðun Vinnumálastofnunar að fella niður rétt hans í 40 daga í upphafi bótatímabils. Hann telji að á honum hafi verið brotið í vinnunni hjá X ehf. og honum bolað þaðan burt. Samningur hans sem aðeins var til þriggja mánaða hafi runnið út, hann hafi ekki fengið greitt í uppsagnarfresti og hafi ekki haft tekjur síðan í nóvember 2007. Fjárhagsleg staða hans hafi því verið slæm en hann hafi þó ekki sótt um atvinnuleysisbætur fyrr þar sem honum hafi verið lofað atvinnu sem hann hafi síðan verið svikinn um. Í bréfi, dags. 16. janúar 2008, kemur fram að kærandi telji sig hafa verið lagðan í einelti á vinnustaðnum og hann hafi ekki getað unað því og sagt upp störfum af þeim sökum.

Á upplýsingablaði Vinnumálastofnunar kemur fram að samkvæmt símtali starfsmanna stofnunarinnar við verkstjóra kæranda hafi ástæða starfsloka verið sú að kærandi hafi verið ósáttur við mann sem hann vann með daginn sem hann sagði upp störfum. Kærandi hafi komið til verkstjórans, sagst vera hættur störfum og síðan gengið út. Ekki hafi gefist tækifæri til þess að setja mennina tvo á hvorn sinn bílinn, sem hefði verið hægur vandi þar sem hjá fyrirtækinu voru 11 bílar. Kærandi hafi verið ónógur sjálfum sér og hafi ekki fundið sig í þessu starfi.

Það er mat Vinnumálastofnunar að kærandi hafi sjálfur tekið ákvörðun um uppsögn sína án gildra ástæðna og hafi því bótaréttur hans verið felldur niður í 40 bótadaga skv. 54. gr. laga nr. 54/2006.

Samkvæmt ráðningarsamningi, dags. 26. júlí 2007, var kærandi ráðinn sem bílstjóri hjá X ehf. tímabundið í þrjá mánuði frá 9. júlí til 9. október 2007. Í vinnuveitenda­vottorði frá fyrirtækinu, dags. 15. janúar 2008, segir að kærandi hafi verið þar starfsmaður frá 9. júlí til 22. október 2007. Ástæða starfsloka var sögð sú að kærandi hafi sagt upp sjálfur.

 

2.

Niðurstaða

Ákvæði 54. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, fjallar um þau atvik er starfi er sagt upp án gildra ástæðna. Í 1. og 2. mgr. 54. gr. segir eftirfarandi:

„Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að 40 dögum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem missir starf af ástæðum sem hann á sjálfur sök á.

Hinn tryggði skal uppfylla skilyrði laga þessara á biðtímanum skv. 1. mgr.“

Almenn lagarök mæla með því að ákvæði 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006 um niðurfellingu bótaréttar skuli fyrst og fremst beitt þegar viðkomandi einstaklingur segir starfi sínu lausu og sækir í kjölfar þess um atvinnuleysisbætur. Í skilningi 1. mgr. 54. gr. er orðalagið „gildar ástæður“ skýrt þröngt, sem þýðir í raun að fá tilvik falla þar undir.

Í athugasemdum við 1. mgr. 54. gr. í frumvarpi til laga nr. 54/2006 segir að nefnd er fjallaði um efni laganna hafi tekið afstöðu til þess hvað gætu talist gildar ástæður og komist að þeirri niðurstöðu að það væri erfiðleikum bundið að takmarka slíkar ástæður í lögum og reglugerðum þar sem ástæður þess að fólk segi störfum sínum lausum eða missi þau geti verið af margvíslegum toga. Því sé lagt til að lagaregla þessi verði áfram matskennd og Vinnumálastofnun sé þar með falið að meta hvernig atvik og aðstæður þess máls er fyrir henni liggur falli að umræddri reglu. Stofnuninni beri því að líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða við ákvarðanir um hvort umsækjendur um atvinnuleysisbætur skuli sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Ráðningarsamband kæranda og vinnuveitanda hans byggðist á tímabundnum samningi sem rann út 9. október 2007. Kærandi hélt áfram að mæta til vinnu eftir það tímamark. Líta verður svo á að þá hafi tekið við ótímabundinn ráðningarsamningur sem kærandi hafi slitið 22. október 2007 með því að ganga út af vinnustað og hætta að mæta til vinnu. Kærandi telur að ástæða uppsagnar sinnar hafi verið ósamkomulag og einelti á vinnustað. Af hálfu vinnuveitanda kemur fram að kærandi hafi átt við einhverja erfiðleika að etja en hægt hefði verið að bregðast við þeim og leysa þá. Hins vegar hafi ekki gefist færi á því þar sem kærandi gekk út af vinnustaðnum. Kærandi hefur ekki mótmælt þessum staðhæfingum vinnuveitandans. Það er mat úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta að kærandi hafi ekki sýnt fram á að ástæður þær sem hann hefur fært fyrir uppsögn sinni 22. október 2007 séu gildar í skilningi 54. gr. laga nr. 54/2006.

Með vísan til framanritaðs er ákvörðun Vinnumálastofnunar um niðurfellingu bótaréttar kæranda í 40 daga staðfest.

 

Úr­skurðar­orð

Staðfest er ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 28. janúar 2008 um niðurfellingu bótaréttar A í 40 bótadaga.

 

Brynhildur Georgsdóttir, for­maður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum