Hoppa yfir valmynd
9. desember 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 59/2015

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 101 Reykjavík

                                                              

Miðvikudaginn 9. desember 2015 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 59/2015:

 

Kæra A

á ákvörðun

Kópavogsbæjar

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

B hefur, f.h. A, með kæru, dags. 20. október 2015, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála ákvörðun Kópavogsbæjar, dags. 7. október 2015, um synjun á umsókn hans um ferðaþjónustu.

 

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi í máli þessu er x árs gamall maður og býr á hjúkrunarheimili þar sem hann nýtur aðstoðar og umönnunar á grundvelli laga nr. 125/1999 um málefni aldraðra. Með umsókn, dags. 17. ágúst 2015, sótti kærandi um ferðaþjónustu hjá Kópavogsbæ sem hann myndi nýta til heimferða. Umsókn kæranda var synjað með bréfi Kópavogsbæjar, dags. 27. ágúst 2015, á þeirri forsendu að hann væri búsettur á hjúkrunarheimili, sbr. 7. gr. reglna um akstursþjónustu fyrir eldri borgara í Kópavogi. Kærandi áfrýjaði synjuninni til félagsmálaráðs Kópavogs sem tók málið fyrir á fundi sínum þann 5. október 2015 og staðfesti fyrri niðurstöðu.

Niðurstaða félagsmálaráðs var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 7. október 2015. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála 21. október 2015. Með bréfi, dags. 28. október 2015, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir greinargerð Kópavogsbæjar vegna kærunnar þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir synjun á umsókn kæranda. Greinargerð Kópavogsbæjar barst með bréfi, dags. 3. nóvember 2015. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 10. nóvember 2015, var bréf Kópavogsbæjar sent kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.


II. Málsástæður kæranda

Kærandi tekur fram að hann hafi mjög gaman af því að skreppa heim til eiginkonu sinnar, en nú sé það ekki fært nema með miklum tilkostnaði þar sem ekki sé boðið upp á niðurgreidda þjónustu. Slík þjónusta sé veitt í næstu bæjarfélögum, meðal annars Garðabæ þar sem þau hjónin hafi verið búsett en þau hefðu ekki flutt úr Garðabæ ef þau hefðu haft vitneskju um þessa skerðingu. Kærandi bendir á að þetta sé mikil skerðing fyrir þau hjónin og telur að á þeim báðum sé brotið.

 

III. Sjónarmið Kópavogsbæjar

Í greinargerð sveitarfélagsins er vísað til þess að synjun á umsókn kæranda um ferðaþjónustu væri byggð á 7. gr. reglna um ferðaþjónustu fyrir eldri borgara í Kópavogi. Þar komi fram að reglurnar gildi ekki um akstursþjónustu fyrir aldraða sem væru á stofnunum, svo sem hjúkrunarheimilum, og þurfi að leita þjónustu utan stofnunarinnar, svo sem sérfræðilæknishjálpar, rannsókna- og sjúkraþjálfunar, sbr. ákvæði 14. gr. laga nr. 125/1999 um málefni aldraðra. Kærandi væri búsettur á hjúkrunarheimili og uppfylli því ekki skilyrði til þess að fá akstursþjónustu frá sveitarfélaginu. Þá tekur Kópavogsbær fram að markmið með akstursþjónustu eldri borgara í sveitarfélaginu sé að gera íbúum kleift að búa heima sem lengst við sem eðlilegastar aðstæður, sbr. 1. gr. reglnanna.

 

IV. Niðurstaða

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Fyrir nefndinni liggja reglur um akstursþjónustu fyrir eldri borgara í Kópavogi frá 28. janúar 2014. Í máli þessu er ágreiningur um hvort Kópavogsbæ hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um ferðaþjónustu.

Lög nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga eru rammalög sem gilda við hlið sérlaga, svo sem laga nr. 125/1999 um málefni aldraðra, auk þess sem sveitarfélög setja sér sjálf reglur á þessu sviði. Í 41. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga kemur fram að aldraðir eigi rétt á almennri þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum en að öðru leyti fari um málefni þeirra eftir sérlögum um málefni aldraðra. Í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga er hvorki kveðið sérstaklega á um ferðaþjónustu né ferlimál íbúa sveitarfélags. Þarf því að líta til sérlaga um málefni aldraðra hvað það varðar.

Markmið laga um málefni aldraðra er að aldraðir eigi völ á þeirri heilbrigðis- og félagslegu þjónustu sem þeir þurfa á að halda og að hún sé veitt á því þjónustustigi sem er eðlilegast, miðað við þörf og ástand hins aldraða. Við framkvæmd laganna skuli þess gætt að aldraðir njóti jafnréttis á við aðra þjóðfélagsþegna og að sjálfsákvörðunarréttur þeirra sé virtur. Kærandi í máli þessu er búsettur á hjúkrunarheimili en samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 125/1999 skal veitt hjúkrunar- og læknisþjónusta á slíkum stofnunum svo og endurhæfing. Þjónusta skuli byggð á einstaklingsbundnu mati á heilsufarslegum og félagslegum þörfum hins aldraða. Samkvæmt framangreindu verður ekki séð að hjúkrunarheimilum sé skylt að veita íbúum þess ferðaþjónustu.

Lög nr. 40/1991 veita sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Kópavogsbær hefur sett sér reglur um akstursþjónustu fyrir eldri borgara í sveitarfélaginu, en samkvæmt 1. mgr. 1. gr. reglnanna er markmið akstursþjónustunnar að gera íbúum kleift að búa heima sem lengst við sem eðlilegastar aðstæður. Þá kemur fram í 2. mgr. 1. gr. reglnanna að akstursþjónusta eldri borgara sé fyrir þá íbúa Kópavogsbæjar sem eru 67 ára eða eldri og búa í heimahúsi. Í 7. gr. reglnanna segir að reglurnar gildi ekki um akstursþjónustu fyrir aldraða sem eru á stofnunum, svo sem hjúkrunarheimilum, og þurfi að leita þjónustu utan stofnunarinnar, svo sem sérfræðilæknishjálpar, rannsókna- og sjúkraþjálfunar. Ferðaþjónustu Kópavogsbæjar er því samkvæmt framangreindu ekki ætlað að aka þeim sem dvelja á hjúkrunarheimilum eins og kærandi gerir.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið verður ekki séð að synjun Kópavogsbæjar á umsókn kæranda um ferðaþjónustu hafi verið andstæð þeim reglum sem um það gilda og verður hin kærða ákvörðun því staðfest.

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Arnar Kristinsson og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Ákvörðun Kópavogsbæjar, dags. 7. október 2015, um synjun á umsókn A um ferðaþjónustu er staðfest.

 

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Arnar Kristinsson

Gunnar Eydal

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum