Hoppa yfir valmynd
25. nóvember 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 50/2015

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 101 Reykjavík


Miðvikudaginn 25. nóvember 2015 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 50/2015:

 

Kæra A

og B

á ákvörðun

Íbúðalánasjóðs

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R:


A og B hafa með kæru, dags. 2. september 2015, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála ákvörðun Íbúðalánasjóðs, dags. 2. júní 2015, um synjun á umsókn þeirra um greiðsluerfiðleikaaðstoð.

 

I. Málavextir og málsmeðferð

Málavextir eru þeir samkvæmt gögnum málsins að kærendur sóttu um greiðsluerfiðleikaaðstoð hjá Íbúðalánasjóði og óskuðu eftir frystingu lána. Umsókn kærenda var synjað með bréfi Íbúðalánasjóðs, dags. 2. júní 2015, á þeim grundvelli að miðað við forsendur greiðsluerfiðleikamats, sem unnið var hjá Íslandsbanka, væri greiðslugeta ekki nægjanleg, hvorki á meðan úrræðum væri beitt né að úrræðum loknum. Frestun á greiðslum væri því ekki lausn á greiðsluvanda.

Kærendur lögðu fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála 10. september 2015. Með bréfi, dags. 15. september 2015, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir afstöðu Íbúðalánasjóðs til málsins, upplýsingum um meðferð þess hjá sjóðnum og öllum gögnum. Beiðni úrskurðarnefndarinnar var ítrekuð með bréfi, dags. 12. október 2015. Afstaða Íbúðalánasjóðs barst með bréfi, dags. 14. október 2015. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 20. október 2015, var bréf Íbúðalánasjóðs sent kærendum til kynningar. Athugasemdir bárust frá lögmanni kærenda 3. nóvember 2015 og voru þær sendar Íbúðalánasjóði til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 4. nóvember 2015. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur greina frá því að þau hafi leitað til Íbúðalánasjóðs og Íslandsbanka vorið 2015 vegna tímabundinna fjárhagserfiðleika sem væru fyrst og fremst komnir til vegna tekjumissis. Annað þeirra hafi verið tekjulaust í nokkra mánuði vegna veikinda og hitt hafi verið á milli starfa. Á sama tíma hafi þau þurft að skipta um íbúð og vegna húsnæðiseklu hafi fjölskyldan þurft að festa nýtt leiguhúsnæði áður en leiga fyrra húsnæðis hafi runnið út. Þau hafi því þurft að greiða tvöfalda húsaleigu í ágúst og september árið 2014. Tímabundinn tekjumissir ásamt tímabundnum auknum útgjöldum væri fyrst og fremst ástæða núverandi greiðsluerfiðleika.

Kærendur taka fram að frá því að umsókn þeirra hafi verið send Íbúðalánasjóði hafi aðstæður þeirra breyst. Annað þeirra fái nú greiddar sjúkrabætur en blikur séu á lofti hvað varðar tekjumöguleika hins. Þá benda þau á að leiguverð af húsnæði þeirra á C hafi verið hækkað til að auðvelda afborganir. Þau séu enn að semja við aðra lánardrottna og finna lausn á endurgreiðslum en illa hafi gengið þar sem gjarnan séu notuð sömu rök og Íbúðalánasjóður, að ekki sé búið að semja um greiðslur við aðra. Því sé nauðsynlegt að höggva á hnútinn og Íbúðalánasjóður sé þar veigamesti aðilinn.

Kærendur benda á að það sé ljóst að þau geti ekki staðið í skilum við aðra lánardrottna takist þeim ekki að semja við Íbúðalánasjóð og því sé þetta úrræði þeim bráðnauðsynlegt. Þau telji að þau geti komist út úr sínum fjárhagserfiðleikum ef komið verði til móts við kröfur þeirra um frestun afborgana. Húsnæði sé nú tryggt, laun séu tryggð og ekki fyrirsjáanleg nein fjárhagsleg skipbrot. Þá benda kærendur á að þau hafi ætíð staðið við skuldbindingar sínar og og vonist eftir aðstoð til þess að svo verði áfram.   

  

III. Sjónarmið Íbúðalánasjóðs

Í greinargerð Íbúðalánasjóðs vegna málsins er greint frá því að kærendur hefðu sótt um frystingu lána hjá sjóðnum í apríl 2015 vegna fjárhagsörðugleika. Mál kærenda hafi verið tekið fyrir hjá greiðsluerfiðleikanefnd sjóðsins á grundvelli greiðsluerfiðleikamats Íslandsbanka. Umsókn kærenda hafi verið synjað á þeim forsendum að frysting væri ekki lausn á greiðsluvanda þeirra en samkvæmt greiðsluerfiðleikamatinu væri greiðslugeta ekki nægjanleg, hvorki á meðan úrræðum væri beitt né að úrræðum loknum. 

Í kæru til nefndarinnar vísi kærendur til þess að aðstæður þeirra hafi breyst frá því að umsókn þeirra hafi verið lögð fram. Íbúðalánasjóður bendir á að meðferð málsins lúti að stöðu kærenda eins og hún hafi verið við afgreiðslu sjóðsins, en þau geti hins vegar sótt um aftur og komið þar að nýjum upplýsingum og gögnum.

 

IV. Niðurstaða

Málskot kæranda er reist á 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998. Hlutverk úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er meðal annars að skera úr ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda. Í málinu er ágreiningur um hvort Íbúðalánasjóði hafi borið að samþykkja umsókn kærenda um greiðsluerfiðleikaaðstoð.

Samkvæmt 2. mgr. 48. gr. laga um húsnæðismál er stjórn Íbúðalánasjóðs heimilt að fresta greiðslum hjá einstökum lánþegum vegna almennra lána, viðbótarlána og lána sem sjóðurinn hefur yfirtekið í allt að þrjú ár og leggja þær greiðslur við höfuðstól skuldarinnar, þyki slík aðstoð líkleg til að koma í veg fyrir greiðsluvanda. Er þar gert að skilyrði að greiðsluvandi stafi af óvæntum tímabundnum erfiðleikum vegna veikinda, slysa, minni atvinnu eða atvinnuleysis eða af öðrum ófyrirséðum atvikum. Samkvæmt 8. mgr. 48. gr. laganna setur ráðherra nánari reglur um framkvæmd ákvæðisins að fengnum tillögum stjórnar Íbúðalánasjóðs.

Í 4. gr. reglugerðar nr. 584/2001, um úrræði til að bregðast við greiðsluvanda vegna lána Íbúðalánasjóðs, er að finna skilyrði fyrir greiðsluerfiðleikaaðstoð. Þar segir í 1. tölul. 4. gr. að heimilt sé að veita greiðsluerfiðleikaaðstoð stafi greiðsluerfiðleikar af óvæntum tímabundnum erfiðleikum vegna veikinda, slysa, minni atvinnu, atvinnuleysi eða af öðrum ófyrirséðum atvikum. Þá segir í 4. tölul. 1. mgr. að skilyrði greiðsluerfiðleikaaðstoðar sé að greiðslubyrði umsækjanda eftir skuldbreytingu og/eða frestun á greiðslum og/eða lengingu lánstíma rúmist innan greiðslugetu. Um er að ræða ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir úrræðinu sem sótt er um.

Í greiðsluerfiðleikamati Íslandsbanka, dags. 19. maí 2015, sem lá til grundvallar afgreiðslu Íbúðalánasjóðs, var fjárhagsleg staða kærenda við gerð matsins þannig að mánaðarlegar tekjur þeirra námu 726.279 krónum, mánaðarleg útgjöld 685.608 krónum og mánaðarleg greiðslubyrði næmi 200.107 krónum. Fjárþörf kærenda var því 159.436 krónur umfram raunverulega greiðslugetu. Í greiðslumatinu var enn fremur farið yfir áætlaða stöðu kærenda á meðan úrræðum yrði beitt og eftir lok úrræða. Þar var gert ráð fyrir að mánaðarlegar tekjur þeirra yrðu 726.279 krónur, mánaðarleg útgjöld 685.608 krónur og mánaðarleg greiðslubyrði næmi 170.560 krónum. Fjárþörf kæranda væri því 130.889 krónur umfram raunverulega greiðslugetu. Því myndi greiðslubyrði kærenda eftir frestun á greiðslum ekki rúmast innan greiðslugetu.

Þar sem greiðslubyrði kærenda eftir lok úrræða hefði ekki rúmast innan greiðslugetu þeirra, sbr. 4. tölul. 4. gr. reglugerðar nr. 584/2001, áttu kærendur því ekki rétt á greiðsluerfiðleikaaðstoð en um er að ræða ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir úrræðinu sem sótt er um, líkt og áður greinir. Hin kærða ákvörðun verður því staðfest.

Kærendur hafa vísað til þess að fjárhagsstaða þeirra hafi batnað frá gerð greiðsluerfiðleikamats Íslandsbanka sem lá til grundvallar ákvörðun sjóðsins. Úrskurðarnefndin bendir á að greiðsluerfiðleikamat Íslandsbanka og mat greiðsluerfiðleikanefndar Íbúðalánasjóðs tekur mið af stöðu kærenda á þeim tíma sem matið fór fram. Kærendur geta hins vegar látið framkvæma nýtt greiðsluerfiðleikamat og lagt inn nýja umsókn hjá Íbúðalánasjóði með vísan til breyttra forsendna.

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Arnar Kristinsson og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Ákvörðun Íbúðalánasjóðs, dags. 2. júní 2015, um synjun á umsókn A og B um greiðsluerfiðleikaaðstoð er staðfest.

 

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Arnar Kristinsson

Gunnar Eydal

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum