Hoppa yfir valmynd
12. ágúst 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 31/2015

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 101 Reykjavík


Miðvikudaginn 12. ágúst 2015 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 31/2015:

 

Kæra A

á ákvörðun

Íbúðalánasjóðs


og kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

A hefur með kæru, dags. 3. júní 2015, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Íbúðalánasjóðs, dags. 2. júní 2015, á umsókn um afléttingu krafna umfram söluverð við frjálsa sölu.

 

I. Málavextir og málsmeðferð

Málavextir eru þeir samkvæmt gögnum málsins að kærandi sótti um afléttingu krafna umfram söluverð við frjálsa sölu hjá Íbúðalánasjóði með umsókn, dags. 28. apríl 2015. Umsókn kæranda var synjað með bréfi Íbúðalánasjóðs, dags. 2. júní 2015, á þeirri forsendu að greiðslubyrði væri ekki umfram greiðslugetu.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála 3. júní 2015. Með bréfi, dags. 8. júní 2015, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir afstöðu Íbúðalánasjóðs til málsins, upplýsingum um meðferð þess hjá sjóðnum og öllum gögnum. Afstaða Íbúðalánasjóðs barst með bréfi, dags. 24. júní 2015. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 26. júní 2015, var bréf Íbúðalánasjóðs sent kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi hefur ekki komið neinum sjónarmiðum á framfæri í málinu.

 

III. Sjónarmið Íbúðalánasjóðs

Í afstöðu Íbúðalánasjóðs vegna kærunnar kemur fram að heimild til afléttingar veðs utan söluverðs sé að finna í 2. gr. reglugerðar nr. 359/2010 um meðferð krafna sjóðsins sem glatað hafi veðtryggingu. Stjórn Íbúðalánasjóðs hafi sett nánari reglur um framkvæmd þessa úrræðis í desember 2014 en samkvæmt 1. mgr. 3. gr. reglnanna sé það skilyrði til afléttingar veðs að umsækjandi hafi ekki greiðslugetu til að standa straum af afborgunum lána ásamt öðrum skuldbindingum hans.

Í kærunni komi ekki fram á hvaða grundvelli kæran sé reist eða með hvaða rökum. Af þeim ástæðum sé sjóðnum erfitt að taka afstöðu til kærunnar umfram það sem hafi falist í niðurstöðu greiðsluerfiðleikanefndar. Til nánari skýringar skuli þó tekið fram að ástæða synjunar hafi verið að í greiðsluerfiðleikamati hafi eftirtaldir liðir verið skilgreindir sem greiðslubyrði af skuldbindingum kæranda:

Skólamatur: 5.900 krónur.

Leikskólagjöld: 36.000 krónur.

Sími: 12.000 krónur.

Áskriftagjöld: 7.897 krónur.

Hiti og rafmagn: 4.500 krónur.

Húsfélag: 7.000 krónur.

Væri ekki annað séð en að þessar greiðslur væru hluti af mánaðarlegum útgjöldum kæranda og því þegar komnar inn í greiðsluerfiðleikamatið undir liðnum mánaðarleg útgjöld. Þegar þessi útgjöld hafi verið dregin frá sé mánaðarleg greiðslubyrði skuldbindinga 191.185 krónur. Þar sem greiðslugeta umsækjanda sé eftir sem áður 267.166 krónur sé hún meira en næg til að greiða af skuldbindingum hans. Umsóknin uppfylli því ekki fyrrgreint skilyrði 1. mgr. 3. gr. reglna stjórnar Íbúðalánasjóðs og hafi nefndin því synjað umsókn um afléttingu veðs umfram söluverð með þeim rökum að umsækjandi væri ekki í greiðsluvanda.

 

IV. Niðurstaða

Málskot kæranda er reist á 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998. Hlutverk úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er meðal annars að skera úr ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda. Í máli þessu er ágreiningur um hvort Íbúðalánasjóði hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um afléttingu krafna umfram söluverð við frjálsa sölu.

Í 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 359/2010 um meðferð krafna Íbúðalánasjóðs sem glatað hafa veðtryggingu kemur fram að kröfur Íbúðalánasjóðs teljast hafa glatað veðtryggingu þegar kröfum sem standa utan söluverðs eignar við frjálsa sölu er létt af eigninni með samþykki stjórnar Íbúðalánasjóðs og að uppfylltum skilyrðum um mat á greiðslugetu skuldara, enda sé söluverð í samræmi við verðmat Íbúðalánasjóðs. Í samræmi við 3. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar aðhefst Íbúðalánasjóður ekki frekar við innheimtu kröfu sem hefur glatað veðtryggingu nema sjóðurinn telji að krafa hafi orðið til vegna saknæmra athafna eða meintra brota á lánareglum. Við slík brot fellur niður heimild sjóðsins til niðurfellinga skv. 5. gr. og afskrifta skv. 6. gr.

Í reglum stjórnar Íbúðalánasjóðs um afléttingu krafna umfram söluverð við frjálsa sölu fasteignar, sem samþykktar voru á fundi stjórnar þann 3. desember 2014, kemur meðal annars fram að umsókn skuli lögð fyrir greiðsluerfiðleikanefnd sjóðsins til samþykktar eða synjunar. Samkvæmt 3. gr. reglnanna er það gert að skilyrði að umsækjandi hafi ekki greiðslugetu til þess að standa straum af afborgunum lána ásamt öðrum skuldbindingum. Umsókn kæranda var synjað á þeirri forsendu að greiðslubyrði af skuldbindingum væri ekki umfram greiðslugetu.

Í greiðsluerfiðleikamati Íslandsbanka, dags. 12. maí 2015, var fjárhagsleg staða kæranda við gerð matsins þannig að mánaðarlegar tekjur hans og maka námu 671.854 krónum, mánaðarleg útgjöld 404.688 krónum og greiðslugeta því 267.166 krónur. Mánaðarleg greiðslubyrði kæranda nam 269.479 krónum og fjárþörf var því 2.313 krónur umfram raunverulega greiðslugetu. Í greinargerð Íbúðalánasjóðs kemur fram að 73.297 krónur af mánaðarlegri greiðslubyrði kæranda hafi verið hluti af mánaðarlegum útgjöldum hans. Þegar þau útgjöld hafi verið dregin frá sé greiðslugeta til staðar. Að mati úrskurðarnefndarinnar hefur Íbúðalánasjóður fært fullnægjandi rök fyrir útreikningi greiðsluerfiðleikanefndarinnar. Ber því að leggja þann útreikning til grundvallar við úrlausn máls þessa en samkvæmt honum hafði kærandi greiðslugetu til að standa straum af afborgunum lána og öðrum skuldbindingum á þeim tíma sem matið fór fram. Að því virtu átti kærandi ekki rétt á afléttingu krafna umfram söluverð við frjálsa sölu.

Með vísan til framangreinds verður hin kærða ákvörðun staðfest.

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Arnar Kristinsson og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Ákvörðun Íbúðalánasjóðs, dags. 2. júní 2015, um synjun á umsókn A um afléttingu krafna umfram söluverð við frjálsa sölu er staðfest.

 

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Arnar Kristinsson

Gunnar Eydal

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum