Hoppa yfir valmynd
10. júní 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 17/2015

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 101 Reykjavík

                                                          

Miðvikudaginn 10. júní 2015 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 17/2015:

 

Kæra A

á ákvörðun

Hafnarfjarðarbæjar

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

A hefur með kæru, dags. 10. mars 2015, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Hafnarfjarðarbæjar, dags. 2. mars 2015, á umsókn hennar um fjárhagsaðstoð aftur í tímann.

 

I. Málavextir og málsmeðferð

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að kærandi kom til viðtals hjá félagsráðgjafa hjá Fjölskylduþjónustu Hafnarfjarðar þann 14. janúar 2015 og greindi frá aðstæðum sínum. Í framhaldinu var samþykkt að greiða kæranda fjárhagsaðstoð frá þeim degi en kærandi óskaði þá eftir greiðslu fjárhagsaðstoðar aftur í tímann frá nóvember 2014. Með bréfi Fjölskylduþjónustu Hafnarfjarðar, dags. 27. janúar 2015, var umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð aftur í tímann synjað með vísan til 7. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ. Kærandi áfrýjaði afgreiðslu Fjölskylduþjónustunnar til fjölskylduráðs Hafnarfjarðar sem tók málið fyrir á fundi sínum þann 27. febrúar 2015 og samþykkti svohljóðandi bókun:

Fjölskylduráð Hafnarfjarðar staðfestir niðurstöðu afgreiðslufundar Fjölskylduþjónustunnar um að synja beiðni umsækjanda um fjárhagsaðstoð fyrir nóvember og desember 2014 og fyrri hluta janúar 2015 með vísan til 7. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ, þar sem umsókn var ekki lögð fram fyrr en um miðjan janúar og umsækjandi hefur ekki sýnt fram á að fjárhagsaðstoð hafi verið nauðsynleg á þeim tíma sem um ræðir.

Niðurstaða fjölskylduráðs var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 2. mars 2015. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála 10. mars 2015. Með bréfi til Hafnarfjarðarbæjar, dags. 12. mars 2015, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir greinargerð sveitarfélagsins þar sem fram kæmi meðal annars rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun ásamt öðrum gögnum málsins. Greinargerð Hafnarfjarðarbæjar barst með bréfi, dags. 28. apríl 2015. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 4. maí 2015, var bréf Hafnarfjarðarbæjar sent kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

II. Málsástæður kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar greinir kærandi frá því að vegna mikilla erfiðleika síðastliðin tvö ár sem hafi leitt til vinnutaps sé fjárhagur hennar orðinn mjög bágur. Það séu ekki nema tæp tvö ár síðan hún hafi komist á gott ról eftir að hafa misst húsnæði sitt fyrir tíu árum síðan. Vegna niðurfellingar á skuldum sé búið að loka á það að hún fái nokkra fyrirgreiðslu hjá banka næstu fjögur árin og því sé staðan mjög erfið en hún eigi ekki fyrir reikningum og helstu nauðsynjum. Kærandi bendir á að henni hafi verið synjað um fjárhagsaðstoð aftur í tímann þrátt fyrir að læknisvottorð sýni fram á veikindi hennar og hversu lengi hún hafi verið frá vinnu. Hún hafi ekki ætlað að leita sér hjálpar þar sem hún hafi haldið að hún væri að jafna sig og gæti farið að vinna. Það sé mjög erfitt að óska eftir aðstoð við framfærslu, sérstaklega aftur eftir að hafa fengið synjun.

 

III. Sjónarmið Hafnarfjarðarbæjar

Í greinargerð Hafnarfjarðarbæjar kemur fram að kærandi hafi komið í viðtal hjá félagsráðgjafa Fjölskylduþjónustu sveitarfélagsins 14. janúar 2015 vegna ýmissa vandamála. Kærandi hafi greint frá því að hún hafi ekki verið á vinnumarkaði frá októbermánuði 2014 og ekki verið vinnufær vegna alvarlegra mála í fjölskyldu hennar. Kæranda hafi verið bent á að leita til heimilislæknis sem hafi gefið út vottorð þar sem fram kæmi að kærandi hafi verið óvinnufær frá október 2014 og yrði það næstu mánuði. Kærandi hafi fengið greidda fjárhagsaðstoð frá 14. janúar 2015, eða frá þeim degi sem umsókn hafi borist. Kærandi hafi þá óskað eftir fjárhagsaðstoð aftur í tímann, fyrir nóvember og desember 2014 og fyrri hluta janúar 2015, en þar sem hún hafði unnið sem verktaki hafi hún hvorki átt rétt á greiðslu sjúkradagpeninga né frá stéttarfélagi. Kærandi hafi tilkynnt um afskráningu af virðisaukaskattsskrá 20. janúar 2015.

Samkvæmt 7. gr. reglna Hafnarfjarðarbæjar um fjárhagsaðstoð sé aldrei skylt að veita fjárhagsaðstoð lengra aftur í tímann en fjóra mánuði frá því að umsókn er lögð fram, sbr. 3. mgr. 21. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Rökstuddar ástæður þurfi að liggja að baki ef aðstoð sé veitt aftur í tímann og verði skilyrðum reglnanna að vera fullnægt allt það tímabil sem sótt er um. Meginreglan sé því sú að réttur til fjárhagsaðstoðar skapist þegar umsókn er lögð fram. Það liggi fyrir að kærandi hafi ekki verið í launaðri vinnu á því tímabili sem um ræði og að samkvæmt læknisvottorði hafi hún verið óvinnufær frá október 2014. Kærandi hafi verið verktaki á þessum tíma en samkvæmt 14. gr. reglnanna eigi sjálfstætt starfandi einstaklingar aðeins rétt á fjárhagsaðstoð hafi þeir stöðvað atvinnurekstur.

Hafnarfjarðarbær bendir á að kærandi hafi oft áður verið í sambandi við Fjölskylduþjónustuna og fengið greidda fjárhagsaðstoð á árunum 2010, 2011 og 2013. Fjölskylduþjónustunni sé algerlega ljóst að kærandi eigi við mikil og alvarleg vandamál að stríða og reynt hafi verið að aðstoða hana með því að veita henni styrk til sálfræðiviðtala auk fjárhagsaðstoðar til framfærslu frá miðjum janúar 2015. Hins vegar hafi kærandi ekki nýtt þann möguleika að sækja um fjárhagsaðstoð sem hún kynni að hafa rétt á frá október 2014, að því tilskildu að hún hefði lokað virðisaukaskattsnúmeri sínu hjá ríkisskattstjóra. Það hafi því verið álit Fjölskylduþjónustunnar og fjölskylduráðs Hafnarfjarðar að þar sem kærandi hafi ekki sett sig í samband við Fjölskylduþjónustuna fyrr en í janúar 2015 til að óska eftir fjárhagsaðstoð eins og hún hafi margsinnis gert áður, hefði hún haft aðrar bjargir á þessum tíma og því ekki sýnt fram á að fjárhagsaðstoð fyrir nóvember og desember 2014 og fyrri hluta janúar 2015 hafi verið henni nauðsynleg.

 

IV. Niðurstaða

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Fyrir nefndinni liggja reglur um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ frá 3. apríl 2014. Í máli þessu er ágreiningur um hvort Hafnarfjarðarbæ hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð aftur í tímann.

Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð aftur í tímann var synjað með vísan til 7. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ þar sem kærandi hafi ekki sýnt fram á að fjárhagsaðstoð hafi verið henni nauðsynleg á þeim tíma sem umsókn tók til. Í 7. gr. reglnanna kemur fram að ekki sé skylt að veita fjárhagsaðstoð lengra aftur í tímann en fjóra mánuði frá því að umsókn er lögð fram, sbr. 3. mgr. 21. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Þá segir í 2. mgr. 7. gr. að rökstuddar ástæður þurfi að liggja að baki ef aðstoð sé veitt aftur í tímann og verði skilyrðum reglnanna fyrir fjárhagsaðstoð að vera fullnægt allt það tímabil sem sótt er um. Hafnarfjarðarbær hefur einnig vísað til þess að kærandi hafi verið verktaki á umdeildu tímabili en samkvæmt 14. gr. reglnanna eigi sjálfstætt starfandi einstaklingar aðeins rétt á fjárhagsaðstoð hafi þeir stöðvað atvinnurekstur. Kærandi hafi ekki lokað virðisaukaskattsnúmeri sínu hjá ríkisskattstjóra fyrr en 20. janúar 2015.

Í 14. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ er kveðið á um rétt atvinnurekenda, sjálfstætt starfandi einstaklinga og fólks í hlutastörfum til fjárhagsaðstoðar; þar segir:

Atvinnurekendur og sjálfstætt starfandi einstaklingar, sem hafa lægri tekjur en sem nemur grunnfjárhæð, eiga rétt á fjárhagsaðstoð að því tilskildu að þeir hafi stöðvað atvinnurekstur og leitað réttar síns til atvinnuleysisbóta í samræmi við ákvæði laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, sbr. og 4. mgr. 1. gr. reglna þessara.

Sé umsækjandi í hlutastarfi með tekjur undir grunnfjárhæð skal gerð krafa um að viðkomandi skrái sig hjá vinnumiðlun og leiti að fullu starfi.

Líkt og að framan greinir þarf skilyrðum reglna Hafnarfjarðarbæjar um fjárhagsaðstoð að vera fullnægt allt það tímabil sem sótt er um fjárhagsaðstoð. Óumdeilt er að kærandi lokaði ekki virðisaukaskattsnúmeri sínu hjá ríkisskattstjóra fyrr en 20. janúar 2015. Að því virtu er það mat úrskurðarnefndarinnar að skilyrðum 14. gr. reglnanna hafi ekki verið fullnægt í málinu og kærandi því ekki átt rétt á fjárhagsaðstoð fyrir umdeilt tímabil. 

Almennt ber sveitarfélögum að gæta jafnræðis og samræmis við ákvörðun um fjárhagsaðstoð. Það er álit úrskurðarnefndarinnar að ekkert hafi komið fram um að mat Hafnarfjarðarbæjar á aðstæðum kæranda hafi verið ómálefnalegt eða andstætt þeim reglum sem um það gilda. Með vísan til þessa ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Arnar Kristinsson og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Synjun Hafnarfjarðarbæjar á umsókn A um fjárhagsaðstoð er staðfest.

 

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Arnar Kristinsson

Gunnar Eydal

  

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum