Hoppa yfir valmynd
27. maí 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 18/2015

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 101 Reykjavík


Miðvikudaginn 27. maí 2015 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 18/2015:

 

Kæra A

á ákvörðun

Akureyrarbæjar

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

Með bréfi, dags. 9. mars 2015, hefur B f.h. A skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála ákvörðun Akureyrarbæjar, dags. 6. febrúar 2015, um synjun á umsókn hans um styrk til greiðslu sérfræðiaðstoðar að fjárhæð 55.000 krónur.

 

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi sótti um styrk til greiðslu sálfræðiviðtala að fjárhæð 55.000 krónur hjá Akureyrarbæ með umsókn, dags. 14. janúar 2015. Umsókn kæranda var synjað með bréfi fjölskyldudeildar, dags. 19. janúar 2015, með þeim rökum að umsóknin félli ekki undir reglur félagsmálaráðs Akureyrar um fjárhagsaðstoð. Kærandi skaut þeirri ákvörðun til félagsmálaráðs Akureyrar með bréfi, dags. 1. febrúar 2015, sem staðfesti hina fyrri ákvörðun á fundi sínum 4. febrúar 2015.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála 9. mars 2015. Með bréfi, dags. 13. mars 2015, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir greinargerð Akureyrarbæjar þar sem fram kæmi meðal annars rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun ásamt öðrum gögnum málsins. Greinargerð Akureyrarbæjar barst með bréfi, dags. 24. mars 2015. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 26. mars 2015, var bréf Akureyrarbæjar sent kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 3. apríl 2015, og voru þær sendar Akureyrarbæ til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 8. apríl 2015. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

II. Málsástæður kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar er greint frá aðstæðum kæranda og ástæðu umsóknar um styrk til greiðslu sálfræðiviðtala. Akureyrarbær hafi samþykkt að greiða fyrir tvo tíma hjá tilteknum sálfræðingi en kærandi þurfi á mun fleiri tímum að halda og það megi ekki bíða. Kærandi eigi eftir að vinna úr reynslu sinni og líði mjög illa en það sé mikilvægt að hann fái fleiri sálfræðiviðtöl til að komast yfir þetta áfall og til að fyrirbyggja sambærilegt atvik. Sálfræðingurinn þekki kæranda vel og hans bakgrunn og geti því hjálpað honum.


III. Sjónarmið Akureyrarbæjar

Í greinargerð Akureyrarbæjar er greint frá aðstæðum kæranda og hvernig tekið hafi verið á því atviki sem hafi komið upp í ágúst 2014. Móðir kæranda hafi óskað sérstaklega eftir því að hann fengi að hitta ákveðinn sálfræðing í kjölfar atburðarins og fjölskyldudeild Akureyrarbæjar hafi samþykkt að greiða fyrir tvo tíma hjá þeim sálfræðingi. Kæranda hafi síðan verið boðin aðstoð á vegum starfsmanna bæjarins, þ.e. þroskaþjálfa, ráðgjafa í málaflokki fatlaðra sem sinni félagslegri liðveislu fyrir kæranda og forstöðumanni félagslegrar liðveislu sem sé sálfræðingur. Kærandi hafi sótt um fjárhagsaðstoð til þess að greiða sálfræðiviðtöl sem hann hafði þá þegar sótt en umsókn kæranda hafi verið synjað á þeirri forsendu að hann væri yfir framfærsluviðmiðum þegar horft væri til mánaðarlegra tekna. Auk þess hafi kærandi átt bifreið og innistæður í bönkum og sparisjóðum og ekki skuldað neitt. Það hafi því verið mat sveitarfélagsins að kærandi gæti greitt fyrir þá umframsálfræðitíma sjálfur kjósi hann að fara þá leið.  

Akureyrarbær byggir synjun sína á 19. og 20. gr. laga nr. 40/1991 og 1. gr. reglna félagsmálaráðs Akureyrar um fjárhagsaðstoð. Samkvæmt ákvæðunum sé ljóst að það sé frumskylda hvers einstaklings að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn. Sveitarfélag skuli tryggja að íbúar geti þetta sé það ekki í verkahring annarra, svo sem almannatrygginga, atvinnuleysistrygginga, lífeyrissjóða eða sjúkrasjóða stéttarfélaga. Í tilviki kæranda sé um fatlaðan einstakling að ræða sem fái lífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins auk þess sem hann hafi lítilsháttar atvinnutekjur. Hann hafi því tekjur til þess að framfæra sig og eigi ekki rétt á framfærslu sveitarfélagsins. Reglur sveitarfélagsins um fjárhagsaðstoð heimili aðstoð til greiðslu viðtala hjá félagsráðgjöfum, sálfræðingum og fleiri aðilum ef það sé liður í umfangsmeiri félagslegri aðstoð og fyrirsjáanlegt að eigi sé hægt að veita aðstoðina innan fjölskyldudeildar eða á vegum heilbrigðisstofnana, sbr. 26. gr. reglnanna. Þetta eigi við einstaklinga sem búi við mikla og langvarandi félagslega erfiðleika eða einstaklinga eða fjölskyldur sem hafi orðið fyrir alvarlegum áföllum. Ekki verði séð að aðstæður kæranda uppfylli skilyrði 26. gr. reglnanna og þjónustukerfi sveitarfélagsins í málaflokki fatlaðra geti boðið kæranda þá þjónustu og aðstoð sem hann þarfnist.

 

IV. Niðurstaða

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Fyrir nefndinni liggja reglur félagsmálaráðs Akureyrarbæjar um fjárhagsaðstoð. Í máli þessu er ágreiningur um hvort Akureyrarbæ hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um styrk til greiðslu sérfræðiaðstoðar að fjárhæð 55.000 krónur.

Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Umsókn kæranda um styrk til greiðslu sérfræðiaðstoðar var synjað á þeirri forsendu að skilyrði reglna félagsmálaráðs Akureyrar um fjárhagsaðstoð hafi ekki verið fullnægt. Í 26. gr. reglnanna er kveðið á um fjárhagsaðstoð til greiðslu sérfræðiaðstoðar. Þar segir í 3. mgr.:

Heimilt er að veita einstaklingum sem búa við mikla og langvarandi félagslega erfiðleika eða fjölskyldum sem hafa orðið fyrir alvarlegum áföllum fjárhagsaðstoð til greiðslu viðtala hjá félagsráðgjöfum, sálfræðingum, geðlæknum og sérfræðingum í fjármálaráðgjöf ef það er liður í umfangsmeiri félagslegri aðstoð og fyrirsjáanlegt að eigi sé hægt að veita þjónustuna innan Fjölskyldudeildar eða á vegum heilbrigðisstofnana. Hámark aðstoðar er 60.000 kr. á ári.

Í 19. gr. laga nr. 40/1991 kemur fram að hverjum manni sé skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Akureyrarbær veitir fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geta séð sér og sínum farborða án aðstoðar, sbr. 1. gr. reglna félagsmálaráðs Akureyrar um fjárhagsaðstoð. Í 15. gr. reglnanna kemur fram að við ákvörðun á fjárhagsaðstoð skuli leggja til grundvallar grunnfjárþörf til framfærslu og frá henni dregnar heildartekjur. Samkvæmt 16. gr. reglnanna getur fjárhagsaðstoð til einstaklings 18 ára og eldri numið allt að 150.353 krónum á mánuði en allar tekjur umsækjanda í þeim mánuði sem sótt er um og mánuðinum á undan eru taldar með við mat á fjárþörf, sbr. 17. gr. reglnanna. Samkvæmt gögnum málsins voru tekjur kæranda yfir þeim viðmiðunarmörkum sem ákvæði 17. gr. reglnanna áskilur. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að kærandi hafi ekki átt rétt á styrk til greiðslu sérfræðiaðstoðar á grundvelli 26. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Akureyrarbæ. 

Almennt ber sveitarfélögum að gæta jafnræðis og samræmis við ákvörðun um fjárhagsaðstoð. Það er álit úrskurðarnefndarinnar að ekkert hafi komið fram um að mat Akureyrarbæjar á aðstæðum kæranda hafi verið ómálefnalegt eða andstætt þeim reglum sem um það gilda. Með vísan til þessa ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Arnar Kristinsson og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Ákvörðun Akureyrarbæjar, dags. 6. febrúar 2015, um synjun á umsókn A um styrk til greiðslu sérfræðiaðstoðar að fjárhæð 55.000 krónur er staðfest.

 

 Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Arnar Kristinsson

Gunnar Eydal 


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum