Hoppa yfir valmynd
25. mars 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 73/2014

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 101 Reykjavík

                                           

Miðvikudaginn 25. mars 2015 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 73/2014:

  

Kæra A

á ákvörðun Mosfellsbæjar

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

A hefur með kæru, dags. 16. desember 2014, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Mosfellsbæjar, dags. 3. nóvember 2014, á umsókn hans um liðveislu.

 

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi er með MS-sjúkdóminn og þarf aðstoð við allar athafnir daglegs lífs. Kærandi er búsettur á hjúkrunarheimili þar sem hann nýtur aðstoðar og umönnunar. Kærandi óskaði eftir liðveislu frá Mosfellsbæ í því skyni að rjúfa félagslega einangrun. Fjallað var um umsókn kæranda á trúnaðarmálafundi starfsmanna fjölskyldusviðs þann 9. október 2014 og 23. október 2014. Umsókn kæranda var synjað á þeirri forsendu að hann væri búsettur á hjúkrunarheimili. Máli kæranda var vísað til fjölskyldunefndar Mosfellsbæjar sem tók umsókn hans fyrir á fundi þann 29. október 2014. Umsókn kæranda var synjað með vísan til 2. gr. reglna Mosfellsbæjar um liðveislu og var kæranda tilkynnt um þá ákvörðun með bréfi, dags. 3. nóvember 2014.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála 18. desember 2014. Með bréfi, dags. 19. desember 2014, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir greinargerð Mosfellsbæjar þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Greinargerð Mosfellsbæjar barst með bréfi, dags. 2. janúar 2015. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 8. janúar 2015, var bréf Mosfellsbæjar sent kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

II. Málsástæður kæranda

Kærandi greinir frá því að hann fái einungis umönnun og hjúkrun á hjúkrunarheimilinu en enga þjónustu í líkingu við félagslega liðveislu sem sé hugsuð til að rjúfa félagslega einangrun. Kærandi greinir frá aðstæðum á hjúkrunarheimilinu en það sé ekki möguleiki að fá starfsmann til að fara með sér að taka þátt í samfélaginu. Það sé því ekki verið að mæta grunnþörfum hans.

Kærandi tekur fram að þær aðstæður sem hann búi við skapi honum ekki skilyrði til að lifa eðlilegu lífi og vísar til þess að í lögum um málefni fatlaðs fólks sé ekki kveðið á um að þeir sem búi á stofnunum séu þar undanskildir. Því sé um mismunun að ræða og brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.

 

III. Sjónarmið Mosfellsbæjar

Í greinargerð Mosfellsbæjar kemur fram að Mosfellsbær greiði fyrir dvöl kæranda í MS-setrinu í Reykjavík tvo daga vikunnar. Mosfellsbær greiði fyrir þá þjónustu umfram skyldu vegna sérstakra aðstæðna og ungs aldurs kæranda í því skyni að styðja við félagslega þátttöku hans. Kærandi njóti ferðaþjónustu fatlaðs fólks af hálfu bæjarfélagsins til þess að geta sótt dagdvölina og farið annarra ferða sinna.

Kærandi hafi sótt um liðveislu í því skyni að rjúfa félagslega einangrun sína en í reglum Mosfellsbæjar um liðveislu sé skýrt kveðið á um að liðveisla skuli einungis veitt utan stofnana og sambýla enda sé gert ráð fyrir að á stofnunum og sambýlum sé veitt nægjanleg þjónusta í þessum efnum. Að mati sveitarfélagsins liggi ábyrgðin á þeirri aðstoð og stuðningi sem kærandi þarfnist í persónulegu og félagslegu tilliti hjá hjúkrunarheimilinu.

 

VI. Niðurstaða

Málskotsheimild kæranda er reist á 5. gr. a laga um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992, með síðari breytingum. Í máli þessu er ágreiningur um það hvort Mosfellsbæ hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um liðveislu.

Fjallað er um réttindi fatlaðs fólks í lögum um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992, með síðari breytingum. Markmið laganna er að tryggja fötluðu fólki jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa því skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi. Er tekið fram að við framkvæmd þeirra skuli tekið mið af þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, einkum samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þá skulu stjórnvöld tryggja heildarsamtökum fatlaðs fólks og aðildarfélögum þeirra áhrif á stefnumörkun og ákvarðanir er varða málefni fatlaðs fólks. Í 4. gr. laganna kemur fram að sveitarfélög beri ábyrgð á skipulagi og framkvæmd þjónustu við fatlað fólk, þar með talið gæðum þjónustunnar, sem og kostnaði vegna hennar samkvæmt lögum þessum nema annað sé tekið fram eða leiði af öðrum lögum.

Lög nr. 59/1992 veita sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita fötluðu fólki í samræmi við fyrrgreind markmið laganna og þær kröfur sem gerðar eru til aðgengis fatlaðra einstaklinga að þeirri þjónustu. Lögin gera ráð fyrir því að sveitarstjórnir setji sér reglur um framkvæmd aðstoðar við fatlað fólk í samræmi við reglur sveitarstjórnar. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir undir eftirliti ráðherra. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í 24. gr. laga nr. 59/1992 er kveðið á um að sveitarfélög skuli eftir föngum gefa fötluðu fólki kost á liðveislu. Með liðveislu sé átt við persónulegan stuðning og aðstoð sem einkum miði að því að rjúfa félagslega einangrun, til dæmis aðstoð til að njóta menningar og félagslífs. Mosfellsbær hefur útfært nánar framkvæmd þjónustu við fatlað fólk, meðal annars með reglum um liðveislu í Mosfellsbæ sem samþykktar voru í bæjarstjórn 5. desember 2007. Í 1. gr. reglnanna kemur fram að markmið liðveislu sé að efla viðkomandi til sjálfshjálpar, veita honum/henni persónulegan stuðning og aðstoð sem einkum miði að því að rjúfa félagslega einangrun, til dæmis aðstoð til að njóta menningar og félagslífs.

Í 2. gr. reglna sveitarfélagsins kemur fram að heimilt sé að veita fötluðum einstaklingi, sem búi utan stofnana og sambýla og hafi náð sex ára aldri, liðveislu. Kæranda var synjað um liðveislu á þeirri forsendu að hann væri búsettur á hjúkrunarheimili og hefur sveitarfélagið vísað til þess að gert sé ráð fyrir að á stofnunum og sambýlum sé veitt nægjanleg þjónusta í þessum efnum.

Líkt og að framan greinir veita lög nr. 59/1992 sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað hvers konar þjónustu þau vilja veita. Þrátt fyrir það verða reglur um mat þess að vera málefnalegar. Hér háttar svo til að reglur þær sem gilda um liðveislu sveitarfélagsins leiða í reynd til þess að ekki fer fram eiginlegt mat á aðstæðum kæranda og því hvort hann eigi rétt til liðveislu eða ekki. Þar sem löggjafinn hefur eftirlátið stjórnvöldum mat til þess að geta tekið ákvörðun sem best hentar hag hvers aðila, með tilliti til allra aðstæðna, er stjórnvöldum óheimilt að afnema matið með því að setja til dæmis verkalagsreglu sem tekur til allra mála, sambærilegra sem ósambærilegra. Þrátt fyrir að stjórnvald hafi ákveðið að byggja mat sitt á nánar tilgreindum sjónarmiðum sem teljast málefnaleg verður endanlegt mat stjórnvalds á þessum sjónarmiðum einnig að vera forsvaranlegt.

Meðal þess sem líta verður til við ákvörðun um veitingu þjónustu við fatlað fólk er þörf þess fyrir slíka þjónustu. Í 1. mgr. 5. gr. laganna kemur fram að fatlaður einstaklingur eigi rétt á þjónustu þar sem hann kýs að búa og komi fram umsókn um slíka þjónustu skal skv. 3. mgr. 5. gr. laganna meta þá umsókn af teymi fagfólks, sem meti heildstætt þörf fatlaðs einstaklings fyrir þjónustuna og jafnframt hvernig koma megi til móts við óskir hans. Samkvæmt gögnum málsins hefur slíkt mat ekki farið fram varðandi umsókn kæranda um liðveislu.

Ljóst er að kærandi er búsettur á hjúkrunarheimili vegna fötlunar sinnar, þrátt fyrir ungan aldur, og kveðst hvorki njóta liðveislu né samsvarandi þjónustu á heimilinu. Kærandi er búsettur á hjúkrunarheimilinu á öðrum og ólíkum forsendum en aðrir vistmenn heimilisins og því um sérstakar búsetuaðstæður að ræða. Þar af leiðandi er ekki um sambærilega þjónustuþörf að ræða. Af ákvæði 2. gr. reglna Mosfellsbæjar um liðveislu má leiða að fatlaður einstaklingur sem ekki er í sjálfstæðri búsetu eigi ekki rétt á liðveislu. Í reglunum er hins vegar ekki fjallað um þau tilvik þegar fatlaður einstaklingur sem býr á stofnun eða sambýli nýtur þar ekki liðveislu eða samsvarandi þjónustu. Að mati úrskurðarnefndarinnar er ákvörðun sveitarfélagsins, að synja kæranda um liðveislu einungis út frá búsetuaðstæðum án þess að fram fari mat á þörf hans fyrir þjónustuna, ekki í samræmi við 24. gr. laga nr. 59/1992. Verður því að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og vísa málinu aftur til sveitarfélagsins til nýrrar meðferðar þar sem mið er tekið af framangreindum sjónarmiðum.

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Arnar Kristinsson og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Ákvörðun Mosfellsbæjar, dags. 3. nóvember 2014, að synja umsókn A um liðveislu er felld úr gildi og málinu vísað til sveitarfélagsins til nýrrar meðferðar.

 

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Arnar Kristinsson

Gunnar Eydal

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum