Hoppa yfir valmynd
18. febrúar 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 70/2014

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 101 Reykjavík

                                                              

Miðvikudaginn 18. febrúar 2015 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 70/2014:

                                                                                                

Kæra A

á athöfnum

Íbúðalánasjóðs

  

og kveðinn upp svohljóðandi

  

Ú R S K U R Ð U R:

 

A hefur með kæru, dags. 29. nóvember 2014, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Íbúðalánasjóðs, dags. 25. september 2014, á beiðni um endurútreikning lána hans hjá sjóðnum.

 

I. Málavextir og málsmeðferð

Málavextir eru þeir samkvæmt gögnum málsins að með bréfum, dags. 2. september 2014, fór kærandi fram á að Íbúðalánasjóður endurgreiddi ofgreiddar afborganir af lánum hans hjá sjóðnum. Vísaði kærandi til þess að skilmálar skuldabréfanna væru ólögmætir og óskaði því eftir endurútreikningi á lánunum. Með bréfi, dags. 25. september 2014, synjaði Íbúðalánasjóður beiðni kæranda og vísaði til þess að kæranda væri heimilt að skjóta þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála 2. desember 2014. Með bréfi, dags. 3. desember 2014, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir afstöðu Íbúðalánasjóðs til málsins, upplýsingum um meðferð þess hjá sjóðnum og frekari gögnum. Afstaða Íbúðalánasjóðs barst með bréfi, dags. 12. desember 2014. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 5. janúar 2015, var bréf Íbúðalánasjóðs sent kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 11. janúar 2015.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að Íbúðalánasjóður endurreikni lán hans hjá sjóðnum og fari eftir lögum nr. 121/1994 um neytendalán. Kærandi telur að Íbúðalánasjóður sé ekki að fara eftir neytendalánalögunum í útreikningi á lánunum, það vanti bæði verðbólgutölu í lánasamninginn og greiðsluáætlun með lánunum. Ekki sé nóg að setja inn vísitölu og ætla að fara eftir henni.

 

III. Sjónarmið Íbúðalánasjóðs

Íbúðalánasjóður greinir frá því að kærandi hafi sent sjóðnum fjögur samhljóða bréf, eitt fyrir hvert lán sem kærandi er með hjá sjóðnum. Í bréfunum sé að finna órökstuddar staðhæfingar um að neytendalán séu almennt ólögleg og þess krafist að lánveitandi sanni hið gagnstæða. Jafnframt hafi verið gerð krafa um endurgreiðslu eða skuldajöfnuð án þess að ákveðin fjárhæð hafi verið tilgreind en enga stoð sé að finna í hinum tilvitnuðu lagaákvæðum fyrir kröfu kæranda.

Íbúðalánasjóður tekur fram að þrátt fyrir að í bréfi sjóðsins hafi verið bent á að heimilt væri að skjóta ákvörðuninni til úrskurðarnefndar verði að telja að krafan sé einkaréttarlegs eðlis og varði sjóðinn ekki sem stjórnvald. Af þeim ástæðum verði að telja að málið heyri ekki undir nefndina. Þá tekur Íbúðalánasjóður fram að lán sjóðsins séu lögbundin og því hafi ekki verið borið við að lánin væru ekki í samræmi við lög og reglur sjóðsins. Krafa kæranda lúti að því að löglegum skilmálum íbúðalánanna verði vikið til hliðar eða greiddar verði bætur. Íbúðalánasjóður hafi ekki heimild til að verða við slíkri kröfu, það séu dómstólar sem ákvarði slíkt.

 

IV. Niðurstaða

Málskot kærenda er reist á 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998. Hlutverk úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er meðal annars að skera úr ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda. Í máli þessu er ágreiningur um lögmæti lánaskilmála lána sem kærandi er með hjá Íbúðalánasjóði.

Í 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998, kemur fram að málsaðili geti skotið ákvörðun Íbúðalánasjóðs, húsnæðisnefndar eða þeirrar nefndar á vegum sveitarfélags sem hafi verið falið verkefni húsnæðisnefndar til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, sbr. lög nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Hlutverk úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er meðal annars að skera úr ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda. Ákvæði 1. mgr. 42. gr. laga nr. 44/1998 var breytt með 2. gr. laga nr. 77/2001 en í athugasemdum við 2. gr. frumvarpsins segir að með ákvörðun Íbúðalánasjóðs eða húsnæðisnefnda sé átt við stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Til þess að úrskurðarnefndin geti tekið kæru til efnislegrar meðferðar þarf að liggja fyrir stjórnvaldsákvörðun. Um stjórnvaldsákvörðun er einungis að ræða hafi stjórnvald tekið ákvörðun um rétt eða skyldu tiltekins aðila í skjóli stjórnsýsluvalds, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga.

Fyrir liggur að kærandi er með fjögur fasteignalán hjá Íbúðalánasjóði og hefur borið því við að skilmálar lánanna séu ólögmætir. Á þeirri forsendu fór kærandi fram á að Íbúðalánasjóður myndi endurútreikna lánin. Úrskurðarnefndin tekur undir sjónarmið Íbúðalánasjóðs um að krafa kæranda um endurútreikning lánanna sé einkaréttarlegs eðlis og varði sjóðinn ekki sem stjórnvald. Að því virtu verður synjun Íbúðalánasjóð um endurútreikning lánanna ekki talin stjórnvaldsákvörðun. Engu að síður benti Íbúðalánasjóður kæranda á að unnt væri að kæra synjun sjóðsins til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála. Þannig veitti Íbúðalánasjóður kæranda rangar leiðbeiningar um kæruheimild. Engu að síður og þrátt fyrir þennan annmarka, sem Íbúðalánasjóði mátti augljóslega vera ljós, er það mat úrskurðarnefndarinnar að málið sé ekki tækt til efnismeðferðar. Kærunni verður því vísað frá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála.

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Arnar Kristinsson og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Kæru A er vísað frá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála.

 

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Arnar Kristinsson

Gunnar Eydal

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum