Hoppa yfir valmynd
26. nóvember 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 46/2014

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 101 Reykjavík

                                                     


Miðvikudaginn 26. nóvember 2014 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 46/2014:

 

Kæra A

á ákvörðun

Sveitarfélagsins Árborgar

 

og kveðinn upp svohljóðandi


Ú R S K U R Ð U R:

 

A, hefur með bréfi, dags. 10. september 2014, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Sveitarfélagsins Árborgar, dags. 14. ágúst 2014, á umsóknum hennar um sérstakar húsaleigubætur.


I. Málavextir og málsmeðferð

Með umsóknum, dags. 27. mars 2014, sótti kærandi um félagslegt leiguhúsnæði og sérstakar húsaleigubætur hjá Sveitarfélaginu Árborg. Umsókn kæranda um félagslegt leiguhúsnæði var synjað með bréfi félagsþjónustusviðs Árborgar, dags. 25. apríl 2014, með þeim rökum að hún hafi ekki átt lögheimili í sveitarfélaginu samfellt í þrjú ár. Kærandi áfrýjaði synjuninni til félagsmálanefndar sveitarfélagsins með bréfi, dags. 4. júní 2014. Félagsmálanefnd tók málið fyrir á fundi sínum þann 13. ágúst 2014 og samþykkti svohljóðandi bókun:

Félagsmálanefnd Árborgar staðfestir ákvörðun afgreiðslufundar frá 16. apríl 2014.

Niðurstaða félagsmálanefndar var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 14. ágúst 2014. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála með bréfi, dags. 10. september 2014. Með bréfi, dags. 11. september 2014, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir greinargerð Sveitarfélagsins Árborgar vegna kærunnar þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Enn fremur var óskað eftir öllum gögnum málsins. Greinargerð sveitarfélagsins barst með bréfi, dags. 29. september 2014. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 8. október 2014, var bréf sveitarfélagsins sent kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki. Með tölvupósti þann 28. október 2014 óskaði úrskurðarnefndin eftir afriti af synjun sveitarfélagsins vegna umsóknar kæranda um sérstakar húsaleigubætur. Þann 3. nóvember 2014 barst svar frá sveitarfélaginu þess efnis að kæranda hefði verið synjað um að komast á biðlista eftir félagslegu húsnæði og því hafi hún ekki uppfyllt skilyrði til greiðslu sérstakra húsaleigubóta, sbr. 6. gr. reglna sveitarfélagsins um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur.


II. Málsástæður kæranda

Kærandi greinir frá því að hún hafi búið á B á árunum 2010 til 2011 og hafi fengið sérstakar húsaleigubætur árið 2011. Hún hafi flutt til C og búið þar frá árinu 2011 og þar til í mars 2014. Hún hafi sótt á ný um sérstakar húsaleigubætur frá Sveitarfélaginu Árborg en hafi verið synjað þar sem hún hafi ekki verið búsett í sveitarfélaginu síðastliðin þrjú ár.

Kærandi tekur fram að hún sé einstæð tveggja barna móðir, búi við erfiðar félagslegar aðstæður og þröngan fjárhag. Hún sé með mikinn lyfjakostnað vegna veikinda sinna og annars barns hennar og þurfi að sækja sérfræðiþjónustu til Reykjavíkur. Hún hafi byrjað í námi í ágúst 2014 en sjái ekki fram á að geta sinnt því vegna fjárhagsáhyggja.

 

III. Sjónarmið Sveitarfélagsins Árborgar

Í greinargerð Sveitarfélagsins Árborgar kemur fram að umsóknum kæranda hafi verið synjað með bréfi, dags. 25. apríl 2014. Kærandi hafi flutt lögheimili sitt í sveitarfélagið 1. mars 2014 og uppfylli því ekki skilyrði 3. tölul. a-liðar 4. gr. reglna sveitarfélagsins um félagslegt leiguhúsnæði og sérstakar húsaleigubætur um að hafa átt lögheimili samfellt í sveitarfélaginu síðastliðin þrjú ár áður en umsókn er móttekin.

 

IV. Niðurstaða

Málskotsheimild kæranda er reist á 16. gr. laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997. Um málsmeðferð fer samkvæmt ákvæðum XVII. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Fyrir nefndinni liggja reglur um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Sveitarfélaginu Árborg. Í máli þessu er ágreiningur um það hvort sveitarfélaginu hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um sérstakar húsaleigubætur.

Í 4. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Sveitarfélaginu Árborg er að finna skilyrði fyrir því að umsókn verði metin gild og þarf umsækjandi að uppfylla öll skilyrði sem fram koma í a–c-liðum ákvæðisins. Í 3. tölul. a-liðar 4. gr. er gert að skilyrði að umsækjandi hafi átt lögheimili samfellt í sveitarfélaginu síðastliðin þrjú ár áður en umsókn er móttekin. Samkvæmt upplýsingum úr þjóðskrá var kærandi búsett í C til 1. mars 2014 en þá flutti hún lögheimili sitt til B. Það liggur því ljóst fyrir að kærandi átti ekki lögheimili í Sveitarfélaginu Árborg síðustu þrjú ár samfleytt áður en umsókn um sérstakar húsaleigubætur barst sveitarfélaginu.

Í 5. gr. reglnanna er kveðið á um undanþágur frá skilyrðum 4. gr. reglnanna. Í 3. mgr. 5. gr. kemur fram að heimilt sé að víkja frá skilyrði 3. tölul. a-liðar 4. gr. um búsetu hafi umsækjandi búið stóran hluta ævi sinnar í sveitarfélaginu en búið tímabundið utan sveitarfélagsins vegna húsnæðisvanda, náms eða vinnu. Af gögnum málsins verður ekki séð að sveitarfélagið hafi lagt mat á aðstæður kæranda hvað þessi viðmið varðar áður en umsókn kæranda var synjað. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að ekki liggi fyrir að aðstæður kæranda hafi verið rannsakaðar með fullnægjandi hætti, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Getur úrskurðarnefndin því ekki lagt mat á það hvort sú ákvörðun hafi verið byggð á lögmætum sjónarmiðum. Hin kærða ákvörðun verður því felld úr gildi og lagt fyrir sveitarfélagið að taka málið til nýrrar meðferðar.

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Arnar Kristinsson og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Ákvörðun Sveitarfélagsins Árborgar, dags. 14. ágúst 2014, um synjun á umsókn A um sérstakar húsaleigubætur er felld úr gildi og lagt fyrir sveitarfélagið að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

  

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Arnar Kristinsson

Gunnar Eydal

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum