Hoppa yfir valmynd
16. september 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 35/2014

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

Þriðjudaginn 16. september 2014 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 35/2014:

Kæra A

á ákvörðun

Reykjavíkurborgar

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R:

B hefur f.h. A með bréfi, dags. 20. júní 2014, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Reykjavíkurborgar frá 21. mars 2014 á beiðni hennar um hærri stigagjöf vegna umsóknar um félagslega leiguíbúð og sérstakar húsaleigubætur.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi sótti um félagslega leiguíbúð og sérstakar húsaleigubætur hjá Reykjavíkurborg með umsókn, dags. 13. febrúar 2013. Umsókn kæranda um sérstakar húsaleigubætur var synjað með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 5. mars 2014, með þeim rökum að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði um sérstakar húsaleigubætur. Með bréfi þjónustumiðstöðvar var hins vegar tilkynnt að kærandi væri komin á biðlista eftir félagslegri leiguíbúð og umsókn hennar metin til sjö stiga. Kærandi áfrýjaði synjuninni til velferðarráðs sem tók málið fyrir á fundi sínum þann 20. mars 2014 og samþykkti svohljóðandi bókun:

Velferðarráð staðfesti mat starfsmanna þjónustumiðstöðvar á stigagjöf vegna umsóknar um félagslega leiguíbúð og sérstakar húsaleigubætur, sbr. matsblað með reglum um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur.

Niðurstaða velferðarráðs var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 21. mars 2014. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála með bréfi, dags. 20. júní 2014, og með bréfi, dags. sama dag, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir greinargerð Reykjavíkurborgar vegna kærunnar þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir synjun á umsókn kæranda. Enn fremur var óskað eftir gögnum sem lágu fyrir og gæfu upplýsingar um fjárhag kæranda. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 10. júlí 2014, þar sem fram kom að velferðarráð hafi tekið mál kæranda fyrir á ný og samþykkt að veita henni fleiri stig vegna umsóknarinnar. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 16. júlí 2014, var bréf Reykjavíkurborgar sent kæranda til kynningar og óskað eftir afstöðu hans vegna ákvörðunar Reykjavíkurborgar. Með tölvupósti þann 21. ágúst 2014 óskaði kærandi eftir að úrskurðað yrði í samræmi við kröfur kæranda.

II. Málsástæður kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndarinnar er vísað til þess að synjun Reykjavíkurborgar sé byggð á röngu mati þar sem kærandi eigi við langvarandi og mikinn félagslegan vanda að stríða, auk þess þurfi að beina henni í markvissa endurhæfingu. Kærandi sé komin á fullorðinsaldur, ekki sé pláss heima hjá foreldrum hennar og því nauðsynlegt að fá annað búsetuúrræði sem kærandi eigi rétt á lögum samkvæmt. Í 7. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík komi fram að aðstæður umsækjanda þurfi að vera metnar til 9 stiga eða meira til að fá sérstakar húsaleigubætur. Ljóst sé að kærandi nái 10 stigum vegna aðstæðna sinna.

III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar kemur fram að mál kæranda hafi verið tekið fyrir að nýju í áfrýjunarnefnd velferðarráðs vegna nýs vottorðs sem hafi fylgt kæru til úrskurðarnefndarinnar. Beiðni kæranda um hærri stigagjöf vegna umsóknar um félagslega leiguíbúð og sérstakar húsaleigubætur hafi verið samþykkt vegna langvarandi og mikils félagslegs vanda. Reykjavíkurborg telur að ekki sé lengur til staðar grundvöllur fyrir kæru og fer því fram á að málið verði látið niður falla.

IV. Niðurstaða

Málskotsheimild kæranda er reist á 16. gr. laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997. Um málsmeðferð fer samkvæmt ákvæðum XVII. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Fyrir nefndinni liggja reglur um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík frá 1. mars 2004, með síðari breytingum.

Ágreiningur máls þessa varðaði synjun Reykjavíkurborgar á beiðni kæranda um hærri stigagjöf vegna umsóknar um félagslega leiguíbúð og sérstakar húsaleigubætur. Samkvæmt gögnum málsins tók velferðarráð mál kæranda fyrir á ný á fundi þann 9. júlí 2014 í ljósi nýrra gagna og samþykkti beiðni kæranda um hærri stigagjöf. Liggur því ljóst fyrir að Reykjavíkurborg tók ákvörðun sína um mat á stigagjöf vegna umsóknar kæranda til endurskoðunar. Úrskurðarnefndin lítur því svo á að Reykjavíkurborg hafi afturkallað fyrri ákvörðun sína á grundvelli 25. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Í 1. tölul. 25. gr. stjórnsýslulaga er stjórnvaldi veitt heimild til að afturkalla ákvörðun sem tilkynnt hefur verið aðila máls þegar það er ekki til tjóns fyrir aðila. Í greinargerð Reykjavíkurborgar kemur fram að stigagjöf kæranda standi í 10 stigum í stað 8 og því um að ræða ívilnandi ákvörðun fyrir kæranda. Þar sem umsókn kæranda um félagslega leiguíbúð og sérstakar húsaleigubætur hefur verið samþykkt er það mat úrskurðarnefndarinnar að lögvarðir hagsmunir kæranda af efnislegri úrlausn málsins séu ekki lengur til staðar. Af þeim sökum verður kærunni vísað frá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála.

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Arnar Kristinsson og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A er vísað frá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála.

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Arnar Kristinsson

Gunnar Eydal

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum