Hoppa yfir valmynd
16. júlí 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 15/2014

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

                                                     

Miðvikudaginn 16. júlí 2014 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 15/2014:

Kæra A

á ákvörðun

Reykjavíkurborgar

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R:

A hefur með kæru, dags. 11. mars 2014, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Reykjavíkurborgar, dags. 18. desember 2013, á umsókn hans um styrk vegna barna að fjárhæð 50.000 krónur.

I. Málavextir og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 17. september 2013, sótti kærandi um fjárhagsaðstoð hjá Reykjavíkurborg að fjárhæð 50.000 krónur á grundvelli a-liðar 27. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg vegna komu barna hans frá B. Umsókn kæranda var synjað með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 24. september 2013, með þeim rökum að hún samræmdist ekki reglum Reykjavíkurborgar. Kærandi áfrýjaði synjuninni til velferðarráðs með tölvupósti þann 25. október 2013. Velferðarráð tók málið fyrir á fundi sínum þann 18. desember 2013 og samþykkti svohljóðandi bókun:

Velferðarráð staðfesti synjun starfsmanna þjónustumiðstöðvar um styrk að upphæð kr. 50.000,- þar sem eigi verður talið að aðstæður umsækjanda falli að skilyrðum þeim sem sett eru í 27. gr. reglna um fjárhagsaðstoð varðandi styrk vegna sérstakrar aðstoðar vegna stuðningsvinnu og/eða annarra sérstakra aðstæðna.

Niðurstaða velferðarráðs var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 18. desember 2013. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála með kæru, dags. 11. mars 2014. Með bréfi, dags. 26. mars 2014, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir öllum gögnum málsins, þar á meðal umsókn kæranda, ákvörðun sveitarfélagsins og gögnum um fjárhag kæranda. Enn fremur var óskað eftir greinargerð Reykjavíkurborgar þar sem fram kæmi meðal annars rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 5. maí 2014. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 7. maí 2014, var bréf Reykjavíkurborgar sent kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

II. Málsástæður kæranda

Kærandi greinir frá því að synjun Reykjavíkurborgar hafi komið honum í opna skjöldu. Hann hafi gert ráð fyrir þessum styrk í útgjöldum sínum vegna fyrirspurna hans og samtala við félagsráðgjafa. Hann hafi fengið styrk árin 2011 og 2012 til að standa straum af kostnaði vegna komu barna hans til Íslands en þau séu búsett í B. Kærandi kveðst hafa keypt ódýrustu tilboðsflugmiða ásamt tilheyrandi lestar- og flugrútuferðum fram og til baka, til þess að geta haft börnin hjá sér í haustleyfinu. Hann hafi að sjálfsögðu tæpast efni á um það bil 100.000 krónum í fjárútlát þar sem hann greiði 130.000 krónur á mánuði í húsaleigu og sé á framfærslustyrk. Hann hafi eingöngu sótt um styrk vegna barnsins sem sé undir 18 ára aldri.

III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar eru aðstæður kæranda raktar og greint frá því að hann eigi þrjú börn sem séu búsett í B. Eitt barna hans sé undir 18 ára aldri en hin tvö séu eldri. Kærandi hafi sótt um styrk til greiðslu kostnaðar vegna komu barna hans til landsins frá B. Umsókn kæranda hafi verið synjað á þeirri forsendu að aðstæður hans uppfylltu ekki skilyrði 27. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Umsókn kæranda hafi ekki fallið að skilyrðum a- og c-liða 27. gr. reglnanna og grundvallist því á b-lið 27. gr.  

Ákvæði 27. gr. reglnanna sé heimildarákvæði sem beri að nota í undantekningartilfellum. Skilyrði b-liðar 27. gr. sé að foreldrum sé veittur styrkur vegna sérstakra þarfa barna enda sé það hluti af umfangsmikilli stuðningsáætlun og til þess fallið að tryggja að árangur vinnu í máli viðkomandi glatist ekki. Þá hafi verið heimilt að veita forsjárlausum foreldrum styrk vegna útlagðs kostnaðar í tengslum við umgengni við börn sín enda sé sá stuðningur liður í frekari stuðningi við barn og foreldri. Þá sé það skilyrði að viðkomandi hafi átt í miklum félagslegum erfiðleikum. Ljóst sé að vinnsla hafi verið í málum kæranda í tengslum við atvinnumöguleika hans en ekki verði séð að það sé verið að vinna markvissa stuðningsvinnu varðandi umgengni kæranda við börn sín. Þá sé styrkurinn hvorki liður í að tryggja að árangur vinnu í máli kæranda glatist ekki né sé liður í frekari stuðningi við barn og foreldri. Kærandi uppfylli því ekki skilyrði b-liðar 27. gr. reglna um fjárhagsaðstoð þar sem ekki sé um að ræða umfangsmikla stuðningsvinnu varðandi börn hans.

Kærandi hafi fengið styrk í júní 2011 og júní 2012 vegna komu barna hans til landsins. Í ljósi framangreinds verði að telja að fyrri styrkveitingar hafi ekki verið í fullu samræmi við reglur Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð. Styrkveitingar til kæranda á árunum 2011 og 2012 geti ekki verið fordæmisgefandi fyrir síðari styrkumsóknir þar sem vinnsla þeirra hafi ekki samræmst 27. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð. Með hliðsjón af 11. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, verði að gæta jafnræðis gagnvart öðrum borgarbúum og því hafi ekki verið heimilt að samþykkja umsókn kæranda. Ekki verði litið svo á að ákvörðun velferðarráðs fari í bága við jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins gagnvart kæranda en velferðarráð telji að ekki sé hægt að byggja rétt sinn á ákvörðunum sem hafi ekki verið í samræmi við reglur borgarinnar um fjárhagsaðstoð. Jafnræðisregla 11. gr. stjórnsýslulaga veiti mönnum almennt ekki tilkall til neins þess sem ekki samrýmist lögum eða reglum. Hafi efni ákvörðunar ekki verið í samræmi við lög eða reglur getur aðili því almennt ekki borið fyrir sig þá ákvörðun og krafist sambærilegrar úrlausnar. Það hafi verið brugðist við þessu ósamræmi í vinnslu mála hjá þjónustumiðstöðvum með skýrari upplýsingagjöf og fyrirmælum til að koma í veg fyrir misræmi í vinnslu sambærilegra mála í framtíðinni. Það sé ljóst að ákvörðun velferðarráðs Reykjavíkurborgar hafi hvorki brotið gegn fyrrgreindum reglum um fjárhagsaðstoð, sbr. 21. gr. laga nr. 40/1991, né öðrum ákvæðum laganna og beri því að staðfesta ákvörðun velferðarráðs.  

IV. Niðurstaða

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Fyrir nefndinni liggja reglur um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg frá 1. janúar 2011, með síðari breytingum. Í máli þessu er ágreiningur um hvort Reykjavíkurborg hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð á grundvelli 27. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg vegna ferðakostnaðar barna hans að fjárhæð 50.000 krónur.

Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfsstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Fyrir liggur að kærandi hefur í tvígang notið styrkja vegna komu barna sinna til landsins án þess að fyrir liggi á hvaða grundvelli þeir styrkir voru veittir. Af þeim sökum hefði kærða verið rétt að rökstyðja nánar þá breytingu sem orðið hefur á framkvæmd styrkveitinga til kæranda. 

Samkvæmt b-lið 27. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg er heimilt að veita styrk til foreldra vegna sérstakra þarfa barna enda sé það hluti af umfangsmikilli stuðningsáætlun og til þess fallið að tryggja að árangur vinnu í máli viðkomandi glatist ekki. Þá er skilyrði að umsækjandi eigi í miklum félagslegum erfiðleikum. Að mati úrskurðarnefndarinnar benda gögn málsins ekki til þess að aðstæður kæranda og barna hans falli að skilyrði b-liðar 27. gr. framangreindra reglna enda var ekki um að ræða umfangsmikla stuðningsáætlun vegna barnanna. Að því virtu verður hin kærða ákvörðun staðfest.

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Arnar Kristinsson og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 18. desember 2013, um synjun á umsókn A um styrk vegna barna að fjárhæð 50.000 krónur er staðfest.

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Arnar Kristinsson

Gunnar Eydal

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum