Hoppa yfir valmynd
4. júní 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 31/2014

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

                                                        

Á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála þann 4. júní 2014 var tekið fyrir mál nr. 31/2014:

Kæra A

á ákvörðun

Reykjavíkurborgar

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R:

A, hefur lagt fram kæru, dags. 29. apríl 2014, til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála vegna synjunar Reykjavíkurborgar um þátttöku í viðgerðarkostnaði á grundvelli yfirlýsingar frá Húsnæðisnefnd Reykjavíkur.

I. Helstu málsatvik og kæruefni

Með erindi, dags. 16. október 2013, óskaði kærandi eftir þátttöku Reykjavíkurborgar í viðgerðarkostnaði vegna húseignar hennar að B í Reykjavík á grundvelli yfirlýsingar frá Húsnæðisnefnd Reykjavíkur. Í kæru kemur fram að kærandi hafi keypt íbúð af Húsnæðisnefnd Reykjavíkur árið 1998. Samkvæmt bréfi Húsnæðisnefndar Reykjavíkur, dags. 8. desember 1998, hafi 36.000 krónum verið haldið eftir af greiðslu til fyrri eiganda sem hafi átt að leggja í viðhaldssjóð Húsfélagsins að B í Reykjavík þegar viðgerð færi fram. Nú sé viðgerðum lokið en Reykjavíkurborg hafi neitað að greiða með vísan til 1. tölul. 3. gr. laga nr. 14/1905 en kærandi efist um að lögin séu enn í gildi. Reykjavíkurborg hafi yfirtekið eignir Húsnæðisnefndar Reykjavíkur þegar stofnunin hafi verið lögð niður og kærandi telji að borginni sé ekki stætt á því að neita að greiða peninga sem Húsnæðisnefnd Reykjavíkur hafi í raun ekki átt.

II. Niðurstaða

Í 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998, kemur fram að málsaðili geti skotið ákvörðun Íbúðalánasjóðs, húsnæðisnefndar eða þeirrar nefndar á vegum sveitarfélags sem hafi verið falið verkefni húsnæðisnefndar til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, sbr. lög um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Hlutverk úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er meðal annars að skera úr ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda. Ákvæði 1. mgr. 42. gr. laga nr. 44/1998 var breytt með 2. gr. laga nr. 77/2001 en í athugasemdum við 2. gr. frumvarpsins segir að með ákvörðun Íbúðalánasjóðs eða húsnæðisnefnda sé átt við stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Til þess að úrskurðarnefndin geti tekið kæru til efnislegrar meðferðar þarf að liggja fyrir stjórnvaldsákvörðun. Um stjórnvaldsákvörðun er einungis að ræða hafi stjórnvald tekið ákvörðun um rétt eða skyldu tiltekins aðila í skjóli stjórnsýsluvalds, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

Fyrir liggur að kærandi keypti íbúð af Húsnæðisnefnd Reykjavíkur og hefur krafið Reykjavíkurborg um greiðslu á grundvelli yfirlýsingar Húsnæðisnefndar, dags. 8. desember 1998. Húsnæðisnefnd Reykjavíkur var lögð niður 1. maí 2001 en Reykjavíkurborg tók við skuldbindingum hennar. Að mati úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er yfirlýsing Húsnæðisnefndar Reykjavíkur reist á einkaréttarlegum samningi milli kæranda og Húsnæðisnefndar Reykjavíkur. Synjun Reykjavíkurborgar um þátttöku í viðgerðarkostnaði á grundvelli framangreindrar yfirlýsingar er því ekki stjórnvaldsákvörðun í merkingu 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Kærunni verður því vísað frá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála.

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A er vísað frá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála.

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir

Gunnar Eydal

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum