Hoppa yfir valmynd
21. maí 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 9/2014

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

                                                           

Á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála þann 21. maí 2014 var tekið fyrir mál nr. 9/2014:

Kæra A

á ákvörðun

Reykjavíkurborgar

og kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R:

A, hér eftir nefndur kærandi, hefur með kæru, dags. 26. febrúar 2014, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun velferðarráðs Reykjavíkurborgar, dags. 17. febrúar 2014, á umsókn hans um námsstyrk fyrir tímabilið 1. febrúar 2014 til 31. maí 2014.

I. Málavextir og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 21. janúar 2014, sótti kærandi um fjárhagsaðstoð hjá Reykjavíkurborg fyrir tímabilið 1. febrúar 2014 til 31. maí 2014. Umsókn kæranda var synjað með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 23. janúar 2014, með þeim rökum að aðstæður kæranda féllu ekki að þeim skilyrðum sem fram koma í 18. gr. reglna um fjárhagsaðstoð Reykjavíkurborgar varðandi námsstyrki. Kærandi áfrýjaði synjuninni til velferðarráðs með bréfi, dags. 23. janúar 2014. Velferðarráð tók málið fyrir á fundi sínum þann 17. febrúar 2014 og samþykkti svohljóðandi bókun:

Velferðarráð staðfesti synjun starfsmanna þjónustumiðstöðvar um námsstyrk tímabilið 1. janúar 2014 til 31. maí 2014 þar sem aðstæður umsækjanda falli eigi að skilyrðum þeim sem sett eru í 18. gr. reglna um fjárhagsaðstoð varðandi námsstyrki.

Niðurstaða velferðarráðs var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 17. febrúar 2014. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála með kæru, dags. 26. febrúar 2014. Með bréfi, dags. 28. febrúar 2014, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir öllum gögnum málsins, þar á meðal umsókn kæranda, ákvörðun sveitarfélagsins og gögnum um fjárhag kæranda. Enn fremur var óskað eftir greinargerð Reykjavíkurborgar þar sem fram kæmi meðal annars rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 13. mars 2014. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 18. mars 2014, var bréf Reykjavíkurborgar sent kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

II. Málsástæður kæranda

Kærandi óskar endurskoðunar á synjun umsóknar hans um námsstyrk frá 1. janúar til 31. maí 2014. Kærandi kveðst stunda lánshæft nám en sökum þess að kærandi eigi lítinn rétt á námsláni dugi það honum ekki til framfærslu. Kærandi vísar til þess að Velferðarsvið Reykjavíkurborgar hafi veitt einstaklingum sem ekki fái fullar atvinnuleysisbætur og/eða örorkulífeyri uppbót á þessar bætur og þyki skrítið að ekki eigi sama við um þegar framfærslu námsmanna sé að ræða.

III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar er félagsleg staða kæranda rakin og greint frá því að hann hafi lokið 36 mánuðum á endurhæfingarlífeyri. Velferðarráð hafi samþykkt námsaðstoð fyrir kæranda á haustönn 2013 en vegna mikils álags og erfiðleika í sambandi við húsnæði hafi kærandi hætt í skóla og fengið framfærslu síðustu tvo mánuði annarinnar. Kærandi sé nemi á lokaönn í B og hafi fengið samþykkt námslán frá Lánasjóði íslenskra námsmanna (LÍN) að fjárhæð 200.000 krónur fyrir vorönn 2014. Kærandi hafi óskað eftir námsstyrk til framfærslu fyrir vorönn 2014 að teknu tilliti til þess að hann byggi hjá öðrum og að frádreginni þeirri fjárhæð sem hann hafi fengið í janúar sem yfirdráttarlán í banka þar til hann myndi ljúka önninni.

Reykjavíkurborg vísar til 15. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg þar sem fram komi að einstaklingar sem stundi nám sem sé lánshæft hjá LÍN njóti ekki réttar til fjárhagsaðstoðar. Aðrir námsmenn eigi ekki rétt til fjárhagsaðstoðar til framfærslu nema skilyrðum 18. gr. um námsstyrki/lán vegna náms sé fullnægt. Kærandi vísi til þess að þar sem hann eigi lítinn rétt á námsláni þá dugi það ekki til framfærslu. Hann hafi því óskað eftir að litið yrði fram hjá framangreindum reglum og honum veittur námsstyrkur skv. 18. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg.

Reykjavíkurborg rekur ákvæði 18. gr. reglna um fjárhagsaðstoð og telur ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði greinarinnar. Fjárhagsaðstoð frá sveitarfélagi til framfærslu einstaklinga sé tímabundin neyðaraðstoð enda sé hverjum manni skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Kærandi hafi valið að leggja stund á nám en fjárhagsaðstoð frá sveitarfélagi sé ekki ætlað það hlutverk að taka við þar sem LÍN sleppi og veita fjárhagsaðstoð þegar námslánið dugi ekki fyrir framfærslu. Það að kærandi sé einungis í 13 einingum og því ekki í fullu námi bendi til þess að hann sé til reiðu fyrir vinnumarkaðinn.

Að auki vísar Reykjavíkurborg til þess að það sé skýrt kveðið á um það í 15. gr. reglna um fjárhagsaðstoð að þeir einstaklingar sem stundi nám sem sé lánshæft hjá LÍN njóti ekki réttar til fjárhagsaðstoðar. Nám kæranda sé lánshæft hjá LÍN og því verði að líta svo á að það girði fyrir rétt hans til fjárhagsaðstoðar frá Reykjavíkurborg. Í þessu samhengi sé aðeins litið til þess hvort námið teljist lánshæft hjá LÍN en ekki hvort LÍN telji öll lánsskilyrði uppfyllt. Það sé því ljóst að ákvörðun áfrýjunarnefndar velferðarráðs hafi hvorki brotið gegn reglum um fjárhagsaðstoð Reykjavíkurborgar, sbr. 21. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, né öðrum ákvæðum þeirra laga.

IV. Niðurstaða

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Í máli þessu er ágreiningur um hvort Reykjavíkurborg hafi borið að samþykkja umsókn kæranda, dags. 21. janúar 2014, um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 1. febrúar 2014 til 31. maí 2014.

Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfsstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í 18. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg kemur fram að námsstyrki sé heimilt að veita í eftirfarandi tilvikum og aðstoðin miðist við grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar skv. 11. gr. ásamt almennum skólagjöldum og bókakostnaði:

a)      Til einstaklinga 18–24 ára, sem ekki hafa lokið grunnskóla eða framhaldsskóla og hafa átt við mikla félagslega erfiðleika að stríða.

b)      Til einstæðra foreldra á aldrinum 18–24 ára, sem ekki hafa lokið grunnskóla eða framhaldsskóla og hafa haft atvinnutekjur sem eru lægri en grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar, sbr. 1. mgr. 11. gr. reglna þessara, undanfarna tólf mánuði. Skilyrði er að umsækjandi hafi átt í félagslegum erfiðleikum.

c)      Til einstaklinga á aldrinum 18–24 ára sem ekki hafa lokið framhaldsskóla og eiga eftir óloknum að hámarki tveimur önnum. Um sé að ræða einstakling sem ekki hefur tök á að vinna með skóla og fyrir liggur mat á því að ef ekki komi til aðstoðar sé ljóst að viðkomandi flosni upp úr námi.

d)      Til einstaklinga sem hafa verið atvinnulausir án bótaréttar eða þegið fjárhagsaðstoð í sex mánuði eða lengur og hafa ekki lokið grunnnámi sem gefur rétt á námsláni.

e)      Heimilt er að veita tekjulágum foreldrum fjárstyrk vegna náms 16 og 17 ára barna. Hér er átt við tekjulága foreldra sem átt hafa í langvarandi félagslegum erfiðleikum.

Í greinargerð Reykjavíkurborgar kemur fram að það sé ljóst að aðstæður kæranda falli ekki að ákvæðum a-, b-, c- eða e-liðar 18. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Kærandi er X ára og því koma ákvæði a­-, b-, c- og e-liða 18. gr. reglnanna ekki til skoðunar. Af hálfu Reykjavíkurborgar kemur einnig fram að kærandi uppfylli ekki skilyrði d-liðar 18. gr. þar sem hann eigi rétt á námsláni. Kærandi sé ekki í fullu námi og því bendi það til þess að hann sé til reiðu fyrir vinnumarkaðinn. Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi fullnýtt rétt sinn til endurhæfingarlífeyris hjá Tryggingastofnun ríkisins, sbr. 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Kærandi stundar nám í B og nýtur námslána í samræmi við námshlutfall sitt og aðstæður.

Ákvörðun Reykjavíkurborgar í máli þessu er stjórnvaldsákvörðun og við slíkar ákvarðanir ber stofnuninni að gæta að málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Samkvæmt 10. gr. laganna skal tryggt að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin. Markmið rannsóknarreglunnar er að tryggja að stjórnvaldsákvarðanir séu bæði löglegar og réttar. Í máli þessu hvílir það á Reykjavíkurborg að upplýsa málið áður ákvörðun er tekin. Mál telst nægilega rannsakað þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Að mati úrskurðarnefndarinnar verður ekki séð að Reykjavíkurborg hafi rannsakað málið nægjanlega áður en lagt var mat á það hvort kærandi uppfylli skilyrði d-liðar 18. gr. reglnanna. Í gögnum málsins liggur hvorki fyrir staðfesting þess efnis að kærandi sé atvinnulaus án bótaréttar né að hann sé vinnufær. Samkvæmt því verður ekki fallist á að hægt sé að taka ákvörðun í málinu á grundvelli þeirra gagna sem liggja fyrir.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála Reykjavíkurborg hafi ekki gætt að 10. gr. stjórnsýslulaga við meðferð máls kæranda. Verður því ekki hjá því komist að fella ákvörðun Reykjavíkurborgar úr gildi og vísa málinu aftur til stofnunarinnar til löglegrar meðferðar.

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 17. febrúar 2014, um synjun á umsókn A um námsstyrk fyrir tímabilið 1. febrúar 2014 til 31. maí 2014 er felld úr gildi og málinu vísað til löglegrar meðferðar.

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir

Gunnar Eydal

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum