Hoppa yfir valmynd
7. maí 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 3/2014

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

                                                   

Á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála þann 7. maí 2014 var tekið fyrir mál nr. 3/2014:

Kæra A

á ákvörðun

Sveitarfélagsins Voga

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R:

 

A, hér eftir nefndur kærandi, hefur með ódagsettri kæru, mótt. 28. janúar 2014, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála ákvörðun Sveitarfélagsins Voga um að lækka viðmiðunarfjárhæð fjárhagsaðstoðar til handa íbúum sveitarfélagsins frá 1. janúar 2014.

I. Málavextir og málsmeðferð

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að kærandi hefur þrívegis sótt um og fengið samþykkta fjárhagsaðstoð frá Sveitarfélaginu Vogum, samtals í 19 mánuði. Með bréfi, dags. 17. janúar 2014, var kæranda tilkynnt um breytingar á viðmiðunarfjárhæðum vegna fjárhagsaðstoðar til handa íbúum sveitarfélagsins frá og með 1. janúar 2014. Fjárhagsaðstoð væri 120.000 krónur til einstaklinga en 195.000 krónur til hjóna. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála 28. janúar 2014 og með bréfi, dags. 29. janúar 2014, óskaði úrskurðarnefndin eftir öllum gögnum málsins, þar á meðal umsókn kæranda, ákvörðun sveitarfélagsins og gögnum um fjárhag kæranda. Enn fremur var óskað eftir greinargerð sveitarfélagsins þar sem fram kæmi meðal annars rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Greinargerð Sveitarfélagsins Voga barst með bréfi, dags. 12. janúar 2014. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 18. febrúar 2014, var bréf sveitarfélagsins sent kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá kæranda með tölvupósti, dags. 24. febrúar 2014.

II. Málsástæður kæranda

Kærandi greinir frá því að Sveitarfélagið Vogar hafi, með nýsamþykktri fjárhagsáætlun, ákveðið að lækka grunnframfærslufjárhæð einstaklinga niður í 120.000 krónur á mánuði. Í nýjustu útgáfu af leiðbeiningum um fjárhagsaðstoð sem sé á heimasvæði velferðarráðuneytisins komi fram að fjárhagsaðstoð til einstaklinga 18 ára og eldri miðist að lágmarki við 125.540 krónur á mánuði. Það sé miðað við vísitölu 2009 sem hafi líklega hækkað síðan þá. Fjárhæðin sem sveitarfélagið greiðir sé því mun lægri en komi fram í leiðbeiningunum. Kærandi túlki sem svo að tiltekið lágmark sé til að verja hagsmuni þeirra sem þurfi á þessari neyðaraðstoð að halda.

III. Sjónarmið Sveitarfélagsins Voga

Í greinargerð sveitarfélagsins vegna kærunnar er greint frá því að þann 20. desember 2013 hafi félagsþjónustunni borist tilkynning frá bæjarstjóra Sveitarfélagsins Voga þar sem fram hafi komið að fjárhagsáætlun sveitarfélagsins hafi verið afgreidd og samþykkt. Áætlunin hafi falið í sér breytingar á viðmiðunarfjárhæðum vegna fjárhagsaðstoðar til handa íbúum sveitarfélagsins frá og með 1. janúar 2014. Kæranda hafi verið tilkynnt um breytinguna með bréfi, dags. 17. janúar 2014.

IV. Niðurstaða

Ágreiningur málsins lýtur að viðmiðunarfjárhæð Sveitarfélagsins Voga vegna fjárhagsaðstoðar til handa íbúum þess. Kærandi er ósáttur við ákvörðun sveitarfélagsins að lækka grunnframfærslufjárhæð einstaklings niður í 120.000 krónur.

Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita.

Fyrir nefndinni liggja reglur um fjárhagsaðstoð hjá Sandgerðisbæ, Garði og Vogum frá 16. janúar 2014. Í 10. gr. reglnanna kemur meðal annars fram að fjárhagsaðstoð til einstaklings 18 ára og eldri búsettum í Vogum geti numið allt að 120.000 krónum á mánuði en um sé að ræða grunnfjárhæð. Við ákvörðun grunnfjárhæðar sé tekið mið af samanlagðri mánaðargreiðslu örorkulífeyris, tekjutryggingar örorkulífeyrisþega og heimilisuppbótar og nemi grunnfjárhæð 80% af þeirri heildarfjárhæð. Þá kemur fram að breyta skuli grunnfjárhæð 1. janúar ár hvert miðað við neysluvísitölu nema annað sé ákveðið á fundi fjölskyldu- og velferðarnefndar.

Kærandi hefur vísað til þess að grunnframfærslufjárhæð Sveitarfélagsins Voga sé ekki í samræmi við leiðbeiningar velferðarráðuneytisins um fjárhagsaðstoð. Á heimasíðu velferðarráðuneytisins er að finna bréf frá félags- og tryggingamálaráðuneytinu [nú velferðarráðuneytinu] til sveitarstjórna, dags. 15. desember 2009. Þar kemur fram að félags- og tryggingamálaráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga og Samtök félagsmálastjóra hafi gert með sér samkomulag í desember 2007 um að ráðuneytið skyldi árlega uppfæra grunnfjárhæð vegna fjárhagsaðstoðar sveitarfélaga, í samræmi við hækkun á gengi neysluverðsvísitölu samkvæmt 21. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, og birta fjárhæðina í leiðbeiningum ráðuneytisins. Í desember 2009 var grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar til einstaklinga því hækkuð úr 115.567 krónum í 125.540 krónur, eða um 8,63%. Í bréfinu er einnig ítrekað að um leiðbeinandi viðmið sé að ræða og tekið fram að ákvörðun um fjárhagsaðstoð sveitarfélaga sé í höndum hvers og eins sveitarfélags, sbr. 21. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Í 64. gr. laganna er fjallað um starfssvið úrskurðarnefndarinnar en þar kemur meðal annars fram að nefndin fjalli um hvort samþykkt þjónusta og upphæð fjárhagsaðstoðar sé í samræmi við reglur viðkomandi sveitarstjórnar. Að því virtu og í samræmi við ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfsstjórn sveitarfélaga er það mat úrskurðarnefndarinnar að það geti ekki falist í valdheimildum nefndarinnar að úrskurða um fjárhæð fjárhagsaðstoðar sveitarfélaga heldur sé það vald eftirlátið dómstólum. Kærunni verður því vísað frá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála.

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A er vísað frá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála.

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir

Gunnar Eydal

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum