Hoppa yfir valmynd
27. mars 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 50/2013

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík
                                                    

Fimmtudaginn 27. mars 2014 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 50/2013:

Kæra A

á ákvörðun

Kópavogsbæjar

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R:

A, hér eftir nefnd kærandi, hefur með kæru, dags. 25. september 2013, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Kópavogsbæjar, dags. 20. ágúst 2013, á umsókn hennar um fjárhagsaðstoð fyrir júlí 2013. Við meðferð kærumáls þessa tók Kópavogsbær mál kæranda til skoðunar á ný þar sem umsókn um fjárhagsaðstoð fyrir ágúst 2013 hafði ekki verið afgreidd. Kópavogsbær synjaði umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð fyrir júlí og ágúst 2013 með ákvörðun, dags. 14. nóvember 2013.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi sótti um fjárhagsaðstoð fyrir júlí og ágúst 2013 hjá Kópavogsbæ með umsókn, dags. 22. júlí 2013. Umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð fyrir júlí 2013 var tekin fyrir á teymisfundi þann 24. júlí 2013 og var eftirfarandi bókun gerð:

Synjað að veita framfærslustyrk skv. 16. gr. á móti tekjum fyrir júlí mánuð þar sem umsækjandi er nemi á milli anna. Þá er synjað að veita framfærslulán fyrir júlí þar sem tekjur fyrir júní mánuð koma til skerðingar.

Niðurstaða teymisfundar var tilkynnt kæranda með bréfi velferðarsviðs Kópavogsbæjar, dags. 24. júlí 2013. Kærandi áfrýjaði synjuninni til félagsmálaráðs Kópavogs með ódagsettu bréfi. Félagsmálaráð tók málið fyrir á fundi sínum þann 20. ágúst 2013 og samþykkti svohljóðandi bókun:

Félagsmálaráð staðfestir bókun teymisfundar.

Niðurstaða félagsmálaráðs var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 21. ágúst 2013. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála með bréfi, dags. 25. september 2013. Með bréfi, dags. 26. september 2013, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir öllum gögnum málsins, þar á meðal umsókn kæranda, ákvörðun sveitarfélagsins og gögnum um fjárhag kæranda. Enn fremur var óskað eftir greinargerð Kópavogsbæjar þar sem fram kæmi meðal annars rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Beiðni um greinargerð Kópavogsbæjar var ítrekuð með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 7. nóvember 2013. Með bréfi Kópavogsbæjar til úrskurðarnefndarinnar, dags. 12. nóvember 2013, upplýsti sveitarfélagið að málið hefði verið endurupptekið þar sem umsókn um fjárhagsaðstoð fyrir ágúst 2013 hafði ekki verið afgreidd. Umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð fyrir júlí og ágúst 2013 var tekin fyrir á teymisfundi þann 14. nóvember 2013 þar sem eftirfarandi bókun var gerð:

Synjað að veita framfærslustyrk skv. 16. gr. í júlí þar sem tekjur í júní mánuði eru yfir tekjumörkum og skerða því fjárhagsaðstoð í mánuðinum á eftir skv. 18. gr.

Synjað að veita framfærslustyrk skv. 16. gr. í ágúst þar sem umsækjandi er með tekjur yfir viðmiðunarmörkum greinarinnar.

Niðurstaða teymisfundar var tilkynnt kæranda með bréfi velferðarsviðs Kópavogsbæjar, dags. 14. nóvember 2013. Með bréfi Kópavogsbæjar til úrskurðarnefndarinnar, dags. 20. nóvember 2013, var ákvörðun teymisfundar og frekari gögn send nefndinni. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 28. janúar 2014, var kæranda tilkynnt um tafir á afgreiðslu málsins sem orsökuðust af miklum málafjölda hjá úrskurðarnefndinni en að vonir stæðu til þess að ljúka málinu sem fyrst. Fyrir mistök hafði bréf Kópavogsbæjar ekki verið sent kæranda þegar það barst úrskurðarnefndinni. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 24. febrúar 2014, var bréf Kópavogsbæjar því sent kæranda til kynningar. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 26. febrúar 2014, var beiðni um öll gögn málsins frá Kópavogsbæ ítrekuð á ný. Með bréfi Kópavogsbæjar, dags. 3. mars 2014, var upplýst að málið hefði verið endurupptekið hjá sveitarfélaginu og kæranda leiðbeint um rétt til áfrýjunar en ekki voru lögð fram frekari gögn. Bréfið barst þó ekki úrskurðarnefndinni og var afrit af því sent nefndinni með tölvupósti þann 17. mars 2014. Með tölvupósti þann 13. mars 2014 var beiðni um gögn ítrekuð og bárust þau með tölvupósti þann 17. mars 2014.

II. Málsástæður kæranda

Kærandi óskar endurskoðunar á synjun umsóknar  um framfærslustyrk fyrir ágúst 2013. Kærandi vísar til áfrýjunarbréfs til Kópavogsbæjar þar sem stöðu hennar sé lýst ítarlega. Kærandi hafi ekki enn getað greitt leigu sína þar sem hún hafi einungis fengið um 150.000 krónur útborgaðar mánaðamótin ágúst-september 2013. Þetta hafi sett allt úr skorðum hjá henni en ofan á leiguna hafi bæst við lyfjakostnaður upp á 23.000 krónur ásamt sérfræðigreiningu upp á 30.000 krónur.

Í bréfi kæranda til Kópavogsbæjar kemur fram að hún sé um 54.000 krónum undir lágmarksframfærslu sem sé 147.000 krónur á mánuði. Hún sé einstæð móðir með tvö börn í leiguhúsnæði hjá Kópavogsbæ. Í þeirri stöðu sem hún sé geti hún ekki greitt fulla leigu í ágúst og september 2013. Ástæða synjunarinnar hafi verið sú að hún hafi verið nemi og gerir kærandi athugasemd við það. Hún hafi fengið tækifæri til að vinna á teiknistofu sumarið 2013 en hún hafi þó fengið lægra starfshlutfall en hún hafi búist við. Kærandi bendir á að ekkert komi fram í reglum Kópavogsbæjar um nema á milli anna. Kærandi bendir á að hún hafi ekki stundað nám yfir sumarmánuðina og fái ekki námslán. Þá bendir kærandi á að hún sé með tekjur undir grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar en barnabætur séu ekki tekjur heldur greiðslur sem hún fái vegna þess hve tekjulág hún sé.

III. Sjónarmið Kópavogsbæjar

Af hálfu Kópavogsbæjar hefur komið fram að á fundi þann 20. ágúst 2013 hafi félagsmálaráð Kópavogs staðfest ákvörðun teymisfundar ráðgjafa- og íbúðadeildar frá 22. júlí s.á. um að synja umsókn kæranda um framfærslustyrk fyrir júlí 2013. Kærandi hafi hins vegar sótt um fjárhagsaðstoð vegna bæði júlí og ágúst 2013. Málið hafi því ekki fengið rétta málsmeðferð hjá teymisfundi og ákvörðun félagsmálaráðs hafi því verið byggð á ófullnægjandi upplýsingum um málsatvik. Í ljósi þess hafi velferðarsvið Kópavogs ákveðið að taka málið upp, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Umsókn kæranda hafi verið tekin fyrir að nýju á teymisfundi þann 14. nóvember 2013 og hafi niðurstaða fundarins verið að synja umsækjanda um fjárhagsaðstoð fyrir ágúst 2013 þar sem tekjur hennar fyrir ágústmánuð hafi verið 171.455 krónur sem sé yfir viðmiðunarmörkum um fjárhagsaðstoð. Afgreiðsla á umsókn vegna fjárhagsaðstoðar fyrir júlímánuð sama árs hafi verið óbreytt.

Kópavogsbær bendir á að niðurstaða teymisfundar hafi verið kynnt kæranda og henni bent á rétt sinn til áfrýjunar til félagsmálaráðs Kópavogs og til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála. Það sé afstaða Kópavogsbæjar að kærandi hafi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr kæru sinni vegna ákvörðunar félagsmálaráðs Kópavogs frá 20. ágúst 2013.

IV. Niðurstaða

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Fyrir nefndinni liggja reglur Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð frá 30. desember 2003, með síðari breytingum. Í máli þessu er ágreiningur um hvort Kópavogsbæ hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð fyrir júlí og ágúst 2013.

Úrskurðarnefndin tekur fram að með bréfi nefndarinnar, dags. 26. september 2013, var óskað allra gagna málsins frá Kópavogsbæ. Beiðnin var ítrekuð með bréfum, dags. 7. nóvember 2013 og 26. febrúar 2014, og tölvupósti þann 13. mars 2014, þar sem ekki höfðu öll gögn málsins verið lögð fram. Beiðni úrskurðarnefndarinnar til Kópavogsbæjar um öll gögn málsins er þáttur í rannsókn nefndarinnar, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, en hún á að leiða hið sanna og rétta í ljós í máli. Afar brýnt er að við meðferð kærumála liggi fyrir öll þau gögn og upplýsingar sem hin kærða ákvörðun byggist á. Afstaða sveitarfélagsins til þess hvort mál sé tækt til efnismeðferðar hjá nefndinni hefur ekki áhrif á skyldu þess til að afhenda umbeðin gögn. Úrskurðarnefndin beinir þeim tilmælum til Kópavogsbæjar að framangreint verði haft í huga við afhendingu gagna í tilefni af stjórnsýslukæru til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála.

Kærandi sótti um fjárhagsaðstoð fyrir júlí og ágúst 2013. Umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð fyrir júlí 2013 var synjað á teymisfundi, dags. 24. júlí 2013, og var ákvörðun teymisfundar staðfest á fundi félagsmálaráðs Kópavogs, dags. 20. ágúst 2013. Synjun sveitarfélagsins var birt kæranda með bréfi, dags. 21. ágúst 2013. Sú ákvörðun var kærð til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 25. september 2013. Með bréfi Kópavogsbæjar til úrskurðarnefndarinnar, dags. 12. nóvember 2013, upplýsti sveitarfélagið að málið hefði verið endurupptekið þar sem umsókn um fjárhagsaðstoð fyrir ágúst 2013 hafi ekki verið afgreidd. Með bréfi, dags. 14. nóvember 2013, var kæranda tilkynnt um að umsókn hennar um fjárhagsaðstoð fyrir júlí og ágúst 2013 hafi verið synjað á teymisfundi og kæranda leiðbeint um málskotsheimild til félagsmálaráðs og úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála.

Úrskurðarnefndin tekur fram að stjórnvöld hafa ekki alveg frjálsar hendur um það hvort og hvenær þau taka ákvarðanir sínar til endurskoðunar, enda myndi slíkt valda óviðunandi réttaróvissu. Reistar eru skorður við því, bæði í skráðum og óskráðum reglum, hvenær hægt er að taka ákvörðun til endurskoðunar. Í 23. og 25. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, hér eftir nefnd ssl., er að finna heimildir stjórnvalds til þess að breyta, leiðrétta eða afturkalla ákvörðun að eigin frumkvæði, en heimild 24. gr. ssl., um endurupptöku máls, er bundin við að fram komi beiðni frá aðila máls.

Í máli þessu tók Kópavogsbær ákvörðun sína, dags. 20. ágúst 2013, til endurskoðunar að eigin frumkvæði og tekin var ný efnisleg ákvörðun í málinu, dags. 14. nóvember 2013. Ekki verður talið að um leiðréttingu skv. 2. mgr. 23. gr. ssl. hafi verið að ræða, enda tekur ákvæðið ekki til leiðréttingar á efni ákvörðunar heldur einungis til leiðréttingar á bersýnilegum villum er varða form ákvörðunar. Þá hafði aðili málsins ekki óskað eftir endurupptöku ákvörðunarinnar hjá sveitarfélaginu, sbr. 24. gr. ssl. Það úrræði sem eftir stóð var því afturköllun, sbr. 25. gr. ssl. Með afturköllun er í stjórnsýslurétti átt við það að stjórnvald taki að eigin frumkvæði aftur lögmæta ákvörðun sína sem birt hefur verið. Eftir atvikum tekur stjórnvaldið í framhaldinu nýja stjórnvaldsákvörðun í málinu.

Ákvörðun stjórnvalds, sem komin er til aðila máls, verður ekki tekin aftur nema skilyrði afturköllunar séu fyrir hendi. Ýmis sjónarmið ráða niðurstöðu um það hvort afturköllun sé lögmæt. Takast þar einkum á ástæður stjórnvalds til afturköllunar og þýðing ákvörðunarinnar fyrir þann sem hún beinist að. Í máli þessu verður hins vegar ekki litið hjá því að þegar Kópavogsbær tók nýja ákvörðun í máli kæranda á teymisfundi þann 14. nóvember 2013, var málið til meðferðar hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála á grundvelli kæru, dags. 25. september 2013. Af þeim sökum mun úrskurðarnefndin ekki víkja sérstaklega að því hvort skilyrði afturköllunar og töku nýrrar ákvörðunar í máli þessu hafi verið uppfyllt.

Rétt er að benda á að áður en stjórnvald á lægra stjórnsýslustigi endurskoðar eigin ákvörðun er grundvallaratriði að gengið sé úr skugga um að málið sé ekki til meðferðar hjá æðra stjórnvaldi enda verður ekki fjallað um mál á tveimur stjórnsýslustigum á sama tíma. Í ljósi þess að málið var til meðferðar hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála var Kópavogsbær því ekki bær til að taka málið til meðferðar og endurskoða ákvörðunina. Eins og hér stendur á er því um valdþurrð að ræða. Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála beinir þeim tilmælum til Kópavogsbæjar að hafa framangreind sjónarmið til hliðsjónar telji sveitarfélagið rétt að taka eigin ákvörðun til endurskoðunar sem kærð hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Þrátt fyrir framangreinda annmarka á ákvörðun Kópavogsbæjar sem tekin var á teymisfundi þann 14. nóvember 2013, er það mat úrskurðarnefndarinnar að ekki sé tilefni til að fella ákvörðunina úr gildi. Ákvörðun Kópavogsbæjar um synjun á umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð fyrir júlí og ágúst 2013, dags. 14. nóvember 2013, verður því tekin til endurskoðunar í kærumáli þessu enda er það í samræmi við hagsmuni kæranda.

Umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð fyrir júlí 2013 var synjað á þeim grundvelli að tekjur hennar í júní 2013 hafi verið yfir tekjumörkum og hafi því skert fjárhagsaðstoð í mánuðinum á eftir skv. 18. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð. Umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð fyrir ágúst 2013 var synjað á þeim grundvelli að tekjur kæranda hafi verið yfir viðmiðunarmörkum 16. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð, en tekjur hennar fyrir ágúst hafi numið 171.455 krónum.

Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð tekur framfærslugrunnur mið af útgjöldum vegna daglegs heimilishalds og miðast við grunnfjárhæð 142.020 krónur. Framfærslugrunnur einstaklinga 18 ára og eldri sem sannanlega reka eigið heimili er 1,0 eða 142.020 krónur, sbr. 1. lið 1. mgr. 16. gr. reglnanna. Í 1. málsl. 3. mgr. 16. gr. segir að frá upphæð fjárhagsaðstoðar dragist skattskyldar tekjur, sbr. 18. gr. Fram kemur í 1. mgr. 18. gr. að allar tekjur einstaklings/maka í þeim mánuði sem sótt er um og mánuðinum á undan komi til frádráttar við ákvörðun um upphæð fjárhagsaðstoðar. Kærandi sótti um fjárhagsaðstoð fyrir júlí og ágúst 2013 með umsókn, dags. 22. júlí 2013. Við afgreiðslu umsóknar kæranda bar því að miða við tekjur hennar í júní og júlí 2013. Samkvæmt staðgreiðsluyfirliti ríkisskattstjóra voru tekjur kæranda í júní 2013, 285.029 krónur og í júlí 2013 voru þær 105.664 krónur. Meðaltekjur kæranda framangreinda mánuði voru því 195.346 krónur og þannig hærri en grunnfjárhæð 1. mgr. 16. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð. Með vísan til framangreinds er það mat úrskurðarnefndarinnar að skilyrði reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð hafi ekki verið uppfyllt í málinu og kærandi hafi því ekki átt rétt á fjárhagsaðstoð fyrir júlí og ágúst 2013. Synjun Kópavogsbæjar á umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð fyrir júlí og ágúst 2013 verður því staðfest.

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Kópavogsbæjar, dags. 14. nóvember 2013, um synjun á umsókn A um fjárhagsaðstoð fyrir júlí og ágúst 2013 er staðfest.

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir

Gunnar Eydal

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum