Hoppa yfir valmynd
26. febrúar 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 42/2013

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

Miðvikudaginn 26. febrúar 2014 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 42/2013:

Kæra A

á ákvörðun

Reykjavíkurborgar

 

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R:

A, hér eftir nefndur kærandi, hefur með kæru, dags. 2. september 2013, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Reykjavíkurborgar, dags. 20. ágúst 2013, á umsókn hans um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 13. júní-31. júlí 2013.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi sótti um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 13. júní-31. júlí 2013 hjá Reykjavíkurborg með umsókn, dags. 18. júní 2013. Umsókn kæranda var synjað með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 4. júlí 2013, með þeim rökum að umsóknin samræmdist ekki 12. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Kærandi áfrýjaði synjuninni til velferðarráðs með ódagsettu bréfi, mótt. 22. júlí 2013. Velferðarráð tók málið fyrir á fundi sínum þann 20. ágúst 2013 og samþykkti svohljóðandi bókun:

Velferðarráð staðfesti synjun starfsmanna þjónustumiðstöðvar um fjárhagsaðstoð tímabilið 1. júní 2013 til 31. júlí 2013 skv. 12. gr. reglna um fjárhagsaðstoð.

Niðurstaða velferðarráðs var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 26. ágúst 2013. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi á synjun Reykjavíkurborgar með bréfi, dags. 2. september 2013. Reykjavíkurborg sendi kæranda rökstuðning fyrir hinni kærðu ákvörðun með bréfi, dags. 12. september 2013. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála með bréfi, dags. 2. september 2013. Með bréfi, dags. 4. september 2013, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir öllum gögnum málsins, þar á meðal umsókn kæranda, ákvörðun sveitarfélagsins og gögnum um fjárhag kæranda. Enn fremur var óskað eftir greinargerð Reykjavíkurborgar þar sem fram kæmi meðal annars rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 16. september 2013. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 17. september 2013, var bréf Reykjavíkurborgar sent kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með ódagsettu bréfi, mótt. 27. september 2013. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 28. janúar 2013, var kæranda tilkynnt um tafir á afgreiðslu málsins sem orsökuðust af miklum málafjölda hjá úrskurðarnefndinni en að vonir stæðu til þess að ljúka málinu sem fyrst. Starfsmaður úrskurðarnefndarinnar óskaði upplýsinga frá kæranda símleiðis þann 7. febrúar 2014 um hvort fyrir lægi leiðrétt skattframtal 2012 en kærandi upplýsti að beiðni hans um leiðréttingu hefði ekki enn verið afgreidd hjá ríkisskattstjóra. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 11. febrúar 2014, var óskað frekari gagna frá Reykjavíkurborg og bárust þau með bréfi, dags. 19. febrúar 2014.

II. Málsástæður kæranda

Kærandi kveðst vera eignalaus námsmaður og hafi ekki fengið vinnu sumarið 2013. Hann sé alveg tekjulaus en foreldrar hans hafi séð honum fyrir nauðsynjum. Kærandi bendir á að hlutabréf sem fram komi á skattframtali hans hafi fyrir mistök verið skráð þar ennþá. Móðir hans eigi öll hlutabréf í félaginu, bæði samkvæmt fyrirtækjaskrá og samkvæmt hennar eigin skattframtali. Þess megi einnig geta að fyrirtækið sem um ræði hafi ekki verið í rekstri í nokkur ár, virðisaukaskattsreikningur þess sé lokaður og félagið hafi ekki skilað neinum skýrslum fyrir staðgreiðslu síðustu árin. Vegna vankunnáttu kæranda í framtalsgerð hafi hann ekki gert grein fyrir því að móðir hans hefði yfirtekið bréfin. Kærandi kveðst aldrei hafa verið í stjórn félagsins eða komið að rekstri þess. Samkvæmt upplýsingum frá lögmanni, endurskoðanda og starfsmanni ríkisskattstjóra geti ekki staðist að þessi hlutabréf geti takmarkað rétt kæranda til fjárhagsaðstoðar. Kærandi kveðst einnig hafa rætt málið við borgarfulltrúa sem hafi talið synjun á þessum grundvelli fráleita. Þá efast kærandi einnig um að hlutabréfaeign hafi verið hin raunverulega ástæða synjunarinnar. Kærandi hafi beðið ríkisskattstjóra að leiðrétta framtal hans og taka hlutabréfaeignina út. Á ársreikningi félagsins komi fram að það sé einungis einn hluthafi og það sé móðir hans. Einnig væri hægt að fá staðfestingu hjá fyrirtækjaskrá að einungis sé einn hluthafi í félaginu.

Í athugasemdum kæranda vegna greinargerðar Reykjavíkurborgar áréttar kærandi að hann hafi óskað eftir leiðréttingu hjá ríkisskattstjóra þannig að hlutabréfaeignin yrði tekin út af framtali hans. Kærandi telur enn fremur ekki eðlilegt að áætla að í hlutabréfum í fyrirtæki, sem sé ekki í rekstri og að líða undir lok, sé að finna verðmæti. Samkvæmt upplýsingum sem kærandi hafi fengið frá lögmanni geti eigendur einkafyrirtækja, sem séu í rekstri, þegið atvinnuleysisbætur detti starfsemi niður hluta úr ári. Kærandi kveðst ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum þar sem hann sé námsmaður. Því þyki honum þessi synjun á beiðni um fjárhagsaðstoð mjög vafasöm mismunun jafnvel þótt hann ætti hlutabréfin í raun og veru. Vegna tilvísunar Reykjavíkurborgar til þess að kærandi eigi eignir umfram íbúð og bíl þá tekur kærandi fram að hann eigi hvorugt og geti því ekki átt neitt umfram það.

III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í athugasemdum Reykjavíkurborgar vegna kærunnar kemur fram að kærandi hafi sótt um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilin 13. júní-30. júní 2013 og 1. júlí-31. júlí 2013. Í bókun velferðarráðs á fundi, dags. 20. ágúst 2013, hafi þó komið fram að staðfest væri synjun um fjárhagsaðstoð tímabilið 1. júní-31. júlí 2013. Reykjavíkurborg tekur fram að ljóst sé að misritun hafi átt sér stað í svarbréfi velferðarráðs þar sem ekki hafi verið vísað til tímabilsins 13. júní-31. júlí 2013 en kærandi hafi sótt um það tímabil.

Reykjavíkurborg bendir á að núgildandi reglur um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg með áorðnum breytingum hafi tekið gildi þann 1. janúar 2011 og samþykktar í velferðarráði Reykjavíkurborgar þann 17. nóvember 2010 og í borgarráði þann 25. nóvember 2010. Um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg gildi meginreglan að umsækjandi fái einungis greidda fjárhagsaðstoð geti hann ekki framfleytt sér sjálfur, meðal annars af eignum sínum. Umrædd meginregla eigi sér stoð í 2. gr. reglna um fjárhagsaðstoð, sbr. 19. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, sem kveði meðal annars á um skyldu hvers og eins að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Við mat á því hvort umsækjandi geti átt rétt til fjárhagsaðstoðar til framfærslu á grundvelli 11. gr. reglna um fjárhagsaðstoð skuli meðal annars horft til 12. gr. reglnanna sem kveði á um hvernig litið skuli til tekna og eigna umsækjanda. Við afgreiðslu umsóknar kæranda um fjárhagsaðstoð hafi komið í ljós að samkvæmt rafrænni álagningarskrá ríkisskattstjóra fyrir árið 2012 ætti kærandi hlutabréf að verðmæti 1.000.000 kr. Í kjölfar þess hafi þjónustumiðstöð óskað eftir upplýsingum frá kæranda um hlutabréfin og hafi þær upplýsingar borist að um væri að ræða hlutabréf í B ehf. sem sé fyrirtæki er foreldrar kæranda reki. Þá hafi móðir kæranda upplýst í bréfi, dags. 22. júní 2013, að fyrirtækið hafi hætt allri starfsemi enn ekki verið formlega lagt niður. Þá hafi kærandi framvísað gögnum tengdum rekstri fyrirtækisins.

Í 12. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg komi fram að eigi umsækjandi, maki hans eða sambýlingur eignir umfram íbúðarhúsnæði sem umsækjandi eða fjölskylda hans búi í og eina fjölskyldubifreið, eða hann hafi nýlega selt eignir sínar, skuli honum vísað á lánafyrirgreiðslu banka og sparisjóða, þótt tekjur hans séu lægri en grunnfjárhæð. Ljóst sé að samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra sé kærandi skráður fyrir hlutabréfum að verðmæti 1.000.000 kr. og upplýst hafi verið að um sé að ræða hlutabréf í fyrirtækinu B ehf. Þá hafi einnig komið fram að fyrirtækið hafi hætt allri starfsemi en hafi ekki verið lagt niður formlega. Reykjavíkurborg sé skylt að byggja ákvörðun á þeim upplýsingum er fram komi á opinberum gögnum frá öðrum stjórnvöldum. Gögn sem framvísað hafi verið bendi til þess að lítill eða enginn rekstur sé í fyrirtækinu en samt verði að líta til þess að kærandi sé skráður fyrir hlutabréfum í fyrirtækinu að fjárhæð 1.000.000 kr. Óljóst sé hvert söluverðmæti bréfanna sé og Reykjavíkurborg geti ekki lagt mat á verðmæti bréfanna enda falli slíkt mat ekki innan starfssviðs sveitarfélagsins. Samkvæmt gögnum ríkisskattstjóra sé verðmæti hlutabréfanna skráð 1.000.000 kr. og séu slík gögn ekki rétt sé nauðsynlegt að gengið sé frá þeim breytingum gagnvart skattyfirvöldum. Reykjavíkurborg geti ekki litið framhjá því að kærandi sé skráður fyrir umræddri eign samkvæmt opinberum gögnum. Því verði að líta svo á að umrædd eign sé til staðar og kæranda beri að nýta sér hana til framfærslu. Í þessu samhengi sé einnig nauðsynlegt að líta til þess að skattyfirvöld séu það stjórnvald sem hafi yfir að búa sérfræðikunnáttu varðandi rekstur, skattlagningu og eignir/tap fyrirtækja. Reykjavíkurborg búi ekki yfir þeirri sérfræðikunnáttu sem nauðsynleg sé til að meta verðmæti eða rekstur fyrirtækja og verði því að leggja traust sitt á þau opinberu yfirvöld sem annist slík mál sem og ganga út frá því að sú skráning sem fram komi hjá skattyfirvöldum sé rétt. Því sé nauðsynlegt að einstaklingar leiti til skattyfirvalda og gangi frá málum sínum gagnvart þeim hafi skráning ekki verið rétt. Með hliðsjón af framansögðu hafi Reykjavíkurborg talið ljóst að kærandi ætti eignir umfram þær sem kveðið sé á um í 12. gr. reglna um fjárhagsaðstoð. Kæranda beri að nýta umræddar eignir sér til framfærslu áður en leitað sé eftir fjárhagsaðstoð frá sveitarfélagi en fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg sé neyðaraðstoð.

IV. Niðurstaða

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Fyrir nefndinni liggja reglur um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg, með síðari breytingum. Í máli þessu er ágreiningur um hvort Reykjavíkurborg hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 13. júní-31. júlí 2013.

Úrskurðarnefndin tekur fram að með bréfi nefndarinnar, dags. 4. september 2013, var óskað allra gagna málsins frá Reykjavíkurborg. Hin kærða ákvörðun byggði meðal annars á upplýsingum um hlutafjáreign kæranda. Í gögnum sem bárust frá Reykjavíkurborg með bréfi, dags. 16. september 2013, var hins vegar ekki að finna gögn sem sýndu fram á hlutafjáreign kæranda. Úrskurðarnefndin bendir á að afar brýnt er að við meðferð kærumála liggi fyrir öll þau gögn og upplýsingar sem hin kærða ákvörðun byggir á. Reykjavíkurborg hefði því verið rétt að leggja fram slík gögn, svo sem skattframtal. Verður í þeim efnum ekki talið nægjanlegt að leggja fram skattframtal hlutafélagsins enda kemur þar ekkert fram um hverjir eigi hlutafé í félaginu. Úrskurðarnefndin beinir þeim tilmælum til Reykjavíkurborgar að framangreint verði haft í huga við afhendingu gagna í tilefni af stjórnsýslukæru til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála.

Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfsstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Kærandi sótti um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 13. júní-31. júlí 2013. Umsókn hans var synjað á þeim grundvelli að hann ætti eignir umfram íbúðarhúsnæði og fjölskyldubifreið, sbr. 5. mgr. 12. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg, en samkvæmt skattframtali 2012 átti kærandi hlutabréf að verðmæti 1.000.000 kr. í B ehf. Kærandi bendir á að móðir hans hafi yfirtekið hlutabréfin en vegna vankunnáttu sinnar hafi hann ekki fært það inn á skattframtal sitt. Samkvæmt fyrirtækjaskrá og skattframtali móður kæranda sé hún eini hluthafi félagsins en það hafi þó ekki verið í rekstri í nokkur ár. Kærandi kveðst hafa óskað leiðréttingar á skattframtali sínu hjá ríkisskattstjóra.

Í 5. mgr. 12. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg kemur fram að eigi umsækjandi, maki hans eða sambýlingur eignir umfram íbúðarhúsnæði og eina fjölskyldubifreið, eða hafi hann nýlega selt eignir sínar, skal honum vísað á lánafyrirgreiðslu banka og sparisjóða, þótt tekjur hans séu lægri en grunnfjárhæð. Samkvæmt skattframtali kæranda vegna tekna 2012 á hann hlutabréf að verðmæti 1.000.000 kr. Við meðferð kærumálsins hefur kærandi upplýst að umsókn hans um leiðréttingu á skattframtali hans hafi ekki verið afgreidd hjá ríkisskattstjóra og liggur því ekki fyrir leiðrétt skattframtal kæranda. Úrskurðarnefndin telur að við mat á því hvort umsækjandi um fjárhagsaðstoð eigi eignir umfram íbúðarhúsnæði og fjölskyldubifreið verði að styðjast við opinber gögn líkt og skattframtal umsækjanda. Í ljósi þess að ekki hafa verið gerðar leiðréttingar hjá ríkisskattstjóra á skattframtali kæranda er það mat úrskurðarnefndarinnar að miða verði við upplýsingar um hlutafjáreign hans eins og þær koma fram í fyrirliggjandi skattframtali 2012.

Úrskurðarnefndin hefur byggt á því að jafnvel þótt umsækjandi um fjárhagsaðstoð hafi átt hlutafé í fyrirtæki sem ekki sé í rekstri sé eðlilegt að nota andvirði hlutafjáreignarinnar sem neyðarúrræði til framfærslu áður en fengin sé fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg nema sýnt hafi verið fram á að fyrirtækið hafi verið afskráð eða tekið til gjaldþrotaskipta. Í máli þessu liggur hvorki fyrir að B ehf. hafi verið afskráð né tekið til gjaldþrotaskipta. Úrskurðarnefndin telur því ekki ástæðu til að gera athugasemd við synjun Reykjavíkurborgar á umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 13. júní-31. júlí 2013 á grundvelli 5. mgr. 12. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Í málinu liggur þó ekkert fyrir um að kæranda hafi verið vísað á lánafyrirgreiðslu banka eða sparisjóða og gerir úrskurðarnefndin athugasemd við það. Hin kærða ákvörðun verður þó staðfest.

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 2. september 2013, um synjun á umsókn A, um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 13. júní-31. júlí 2013 er staðfest.

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir

Gunnar Eydal

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum