Hoppa yfir valmynd
15. janúar 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 16/2013.

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík


Miðvikudaginn 15. janúar 2014 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 16/2013:

 

Kæra A

á ákvörðun

Árborgar


og kveðinn upp svohljóðandi


Ú R S K U R Ð U R:

A, hér eftir nefndur kærandi, hefur með kæru, dags. 11. mars 2013, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála afgreiðslu Árborgar, dags. 8. febrúar 2013, á beiðni hans um fjárhagsaðstoð fyrir janúar-september 2012. Kærandi fékk greidda hálfa fjárhagsaðstoð til einstaklings fyrir janúar-maí 2012 og hálfa fjárhagsaðstoð til hjóna fyrir júní, júlí og september 2012 en umsókn hans um fjárhagsaðstoð fyrir ágúst 2012 var synjað. Í málinu er því ágreiningur um hvort kærandi hafi átt rétt á fullri fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið janúar-september 2012. Ákvörðun sveitarfélagsins um greiðslu hálfrar fjárhagsaðstoðar byggðist á því að kærandi hafi hvorki verið eigandi að því húsnæði sem hann bjó í né hafi hann haft þinglýstan húsaleigusamning fyrir því húsnæði, sbr. 3. mgr. 11. gr. reglna Sveitarfélagsins Árborgar um fjárhagsaðstoð. Synjun á greiðslu fjárhagsaðstoðar fyrir ágúst 2012 byggðist á því að kærandi hefði ekki skráð sig hjá félagsþjónustusviði Árborgar í síðustu viku júlímánaðar, sbr. 6. tölul. 1. mgr. 8. gr. framangreindra reglna, en greiðsla ágústmánaðar byggðist á stimplun í júlí. Kærandi fer fram á að honum verði veitt full fjárhagsaðstoð fyrir janúar-september 2012.

 

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi sótti um fjárhagsaðstoð hjá Sveitarfélaginu Árborg með umsókn, dags. 18. mars 2012. Ekki kemur fram í umsókninni fyrir hvaða tímabil óskað er aðstoðar. Umsókn kæranda var tekin fyrir á afgreiðslufundi félagsþjónustu Árborgar þann 21. mars 2012 og var svohljóðandi bókun gerð:

Umsókn [A] um fjárhagsaðstoð er synjað samkvæmt 8. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Sveita[r]félaginu Árborg.

Niðurstaða afgreiðslufundar var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 26. mars 2012. Í bréfinu var enn fremur vísað til 8. gr. reglna um fjárhagsaðstoð þar sem segir meðal annars að umsókn væri aðeins gild ef lögð væru fram eftirfarandi gögn: Staðfest afrit af síðasta skattframtali umsækjanda og maka hans eða sambýlismanns, eigi það við sbr. 24. gr. laga nr. 40/1991. Kærandi sótti á ný um fjárhagsaðstoð en umsóknin liggur ekki fyrir í málinu. Umsókn kæranda var tekin fyrir á afgreiðslufundi félagsþjónustu Árborgar þann 2. maí 2012 og var svohljóðandi bókun gerð:

Umsókn [A] um fjárhagsaðstoð er samþykkt samkvæmt 11. gr. og 13. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Sveitarfélaginu Árborg í þrjá mánuði að frádregnum launum, Björn fær aðeins hálfa framfærslu þar sem hann er ekki með þinglýstan húsaleigusamning.

Ekki liggur fyrir hvort eða hvenær niðurstaða afgreiðslufundar var tilkynnt kæranda. Kærandi óskaði leiðréttingar á greiðslum frá sveitarfélaginu með bréfi, dags. 31. desember 2012. Í bréfinu kom fram að kærandi óskaði fulls framfærslustyrks fram að 1. október 2012 og að kannaður yrði réttur hans til fjárhagsaðstoðar aftur í tímann frá þeim tíma sem hann lagði fram fyrstu umsókn sína í mars 2012. Erindi kæranda var tekið fyrir á fundi félagsmálanefndar Árborgar þann 30. janúar 2013 og var svohljóðandi bókun gerð:

Félagsmálanefnd samþykkir að veita [A] hálfa fjárhagsaðstoð kr. 62.510 afturvirkt, samkvæmt 21. gr. laga um félagsþjónustu nr. 40/1991 frá þeim degi sem gögnum var skilað eða janúar, febrúar, mars og apríl 2012. Jafnframt samþykkir félagsmálanefnd að hann fái greidda hálfa fjárhagsaðstoð til hjóna í júní, júlí og september að upphæð kr. 100.017 per mánuð.

[A] er ekki eigandi að því húsnæði sem hann býr í og ekki með þinglýstan húsaleigusamning og á því ekki rétt á nema hálfri grunnfjárhæð samkvæmt 11. gr. reglna um fjárhagsaðstoð í Sveitarfélaginu Árborg.

Niðurstaða félagsmálanefndar var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 8. febrúar 2013. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála með bréfi, dags. 11. mars 2013. Með bréfi, dags. 13. mars 2013, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir öllum gögnum málsins, þar á meðal umsókn kæranda, ákvörðun sveitarfélagsins og gögnum um fjárhag kæranda. Enn fremur var óskað eftir greinargerð Árborgar þar sem fram kæmi meðal annars rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Greinargerð Árborgar barst með bréfi, dags. 15. apríl 2013. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 16. apríl 2013, var bréf Árborgar sent kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 3. maí 2013. Með bréfi kæranda, dags. 16. júlí 2013, óskaði hann upplýsinga um stöðu málsins. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 19. júlí 2013, var kæranda tilkynnt um tafir á afgreiðslu málsins sem orsökuðust af miklum málafjölda hjá úrskurðarnefndinni en að vonir stæðu til þess að ljúka málinu sem fyrst. Með bréfi kæranda, dags. 3. desember 2013, óskaði hann upplýsinga um stöðu málsins og voru þær upplýsingar veittar með símtali sama dag.


II. Málsástæður kæranda

Kærandi kveðst eiga húsnæði það er hann býr í. Hann og þáverandi sambýliskona hans hafi keypt það árið 2006 en húsnæðið og lánin hafi hins vegar verið skráð á nafn hennar. Kærandi hafi ávallt greitt afborganir af láninu og fasteignagjöld inn á bankareikning fyrrum sambýliskonu sinnar og bankinn skuldfært lánin af þeim reikningi. Vegna aðstæðna hafi ekki tekist að flytja eignina á nafn kæranda en það verði gert þegar hann hafi reglulegt tekjuflæði sem lánveitandinn meti nægilegt. Í fyrirliggjandi tölvupósti frá fyrrum sambýliskonu hans sé að finna staðfestingu á því að kærandi eigi húsnæðið. Kærandi telur því að 11. gr. reglna Sveitarfélagsins Árborgar um fjárhagsaðstoð eigi ekki við í hans tilfelli. Hann búi ekki hjá öðrum og deili ekki húsnæðiskostnaði. Hann greiði allan kostnað vegna húsnæðisins, afborganir lána, fasteignagjöld, rafmagn og hita. Kærandi kveðst vera í neyð og telur sig hafa sýnt fram á að hann sé í sömu stöðu og aðrir sem búi í eigin húsnæði. Kærandi telur ósanngjarnt og óeðlilegt að hann sæti 50% skerðingu vegna tæknilegra atriða. Sveitarfélagið hafi ekki tekið tillit til aðstæðna og afgreiðsla umsóknar hans ekki í samræmi við tilgang reglna um fjárhagsaðstoð. Kærandi bendir á að önnur sveitarfélög telji almennt ekki ástæðu til slíkrar skerðingar. Kærandi vísar til þess að samþykkt hafi verið að greiða honum hálfa fjárhagsaðstoð afturvirkt fyrir janúar-maí 2012. Þá hafi hann fengið greidda hálfa grunnframfærslu hjóna fyrir júní, júlí og september 2012. Umsókn hans um fjárhagsaðstoð fyrir ágúst 2012 hafi verið synjað þar sem hann hafi ekki farið eftir reglum sveitarfélagsins þann mánuð. Kærandi bendir á að hann hafi lagt mikla áherslu á að koma í afgreiðslu og fá stimpil í hverri viku og telur sig hafa samviskusamlega fylgt öllum reglum. Kærandi hafi ekki gögn sem sýni fram á framangreint en hann sé þó viss um að hafa komið vikulega til staðfestingar í ágúst 2012. Kærandi bendir á að hann hafi einungis fengið munnlegar leiðbeiningar frá sveitarfélaginu. Kærandi fer fram á að honum verði veitt full fjárhagsaðstoð fyrir janúar-september 2012.

Kærandi telur að ákvæði 11. gr. reglna Sveitarfélagsins Árborgar um fjárhagsaðstoð verði túlkuð þannig að búi umsækjandi um fjárhagsaðstoð ekki hjá öðrum og deili ekki húsnæðiskostnaði reiknist honum full grunnfjárhæð á mánuði að frádregnum eigin tekjum. Kærandi bendir á að með bréfi hans til sveitarfélagsins, dags. 15. febrúar 2013, hafi hann lagt fram gögn sem styðji að hann eigi húsnæði það er hann býr í. Hann hafi enn fremur lagt fram gögn sem sýni að hann ber sjálfur alla greiðslubyrði af eigninni. Sveitarfélagið Árborg hafi ekki tekið tillit til þess. Kærandi bendir á að hann búi hvorki með öðrum né deili húsnæðiskostnaði með öðrum. Fyrrum sambýliskona hans, sem sé skráður eigandi húsnæðisins, búi ekki í húsnæðinu. Kærandi vísar til þess að sumarið 2012 hafi hann í eitt skipti farið til að láta stimpla kortið sitt sem hafi verið geymt í afgreiðslu þriðju hæðar hjá sveitarfélaginu. Þar hafi enginn verið við og hafi kærandi því farið í aðalafgreiðslu á annarri hæð og skýrt komu sína. Hann hafi beðið starfsmann afgreiðslunnar að koma því til skila að hann hefði mætt og óskað eftir mætingarstimpli. Kærandi hafi skrifað nafn sitt og kennitölu á miða og afhent. Kærandi geti þó ekki fullyrt að það hafi verið í fyrstu viku júlímánaðar. Kærandi telur að hann hafi gert allt sem í hans valdi stóð til að uppfylla skyldur sínar.


III. Sjónarmið Sveitarfélagsins Árborgar

Í athugasemdum Sveitarfélagsins Árborgar vegna kærunnar kemur fram að samþykkt hafi verið að veita kæranda hálfa fjárhagsaðstoð að fjárhæð 62.510 kr. afturvirkt, sbr. 21. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, frá þeim degi sem gögnum hafi verið skilað eða fyrir janúar, febrúar, mars og apríl 2012. Jafnframt hafi verið samþykkt að greiða kæranda hálfa fjárhagsaðstoð til hjóna að fjárhæð 100.017 kr. í júní, júlí og september 2012. Sveitarfélagið bendir á að í 11. gr. reglna um fjárhagsaðstoð í Sveitarfélaginu Árborg komi fram að umsækjanda, sem búi hjá öðrum og deili húsnæðiskostnaði eða sé ekki með þinglýstan húsaleigusamning, skuli reiknast hálf grunnupphæð á mánuði að frádregnum eigin tekjum. Samkvæmt upplýsingum úr þjóðskrá eigi kærandi lögheimili á C. Samkvæmt upplýsingum úr Fasteignaskrá Íslands sé skráður eigandi fasteignarinnar hins vegar B. Kærandi sé því ekki eigandi að því húsnæði sem hann búi í. Þá hafi kærandi ekki þinglýstan húsaleigusamning og eigi því ekki rétt á nema hálfri grunnfjárhæð samkvæmt reglum sveitarfélagsins sem nemi 62.510 kr.

Sveitarfélagið vísar til 7. tölul. 1. mgr. 8. gr. reglna um fjárhagsaðstoð í Sveitarfélaginu Árborg en þar segi að umsækjandi þurfi að skrá sig vikulega hjá félagsþjónustusviði Árborgar á þartilgert minnisblað. Umsækjandi þurfi að fá fjórar skráningar eða stimpla án þess að greiðsla skerðist. Í lok mánaðar skuli umsækjandi hafa samband við starfsmann og gera grein fyrir stöðu sinni. Sé það ekki gert sé mánaðargreiðsla ekki greidd. Kærandi telji sig hafa komið í afgreiðslu félagsþjónustunnar og stimplað sig eins og reglur kveði á um. Sveitarfélagið bendir á að greiðsla í ágúst 2012 hafi byggst á stimplun í júlí s.á. Kærandi hafi stimplað sig þrisvar sinnum í júlí en hafi ekki látið vita af sér í lok mánaðar eins og umsækjendum um fjárhagsaðstoð beri að gera. Kærandi hafi borið því við að reglurnar hafi ekki verið afhentar á skriflegu formi heldur einungis gefin munnleg fyrirmæli. Sveitarfélagið bendir á að alla aðra mánuði sem kærandi hafi fengið fjárhagsaðstoð hafi hann haft samband við félagsþjónustusvið í lok mánaðar og hafi því einnig átt að vita það í lok júlímánaðar.

 

IV. Niðurstaða

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Fyrir nefndinni liggja reglur Sveitarfélagsins Árborgar um fjárhagsaðstoð frá 1. febrúar 2011, með síðari breytingum. Í máli þessu er ágreiningur um hvort Sveitarfélaginu Árborg hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um fulla fjárhagsaðstoð.

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála tekur fram að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar vegna ákvarðana sveitarfélaga um fjárhagsaðstoð er þrír mánuðir frá því aðila máls barst vitneskja um ákvörðun, sbr. 1. mgr. 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Í 34. gr. reglna sveitarfélagsins Árborgar um fjárhagsaðstoð er hins vegar kveðið á um fjögurra vikna kærufrest. Úrskurðarnefndin beinir þeim tilmælum til Sveitarfélagsins Árborgar að gera breytingar á nefndum reglum svo þær samræmist ákvæði 1. mgr. 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Í málinu liggur fyrir að kærandi sótti nokkrum sinnum um fjárhagsaðstoð hjá Sveitarfélaginu Árborg á árinu 2012. Í umsóknum kæranda um fjárhagsaðstoð er ekki tilgreint fyrir hvaða tímabil óskað er fjárhagsaðstoðar og í umsóknareyðublaði sveitarfélagsins er ekki sérstaklega gert ráð fyrir því. Þá er í ákvörðunum sveitarfélagsins ekki tilgreint fyrir hvaða tímabil samþykkt eða synjað er um greiðslu fjárhagsaðstoðar að undanskilinni ákvörðun frá 30. janúar 2013 sem birt var kæranda með bréfi, dags. 8. febrúar 2013. Úrskurðarnefndin telur ástæðu til að gera athugasemdir við framangreint. Tekið skal fram að ákvörðun um að synja eða samþykkja umsókn um fjárhagsaðstoð er stjórnvaldsákvörðun. Það er óskráð meginregla að stjórnvaldsákvörðun verður að vera efnislega skýr og ákveðin svo að málsaðili geti skilið hana og metið réttarstöðu sína. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að ákvörðun Sveitarfélagsins Árborgar frá 21. mars 2012, sem birt var kæranda með bréfi, dags. 26. mars 2012, og ákvörðun frá 2. maí 2012 sem ekki liggur fyrir hvort birt hafi verið kæranda, hafi ekki verið í samræmi við meginreglu stjórnsýsluréttar um að vera efnislega skýrar og ákveðnar. Úrskurðarnefndin beinir þeim tilmælum til Sveitarfélagsins Árborgar að gætt sé að framangreindu þegar teknar eru stjórnvaldsákvarðanir hjá sveitarfélaginu.

Þá gerir úrskurðarnefndin athugasemd við að hvorki liggi fyrir í málinu umsókn kæranda, sem tekin var til afgreiðslu á afgreiðslufundi félagsþjónustu Árborgar þann 2. maí 2012, né upplýsingar um hvort ákvörðunin hafi verið birt kæranda. Framangreind ákvörðun fól í sér samþykki á greiðslu hálfrar fjárhagsaðstoðar til kæranda og þannig synjun á greiðslu fullrar fjárhagsaðstoðar. Slík ákvörðun telst til stjórnvaldsákvarðana og ber að birta í samræmi við 1. málsl. 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, en þar kemur fram að eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun skal hún tilkynnt aðila máls nema það sé augljóslega óþarft. Vitneskja málsaðila um efni stjórnvaldsákvörðunar er forsenda þess að hann hafi möguleika á því að taka afstöðu til hennar og haga ráðstöfunum sínum í samræmi við hana. Ekki liggur þó fyrir að kærandi hafi ekki getað gætt réttinda sinna vegna þessa annmarka enda hlýtur ákvörðunin nú efnislega endurskoðun úrskurðarnefndarinnar. Úrskurðarnefndin beinir þeim tilmælum til Sveitarfélagsins Árborgar að hafa framangreint í huga við töku stjórnvaldsákvarðana ásamt því að gæta að því að skráning erinda og umsókna sé í samræmi við lög og meginreglur stjórnsýsluréttar.

Úrskurðarnefndin vekur sérstaklega athygli á ákvæði 1. mgr. 27. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, er tóku gildi þann 1. janúar 2013, en þar segir að við meðferð mála þar sem taka á ákvörðun um rétt eða skyldu manna beri stjórnvöldum, og öðrum sem lögin taka til, að skrá upplýsingar um málsatvik sem veittar eru munnlega eða viðkomandi fær vitneskju um með öðrum hætti ef þær hafa þýðingu fyrir úrlausn máls og er ekki að finna í öðrum gögnum þess. Sama á við um helstu ákvarðanir um meðferð máls og helstu forsendur ákvarðana, enda komi þær ekki fram í öðrum gögnum málsins.

Í erindi kæranda til úrskurðarnefndarinnar kemur fram að efni þess sé ákvörðun Sveitarfélagsins Árborgar um greiðslu fjárhagsaðstoðar sem birt var kæranda með bréfi, dags. 8. febrúar 2013. Með ákvörðuninni var fallist á að greiða kæranda hálfa fjárhagsaðstoð fyrir janúar-apríl 2012 og júní, júlí og september 2012. Af bréfinu og öðrum gögnum málsins má þannig ráða að samþykkt hafi verið að greiða kæranda hálfa fjárhagsaðstoð til einstaklings fyrir janúar-maí 2012, hálfa fjárhagsaðstoð til hjóna í júní-júlí 2012 og september 2012 og synjað um greiðslu fjárhagsaðstoðar í ágúst 2012. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að í máli þessu sé því álitaefni um hvort kærandi hafi átt rétt á fullri fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið janúar-september 2012.

Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfsstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Það var mat Sveitarfélagsins Árborgar að kærandi ætti einungis rétt á hálfri fjárhagsaðstoð fyrir janúar-júlí 2012 og september 2012 þar sem hann hafi ekki verið eigandi að því húsnæði sem hann byggi í og væri ekki með þinglýstan húsaleigusamning, sbr. 11. gr. reglna Sveitarfélagsins Árborgar um fjárhagsaðstoð. Þá var það mat sveitarfélagsins að kærandi ætti ekki rétt á fjárhagsaðstoð fyrir ágúst 2012 þar sem hann hafi ekki skráð sig hjá félagsþjónustusviði Árborgar í síðustu viku júlímánaðar, sbr. 7. tölul. 1. mgr. 8. gr. reglnanna, en greiðsla ágústmánaðar byggðist á stimplun í júlí.

Kærandi heldur því fram að hann búi ekki hjá öðrum og deili ekki húsnæðiskostnaði. Hann hafi keypt húsnæðið sem hann búi í með fyrrum sambýliskonu sinni en húsnæðið og lánin hafi verið skráð á nafn hennar. Vegna aðstæðna hafi ekki tekist að flytja eignina á nafn kæranda en það verði gert þegar hann hafi reglulegt tekjuflæði sem lánveitandi meti nægilegt. Hann greiði allan kostnað vegna húsnæðisins, afborganir lána, fasteignagjöld, rafmagn og hita. Kærandi kveðst vera í neyð og telur sig hafa sýnt fram á að hann sé í sömu stöðu og aðrir sem búi í eigin húsnæði. Þá bendir kærandi á að hann hafi lagt mikla áherslu á að fá stimpil í hverri viku og telur sig hafa samviskusamlega fylgt öllum reglum. Sumarið 2012 hafi hann þó í eitt skipti farið til að láta stimpla kortið sitt sem hafi verið geymt í afgreiðslu þriðju hæðar hjá sveitarfélaginu. Þar hafi enginn verið við og hafi hann því farið í aðalafgreiðslu á annarri hæð og skýrt komu sína. Hann hafi beðið starfsmann afgreiðslunnar að koma því til skila að hann hefði mætt og óskað eftir mætingarstimpli. Kærandi hafi skrifað nafn sitt og kennitölu á miða og afhent. Kærandi geti þó ekki fullyrt hvenær það hafi verið.

Í 3. mgr. 11. gr. reglna Sveitarfélagsins Árborgar um fjárhagsaðstoð kemur fram að umsækjanda, sem búi hjá öðrum og deili húsnæðiskostnaði eða sé ekki með þinglýstan húsaleigusamning, skuli reiknast hálf grunnupphæð á mánuði að frádregnum eigin tekjum. Hafi einstaklingur, sem falli undir ofangreint, forsjá barns skuli viðkomandi reiknuð full grunnfjárhæð. Kærandi hefur átt lögheimili að C frá árinu 2006. Samkvæmt fyrirliggjandi veðbandayfirliti er skráður eigandi húsnæðisins B, samkvæmt afsali, dags. 10. september 2006. Liggur þannig fyrir að kærandi bjó í húsnæði sem var ekki í hans eigu en líta verður til opinberrar skráningar þar að lútandi. Kærandi hefur hins vegar lagt fram gögn sem sýna fram á að hann beri kostnað af húsnæðinu. Verður því ekki talið að kærandi búi hjá öðrum og deili húsnæðiskostnaði. Þar sem kærandi er ekki skráður eigandi húsnæðisins verður að líta svo á að kærandi sé leigjandi húsnæðisins. Fyrir liggur að kærandi er ekki með þinglýstan húsaleigusamning líkt og reglur sveitarfélagsins gera ráð fyrir. Samkvæmt 3. mgr. 11. gr. reglnanna skal honum því reiknast hálf grunnfjárhæð á mánuði að frádregnum eigin tekjum. Ákvörðun Sveitarfélagsins Árborgar um greiðslu hálfrar fjárhagsaðstoðar til kæranda fyrir júní-júlí 2012 og september 2012 verður því staðfest.

Í 8. gr. reglnanna er fjallað um fylgigögn með umsókn um fjárhagsaðstoð. Í 1. mgr. segir að umsókn sé aðeins gild að lögð séu fram nánar tiltekin gögn, sbr. 1.–7. tölul. 1. mgr., sem sýni tekjur, eignir og skuldir umsækjanda og maka/sambýlismanns, sé umsækjandi í hjónabandi eða sambúð. Í 6. tölul. 1. mgr. 8. gr. reglnanna kemur fram að umsækjandi þurfi að skrá sig vikulega hjá félagsþjónustu Árborgar á þartilgert minnisblað sem umsækjanda sé afhent er hann sæki um fjárhagsaðstoð. Í 2. mgr. segir að skili umsækjandi ekki viðeigandi gögnum, stöðvist afgreiðsla umsóknar. Í 3. mgr. 8. gr. kemur fram að hafi umsækjandi ekki skráð sig hjá Vinnumálastofnun, sem og ef umsækjandi skrái sig ekki vikulega hjá félagsþjónustu án viðhlítandi skýringar, missi hann hlutfallslegan rétt til fjárhagsaðstoðar það tímabil, sbr. 5. gr. reglnanna. Í 5. gr. reglnanna er svo kveðið á um lækkun grunnfjárhæðar í þeim mánuði sem tilteknar aðstæður eru uppi svo og mánuðinn þar á eftir.

Af ákvæðum 8. gr. reglnanna má ráða að svo umsókn verði tekin til efnislegrar meðferðar beri umsækjanda að leggja fram minnisblað sem sýni fram á að viðkomandi hafi skráð sig vikulega hjá félagsþjónustu Árborgar. Samkvæmt upplýsingum frá Sveitarfélaginu Árborg er framkvæmdin þó sú að þegar einstaklingur sækir um fjárhagsaðstoð í fyrsta skipti er ekki gerð krafa um að lagt sé fram slíkt minnisblað. Sæki einstaklingur á ný um fjárhagsaðstoð er viðkomandi almennt kynnt skilyrði 6. tölul. 1. mgr. 8. gr. og að skrái hann sig ekki vikulega án viðhlítandi skýringar, missi hann hlutfallslegan rétt til fjárhagsaðstoðar það tímabil. Kærandi hafði þegið fjárhagsaðstoð í nokkurn tíma þegar umsókn hans um fjárhagsaðstoð fyrir ágúst 2012 var afgreidd og af gögnum málsins má ráða að hann hafi fengið munnlegar leiðbeiningar um að honum bæri að skrá sig vikulega í júlí 2012. Við afgreiðslu umsóknar kæranda um fjárhagsaðstoð fyrir ágúst 2012 var miðað við stimplun í júlí 2012. Í málinu liggur fyrir afrit af minnisblaði kæranda fyrir júlí 2012 og hefur það verið stimplað hjá sveitarfélaginu. Á minnisblaðinu kemur fram að handhafi þess skuli mæta einu sinni í viku í Ráðhús Árborgar og fá stimpil í kortið sitt. Í lok hvers mánaðar skuli viðkomandi skila inn minnisblaðinu og fá nýtt til að öðlast réttindi til fjárhagsaðstoðar. Minnisblaðið hefur verið stimplað í 28., 29. og 30. viku ársins 2012. Á minnisblaðið vantar stimplun fyrir 27. viku, þ.e. vikuna 2.–8. júlí 2012. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að telja verði að kærandi hafi ekki skráð sig vikulega hjá félagsþjónustunni, sbr. 6. tölul. 1. mgr., sbr. 3. mgr. 8. gr. reglnanna.

Í 3. mgr. 8. gr. reglnanna kemur fram að hafi umsækjandi ekki skráð sig vikulega hjá félagsþjónustu án viðhlítandi skýringar, missi hann hlutfallslegan rétt til fjárhagsaðstoðar það tímabil. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að svo telja verði nægjanlega upplýst hvort viðhlítandi upplýsingar liggi að baki beri sveitarfélaginu að óska skýringa umsækjanda þegar fyrir liggur að hann hafi ekki skráð sig vikulega, sbr. 6. tölul. 2. mgr. 8. gr. Í málinu liggur ekkert fyrir um að sveitarfélagið hafi óskað skýringa á framangreindu, sbr. rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að málið hafi ekki verið nægjanlega upplýst áður en tekin var ákvörðun um að synja umsókn kæranda um greiðslu fjárhagsaðstoðar fyrir ágúst 2012. Þá gerir úrskurðarnefndin athugasemd við að sveitarfélagið hafi svipt kæranda öllum rétti til fjárhagsaðstoðar í ágúst 2012 í stað hlutfallslegs réttar líkt og kveðið er á um í 3. mgr. 8. gr. reglnanna. Ákvörðun Sveitarfélagsins Árborgar um synjun á umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð fyrir ágúst 2012 verður því felld úr gildi og lagt fyrir sveitarfélagið að taka málið til löglegrar meðferðar.

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir meðnefndarmaður og Inga Þöll Þórgnýsdóttir varamaður.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Sveitarfélagsins Árborgar, dags. 8. febrúar 2013, um greiðslu hálfrar fjárhagsaðstoðar til A, fyrir júní-júlí 2012 og september 2012 er staðfest.

Ákvörðun Sveitarfélagsins Árborgar, dags. 8. febrúar 2013, um synjun á umsókn Aum fjárhagsaðstoð fyrir ágúst 2012 er felld úr gildi og lagt fyrir sveitarfélagið að taka málið til löglegrar meðferðar.

 

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

 Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir                Inga Þöll Þórgnýsdóttir

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum