Hoppa yfir valmynd
29. janúar 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 28/2013.

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

           

 

Miðvikudaginn 29. janúar 2014 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 28/2013:

 

 

Kæra A

á ákvörðun

Sveitarfélagsins Garðs

 

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

A, hér eftir nefnd kærandi, hefur með kæru, dags. 1. júlí 2013, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Sveitarfélagsins Garðs á beiðni hennar um greiðslu húsaleigubóta aftur í tímann fyrir einn mánuð árið 2013.

 

 

I. Málavextir og málsmeðferð

 

Kærandi hefur þegið húsaleigubætur frá árinu 2011. Hún sótti um húsaleigubætur þann 25. apríl 2012 og var samþykkt að greiða henni bætur þar til í mars 2013. Kærandi sótti á ný um húsaleigubætur hjá með umsókn, dags. 7. júní 2013. Í umsókninni kemur kærandi því á framfæri að hún hafi ekki fengið húsaleigubætur fyrir apríl 2013. Af gögnum málsins má ráða að samþykkt hafi verið að greiða kæranda húsaleigubætur frá júní 2013. Kærandi fór á fund bæjarstjóra sveitarfélagsins þann 7. júní 2013 og óskaði eftir greiðslu húsaleigubóta aftur í tímann fyrir apríl og maí 2013. Samþykkt var að greiða kæranda húsaleigubætur fyrir annan mánuðinn en synjað fyrir hinn. Í málinu liggur hvorki fyrir skrifleg umsókn kæranda um greiðslu húsaleigubóta aftur í tímann né skrifleg synjun á beiðni hennar fyrir annan mánuðinn.

 

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála með bréfi, dags. 1. júlí 2013. Með bréfi, dags. 10. júlí 2013, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir greinargerð Sveitarfélagsins Garðs vegna kærunnar þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir synjun um húsaleigubætur. Enn fremur var óskað eftir gögnum sem lágu fyrir og gæfu upplýsingar um fjárhag kæranda. Greinargerð Sveitarfélagsins Garðs barst með bréfi, dags. 25. júlí 2013. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 30. júlí 2013, var bréf Sveitarfélagsins Garðs sent kæranda til kynningar. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 3. september 2013, var kæranda tilkynnt um tafir á afgreiðslu málsins sem orsökuðust af miklum málafjölda hjá úrskurðarnefndinni en að vonir stæðu til þess að ljúka málinu sem fyrst.

 

 

II. Málsástæður kæranda

 

Kærandi bendir á að henni hafi verið sent bréf frá Sveitarfélaginu Garði þann 5. apríl 2013 þess efnis að þörf væri á að endurnýja umsókn um húsaleigubætur. Einstaklingum hafi verið gefið færi á að skila inn endurnýjun fyrir 18. apríl 2013. Með umsókninni hafi átt að fylgja staðfest afrit af skattframtali 2013 ásamt afriti af launaseðlum síðustu þriggja mánaða. Kæranda hafi ekki borist umrætt bréf en hún hafi frétt af því á bæjarskrifstofunni í Garði að þörf væri á að skila inn þessum gögnum. Kærandi hafi ekki vitað nákvæmlega hvaða gögn þyrfti en hafi fjórum sinnum reynt að nálgast félagsráðgjafa sinn hjá félagsþjónustu Sandgerðisbæjar, Garðs og Voga án árangurs til þess að fá aðstoð við úrvinnslu umsóknarinnar. Kærandi hafi ekki séð sér fært að sinna umsókninni sjálf. Sökum þess hafi hún misst húsaleigubætur í tvo mánuði áður en starfsmaður hafi loks aðstoðað hana við að koma umsókninni í farveg. Kærandi kveðst hafa óskað eftir að fá húsaleigubæturnar greiddar aftur í tímann fyrir þá tvo mánuði sem hafi glatast þar sem gögnum hafi ekki verið skilað inn en því hafi verið synjað. Rætt hafi verið við bæjarstjórann og hafi sveitarfélagið í kjölfarið greitt kæranda húsaleigubætur fyrir einn af þeim mánuðum. Sökum langvarandi félagslegra erfiðleika telur kærandi mjög brýnt að leyst verði úr málinu og hún fái greiddar húsaleigubæturnar. Kærandi telur sig uppfylla öll skilyrði fyrir greiðslu húsaleigubóta og sérstakra húsaleigubóta. Hún skuldi einn mánuð í leigu frá því tímabili sem húsaleigubætur hafi fallið niður enda hafi það einnig haft á hrif á greiðslur sérstakra húsaleigubóta. Hafi því verið um mikið tekjutap að ræða og aðstæður hafi orðið erfiðari. Á sama tíma hafi hún lent í bílslysi, hundurinn hennar hafi lent í slysi nokkrum vikum síðar og veikindi hafi verið hjá meðlimum í nánustu fjölskyldu. Um hafi verið að ræða mikið álag og kostnað.

 

 

III. Sjónarmið Sveitarfélagsins Garðs

 

Í athugasemdum Sveitarfélagsins Garðs vegna kærunnar er vísað til ákvæða um umsóknarfrest og gildistíma umsóknar í leiðbeiningum vegna húsaleigubóta sem sveitarfélagið hefur gefið út og eru birtar á heimasíðu sveitarfélagsins. Fram kemur að með bréfi, dags. 5. apríl 2013, sem sent hafi verið til kæranda á B, hafi athygli verið vakin á því að skila þyrfti umsókn um húsaleigubætur ársins 2013 með tilgreindum gögnum fyrir 18. apríl 2013. Jafnframt hafi verið óskað eftir því að hún léti vita af því ef ekki væri hægt að skila umsókn fyrir tilgreindan tíma, að öðrum kosti falli húsaleigubætur niður. Kærandi hafi hvorki skilað umsókn né tilheyrandi gögnum til sveitarfélagsins fyrr en 29. maí 2013 þegar hún hafi leitað aðstoðar á skrifstofu sveitarfélagsins til að útfylla og ganga frá umsókninni með tilheyrandi gögnum. Þær ástæður sem liggi að baki því að umsókn hennar hafi ekki verið send fyrr og hún hafi ekki leitað til sveitarfélagsins fyrr en þá séu alfarið á hennar ábyrgð. Í kæru komið fram að kæranda hafi ekki borist umrætt bréf en sveitarfélagið hafi sent bréfið til hennar og annarra sem hafi þegið húsaleigubætur og aðrir aðilar hafi ekki kvartað undan því að hafa ekki fengið sín bréf í hendur. Sveitarfélagið Garður geti ekki borið ábyrgð á því hvort kærandi hafi séð bréfið eða ekki. Sveitarfélagið Garður fari eftir reglum og leiðbeiningum er varði umsóknir um húsaleigubætur. Kærandi hafi þegið húsaleigubætur frá árinu 2011. Hún hafi endurnýjað umsókn sína 25. apríl 2012 og hafi fengið greiddar húsaleigubætur í samræmi við það. Henni hafi því átt að vera ljóst hvaða reglur og leiðbeiningar hafi gilt um þessi mál.

 

Eftir að umsókn kæranda um húsaleigubætur hafi legið fyrir þann 29. maí 2013 hafi verið ljóst að kærandi ætti ekki að fá greiddar húsaleigubætur fyrir tvo mánuði. Kærandi hafi komið á fund bæjarstjóra þann 7. júní 2013 vegna málsins. Hún hafi rakið málið og óskað eftir að fá húsaleigubætur fyrir þessa tvo mánuði. Til að koma til móts við kæranda, ekki síst vegna vandamála sem hún hafi rakið í samtali við bæjarstjóra, hafi verið ákveðið að greiða henni húsaleigubætur fyrir einn mánuð af þeim tveimur sem hún hafi óskað eftir. Sveitarfélagið Garður telji reglur og leiðbeiningar varðandi umsóknir um greiðslu húsaleigubóta skýrar og sveitarfélagið hafi lagt sig fram um að sinna upplýsingaskyldu, meðal annars með því að senda bréf til þeirra sem þiggi húsaleigubætur með leiðbeiningum um endurnýjun umsókna. Sveitarfélagið vinni eftir þeim reglum og leiðbeiningum sem gefnar hafi verið út og gildi um þetta efni og leggi sig fram um að mismuna ekki einstaklingum. Hins vegar skuli það staðfest að farið hafi verið á svig við reglurnar með því að greiða henni húsaleigubætur fyrir einn mánuð af tveimur sem sveitarfélagið telji hana ekki hafa átt rétt á þar sem endurnýjuð umsókn frá henni um greiðslu húsaleigubóta árið 2013 hafi ekki borist sveitarfélaginu samkvæmt þeim reglum og leiðbeiningum sem um það gildi.

 

 

IV. Niðurstaða

 

Málskotsheimild kæranda er reist á 16. gr. laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997. Um málsmeðferð fer samkvæmt ákvæðum XVII. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Í máli þessu er ágreiningur um það hvort Sveitarfélaginu Garði hafi borið að samþykkja beiðni kæranda um greiðslu húsaleigubóta aftur í tímann fyrir einn mánuð árið 2013.

 

Kærandi sótti um húsaleigubætur með umsókn, dags. 7. júní 2013. Af gögnum málsins má ráða að samþykkt hafi verið að greiða kæranda húsaleigubætur frá júní 2013. Kærandi fór á fund bæjarstjóra sveitarfélagsins þann 7. júní 2013 og óskaði eftir greiðslu húsaleigubóta aftur í tímann fyrir apríl og maí 2013. Samþykkt var að greiða kæranda húsaleigubætur fyrir annan mánuðinn en synjað fyrir hinn. Í málinu liggur hvorki fyrir skrifleg umsókn kæranda um greiðslu húsaleigubóta aftur í tímann né skrifleg synjun á beiðni hennar fyrir annan mánuðinn. Úrskurðarnefndin gerir athugasemdir við framangreint og vekur sérstaklega athygli á ákvæði 1. mgr. 27. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, er tóku gildi þann 1. janúar 2013. Þar segir að við meðferð mála þar sem taka á ákvörðun um rétt eða skyldu manna beri stjórnvöldum, og öðrum sem lögin taka til, að skrá upplýsingar um málsatvik sem veittar eru munnlega eða viðkomandi fær vitneskju um með öðrum hætti ef þær hafa þýðingu fyrir úrlausn máls og er ekki að finna í öðrum gögnum þess. Sama á við um helstu ákvarðanir um meðferð máls og helstu forsendur ákvarðana, enda komi þær ekki fram í öðrum gögnum málsins. Úrskurðarnefndin beinir þeim tilmælum til sveitarfélagsins að gæta að framangreindu við töku stjórnvaldsákvarðana.

 

Í 2. mgr. 10. gr. laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997, segir að sækja skuli um húsaleigubætur fyrir hvert almanaksár og gildi umsóknin til ársloka. Í 3. mgr. sömu lagagreinar segir að umsókn um húsaleigubætur skuli hafa borist eigi síðar en 16. dag fyrsta greiðslumánaðar. Berist umsókn seinna verði húsaleigubætur ekki greiddar vegna þess mánaðar. Með vísan til ákvæða tilvitnaðra lagagreina er ekki lagaheimild fyrir því að víkja frá skýrum ákvæðum laganna um að sækja skuli um húsaleigubætur fyrir hvert almanaksár fyrir sig og að umsókn um húsaleigubætur skuli hafa borist eigi síðar en 16. dag fyrsta greiðslumánaðar. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að kærandi hafi ekki átt rétt á greiðslu húsaleigubóta aftur í tímann. Engu að síður fékk hún greiddar húsaleigubætur fyrir einn mánuð aftur í tímann og hefur bæjarstjóri Garðs staðfest að með því hafi verið farið á svig við reglur. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að ekki verði annað séð en að um hreina geðþóttaákvörðun hafi verið að ræða sem enn fremur var í andstöðu við 2. mgr. 10. gr. laga um húsaleigubætur. Verður þó að líta til þess að umrædd ákvörðun var ívilnandi fyrir kæranda og er það því niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að ekki verði við henni haggað. Hin kærða ákvörðun verður því staðfest.

 

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Ákvörðun Sveitarfélagsins Garðs, dags. 7. júní 2013, um synjun á umsókn A, um greiðslu húsaleigubóta aftur í tímann fyrir einn mánuð árið 2013 er staðfest.

 

 

 

Bergþóra Ingólfsdóttir,

 

formaður

 

 

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir                Gunnar Eydal

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum