Hoppa yfir valmynd
29. janúar 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 27/2013.

 

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

           

 

Miðvikudaginn 29. janúar 2014 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 27/2013:

 

 

Kæra A

á ákvörðun

Reykjavíkurborgar

 

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

A, hér eftir nefnd kærandi, hefur með kæru, dags. 2. júlí 2013, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Reykjavíkurborgar, dags. 15. maí 2013, á beiðni hennar um húsbúnaðarstyrk að fjárhæð 100.000 kr.

 

 

I. Málavextir og málsmeðferð

 

Kærandi er 24 ára kona sem hefur átt við langvarandi fíkniefnavanda að stríða. Hún fór í meðferð sumarið 2011 á Hlaðgerðarkot og í framhaldi af því í endurhæfingarverkefnið Grettistak sem hún hóf 1. október 2012. Endurhæfingin gekk vel og bjó kærandi í fyrstu á áfangaheimilinu Brú en fór síðar að leigja á almennum markaði með kærasta sínum í desember 2012. Tveimur mánuðum síðar slitu þau sambúðinni. Þar sem kærasti hennar átti megnið af innbúinu er þau hófu búskap tók hann það með sér er hann flutti af heimilinu.

 

Kærandi sótti um húsbúnaðarstyrk að fjárhæð 100.000 kr. hjá Reykjavíkurborg með umsókn, dags. 26. mars 2013. Umsókn kæranda var synjað með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 24. apríl 2013. Kærandi áfrýjaði synjuninni til velferðarráðs með bréfi, dags. 27. apríl 2013. Velferðarráð tók málið fyrir á fundi sínum þann 15. maí 2013 og samþykkti svohljóðandi bókun:

 

Velferðarráð staðfesti synjun starfsmanna þjónustumiðstöðvar um húsbúnaðarstyrk þar sem aðstæður umsækjanda falla eigi að skilyrðum þeim sem sett eru í d-lið 19. gr. [r]eglna um fjárhagsaðstoð varðandi styrk vegna húsbúnaðarkaupa.

 

Niðurstaða velferðarráðs var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 15. maí 2013. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála með bréfi, dags. 2. júlí 2013. Með bréfi, dags. 5. júlí 2013, framsendi úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála erindi kæranda til Reykjavíkurborgar þar sem mál hennar hafi ekki verið tekið fyrir hjá velferðarráði Reykjavíkurborgar. Með greinargerð Reykjavíkurborgar, dags. 10. júlí 2013, var upplýst að málið hafi fengið afgreiðslu velferðarráðs og öll gögn málsins send úrskurðarnefndinni. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 15. júlí 2013, var bréf Reykjavíkurborgar sent kæranda til kynningar. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 3. september 2013, var kæranda tilkynnt um tafir á afgreiðslu málsins sem orsökuðust af miklum málafjölda hjá úrskurðarnefndinni en að vonir stæðu til þess að ljúka málinu sem fyrst. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 13. janúar 2014, óskaði nefndin að Reykjavíkurborg legði fram gögn um tekjur kæranda og bárust þau með bréfi, dags. 15. janúar 2014.

 

 

II. Málsástæður kæranda

 

Kærandi kveðst hafa átt við langvarandi fíkniefnavanda að stríða ásamt miklum félagslegum erfiðleikum. Hún hafi unnið í veikindum sínum og sé í endurhæfingarverkefni vegna þeirra. Kærandi hafi hafið þátttöku í endurhæfingarúrræðinu Grettistaki í ágúst 2012. Markmiðið með endurhæfingunni í Grettistaki sé að styðja fólk til sjálfshjálpar sem hafi notið félagslegrar ráðgjafar félagsþjónustu til lengri tíma vegna langvarandi áfengis- og vímuefnamisnotkunar, auk félagslegra erfiðleika. Kærandi hafi fengið fyrstu greiðslu frá Tryggingastofnun ríkisins vegna endurhæfingarinnar í október 2012. Forsaga þess að hún hafi hafið þátttöku í endurhæfingarúrræðinu séu, auk framangreinds, margar meðferðir vegna veikinda í janúar 2012. Hún hafi þá farið á Hlaðgerðarkot í fjóra mánuði. Síðan hafi hún farið á áfangaheimilið Dyngjuna og þaðan á áfangaheimilið Brú. Þar hafi hún verið þar til í desember 2012 en þá hafi hún farið að búa með kærastanum sínum. Fljótlega hafi slitnað upp úr sambandi þeirra eða strax í janúar 2013. Þau hafi einungis búið saman í um tvo mánuði. Hann hafi átt nánast allt innbúið þegar þau hafi byrjað að búa og tekið það með sér þegar hann hafi farið af heimilinu. Kærandi sé því í raun að hefja sína fyrstu búsetu ein. Hún sitji í nánast tómri íbúð og hafi gert það síðan í janúar 2013. Áður en hún hafi farið í endurhæfingu hafi hún einungis fengið fjárhagsaðstoð sem rétt hafi dugað fyrir nauðsynjum. Nú sé hún í fyrsta skipti að reka ein heimili. Hún hafi um 60.000 kr. á mánuði í ráðstöfunartekjur þegar hún hafi greitt allt sem hún þurfi að greiða, svo sem húsaleigu, kostnað við að komast á milli staða og skuldir. Kæranda vanti fyrst og fremst ísskáp og þvottavél til þess að lifa mannsæmandi lífi. Það sé mjög mikilvægt í bata hennar að geta búið við mannsæmandi aðstæður sem meðal annars felist í því að geta þvegið þvott og geymt mat. Það sé mjög dýrt að kaupa mat fyrir einn dag í einu.

 

 

III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

 

Í athugasemdum Reykjavíkurborgar vegna kærunnar kemur fram að meðferð umsóknar kæranda um fjárhagsaðstoð hafi farið samkvæmt reglum um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg með áorðnum breytingum sem tekið hafi gildi þann 1. janúar 2011 og samþykktar í velferðarráði Reykjavíkurborgar þann 17. nóvember 2010 og í borgarráði þann 25. nóvember 2010. Rakin eru ákvæði 19. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Reykjavíkurborg telur ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði ákvæðisins hvað varði greiðslu styrks til kaupa á húsbúnaði. Kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði a-, b- og d-liða reglnanna um að hafa fengið fjárhagsaðstoð til framfærslu en samkvæmt upplýsingum sem legið hafi fyrir velferðarráði fái kærandi greiddar lífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins sem nemi 210.821 kr. Kærandi uppfylli því ekki skilyrði d-liðar 19. gr. um að hafa fengið fjárhagsaðstoð til framfærslu samkvæmt reglunum síðastliðna þrjá mánuði. Þá liggi fyrir að kærandi hafi frá því um sumarið 2011 fram í desember 2012 dvalist á Hlaðgerðarkoti og á áfangaheimilinu Brú en svo flutt í leiguíbúð á almennum markaði. Ekki sé því unnt að líta svo á að skilyrði a-liðar 19. gr. um a.m.k. tveggja ára dvöl á stofnun hafi verið uppfyllt. Þá eigi c-liður 19. gr. ekki við um tilvik kæranda. Af framangreindum ástæðum hafi velferðarráð ekki talið koma til álita að veita umbeðinn styrk og hafi því staðfest synjun starfsmanna þjónustumiðstöðvar. Samkvæmt framansögðu sé það ljóst að ákvörðun Reykjavíkurborgar hafi hvorki brotið gegn fyrrgreindum reglum um fjárhagsaðstoð, sbr. 21. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, né öðrum ákvæðum laganna.

 

 

IV. Niðurstaða

 

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Fyrir nefndinni liggja reglur um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg frá1. janúar 2011, með síðari breytingum. Í máli þessu er ágreiningur um hvort Reykjavíkurborg hafi borið að samþykkja umsókn kæranda, dags. 26. mars 2013, um húsbúnaðarstyrk að fjárhæð 100.000 kr.

 

Úrskurðarnefndin tekur fram að hin kærða ákvörðun byggðist meðal annars á upplýsingum um tekjur kæranda. Í gögnum sem bárust frá Reykjavíkurborg með bréfi, dags. 4. september 2013, var hins vegar ekki að finna gögn þar að lútandi. Úrskurðarnefndin bendir á að afar brýnt er að við meðferð kærumála liggi fyrir öll þau gögn og upplýsingar sem hin kærða ákvörðun byggir á. Reykjavíkurborg hefði því verið rétt að leggja fram slík gögn, svo sem skattframtal. Verður í þeim efnum ekki talið nægjanlegt að leggja fram greinargerð fyrir áfrýjunarnefnd þar sem upplýsingar um tekjur kæranda voru skráðar. Úrskurðarnefndin beinir þeim tilmælum til Reykjavíkurborgar að framangreint verði haft í huga við afhendingu gagna í tilefni af stjórnsýslukæru til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála.

 

Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfsstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

 

Kærandi sótti um húsbúnaðarstyrk að fjárhæð 100.000 kr. Umsókn kæranda var synjað á þeim grundvelli að aðstæður hennar hafi ekki fallið að skilyrðum d-liðar 19. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Við meðferð kærumálsins hefur komið fram af hálfu Reykjavíkurborg að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði a-, b- og d-liða reglnanna um að hafa fengið fjárhagsaðstoð til framfærslu en samkvæmt upplýsingum sem legið hafi fyrir velferðarráði fái kærandi greiddar lífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun sem nemi 210.821 kr. Þá liggi fyrir að kærandi hafi frá því um sumarið 2011 fram í desember 2012 dvalist á Hlaðgerðarkoti og á áfangaheimilinu Brú en svo flutt í leiguíbúð á almennum markaði. Ekki sé því unnt að líta svo á að skilyrði a-liðar 19. gr. um a.m.k. tveggja ára dvöl á stofnun hafi verið uppfyllt. Kærandi kveðst vera að stofna heimili í fyrsta sinn. Hún hafi 60.000 kr. í ráðstöfunartekjur á mánuði eftir greiðslu fasts kostnaðar. Hana vanti ísskáp og þvottavél til að lifa mannsæmandi lífi og sé það mikilvægt fyrir bata hennar.

 

Í 19. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg er kveðið á um styrk vegna húsbúnaðar. Kemur þar fram að fjárhagsaðstoð til kaupa á húsbúnaði sé heimil í eftirfarandi tilvikum:

 

a) til einstaklings sem fær fjárhagsaðstoð til framfærslu samkvæmt reglum þessum er eignalaus og er að stofna heimili eftir a.m.k. tveggja ára dvöl á stofnun,

b) til ungs fólks á aldrinum 18–24 ára, sem er eignalaust, sem fær fjárhagsaðstoð til framfærslu samkvæmt reglum þessum, hefur átt í miklum félagslegum erfiðleikum og er að stofna heimili í fyrsta sinn, 

c) þegar rýma þarf íbúð af heilbrigðisástæðum,

d) þegar um er að ræða einstaklinga/hjón/sambúðarfólk sem eiga í félagslegum erfiðleikum og þurfa aðstoð vegna kaupa á nauðsynlegum heimilistækjum. Skilyrði er að viðkomandi hafi fengið fjárhagsaðstoð til framfærslu samkvæmt reglum þessum síðastliðna þrjá mánuði.

 

Ekkert hefur komið fram í málinu um að kærandi hafi þurft að rýma íbúð af heilbrigðisástæðum og á c-liður 19. gr. reglnanna því ekki við. Í a- og b-liðum 19. gr. er gert að skilyrði að umsækjandi hafi fengið fjárhagsaðstoð til framfærslu samkvæmt reglunum. Við afgreiðslu umsóknar kæranda var miðað við að tekjur hennar væru 210.821 kr. Úrskurðarnefndin telur ekki ástæðu til að gera athugasemdir við þá viðmiðun. Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. reglnanna getur grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar til einstaklings, 18 ára eða eldri, sem rekur eigið heimili numið allt að 163.635 kr. á mánuði. Tekjur kæranda voru hærri en grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar og er það því mat úrskurðarnefndarinnar að kærandi uppfylli ekki skilyrði a- og b-liða 19. gr. reglnanna um að fá fjárhagsaðstoð til framfærslu samkvæmt reglunum.

 

Í d-lið 19. gr. er það gert að skilyrði að umsækjandi hafi fengið fjárhagsaðstoð til framfærslu síðastliðna þrjá mánuði. Kærandi sótti um húsbúnaðarstyrk í mars 2013 og skv. d-lið 19. gr. reglnanna bar að leggja til grundvallar tekjur kæranda í desember 2012, janúar 2013 og febrúar 2013. Í málinu liggja ekki fyrir sundurliðaðar upplýsingar um tekjur kæranda á árinu 2012 en heildartekjur hennar voru 1.414.053 kr. árið 2012. Verður því miðað við að tekjur kæranda í desember 2012 hafi verið 117.837 kr. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum voru tekjur kæranda 210.821 kr. í janúar 2013 og 210.821 kr. í febrúar 2013. Meðalmánaðartekjur kæranda síðastliðna þrjá mánuði fyrir umsókn hennar voru 179.826 kr. og því hærri en grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar, sbr. d-lið 19. gr. reglnanna. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að skilyrði 19. gr. reglnanna hafi ekki verið fullnægt í málinu og átti kærandi því ekki rétt á húsbúnaðarstyrk. Hin kærða ákvörðun verður því staðfest.

 

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 15. maí 2013, um synjun á umsókn A, um synjun á beiðni hennar um húsbúnaðarstyrk að fjárhæð 100.000 er staðfest.

 

 

 

Bergþóra Ingólfsdóttir,

 

formaður

 

 

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir                Gunnar Eydal

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum