Hoppa yfir valmynd
15. janúar 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 22/2013.

 

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

                                                              

 

Miðvikudaginn 15. janúar 2014 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 22/2013:

 

 

Kæra A

á ákvörðun

Íbúðalánasjóðs

 

 

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

A, hér eftir nefnd kærandi, hefur með kæru, dags. 31. maí 2013, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála ákvörðun Íbúðalánasjóðs, frá 13. maí 2013, um að synja umsókn kæranda um lán til kaupa á íbúðarhúsnæði.

 

 

I. Helstu málsatvik og kæruefni

 

Kærandi keypti fasteignina B og samkvæmt veðbandayfirliti var fasteigninni afsalað til hennar þann 23. október 2012. Kærandi sótti um lán hjá Íbúðalánasjóði til kaupa á íbúðarhúsnæði í apríl 2013 og lagði fram samþykkt kauptilboð, dags. 8. apríl 2013. Lánsumsókn kæranda var synjað með ákvörðun sjóðsins, dags. 13. maí 2013, á þeim grundvelli að ekki væri heimilt að lána til kaupa á fasteign eftir að gengið hafi verið frá afsali.

 

 

II. Málsmeðferð

 

Með bréfi, dags. 11. júní 2013, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir afstöðu Íbúðalánasjóðs til málsins, upplýsingum um meðferð þess hjá sjóðnum og öllum gögnum. Afstaða Íbúðalánasjóðs barst með bréfi, dags. 26. júní 2013. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 27. júní 2013, var bréf Íbúðalánasjóðs sent kæranda til kynningar. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 3. september 2013, var kæranda tilkynnt um tafir á afgreiðslu málsins sem orsökuðust af miklum málafjölda hjá úrskurðarnefndinni en að vonir stæðu til þess að ljúka málinu sem fyrst.

 

 

III. Sjónarmið kæranda

 

Kærandi kveðst hafa sótt um lán til íbúðarkaupa vegna fasteignarinnar B. Hún hafi fengið synjun þar sem hún hafi verið komin með afsal fyrir eigninni. Kærandi hafi ætlað að kaupa eignina gegn því að yfirtaka áhvílandi lán og taka ný lán frá bankanum. Hún hafi ekki fengið aðstoð fasteignasala og ekki áttað sig á því að hún fengi ekki lán eftir að fasteigninni hefði verið afsalað til hennar. Áhvílandi hafi verið lán frá Íslandsbanka auk gamalla lána. Þegar hún hafi skoðað lánin nánar þá hafi þau verið mun óhagstæðari en ný lán frá Íbúðalánasjóði. Því hafi hún fengið fasteignasölu til að aðstoða við lánsumsókn og skjalafrágang. Áhvílandi lán frá bankanum séu með mjög erfiðum afborgunum og fáist nýtt lán ekki samþykkt ráði kærandi ekki við afborganir og missi eignina. Kærandi óskar endurskoðunar á ákvörðun um að synja um lánveitingu þar sem hún sé ekki sérfræðingur um fasteignaviðskipti og hafi ekki áttað sig á þessari reglu. Afsali hafi verið þinglýst í október 2012, en byrjað hafi verið að vinna umsókn um nýtt lán frá Íbúðalánasjóði í apríl 2013, þegar fyrir hafi legið að ekki hafi verið hægt að fá viðunandi lánveitingar og breytingar á lánunum í bankanum.

 

 

IV. Sjónarmið Íbúðalánasjóðs

 

Í athugasemdum Íbúðalánasjóðs vegna kærunnar kemur fram að fyrir liggi að kæranda hafi verið afsalað fasteigninni B þann 23. október 2012. Hún hafi sótt um lán hjá Íbúðalánasjóði til kaupa á eigninni sem hún hafi átt fyrir með kaupsamningi, þ.e. samþykktu kauptilboði, við fyrri eiganda, dags. 6. apríl 2013. Íbúðalánasjóður veiti ekki lán til endurfjármögnunar á íbúðarhúsnæði heldur einvörðungu vegna kaupa eða byggingar, sbr. 18. gr. reglugerðar um ÍLS-veðbréf og íbúðabréf, nr. 522/2004, með síðari breytingum. Kærandi hafi þegar fullnustað kaup sín á eigninni sem afsalshafi og þar með hafi síðari kaupsamningur ekkert gildi og skoðist sem málamyndagerningur, sbr. 24. gr. reglugerðar nr. 522/2004. Sjóðnum hafi því borið að hafna lánveitingu.

 

 

V. Niðurstaða

 

Málskot kæranda er reist á 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998. Hlutverk úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er meðal annars að skera úr ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda. Í málinu er ágreiningur um hvort Íbúðalánasjóði hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um lán til kaupa á íbúðarhúsnæði.

 

Kærandi sótti um lán til kaupa á fasteigninni B í apríl 2013 og lagði fram samþykkt kauptilboð, dags. 8. apríl 2013. Samkvæmt veðbandayfirliti var fasteigninni hins vegar afsalað til hennar þann 23. október 2012. Lánsumsókn kæranda var synjað með ákvörðun sjóðsins, dags. 13. maí 2013, á þeim grundvelli að ekki væri heimilt að lána eftir að gengið hafi verið frá afsali. Í rökstuðningi Íbúðalánasjóðs vegna kærunnar kemur fram að sjóðurinn veiti ekki lán til endurfjármögnunar á íbúðarhúsnæði heldur einvörðungu vegna kaupa eða byggingar, sbr. 18. gr. reglugerðar um ÍLS-veðbréf og íbúðabréf, nr. 522/2004, með síðari breytingum. Kærandi hafi þegar fullnustað kaup sín á eigninni sem afsalshafi og þar með hafi síðari kaupsamningur ekkert gildi og skoðist sem málamyndagerningur, sbr. 24. gr. reglugerðar nr. 522/2004. Sjóðnum hafi því borið að hafna lánveitingu. Kærandi kveðst ekki hafa vitað um framangreinda reglu og óskar endurskoðunar á synjun Íbúðalánasjóðs.

 

Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 15. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998, annast Íbúðalánasjóður almenn lán til einstaklinga skv. VI. kafla laganna til endurbóta, byggingar eða kaupa á íbúðarhúsnæði. Þá annast sjóðurinn lán til sveitarfélaga, sbr. 2. tölul., og lán til leiguíbúða, sbr. 3. tölul. sama ákvæðis. Í VI. kafla reglugerðar um ÍLS-veðbréf og íbúðabréf, nr. 522/2004, með síðari breytingum, er að finna ákvæði um almenn lán. Um lán til kaupa á notaðri íbúð er fjallað í 18. gr. og segir þar í 1. mgr. að Íbúðalánasjóður kaupi ÍLS-veðbréf við eigendaskipti á íbúð sem hlotið hafi samþykki byggingaryfirvalda gegn veði í íbúðinni. Um lán til nýbygginga er fjallað í 19. gr. og segir þar í 1. mgr. að Íbúðalánasjóður kaupi ÍLS-veðbréf vegna nýrrar íbúðar, sem gefið sé út í tengslum við byggingu hennar eða kaup, gegn veði í íbúðinni. Íbúðalánasjóður getur enn fremur veitt lán til kaupa á hluta úr íbúð ef íbúðin er fyrir í sameign, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 20. gr. Í 24. gr. reglugerðarinnar kemur fram að Íbúðalánasjóður geti synjað um lánveitingu ef sýnt þyki að um málamyndagerning sé að ræða.

 

Í máli þessu liggur fyrir að fasteigninni að B var afsalað til kæranda þann 23. október 2012 og var kærandi því eigandi fasteignarinnar þegar hún sótti um lán hjá Íbúðalánasjóði til kaupa á íbúðarhúsnæði. Líkt og að framan er rakið veitir Íbúðalánasjóður eingöngu lán til einstaklinga til endurbóta, byggingar eða kaupa á íbúðarhúsnæði, sbr. 1. tölul. 15. gr. laga um húsnæðismál. Verður ekki séð að umsókn kæranda um lán hjá Íbúðalánasjóði hafi verið til kaupa á íbúðarhúsnæði enda var hún eigandi fasteignarinnar þegar hún sótti um lánið. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að Íbúðalánasjóði hafi verið rétt að synja umsókn kæranda um lán til kaupa á íbúðarhúsnæði. Hin kærða ákvörðun verður því staðfest.

 

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Ákvörðun Íbúðalánasjóðs, dags. 13. maí 2013, um synjun á umsókn A, um lán til kaupa á íbúðarhúsnæði er staðfest.

 

 

 

 

Bergþóra Ingólfsdóttir,

 

formaður

 

 

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir                Gunnar Eydal

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum