Hoppa yfir valmynd
20. nóvember 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 14/2013.

 

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

                                                              

 

Miðvikudaginn 20. nóvember 2013 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 14/2013:

 

 

Kæra A

á ákvörðun

Íbúðalánasjóðs

 

 

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

A, hér eftir nefnd kærandi, hefur með kæru, dags. 4. mars 2013, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála ákvörðun Íbúðalánasjóðs, frá 21. desember 2012, um synjun umsóknar um yfirtöku láns hjá sjóðnum.

 

 

I. Helstu málsatvik og kæruefni

 

F, B og E áttu í sameign fasteign að B. Eignarhluti hvers þeirra nam 33,33%. Árið 2006 tók F lán að fjárhæð 2.950.000 kr. hjá SPRON og veittu B og E, eigendur fasteignarinnar, F veðleyfi til að veðsetja fasteignina vegna veðlánsins. Krafan var síðan framseld til Íbúðalánasjóðs 2. júní 2009 og er Íbúðalánasjóður því núverandi kröfuhafi. Í október 2012 keypti kærandi, sem er móðir eigendanna, eignarhluta F og B í fasteigninni. Kaupverð átti að greiða með yfirtöku áhvílandi lána Íbúðalánasjóðs á 1. veðrétti á eigninni. Hinn 18. október 2012 var gefið út afsal vegna kaupanna. Með umsókn, dags. 26. október 2012, sótti kærandi um yfirtöku lána Íbúðalánasjóðs á 1. veðrétti vegna kaupa á 66,6% hlutar í fasteigninni G. Umsókn kæranda var synjað með bréfi, dags. 6. desember 2012, með eftirfarandi rökum:

 


 

 

Að undangengnu greiðslumati umsækjanda heimilaði sjóðurinn yfirtöku og gaf út yfirtökuskjal. Þá kom í ljós að ekki var ætlun umsækjenda að yfirtaka lán nr. C  sem tekið var af öðrum seljanda þ.e. F. Athugasemd þess efnis var að finna á umsókn en starfsmanni sjóðsins yfirsást hún við upphaflega afgreiðslu umsóknarinnar.

 

Ekki er unnt að fallast á að eingöngu sum lán sjóðsins sem hvíla á eigninni séu yfirtekin. Þannig var byggði [sic] afgreiðsla Íbúðalánasjóðs á umsókninni á því að öll lán sjóðsins sem áhvílandi eru á eigninni væru yfirtekin af kaupanda, enda voru öll lánin talin upp á útgefnu yfirtökuskjali. Í 16. gr. reglugerðar ÍLS um veðbréf og íbúðabréf kemur fram að við eigendaskipti á íbúð sem hvílir Íls-Veðbréf. Fasteignaveðbréf eða önnur veðbréf í eigu Íbúðalánasjóðs, skuli leita samþykkis Íbúðalánasjóðs um yfirtöku nýs eiganda á þeim lánum sem ætla er að hvíla áfram á eigninni. Þar kemur líka fram að sjóðnum sé heimilt að gjaldfella lánið sé það ekki gert.

 

Íbúðalánasjóður lánar einstaklingum til kaupa á íbúð til eigin nota. Þetta kemur fram í lögum um húsnæðismál og einnig í 18. gr. reglugerðar um ÍLS-veðbréf og íbúðabréf. Sjóðurinn heimilar ekki lánsveð, hvort þannig að veitt séu lán til aðila með veði í eign 3ja manns né þannig að eigendur geti veitt veðleyfi fyrir lánum 3ja manns, eins og hér virðist ætlunin

 

Með vísan til ofangreinds er ekki unnt að afgreiða þessa umsókn eins og hún liggur fyrir og er henni því hér með synjað.

 

 

II. Málsmeðferð

 

Með bréfi, dags. 4. mars 2013, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir afstöðu Íbúðalánasjóðs til málsins, upplýsingum um meðferð þess hjá sjóðnum og öllum gögnum. Afstaða Íbúðalánasjóðs barst með bréfi, dags. 25. mars 2013. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 2. apríl 2013, var bréf Íbúðalánasjóðs sent kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 6. maí 2013. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 3. september 2013, var kæranda tilkynnt um tafir á afgreiðslu málsins sem orsökuðust af miklum málafjölda hjá úrskurðarnefndinni en að vonir stæðu til þess að ljúka málinu sem fyrst.

 

 

III. Sjónarmið kæranda

 

Kærandi greinir frá því að hún óski ekki eftir að vera skuldari að láni sem sé upphaflega frá SPRON.

 

Skuldari lánsins vilji áfram vera skuldari þess og að ætlunin sé að lánið standi áfram á sömu eign. Auk þess sem kröfuhafinn skaðist ekki við eigendaskiptin.

 


 

 

Kærandi byggir á því að kröfuhafaskipti á kröfunni frá SPRON til Dróma og þaðan til Íbúðalánasjóðs, eigi ekki að raska rétti skuldarans. Skuldari eigi ekki að þurfa að þola að þótt veðið sem upphaflega hafi verið sett til tryggingar kröfunni, skipti um eigendur verði hann sjálfkrafa ekki lengur skuldari lánsins. Þurfi skuldari að þola að nýi eigandinn verði skuldari að láninu í hans stað, án þess að hann geti rönd við reist þá sé það í andstöðu við meginreglu kröfuréttar þess efnis að við kröfuhafaskipti eigi staða skuldara ekki að breytast. Slíkir skilmálar hafi ekki verið í upphaflegu veðskjali sem skuldari hafi ritað undir. Kærandi telur að staða skuldara versni við kröfuhafaskiptin verði haldið fast við þá fyrirætlan að kærandi þurfi einnig að yfirtaka lánið.

 

Kærandi bendir á að sérstakar aðstæður hafi leitt til þess að sjóðurinn hafi eignast kröfuna en Íbúðalánasjóður hafi keypt kröfuna eftir bankahrun. Slíkar aðstæður hafi ekki verið hafðar í huga við setningu reglugerðar nr. 522/2004, um ÍLS-veðbréf og íbúðabréf. Kærandi telur að skilmálar sem settir hafi verið þegar lántakinn hafi tekið lánið hjá SPRON séu enn í gildi. Þar hafi hvergi komið fram að ef aðilaskipti verði á eign þeirri sem upphaflega hafi verið sett að veði til tryggingar kröfunni, verði nýi eigandinn einnig að yfirtaka kröfuna. Auk þess að krafa Íbúðalánasjóðs sé jafntrygg fyrir og eftir aðilaskiptin hvort sem kærandi verði skuldari að kröfunni eða upphaflegi skuldarinn. Greiðslubolmagn skuldarans breytist ekki við aðilaskiptin og veðið standi því óbreytt. Kærandi vísar til meginreglu kröfuréttar um að við framsal almennrar kröfu í gagnkvæmu réttarsambandi eigi réttarstaða skuldara ekki að rýrna við framsalið og heldur fram að það geri hún sannanlega ef hann geti ekki lengur verið skuldari eftir kröfuhafaskiptin.

 

Kærandi telur rökstuðning varðandi lánsverð illskiljanlegan og ekki í samræmi við góða stjórnsýsluhætti. Þá bendir kærandi á að misskilningur sé af hálfu Íbúðalánasjóðs hvað það varði að verið sé veita veðleyfi í fasteigninni fyrir láninu en svo sé ekki. Íbúðalánasjóður hafi keypt kröfuna sem ágreiningur snúist um, þ.e. kröfu sem hafi þegar verið veðsett til tryggingar láni frá SPRON til eins af eigendum fasteignarinnar. Þannig sé ekki verið að veita þriðja manni veðleyfi í tiltekinni fasteign fyrir láni frá Íbúðalánasjóði eins og ætla mætti af rökstuðningi Íbúðalánasjóðs. Veðleyfið hafi þegar verið veitt þegar lánið hafi verið tekið hjá SPRON í upphafi. Að því virtu telur kærandi að rökstuðningur fyrir framangreindri stjórnsýsluákvörðun hafi verið ófullnægjandi og í andstöðu við 19. og 22. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og að rannsókn málsins hafi einnig verið ábótavant og í andstöðu við 10. gr. sömu laga. Auk þess að rök Íbúðalánasjóðs séu að hluta til óskýr og styðjist ekki við sýnilegar lagatilvitnanir og til dæmis sé látið við það sitja að vísa í lög um húsnæðismál. Þá beri synjun Íbúðalánasjóðs með sér að um staðlað svar hafi verið að ræða, en ekki einstakt tilvik sem hafi sætt ítarlegri skoðun og rannsókn. Því telur kærandi að skort hafi á að kröfu 19. gr., sbr. 22. gr., stjórnsýslulaga hafi verið fullnægt.

 

Kærandi bendir á að þótt það sé matsatriði hversu ítarlegur rökstuðningur stjórnvalds eigi að vera beri að hafa í huga meginreglu stjórnsýslulaga um að þeim mun mótdrægari sem ákvörðun er aðila þeim mun meiri kröfu verði að gera til rökstuðnings fyrir henni. Auk þess skuli rökstuðningur vera þannig að málsaðili skilji af lestri hans hvers vegna niðurstaðan varð sú sem raun bar vitni. Að rökstuðningur þurfi meðal annars að vera atviksbundinn þannig að ljóst sé að stjórnvald hafi tekið það einstaka mál sem um ræði til sjálfstæðrar rökstuddar úrlausnar. Kærandi vísar í því samhengi til álita umboðsmanns Alþingis í málum nr. 753/1993 og 276/1990. Það er mat kæranda að rökstuðningur Íbúðalánasjóðas hafi verið ófullnægjandi og því beri að taka kröfu kæranda til greina.

 


 

 

Í athugasemdum kæranda við greinargerð Íbúðalánasjóðs kveðst kærandi hafa aflað munnlegs samþykkis fyrir yfirtöku lánanna áður en afsalið hafi verið gert. Byggt er á að kæranda hafi verið tjáð af starfsmönnum Íbúðalánasjóðs þegar hún fór í greiðslumat að allar líkur stæðu til þess að sjóðurinn samþykkti yfirtöku hennar á þeim lánum sem hún hafði í hyggju að yfirtaka frá sjóðnum og hvíldu á fasteigninni, svo fremi sem hún stæðist greiðslumatið. Þá er og á því byggt að kærandi hafi staðist greiðslumatið. Kærandi greinir frá því að lánin sem hún hugðist yfirtaka hafi verið hafi verið ÍLS-veðbréf samkvæmt reglugerð nr. 552/2004, um ÍLS-veðbréf og íbúðabréf, og því veitt samkvæmt V. og VI. kafla laga nr. 44/1998 eins og skilmerkilega hafi verið tiltekið á veðskuldabréfunum sjálfum. Um lánið frá SPRON gildi hins vegar ekki reglur Íbúðalánasjóðs eða reglugerð nr. 552/2004 enda hafi það ekki verið veitt með stoð í lögum nr. 44/1998. Lánið sé almennt lán banka til viðskiptavinar og um þau gildi ekki fyrrgreind ákvæði laga nr. 44/1998, heldur skilmálar veðskuldabréfsins og almennar reglur kröfuréttar og reglur um viðskiptabréf. Þá bendir kærandi á að veðskuldabréfið hafi verið framselt til Íbúðalánasjóðs þann 1. maí 2010 skilyrðislaust samkvæmt áritun þar að lútandi. Kærandi veltir upp því álitaefni hvort lánið falli undir hugtakið „önnur skuldabréf í eigu Íbúðalánasjóðs“ eða ekki og hvort heimilt hafi verið að setja slíkt íþyngjandi ákvæði í reglugerð. Kærandi telur svo ekki vera. Vísað sé til 10. gr. sömu reglugerðar þar sem til dæmis sé áskilnaður um greiðslumat vegna yfirtöku áhvílandi ÍLS-veðbréfs eða fasteignaveðbréfs. Þar sé ekki tekið fram að umsækjandi þurfi að standast greiðslumat vegna yfirtöku „annarra skuldabréfa í eigu Íbúðalánasjóðs“. Kærandi telur því að tilgangur reglugerðarinnar sé samkvæmt þessu ekki sá að ná yfir slík lán. Þá beri að túlka reglugerðarákvæðið í samræmi við hlutverk Íbúðalánasjóðs eins og það sé skilgreint í 1. gr. laga nr. 44/1998, en kaup og yfirtaka kæranda á nefndum fasteignarhluta með yfirtöku tveggja af þremur lánum áhvílandi á eignarhluta séu til þess að hún geti búið við öryggi og jafnrétti. Ekki þurfi að yfirtaka annað lán sem sonur hennar hafi stofnað til í viðskiptabanka sínum. Kærandi greinir frá því að ágreiningslaust sé að ef nefnt lán væri enn í eigu SPRON þá hefði Íbúðalánasjóður samþykkt yfirtöku fyrrgreindra lána. Sama eigi við ef nefnt lán hefði verið framselt til annarrar fjármálastofnunar. Kærandi byggi þá við „öryggi og jafnrétti“ í samræmi við tilgang laga nr. 44/1998. Það geri kærandi hins vegar ekki við þessar aðstæður þegar yfir henni vofir óvissa, aukin greiðsluskylda og hótanir um gjaldfellingu krafna. Kærandi veltir því upp hvers vegna staða hennar eigi að vera verri við að Íbúðalánasjóður kaupir nefnt lán.

 

Kærandi bendir á að verði ekki fallist á framangreint, þá sé því haldið fram að sú skylda sem lögð sé á kæranda að hún verði að yfirtaka hina framseldu kröfu Íbúðalánasjóðs, með stoð í 16. gr. reglugerðar nr. 522/2004, verði ekki lögð á hana með reglugerð án þess að fyrir því sé ótvíræð lagastoð. Kærandi heldur fram að slíka lagastoð skorti í lögum nr. 44/1998. Í því sambandi vísar kærandi til dóms Hæstaréttar í máli nr. 642/2012 þar sem reglugerðarákvæði hafi verið talið skorta lagastoð.

 

 

IV. Sjónarmið Íbúðalánasjóðs

 

Í athugasemdum Íbúðalánasjóðs kemur fram að íbúðin að G hafi verið í sameign F, E og B. Hvert um sig hafi átt 1/3 eignarhlut og við sölu íbúðarinnar hafi F, E og B verið skuldarar láns á 1. veðrétti, E og F hafi verið skuldarar láns á 3. veðrétti og F hafi verið skuldari láns á 4. veðrétti. Öll áhvílandi lán Íbúðalánasjóðs hafi verið skuldir eigenda íbúðarinnar. Við kaup kæranda á eignarhluta F og B  hafi kærandi einungis ætlað að yfirtaka hluta láns á 1. veðrétti. Íbúðalánasjóður bendir á að við kaup sjóðsins á veðskuldabréfi SPRON hafi ekki orðið nein breyting á stöðu F sem skuldara lánsins. Rétt sé að geta þess að það hafi verið eitt skilyrða fyrir kaupum Íbúðalánasjóðs á lánasöfnum að skuldari væri jafnframt eigandi hinnar veðsettu eignar. Þegar hann hins vegar seldi eignarhluta sinn rofni samband eiganda og skuldara. Kæranda beri að yfirtaka áhvílandi lán seljenda og þar með verði hún skuldari á öllum áhvílandi lánum sjóðsins. Í 16. gr. reglugerðar um ÍLS-veðbréf og íbúðabréf, nr. 522/2004, sé áskilið að kaupandi leiti samþykkis Íbúðalánasjóðs á þeim lánum sem ætlað sé að standi áfram á eigninni. Þannig hafi kæranda ótvírætt borið að leita samþykkis um yfirtöku lánanna sem skyldu standa áfram á eigninni. Íbúðalánasjóður upplýsir að við sölu íbúða með áhvílandi lánum sjóðsins séu lán almennt yfirtekin af kaupanda, flutt á aðra eign sem skuldari sé að kaupa eða þau greidd upp. Sjóðurinn heimili ekki lánsveð, þ.e. að skuldari láns sé annar en eigandi eignar enda sé það í andstöðu við ákvæði 16. gr. reglugerðar nr. 522/2004.

 

V. Niðurstaða

 

Málskot kæranda er reist á 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998. Hlutverk úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er meðal annars að skera úr ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda. Í málinu er ágreiningur um hvort Íbúðalánasjóði hafi verið heimilt að synja umsókn um yfirtöku láns hjá sjóðnum.

 

Kærandi í máli þessu keypti 66% eignarhluta tveggja sona sinna í fasteigninni G. Báðir synir hennar voru skuldarar að láni á 1. veðrétti á eigninni ásamt dóttur hennar en annar var einnig skuldari að láni á 4. veðrétti sem upphaflega var tekið hjá SPRON. Kærandi sótti um yfirtöku láns hjá Íbúðalánasjóði á 1. veðrétti á fasteigninni en óskaði ekki eftir því að yfirtaka lánið á 4. veðrétti. Íbúðalánasjóður synjaði umsókn kæranda á þeim grundvelli að henni bæri að yfirtaka öll lán sem hvíldu á þeim eignarhluta sem hún hygðist kaupa, sbr. 16. gr. reglugerðar um ÍLS-veðbréf og íbúðabréf, nr. 522/2004.

 

Kærandi heldur því fram að kröfuhafaskipti lánsins eigi ekki að raska rétti skuldarans og bendir á að í skilmálum skuldabréfsins hafi hvergi komið fram að ef aðilaskipti verði á eign þeirri sem upphaflega hafi verið sett að veði til tryggingar kröfunni, verði nýi eigandinn einnig að yfirtaka kröfuna. Telji úrskurðarnefndin að ákvæði 16. gr. reglugerðar nr. 522/2004 eigi við um lánið heldur kærandi því fram að ákvæðið skorti lagastoð. Þá telur kærandi að málið hafi ekki verið nægjanlega rannsakað af hálfu Íbúðalánasjóðs, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og rökstuðningur sjóðsins hafi ekki uppfyllt 22. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

 

Úrskurðarnefndin telur í upphafi rétt að benda á að það er ekki á valdsviði úrskurðarnefndarinnar að kveða á um stjórnskipulegt gildi reglugerða heldur einskorðast endurskoðun úrskurðarnefndarinnar við að skera úr um lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar. Tekið skal fram að með lögum nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., var Íbúðalánasjóði veitt heimild til að kaupa skuldabréf fjármálafyrirtækja sem töldust til hefðbundinna íbúðalána, vegna þeirra aðstæðna sem komu upp á innlendum fjármálamarkaði í október 2008. Slík ráðstöfun var talin þáttur í nauðsynlegum aðgerðum við endurskipulagningu rekstrar fjármálafyrirtækja og til þess fallin að liðka fyrir fjármögnun. Heimild Íbúðalánasjóðs var að finna í 2. mgr. 15. gr. laga um húsnæðismál, en var felld úr gildi þann 18. júní 2012 með lögum nr. 84/2012. Samkvæmt ákvæðinu var Íbúðalánasjóði heimilt að kaupa skuldabréf fjármálafyrirtækja, sem tryggð voru með veði í íbúðarhúsnæði. Sagði þar jafnframt að ekki þyrfti að leita samþykkis skuldara fyrir slíkri yfirfærslu. Heimild Íbúðalánasjóðs var nánar útfærð með reglugerð nr. 1081/2008, um heimild Íbúðalánasjóðs til að kaupa skuldabréf fjármálafyrirtækja sem tryggð eru með veði í íbúðarhúsnæði, en reglugerðin var felld brott þann 30. ágúst 2011 með reglugerð nr. 818/2011. Samkvæmt 1. gr. reglugerðarinnar var Íbúðalánasjóði heimilt að kaupa skuldabréf fjármálafyrirtækja sem tryggð voru með veði í íbúðarhúsnæði hér á landi. Enn fremur sagði í 2. málsl. greinarinnar að ekki þyrfti að leita samþykkis skuldara fyrir kaupum Íbúðalánasjóðs á skuldabréfi. Úrskurðarnefndin tekur fram að það er grundvallarregla í kröfurétti að kröfuhafaskipti geta orðið að kröfu án þess að leita þurfi samþykkis skuldara. Um viðskiptabréf gilda sérstakar framsalsreglur. Megininntak viðskiptabréfareglnanna er það að framsalshafi öðlist þau réttindi sem bréfið ber með sér.

 

Úrskurðarnefndin tekur fram að samkvæmt 1. gr. laga um húsnæðismál er tilgangur laganna að stuðla að því með lánveitingum og skipulagi húsnæðismála að landsmenn geti búið við öryggi og jafnrétti í húsnæðismálum og að fjármunum verði sérstaklega varið til þess að auka möguleika fólks til að eignast eða leigja húsnæði á viðráðanlegum kjörum. Er Íbúðalánasjóði eingöngu heimilt að lána til einstaklinga til kaupa á íbúðarhúsnæði fyrir sig og fjölskyldu sína. Lánveitingar Íbúðalánasjóðs til einstaklinga eru því bundnar við kaup eða byggingu íbúðarhúsnæðis, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 15. gr. laga um húsnæðismál. Jafnframt er það áskilnaður fyrir lánveitingu Íbúðalánasjóðs að sjóðurinn eignist veð í þeirri eign sem verið er að kaupa eða byggja, sbr. 18. gr. reglugerðar nr. 522/2004. Í 7. gr. reglugerðar nr. 1081/2011 kom fram að lántakendur hefðu eftir yfirtöku skuldabréfalána sömu réttindi og skyldur gagnvart Íbúðalánasjóði og aðrir lántakendur hjá sjóðnum. Þar kom einnig fram að kjör og skilmálar skuldabréfalána gagnvart lántakendum sem Íbúðalánasjóður yfirtæki skyldu vera óbreytt frá því sem var fyrir yfirtöku Íbúðalánasjóðs á láninu eftir því sem við gæti átt. Í málinu liggur fyrir veðskuldabréf vegna umrædds láns en í skilmálum bréfsins er ekki vikið að eigendaskiptum að íbúð sem lánið hvíli á.

 

Í 16. gr. reglugerðar um ÍLS-veðbréf og íbúðabréf, nr. 522/2004, er hins vegar kveðið á um eigendaskipti á íbúðum. Þar segir að leita skuli samþykkis Íbúðalánasjóðs við eigendaskipti á íbúð, sem á hvílir ÍLS-veðbréf, fasteignaveðbréf eða önnur skuldabréf í eigu Íbúðalánasjóðs, um yfirtöku nýs eiganda á þeim lánum sem ætlað er að hvíla áfram á eigninni. Að öðrum kosti hefur sjóðurinn heimild til að gjaldfella lánið. Af gögnum málsins má ráða að ætlunin hafi verið að veðlán það er hvíldi á 4. veðrétti fasteignarinnar skyldi hvíla áfram á fasteigninni enda hefur ekkert komið fram um að skuldari lánsins hygðist flytja það yfir á aðra fasteign eða greiða það upp. Í samræmi við framangreint bar því að leita samþykkis Íbúðalánasjóðs um yfirtöku kæranda á öllum lánum seljenda fasteignarinnar sem ætlað var að hvíla áfram á eigninni, sbr. 16. gr. reglugerðar nr. 522/2004. Kærandi óskaði einungis eftir yfirtöku hluta þeirra lána og er það því mat úrskurðarnefndarinnar að Íbúðalánasjóði hafi verið rétt að synja þeirri umsókn kæranda. Úrskurðarnefndin telur ekkert hafa fram komið er sýni fram á að málið hafi ekki verið nægjanlega rannsakað, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Þá verður ekki séð að rökstuðningur Íbúðalánasjóðs hafi ekki uppfyllt skilyrði 22. gr. stjórnsýslulaga. Hin kærða ákvörðun verður því staðfest.

 

 

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Ákvörðun Íbúðalánasjóðs, dags. 21. desember 2012, um synjun á umsókn A, um yfirtöku láns á 1. veðrétti fasteignarinnar G í Kópavogi, er staðfest.

 

 

 

 

Bergþóra Ingólfsdóttir,

 

formaður

 

 

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir                Gunnar Eydal

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum