Hoppa yfir valmynd
14. ágúst 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 24/2013

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

                                                              

 

Miðvikudaginn 14. ágúst 2013 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 24/2013:

 

 

Kæra A

á niðurstöðu SIS-mats

 

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

B hefur f.h. A, hér eftir nefndur kærandi, með kæru, dags. 5. júní 2013, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála niðurstöðu úr SIS-mati sem framkvæmt var á kæranda árið 2010.

 

 

I. Málavextir og málsmeðferð

 

Kærandi kljáist við geðsjúkdóm og býr á sambýlinu C. Að sögn föður kæranda hefur hann verið metinn með stuðningsþörfina þrjá á skalanum einn til tólf í svokölluðu SIS-mati árið 2010. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála með bréfi, dags. 5. júní 2013. Með bréfi, dags. 18. júní 2013, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir upplýsingum frá Sveitarfélaginu Hornafirði um stöðu málsins hjá sveitarfélaginu ásamt öllum gögnum er málið varðaði. Svar Sveitarfélagsins Hornafjarðar barst með bréfi, dags. 26. júní 2013. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 2. júlí 2013, var bréf sveitarfélagsins sent kæranda til kynningar. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

 

II. Málsástæður kæranda

 

Kærandi kveðst kæra niðurstöðu SIS-mats sem framkvæmt hafi verið á honum árið 2010. Hann hafi verið metinn með stuðningsþörfina þrjá á skalanum einn til tólf. Það sé úr öllu samhengi við aðstæður hans, ástand og heilsufar síðustu tuttugu árin. Framtíð hans, lífi og heilsu sé stefnt í stórfellda hættu með þessu ranga mati. Hann fari fram á að stuðningsþörf hans verði tafarlaust endurmetin með tilliti til fyrirliggjandi staðreynda. Að sögn kæranda hefur hann þjáðst af illvígum sjúkdómi, geðklofa, frá því um tvítugt. Um sé að ræða mjög alvarlegan arfgengan ólæknandi sjúkdóm. Hann hafi kljáðst við geðsveiflur, angist, ofsóknaræði ásamt lyfja- og áfengisneyslu sem sé undantekningarlítið fylgifiskur sjúkdómsins. Hann hafi verið algjörlega óvinnufær, oft heimilislaus og eytt löngum tímabilum á stofnunum. Kærandi hafi í fjögur ár átt athvarf að C, eftir langa þrautagöngu.

 

Faðir kæranda kveðst hafa vorið 2012 frétt að stuðningsþörf kæranda hafi verið endurmetin með svokölluðu SIS-matskerfi og kærandi verið metinn með stuðningsþörfina þrjá af tólf. Það sé í mótsögn við sjúkrasögu hans, veikindi og stöðu undanfarandi 20 ár. Það þýði í raun að hann sé metinn með mjög litla stuðningsþörf og verði á götunni ef hann missi plássið á C. Eftir að matið hafi legið fyrir hafi forstöðumaður C fengið bréf frá formanni bæjarráðs sveitarfélagsins í tengslum við samninga um fjárframlag milli C og sveitarfélagsins. Þar hafi verið lagt til að einstaklingur sem greindur væri í flokk þrjú eftir SIS-kerfinu flytjist aftur til Reykjavíkur enda komi engin greiðsla fyrir hann úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Forstöðumaður C hafi þó ekki svarað beiðni þessari. Að sögn kæranda var innleiðing á SIS-mati samstarfsverkefni Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins, Sálfræðistofnunar Háskóla Íslands og velferðarráðuneytisins. Skráning gagna og úrvinnsla hafi verið framkvæmd innan Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands. Matið hafi verið framkvæmt þannig að þroskaþjálfi hafi komið að C í október 2011. Að sögn kæranda hafi þroskaþjálfinn rætt við hann í um tíu mínútur án þess að skrifa neitt niður. Hann hafi einnig rætt við forstöðumann C í nokkra stund. Ekki hafi verið haft samband við aðstandendur, lækna eða nokkurn annan sem þekki til kæranda. Hvorki sjúkrasaga hans, álit lækna, saga móður, arfgengni né nokkuð annað sem málinu hafi komið við hafi verið tekið til greina við matið. Kærandi taki fram að miklar efasemdir séu uppi meðal fagfólks og annarra sem þekki til málefna fólks með geðfötlun, um að SIS henti til mats á stuðningi við geðfatlað fólk. Á heimasíðu Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins segi að mat á stuðningsþörf sé þróað af bandarísku samtökunum AAIDD til að meta stuðningsþörf fólks með þroskahömlun og skyldar raskanir. Kærandi geti ekki fallist á að geðsjúkdómar séu skyldir þroskahömlun. Á Netinu sé ekki að finna upplýsingar um að SIS sé notað til að meta stuðningsþörf geðfatlaðra einstaklinga. Kærandi sé ekki þroskahamlaður eða með skylda röskun. Hann sé stálgreindur maður með alvarlegan ólæknandi geðsjúkdóm.

 

 

III. Sjónarmið Sveitarfélagsins Hornafjarðar

 

Í athugasemdum sveitarfélagsins vegna kærunnar kemur fram að kærandi sé íbúi á sambýlinu C  en honum hafi hvorki verið tilkynnt um breytingu á þjónustu né að það standi til. Áhöld hafi verið um það hvort hann væri í úrræði sem hentaði honum og hvort hann gæti jafnvel búið sjálfstætt með frekari liðveislu líkt og raun væri með nokkra einstaklinga sem falli undir málefni fatlaðs fólks í sveitarfélaginu. Umboðsmaður kæranda hafi vitnað í bréf, dags. 28. febrúar 2012, sem farið hafi milli sveitarfélagsins og forstöðumanna sambýlisins á C vegna samningaviðræðna sem þá hafi átt sér stað. Það sé rétt að í bréfinu hafi komið fram að sveitarfélagið hafi talið eðlilegt að einstaklingur sem væri svo lágt metinn ætti mögulega heima í annars konar þjónustuúrræði en á svo sérhæfðu búsetuúrræði sem sambýli er. Hins vegar hafi aldrei verið farið af stað með neinar aðgerðir í þessa átt, svo sem endurmat á þjónustuþörf, og í ljósi sögu kæranda hafi verið ákveðið að hrófla ekki við núverandi þjónustu við hann að fyrra bragði, né standi það til. Engin stjórnvaldsákvörðun hafi því verið tekin af hálfu sveitarfélagsins eða starfsmanna þess um breytingu á þjónustu við kæranda. Það hafi enn fremur verið undirstrikað símleiðis við föður kæranda í maí 2012. Eins hafi ekki verið fjallað um málefni hans eða umfang þjónustu sérstaklega á fundum þjónustumatsteymis sveitarfélagsins, félagsmálanefndar eða velferðarteymis. Hvorki félagsmálastjóri né aðrir starfsmenn sveitarfélagsins geti þó borið ábyrgð á SIS-matinu eða niðurstöðu þess en óskað hafi verið eftir endurmati vegna kæranda og samkvæmt upplýsingum frá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins hafi ekki þótt næg ástæða til endurmats.

 

 

IV. Niðurstaða

 

Málskotsheimild kæranda er reist á 5. gr. a laga um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992, með síðari breytingum, en í 1. mgr. greinarinnar kemur fram að fötluðum einstaklingi sé heimilt að kæra stjórnvaldsákvarðanir um þjónustu sem teknar eru á grundvelli laganna til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, sbr. XVII. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Mál þetta snýst um kæru á niðurstöðu SIS-mats sem framkvæmt var á kæranda árið 2010.

 

Til þess að kæra á grundvelli 5. gr. a laga um málefni fatlaðs fólks verði tekin til efnislegrar meðferðar þarf að liggja fyrir stjórnvaldsákvörðun. Um stjórnvaldsákvörðun er einungis að ræða hafi stjórnvald tekið ákvörðun um rétt eða skyldu tiltekins aðila í skjóli stjórnsýsluvalds. Svokallaðar formákvarðanir er varða meðferð stjórnsýslumáls teljast ekki til stjórnvaldsákvarðana, enda eru þær ekki endanlegar með þeim hætti að þær bindi endi á stjórnsýslumál. Í athugasemdum við 4. gr. frumvarps til laga nr. 152/2010, um breytingar á lögum nr. 59/1992, um málefni fatlaðs fólks, er fjallað nánar um hvaða ákvarðanir eru kæranlegar á grundvelli framangreindrar kæruheimildar. Þar kemur meðal annars fram að í lögunum sé gert ráð fyrir að sveitarfélög starfræki matsteymi þar sem í eiga sæti sérfræðingar sem hafa nauðsynlega fagþekkingu og starfa á vegum sveitarfélaganna eða eftir atvikum lögaðila, svo sem byggðasamlags, sem annast þjónustuna fyrir þeirra hönd. Teymunum sé ætlað að meta heildstætt þörf þeirra sem þurfa á þjónustu sem veitt er á grundvelli laganna að halda og þá einnig hvernig koma megi til móts við óskir þeirra. Ákvarðanir sveitarfélaga um rétt einstaklinga til tiltekinnar þjónustu sem byggjast á slíku mati teljast til stjórnvaldsákvarðana í skilningi stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Hið sama gildir um ákvarðanir er varði synjun um tiltekna þjónustu. Niðurstöður matsins verði því ekki taldar til stjórnvaldsákvarðana í skilningi stjórnsýslulaga en sveitarfélögum ber að taka ákvörðun á grundvelli þeirra.

 

Kærandi hefur kært niðurstöðu SIS-mats sem framkvæmt var á honum árið 2010. Niðurstaða mats á stuðningsþörf kæranda telst ekki til stjórnvaldsákvarðana og er því ekki kæranleg til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að í máli kæranda hafi verið tekin stjórnvaldsákvörðun á grundvelli framangreinds mats. Kærunni verður því vísað frá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála.

 

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála.

 

 

 

Bergþóra Ingólfsdóttir,

 

formaður

 

 

 

               Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir                        Gunnar Eydal

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum