Hoppa yfir valmynd
2. júlí 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 40/2012.

 

 

Miðvikudaginn 5. júní 2013 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 40/2012:

 

 

Kæra A

á ákvörðun

Íbúðalánasjóðs

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

Hjalti Steinþórsson lögfræðingur, f.h. A, hér eftir nefnd kærandi, hefur með kæru, dags. 20. febrúar 2012, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Íbúðalánasjóðs, dags. 25. nóvember 2011, á beiðni hennar um endurskoðun á útreikningi vaxta af viðbótarláni nr. C sem tryggt er með 5. veðrétti í eignarhluta kæranda í B.

 

 

I. Málavextir

 

Með kaupsamningi, dags. 2. september 2004, keypti kærandi fasteign og við kaupin yfirtók hún áhvílandi skuldir, meðal annars uppreiknaðar eftirstöðvar viðbótarláns sem tryggt var með 5. veðrétti eigninni. Í málinu liggur fyrir skuldabréf vegna viðbótarlánsins skv. VII. kafla laga nr. 44/1998 og var það gefið út þann 12. október 2001. Lánið var upphaflega að fjárhæð 2.750.000 kr. og tryggt með 5. veðrétti í B. Í 4. gr. skuldabréfsins segir eftirfarandi: „Vextir eru breytilegir skv. ákvörðun stjórnar Íbúðalánasjóðs að fenginni umsögn Seðlabanka Íslands, sbr. 31. gr. laga nr. 44/1998. Sú greiðsla og vextir sem nefndir eru í skuldabréfinu eru miðaðir við upphafleg lánskjör. Lánskjör breytast einnig samkv. lögum nr. 63/1985 um greiðslujöfnun fasteignaveðlána, með síðari breytingum. Skuld á jöfnunarreikningi, sem til verður vegna ákvæða um greiðslumark, telst hluti af höfuðstól lánsins. Lánskjör, þar með talið vextir og verðtrygging vegna skuldar á jöfnunarreikningi, skulu vera hin sömu og af upphaflegu láni.“ Í bréfinu er tilgreint að lánið sé með 5,7% ársvöxtum og vísitölutryggt, miðað við grunnvísitölu neysluverðs 214,9.

 

 

II. Málsmeðferð

 

Með bréfi, dags. 23. febrúar 2012, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir afstöðu Íbúðalánasjóðs til málsins, upplýsingum um meðferð þess hjá sjóðnum og frekari gögnum. Afstaða Íbúðalánasjóðs barst með bréfi, dags. 21. mars 2012. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 28. mars 2012, var bréf Íbúðalánasjóðs sent kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust með bréfi kæranda, dags. 5. apríl 2012. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 5. desember 2012, var kæranda tilkynnt um tafir á afgreiðslu málsins sem orsökuðust af miklum málafjölda hjá úrskurðarnefndinni en að vonir stæðu til þess að ljúka málinu sem fyrst. Með tölvupósti þann 8. mars 2013 óskaði kærandi eftir upplýsingum um gang málsins og voru þær veittar samdægurs. Með bréfi, dags. 13. maí 2013, óskaði úrskurðarnefndin eftir nánar tilgreindum upplýsingum frá Íbúðalánasjóði og barst svar sjóðsins með bréfi, dags. 22. maí 2013. Bréf Íbúðalánasjóðs var sent kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 27. maí 2013, og bárust athugasemdir kæranda með bréfi, dags. 29. maí 2013.

 

III. Sjónarmið kæranda

 

Kærandi gerir þá kröfu að hinni kærðu ákvörðun verði hnekkt og að lagt verði fyrir stjórn Íbúðalánasjóðs að endurákvarða og endurreikna vexti af skuldabréfi kæranda vegna viðbótarláns sem breytilega vexti í stað fastra 5,7% ársvaxta, sem lagðir hafi verið til grundvallar við útreikning og innheimtu vaxta af skuldabréfinu.

 

Af hálfu kæranda er á því byggt að umrætt skuldabréf beri breytilega vexti samkvæmt skýru og ótvíræðu ákvæði í bréfinu sjálfu. Í 4. gr. skilmála skuldabréfsins sé kveðið á um vexti af bréfinu, en þar segi orðrétt: „Vextir eru breytilegir skv. ákvörðun stjórnar Íbúðalánasjóðs að fenginni umsögn Seðlabanka Íslands, sbr. 31. gr. laga nr. 44/1998. Sú greiðsla og vextir sem nefndir eru í skuldabréfinu eru miðaðir við upphafleg lánskjör.“ Á eyðublaði, sem skuldabréfið sé ritað á, sé þess meðal annars getið í viðeigandi reitum að hver greiðsla án verðbóta sé 14.763,63 kr. og vextir séu 5,7000%. Það sé skilningur kæranda að þarna sé að finna þá greiðslu og vexti sem talað sé um í vaxtaákvæði skuldabréfsins að miða eigi við upphafleg lánskjör. Hvað vextina varði sérstaklega þá hafi þannig, með tilgreindum 5,7% vöxtum í vaxtareitnum, aðeins verið að upplýsa um þá vexti sem í gildi hafi verið við útgáfu bréfsins. Þeir séu meðal þeirra upphaflegu lánskjara sem vaxtaákvæði bréfsins vísi til en taki síðan breytingum í samræmi við vaxtaákvæði bréfsins.

 

Þegar umrætt skuldabréf hafi verið gefið út, þann 12. október 2001, hafi verið í gildi lög um neytendalán, nr. 121/1994. Með þeim lögum hafi lánastofnunum verið lagðar ýmsar skyldur á herðar, meðal annars að upplýsa skuldara um heildarkostnað af lántöku, þar með talda vexti og önnur gjöld. Þó segi í 9. gr. laganna að þótt í lögunum sé kveðið á um að neytandi skuli fá upplýsingar um vexti eða fjárhæðir þar sem vextir séu meðtaldir, sbr. 6. gr., komi það ekki í veg fyrir að aðilar geti samið um að vextir séu að nokkru eða öllu leyti breytilegir. Skuli þá greint frá vöxtum eins og þeir séu á þeim tíma sem upplýsingarnar séu gefnar, tilgreint skuli með hvaða hætti vextirnir séu breytilegir og við hvaða aðstæður þeir breytist. Kærandi telji að með hliðsjón af þessu ákvæði hafi í raun borið að geta gildandi 5,7% vaxta í margræddu skuldabréfi fyrir viðbótarláni og að ákvæði skuldabréfsins um vexti séu í fullu samræmi við fyrirmæli 9. gr. laga um neytendalán um framsetningu skilmála um breytilega vexti.

 

Kærandi vísar til þess að Íbúðalánasjóður hafi stutt synjunina með þeim rökum að það hafi ekki verið ætlun löggjafans að viðbótarlán bæru breytilega vexti enda gæti það leitt til tjóns fyrir sjóðinn. Kærandi vísi þessum fullyrðingum á bug og telji að sá skilningur verði ekki lagður í lögskýringargögn að með þeim breytingum sem gerðar hafi verið á ákvæði 31. gr. laga nr. 44/1998 um lánskjör viðbótarlána, hafi verið girt fyrir að lánin gætu borið breytilega vexti heldur hafi aðeins vakað fyrir löggjafanum að tilgreina með skýrum hætti hvernig vextir skyldu ákveðnir. Því sé einnig hafnað að breytilegir vextir séu til þess fallnir að valda Íbúðalánasjóði skaða. Nægi að benda á að slíkir vextir breytist jafnt til hækkunar sem lækkunar og ætti áhætta því að jafnast út. Þannig yrði sá skaði sem yrði af lækkun vaxta frá því sem þeir urðu hæstir, eða 5,7%, eins og í tilviki kæranda, að bætast upp með hækkun vaxta frá því sem þeir urðu lægstir eða 4,15%. Hvað varði viðbótarlán þá sé Íbúðalánasjóður bæði með belti og axlabönd varðandi vexti og verðtryggingu lánanna en þar bætist við að lán þessi muni hafa verið með einhvers konar baktryggingu sveitarfélaganna eða sérstaks varasjóðs viðbótarlána. Kærandi fái ekki séð að hægt sé að líkja þessum útlánum við þá óábyrgu útlánastefnu viðskiptabankanna sem hafi stuðlað að falli þeirra. Loks sé vakin athygli á því varðandi breytilega vexti almennt, að vextir Íbúðalánasjóðs til leiguíbúða sveitarfélaga og félagasamtaka séu breytilegir, sbr. 4. mgr. 36. gr. laga um húsnæðismál, og málatilbúnaður Íbúðalánasjóðs því mótsagnakenndur í besta falli hvað breytilega vexti varði.

Hvað sem líði mögulegum skýringum á ákvæðum laga nr. 44/1998 um vexti einstakra lánflokka og um heimildir Íbúðalánasjóðs samkvæmt þeim lögum telji kærandi að þau ákvæði eða heimildir skipti engu máli um skýringu á vaxtaákvæði skuldabréfsins. Hafa verði í huga að um sé að ræða viðskiptabréf sem samið sé af öðrum aðilanum, þeim sama og líta verði á sem hinn sterkari í réttarsambandinu og jafnframt þeim aðila sem búi yfir eða eigi að búa yfir, sérfræðiþekkingu á viðkomandi sviði. Íbúðalánasjóður beri ábyrgð á því að lánakjörin séu lögmæt og í samræmi við heimildir sjóðsins og séu þau það ekki verði hann að bera hallann af því og taka þeim afleiðingum sem það hafi í för með sér. Í því sambandi megi nefna þekktar niðurstöður dómstóla um ólögmæt gengistryggð lán og nú síðast um endurákvörðun vaxta slíkra lána þar sem það komi beinlínis fram að það standi lánastofnuninni nær en neytandanum að bera hallann af réttaróvissu af þessum toga.

 

Í máli því sem hér sé til meðferðar sé þó ekki um neina óvissu að ræða. Staðreyndin sé sú að Íbúðalánasjóður hafi veitt lán með breytilegum vöxtum. Það leiði af reglum íslensks réttar um samningafrelsi að þetta hafi honum verið fullkomlega heimilt, enda hvergi í lögum kveðið á um að óheimilt sé að veita lán sem þessi með breytilegum vöxtum. Hvort annað hafi verið ætlan varnaraðila eða löggjafans hafi enga þýðingu við úrlausn málsins. Um sé að ræða viðskiptabréf með skýrum ákvæðum í fullu samræmi við ákvæði laga um neytendalán. Með hliðsjón af reglum um skýringu slíkra skjala, meðal annars með hliðsjón af stöðu aðila og vernd neytandans í réttarsambandinu sé aðeins hægt að komast að einni niðurstöðu í málinu, það er að umrætt bréf beri breytilega vexti og að þeir eigi því að koma til endurskoðunar til samræmis við vexti sambærilegra lána, sem um langan tíma hafi verið til muna lægri en þeir 5,7% vextir sem ranglega hafi verið heimtir af bréfinu allt frá því þeir hafi fyrst breyst til lækkunar.

 

Kærandi gerir athugasemdir við upplýsingar frá Íbúðalánasjóði um að stjórn sjóðsins hafi ekki ákveðið breytingu á vöxtum viðbótarlána frá útgáfudegi þeirra. Kærandi vísar til þess að sé þessi staðhæfing rétt þá feli hún ekki annað í sér en staðfestingu á því að stjórn sjóðsins hefði ekki farið að lögum, sbr. 31. gr. laga nr. 44/1998, sem hafi verið í gildi þegar umrætt lán hafi verið veitt. Kærandi telur hins vegar að þessi fullyrðing sé ekki rétt og bendir í því sambandi á ákvarðanir stjórnar Íbúðalánasjóðs um vexti af viðbótarlánum sem getið sé í samantekt um vaxtabreytingar viðbótarlána sem kærandi hafi tiltekið dæmi um í fylgiskjali. Kærandi minni á að breytilegir vextir séu notaðir hjá sjóðnum á lánum til leiguíbúða og hægt sé að finna ákvarðanir stjórnar sjóðsins um breytingar á þeim. Áréttað sé að aðalatriði málsins sé ekki að komast að niðurstöðu um hvað hafi vakað fyrir löggjafanum við setningu ákvæða laga um viðbótarlán eða hvort stjórn Íbúðalánasjóðs hafi rækt lagaskyldur sínar, heldur um það hvernig túlka beri vaxtaákvæði skuldabréfs þess er um ræði í málinu að teknu tilliti til reglna um viðskiptabréf, almennra túlkunarreglna um slíka samninga, ákvæða laga um neytendalán og grundvallarreglna neytendaréttar.

 

Í athugasemdum kæranda, dags. 29. maí 2013, er vísað til upplýsinga frá Íbúðalánasjóði um að vextir á viðbótarlánum hafi lækkað hratt frá árinu 2001 þegar umrætt bréf var gefið út, til ársloka 2004 þegar hætt hafi verið að veita viðbótarlán líkt og kærandi hafi haldið fram í málinu. Af greinargerð með frumvarpi til breytinga á lögum nr. 44/1998 um brottfall VII. kafla laganna megi ráða að frá árslokum 2004 hafi ekki verið gerður munur á vöxtum almennra lána eftir stöðu þeirra með tilliti til veðhlutfalls og ættu því vextir af umræddu láni kæranda að fylgja vöxtum almennra húsnæðislána frá byrjun árs 2005. Kærandi mótmælir sérstaklega fullyrðingu Íbúðalánasjóðs um að ekki hafi verið heimilt að breyta vöxtum á viðbótarlánum án lagabreytinga og áréttar að ekkert í 31. gr. laga nr. 44/1998, eins og hún hafi verið við útgáfu skuldabréfsins, bannaði að slík bréf bæru breytilega vexti, auk þess sem slíkir vextir hafi tíðkast hjá sjóðnum af öðrum lánaflokki, sbr. 4. mgr. 36. gr. laganna eins og hún hafi verið á þessum tíma. Kærandi ítrekar að aðalatriði málsins sé ekki að komast að niðurstöðu um hvað vakað hafi fyrir löggjafanum við setningu ákvæða laga um viðbótarlán eða hvort stjórn Íbúðalánasjóðs hafi rækt lagaskyldur sínar, heldur hljóti það að snúast um hvernig túlka beri vaxtaákvæði skuldabréfs þess er um ræði í málinu að teknu tilliti til reglna um viðskiptabréf, almennra túlkunarreglna um slíka samninga, ákvæða laga um neytendalán og grundvallarreglna neytendaréttar.

 

 

IV. Sjónarmið Íbúðalánasjóðs

 

Í athugasemdum vegna kærunnar vísar Íbúðalánasjóður til svarbréfs Braga Kristjánssonar hdl., dags. 25. nóvember 2011. Þá er það áréttað að í 4. gr. lánssamnings sé tíundað að það sé stjórn Íbúðalánasjóðs, að fenginni umsögn Seðlabankans, sem taki ákvörðun um vaxtabreytingar með vísan til þágildandi 31. gr. laga nr. 44/1998. Stjórn sjóðsins hafi ekki ákveðið breytingu á vöxtum viðbótarlána frá útgáfu þeirra.

 

Í framangreindum tölvupósti kemur fram að skuldabréf hafi verið gefið út þann 12. október 2001 og hafi upphaflega verið að fjárhæð 2.750.000 kr. og tryggt með 5. veðrétti í B. Lánið sé með 5,7% ársvöxtum og vísitölutryggt, miðað við grunnvísitölu neysluverðs 214,9. Í texta bréfsins segi að vextir séu breytilegir samkvæmt ákvörðun stjórnar Íbúðalánasjóðs, að fenginn umsögn Seðlabanka Íslands, sbr. 31. gr. laga nr. 44/1998. Íbúðalánasjóður hafi veitt viðbótarlán á tímabilinu 1. janúar 1999 til loka desember 2004. Í lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998, hafi sagt um vexti í 6. mgr. 31. gr.: „Vextir af viðbótarlánum skulu taka mið af þeim lánskjörum sem Íbúðalánasjóði bjóðast hverju sinni. Stjórn Íbúðalánasjóðs skal við gerð fjárhagsáætlunar ár hvert ákveða vexti af slíkum lánum að fenginni umsögn Seðlabanka Íslands.“ Í þessu sambandi sé vert að geta þess að í 10. gr. laganna sé tæmandi upp talið hvernig Íbúðalánasjóður skuli fjármagna lánveitingar. Í athugasemdum við greinina í frumvarpi til laganna sé sagt að gert sé ráð fyrir því að sjóðurinn verði fjárhagslega sjálfstæður. Í samræmi við þetta hafi Íbúðalánasjóður staðið fyrir útboði á húsnæðisbréfum í lok hvers árs. Niðurstaðan hafi ráðið því hvaða vextir hafi verið á þeim viðbótarlánum sem veitt hafi verið á næsta ári á eftir. Reyndar hafi vöxtum verið breytt fjórum sinnum á síðasta ári sem viðbótarlánin hafi verið veitt: 2. janúar 5,3%, 15. september 4,35%, 15. október 4,3% og 1. desember 4,15%. Vextir hafi svo verið óbreyttir frá útgáfu viðbótarlánanna. Í frumvarpi til laganna hafi sagt að vextir skyldu vera breytilegir en það hafi verið fellt út í meðförum Alþingis. Breytingin hafi komið inn í lögin í nefndaráliti meiri hluta félagsmálanefndar Alþingis. Það sé mat Íbúðalánasjóðs að meiningin hafi verið að lána á breytilegum vöxtum til áratuga, þar sem sjóðurinn skuldbindi sig til að greiða vexti, sambærilega upphaflegum vöxtum af þeim bréfum, sem hann hafi gefið út og selt til að fjármagna lánin, en breyta svo vöxtunum á þegar veittum viðbótarlánum margsinnis, hugsanlega árlega. Þetta skekki dæmið og megi í því sambandi benda á reynslu bankanna af slíkri lánastarfsemi, sem hafi leitt til bankahrunsins. Við skýringu á því hvers vegna tilgreindir séu breytilegir vextir í viðbótarlánum 1999–2002 megi ef til vill skoða framkvæmd þessara mála í húsnæðislánum síðustu áratuga og hugsanlega hafi það verið gert til að halda opnum möguleikanum á að breyta vöxtum á þegar útgefnum skuldabréfum. Í lögum nr. 47/1991 hafi verið sett ákvæði þess efnis að vextir á lánum Byggingarsjóðs ríkisins skyldu vera breytilegir frá og með 1. júlí 1984 en þann dag hafi lög um Húsnæðisstofnun ríkisins, nr. 60/1984, tekið gildi. Með lögum nr. 58/1995 hafi verið gerð sams konar breyting að því er varðar Byggingarsjóð verkamanna. Á þeim tíma hafi ríkisstjórnin tekið ákvörðun um vexti. Eina dæmið um að vöxtum hafi verið breytt í húsnæðislögum eftir að bréfin hafi verið gefin út séu breytingar á vöxtum Byggingarsjóðs ríkisins frá 1. ágúst 1991 og á vöxtum Byggingarsjóðs verkamanna frá 1. mars 1993. Það sé athyglisvert að þessi ákvörðun um að breyta vöxtum á þegar útgefnum skuldabréfum hafi verið tekin eftir að lögum hafi verið breytt. Greinilega hafi verið talið að lagabreytingin væri nauðsynleg þrátt fyrir athugasemdir í frumvörpum þess efnis að einungis hafi verið um orðalagsbreytingu að ræða, og vextir hafi verið taldir breytilegir. Enda hafi framkvæmdin ávallt verið sú, þegar framangreindum undantekningum sleppi, að vextir hafi haldist óbreyttir eftir útgáfu skuldabréfanna. Það sé niðurstaða sjóðsins að stjórn Íbúðalánasjóðs hafi aldrei tekið ákvörðun um að breyta vöxtum á þegar útgefnum viðbótarlánum sjóðsins enda hæpið án lagabreytingar ef mið er tekið af breytingum laga 1991 og 1993. Í samræmi við það hafi vextirnir haldist óbreyttir eftir útgáfu viðbótarlána.

 

Í bréfi Íbúðalánasjóðs til úrskurðarnefndarinnar, dags. 22. maí 2013, kemur fram að sjóðurinn hafi veitt viðbótarlán á tímabilinu 1. janúar 1999 til loka desember 2004. Vextir hafi verið ákvarðaðir með eftirfarandi hætti:

 

1999                  4,38%      janúar

2000                  4,54%      janúar

2001                  5,7%        janúar

2002                  5,7%        janúar

2003                  5,6%        janúar

2004                  5,3%        janúar

                          4,35%      september

                          4,3%        október

                          4,15%      desember

 

Vextir hafi því verið óbreyttir á útgefnum viðbótarlánum frá útgáfu þeirra út lánstímann. Vöxtum hafi því ekki verið breytt á þegar útgefnum viðbótarlánum enda hæpið án lagabreytinga.

           

 

V. Niðurstaða

 

Málskot kæranda er reist á 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998. Hlutverk úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er meðal annars að skera úr ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda. Í máli þessu er ágreiningur um hvort Íbúðalánasjóði hafi borið að endurákvarða og endurreikna vexti af skuldabréfi kæranda vegna viðbótarláns sem breytilega vexti í stað fastra 5,7% ársvaxta sem lagðir hafi verið til grundvallar við útreikning og innheimtu vaxta af skuldabréfinu.

 

Í málinu liggur fyrir skuldabréf vegna viðbótarláns skv. VII. kafla laga nr. 44/1998 og var það gefið út þann 12. október 2001. Lánið var upphaflega að fjárhæð 2.750.000 kr. og tryggt með 5. veðrétti í B. Í 4. gr. skuldabréfsins segir eftirfarandi: „Vextir eru breytilegir skv. ákvörðun stjórnar Íbúðalánasjóðs að fenginni umsögn Seðlabanka Íslands, sbr. 31. gr. laga nr. 44/1998. Sú greiðsla og vextir sem nefndir eru í skuldabréfinu eru miðaðir við upphafleg lánskjör. Lánskjör breytast einnig samkv. lögum nr. 63/1985 um greiðslujöfnun fasteignaveðlána, með síðari breytingum. Skuld á jöfnunarreikningi, sem til verður vegna ákvæða um greiðslumark, telst hluti af höfuðstól lánsins. Lánskjör, þar með talið vextir og verðtrygging vegna skuldar á jöfnunarreikningi, skulu vera hin sömu og af upphaflegu láni.“ Í bréfinu er tilgreint að lánið sé með 5,7% ársvöxtum og vísitölutryggt, miðað við grunnvísitölu neysluverðs 214,9.

 

Með lögum nr. 44/1994 voru tekin upp sérstök viðbótarlán, auk almenns láns, sem veitt voru þeim sem bjuggu við erfiðar aðstæður. Með viðbótarláninu gat heildarlánveitingin numið allt að 90% af kaupverði íbúðar. Með þessu var stuðlað að því að þeir sem bjuggu við slíkar aðstæður og áttu ekki kost á lánsfjármagni á almennum markaði gætu fjármagnað eigin íbúðarkaup, sem þeir ættu ella ekki kost á. Ákvæði um viðbótarlán var að finna í VII. kafla laganna og var kveðið á um lánveitingu í 30. gr., lánskjör viðbótarlána í 31. gr. og sölu íbúðar með viðbótarláni í 32. gr. Með lögum nr. 120/2004 um breytingu á lögum um húsnæðismál var öllum íbúðakaupendum gefinn kostur á 90% lánum og þörf fyrir viðbótarlán því ekki lengur fyrir hendi. Því var VII. kafli laga nr. 44/1998 felldur brott, sbr. 6. gr. laga nr. 120/2004.

 

Í 6. mgr. 31. gr. laga nr. 44/1998 kom fram að vextir af viðbótarlánum skyldu taka mið af þeim lánskjörum sem Íbúðalánasjóði byðust hverju sinni. Stjórn Íbúðalánasjóðs skyldi við gerð fjárhagsáætlunar ár hvert ákveða vexti af slíkum lánum að fenginni umsögn Seðlabanka Íslands. Birta skyldi ákvarðanir um vexti í Lögbirtingablaði. Í frumvarpi til laga nr. 44/1998 var kveðið á um að vextir af viðbótarlánum skyldu vera breytilegir en ákvæðinu var breytt í meðförum þingsins í samræmi við breytingartillögu meiri hluta félagsmálanefndar.

 

Úrskurðarnefndin tekur fram að samkvæmt skýru ákvæði 1. málsl. 4. gr. skuldabréfsins eru vextir af láninu breytilegir samkvæmt ákvörðun stjórnar Íbúðalánasjóðs að fenginni umsögn Seðlabanka Íslands, sbr. 31. gr. laga nr. 44/1998. Af hálfu Íbúðalánasjóðs hefur komið fram að vextir hafi ávallt haldist óbreyttir eftir útgáfu skuldabréfa vegna viðbótarlána og stjórn Íbúðalánasjóðs hafi aldrei tekið ákvörðun um að breyta vöxtum á þegar útgefnum viðbótarlánum sjóðsins. Úrskurðarnefndin telur ekki ástæðu til að gera athugasemd við þessa framkvæmd Íbúðalánasjóðs enda kemur fram í umræddu skuldabréfi að vextir séu breytilegir samkvæmt ákvörðun stjórnar Íbúðalánasjóðs. Hin kærða ákvörðun verður því staðfest.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Ákvörðun Íbúðalánasjóðs, dags. 25. nóvember 2011, um synjun á beiðni Guðrúnar Sigríðar Jónsdóttur, kt. 230960-5939, um endurskoðun á útreikningi vaxta af viðbótarláni nr. C sem tryggt er með 5. veðrétti í eignarhluta kæranda í B er staðfest.

 

 

 

Bergþóra Ingólfsdóttir,

 

formaður

 

 

Margrét Gunnlaugsdóttir                                Gunnar Eydal

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum