Hoppa yfir valmynd
13. febrúar 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 45/2011

Miðvikudaginn 13. febrúar 2013 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 45/2011:

 

 

Endurupptaka á máli

A

og kveðinn upp svohljóðandi

 

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

A, hér eftir nefnd kærandi, hefur með kæru, dags. 10. maí 2011, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála ákvörðun Garðabæjar frá 31. mars 2011 um fjárhagsaðstoð frá og með 1. október 2010. Á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála miðvikudaginn 10. ágúst 2011 var kveðinn upp úrskurður í málinu og var hin kærða ákvörðun staðfest. Kærandi leitaði til umboðsmanns Alþingis sem gaf álit sitt í máli nr. 6690/2011. Mál kæranda er endurupptekið að beiðni hennar.

 

 

I. Málavextir og málsmeðferð

 

Kærandi sem er menntaður förðunarfræðingur, var atvinnulaus um skeið og féll út af atvinnuleysisskrá 1. október 2010 vegna dvalar erlendis. Hún hóf sérhæft nám í förðunarfræðum í B á vorönn 2011 en hélt lögheimili sínu í Garðabæ. Umsókn hennar um lán hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna var hafnað þar sem námið var ekki talið lánshæft. Í gögnum málsins er rakið að í febrúar 2011 hafi kærandi orðið fyrir verulegu persónulegu áfalli, kostnaði vegna þess og öðru fjártjóni.

 

Eins og rakið er í gögnum málsins varð kærandi fyrir líkamsárás og alvarlegu kynferðisbroti í febrúar 2011. Hún þarf að fara í aðgerð vegna líkamsárásarinnar. Þá varð kærandi fyrir fjártjóni vegna þess að meðleigjandi hennar fór úr íbúð þeirra án þess að gera upp sinn hluta leigugreiðslu, auk þess sem hann hafði meðferðis andvirði ríflegrar mánaðarleigu sem hafði verið eign kæranda. Kærandi sótti um fjárhagsaðstoð þann 7. mars 2011 frá og með 1. október 2010. Fjölskyldusvið Garðabæjar hafnaði beiðni kæranda á fundi þann 11. mars 2011 þar sem ekki var talið að í reglum Garðabæjar um fjárhagsaðstoð væru almennar heimildir til þess að framfæra fólk í námi. Auk þess væri litið svo á að framfærsluskylda sveitarfélags væri háð því að dvalarstaður umsækjanda væri á landinu og viðkomandi þurfi aðstoðina sér til framfærslu hérlendis. Kærandi skaut þessari ákvörðun til fjölskylduráðs Garðabæjar sem staðfesti hina fyrri ákvörðun á fundi sínum 31. mars 2011 á grundvelli sömu forsendna og komu fram í synjun fjölskyldusviðsins þann 11. mars 2011. Kærandi skaut þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála með kæru, dags. 10. maí 2011, eins og fram hefur komið.

 

Í málinu liggur fyrir úrskurður úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála frá 10. ágúst 2011. Með bréfi, dags. 19. október 2011, kvartaði kærandi til umboðsmanns Alþingis. Í áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 6690/2011 frá 26. október 2012 kemur fram að umboðsmaður telur að úrskurður úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála hafi ekki verið í samræmi við 12. gr., sbr. 13. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Kærandi óskaði eftir endurupptöku málsins með bréfi, dags. 20. janúar 2013. Með bréfi, dags. 7. febrúar 2013, var kæranda tilkynnt um endurupptöku málsins.

 

 

II. Málsástæður kæranda

 

Kærandi kveðst hafa verið atvinnulaus í tvö ár og því flutt til C í byrjun árs 2011 til að stunda nám í kvikmyndaförðun og gerð kvikmyndagerva. Kærandi bendir á að nám þetta sé ekki í boði á Íslandi. Kærandi hafi þörf á fjárhagsaðstoð þar sem námið sé afar dýrt sem og húsnæði í C. Þá hafi hún lent í miklum áföllum eftir að hún hóf nám sitt í febrúar 2011 sem hafi leitt til mikilla óvæntra fjárútláta.

 

 

III. Sjónarmið Garðabæjar

 

Af hálfu fjölskylduráðs Garðabæjar kemur fram að erindi kæranda hefði verið synjað þar sem í reglum Garðabæjar um fjárhagsaðstoð væru ekki almennar heimildir til að styrkja fólk í námi auk þess sem litið sé svo á að framfærsluskylda sveitarfélagsins sé háð því að dvalarstaður viðkomandi sé á landinu og viðkomandi þurfi aðstoðina sér til framfærslu hérlendis.

 

 

IV. Niðurstaða

 

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, með síðari breytingum. Í máli þessu er ágreiningur um það hvort fjölskylduráði Garðabæjar beri að greiða kæranda fjárhagsaðstoð frá 1. október 2010 og til 31. mars 2011. Kærandi er með lögheimili í Garðabæ en hún hefur fasta búsetu í B.

 

Í 1. mgr. 12. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, kemur fram að sveitarfélag skuli veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum. Í 1. mgr. 13. gr. laganna kemur fram að með íbúa sveitarfélags sé í lögunum átt við hvern þann sem lögheimili á í viðkomandi sveitarfélagi. Það er meginregla samkvæmt lögum um lögheimili, nr. 21/1990, að skráð lögheimili sé sá staður þar sem viðkomandi hefur fasta búsetu samkvæmt nánar tilgreindum skilyrðum sem koma fram í 1. gr. laganna. Í lögunum er þó að finna undantekningar frá því skilyrði. Í 1. mgr. 9. gr. laganna kemur fram að sá sem dvelst erlendis við nám eða vegna veikinda getur áfram átt lögheimili hér á landi hjá skyldfólki sínu eða venslafólki eða í því sveitarfélagi þar sem hann átti lögheimili er hann fór af landi brott enda sé hann ekki skráður með fasta búsetu erlendis. Óumdeilt er að þrátt fyrir dvöl sína við nám í B átti kærandi áfram lögheimili í Garðabæ í samræmi við 1. mgr. 9. gr. laganna. Þegar kærandi sótti um fjárhagsaðstoð hjá Garðabæ var hún ótvírætt íbúi sveitarfélagsins, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 40/1991, sbr. 13. gr. sömu laga. Sveitarfélaginu var því óheimilt að synja umsókn kæranda á þeim grundvelli að dvalarstaður hennar væri ekki hér á landi og hún þyrfti aðstoðina sér til framfærslu erlendis. Reglur sveitarfélagsins geta ekki vikið til hliðar eða breytt þeim beinu reglum og skilyrðum sem löggjafinn hefur sett, meðal annars um það hverjir skuli njóta réttar til félagslegrar aðstoðar hjá sveitarfélaginu. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar hjá fjölskylduráði Garðabæjar.

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Ákvörðun Garðabæjar, dags. 31. mars 2011, um synjun á umsókn A, um fjárhagsaðstoð er felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar.

 

 

 

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Margrét Gunnlaugsdóttir

Gunnar Eydal

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum