Hoppa yfir valmynd
20. nóvember 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 79/2012

Þriðjudaginn 20. nóvember 2012 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 79/2012:

 

 

Kæra A

á athöfnum

Íbúðalánasjóðs

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

A, hér eftir nefndur kærandi, hefur með tölvupósti til velferðarráðuneytisins þann 5. júlí 2012 kvartað yfir afgreiðslu Íbúðalánasjóðs á máli félags í hans eigu, B. Ráðuneytið taldi að um stjórnsýslukæru væri að ræða og framsendi erindið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála með bréfi, dags. 21. ágúst 2012.

 

I. Helstu málsatvik og kæruefni

Kærandi á félagið B en félagið átti fasteignir sem notaðar voru í útleigu. Vegna vanskila við Íbúðalánasjóð leitaði kærandi úrræða hjá sjóðnum fyrir hönd félagsins. Að sögn Íbúðalánasjóðs voru ekki skilyrði fyrir hendi til að fara í fjárhagslega endurskipulagningu félagsins þar sem staða þess hafi ekki verið það slæm og félaginu hafi því verið boðið að greiða inn á vanskilin og gera samning um afganginn til 18 mánaða. Þar sem félagið gat ekki greitt inn á vanskilin varð ekkert af samningnum. Fasteignirnar voru því seldar á nauðungaruppboði hjá sýslumanninum á C þann 4. janúar 2012. Íbúðalánasjóður átti hæsta boð og eignaðist því allar sjö íbúðir félagsins. Að uppboðinu loknu fékk félagið sex vikna frest til að fá lán fyrir innborgun á vanskil og til að gera samning við sjóðinn um afgang vanskila. Félagið greiddi ekki inn á vanskilin og því eignaðist Íbúðalánasjóður endanlega umræddar fasteignir.

 

II. Málsmeðferð

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála óskaði símleiðis eftir upplýsingum um mál kæranda hjá Íbúðalánasjóði. Með tölvupósti þann 25. september 2012 bárust upplýsingar frá Íbúðalánasjóði. Með tölvupósti þann 11. október 2012 óskaði úrskurðarnefndin eftir gögnum í máli kæranda frá Íbúðalánasjóði og bárust þau með tölvupósti þann 15. október 2012. Með bréfi, dags. 11. október 2012, óskaði úrskurðarnefndin eftir nánari skýringum frá kæranda um kæruefnið. Skýringar kæranda bárust úrskurðarnefndinni með ódagsettu bréfi, mótteknu þann 25. október 2012.

 

III. Sjónarmið kæranda

Í bréfi kæranda, mótteknu þann 25. október 2012, kemur fram að hann hafi stofnað félagið B árið 2007 og keypt allar eignir þess fyrir hrun. Við hrunið hafi öll lán félagsins hækkað um rúmlega 40%. Þar sem lánsloforð hafi ekki staðist hafi kærandi þurft að taka yfirdrætti til að klára endurbætur. Vegna hárra stýrivaxta hafi yfirdrættirnir stóraukist og þannig hafi kærandi komist í vanskil við Íbúðalánasjóð sem hafi endað á því að eignirnar hafi verið seldar nauðungarsölu. Það séu þær ákvarðanir sem séu kærðar.

 

Þegar eignirnar hafi verið seldar nauðungarsölu hafi þær numið um 25-30% af skuldum félagsins við Íbúðalánasjóð. Íbúðalánasjóður hafi bætt við aukakostnaði vegna eignaupptöku og vaxtakostnaði. Kærandi telur að með því að taka umfram kröfu og falsa tölur hafi Íbúðalánasjóður brotið lög.

 

Kærandi bendir á að í ársbyrjun 2011 hafi verið stofnað sérstakt fyrirtækjasvið hjá Íbúðalánasjóði. Starfsmenn fyrirtækjasviðs hafi ekki fengist til að samþykkja leiðréttingar fyrir félagið varðandi endurbótalánin. Kærandi hafi stungið upp á því að Íbúðalánasjóður tæki til sín hluta af eignunum upp í greiðslu vegna vanskila hans við sjóðinn og kærandi gæti þá haldið áfram starfsemi með hinar eignirnar. Kæranda hafi hins vegar verið boðinn 18 mánaða samningur vegna vanskilanna með því skilyrði að kærandi greiddi rúmlega þriggja milljón króna greiðslu til Íbúðalánasjóðs. Þar sem kærandi hafi ekki haft ekki tök á því þá hafi eignirnar verið seldar nauðungarsölu.

 

Kærandi gagnrýnir að Íbúðalánasjóður miði virði eignanna við fasteignamat. Þá telur kærandi að þegar hann hafi leitað til starfsmanns Íbúðalánasjóðs hafi viðkomandi beinlínis sent honum fölsuð gögn. Kærandi telur að hann hafi orðið fyrir eignaupptöku sem reynt hafi verið að hylma yfir með skjalafalsi. Kærandi óskar eftir því að hlutlausir matsmenn meti eignir B. svo hægt sé að sjá hversu stór eignarhlutur hans sé í félaginu. Þá fer kærandi fram á að fá greidda hlutfallslega leigu af eignunum frá þeim tíma sem eignirnar hafi verið gerðar upptækar með vöxtum. Þá gerir kærandi kröfu um að honum verði dæmdar skaðabætur þar sem þetta hafi sett líf hans úr skorðum.

 

Úrskurðarnefndin hefur farið yfir önnur bréf kæranda er liggja fyrir í málinu. Ekki er talin ástæða til að reifa efni þeirra hér.

 

IV. Sjónarmið Íbúðalánasjóðs

Í tölvupósti Íbúðalánasjóðs frá 26. september 2012 kemur fram að sjóðurinn hafi eignast íbúðir B á nauðungaruppboði samkvæmt hefðbundnu innheimtuferli sjóðsins. Greining Íbúðalánasjóðs árið 2011 á rekstri félagsins samkvæmt ársreikningum 2009 og 2010 og upplýsingum frá félaginu hafi leitt í ljós að félagið ætti ekki rétt á einhvers konar fjárhagslegri endurskipulagningu og þ.a.l. aðgerðum eins og afskriftum. Ástæðan hafi verið sú að útreiknað skuldaþol félagsins hafi verið töluvert hærra en áhvílandi skuldir og því engin ástæða til að ætla annað en að félagið gæti greitt af skuldum sínum. B. hafi í framhaldinu verið boðið að greiða inn á vanskil hjá Íbúðalánasjóði og gera samning um afganginn til 18 mánaða. Ekkert hafi þó orðið af því. Þar sem ekki hafi gengið að fá greitt inn á vanskil hafi hefðbundnum innheimtuaðgerðum verið haldið áfram og hafi það endað með því að íbúðir félagsins veðsettar Íbúðalánasjóði hafi verið boðnar upp á nauðungarsölu hjá sýslumanni. Íbúðalánasjóður hafi verið hæstbjóðandi á nauðungarsölunni og hafi í kjölfarið leyst íbúðirnar til sín.

 

Í tölvupósti Íbúðalánasjóðs frá 25. október 2012 kemur meðal annars fram að málefni vegna vanskila B. hafi ekki formlega verið tekið upp hjá stjórn sjóðsins þar sem það hafi ekki átt erindi þangað því félagið hafi átt rétt á samningi um vanskil gegn innborgun á vanskil sem félaginu hafi verið boðið en það hafi svo ekki gengið upp.

 

V. Niðurstaða

Málskot kæranda er reist á 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998. Hlutverk úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er meðal annars að skera úr ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda.

 

Í 1. mgr. 42. gr. laganna kemur fram að málsaðili geti skotið ákvörðun Íbúðalánasjóðs til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála. Ákvæðinu var breytt með 2. gr. laga nr. 77/2001 en í athugasemdum við 2. gr. frumvarpsins segir að með ákvörðun Íbúðalánasjóðs sé átt við stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga. Svo úrskurðarnefndin geti tekið kæru til efnislegrar meðferðar þarf því að liggja fyrir stjórnvaldsákvörðun. Um stjórnvaldsákvörðun er einungis að ræða hafi stjórnvald tekið ákvörðun um rétt eða skyldu tiltekins aðila í skjóli stjórnsýsluvalds.

 

Kærandi hefur gert athugasemdir við meðferð Íbúðalánasjóðs á málefnum félagsins B. Af gögnum málsins verður ráðið að Íbúðalánasjóður hefur boðið félaginu að ganga til samninga vegna vanskila. Í ljósi þess að skilyrði fyrir slíkum samningum voru ekki uppfyllt, þar sem félagið greiddi ekki tilskilda fjárhæð inn á vanskilin, var ekki gengið til samninga. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að í máli kæranda liggi fyrir stjórnvaldsákvörðun. Kærunni verður því vísað frá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála.

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála.

 

 

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Margrét Gunnlaugsdóttir

Gunnar Eydal

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum