Hoppa yfir valmynd
24. október 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 81/2012

Miðvikudaginn 24. október 2012 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 81/2012:

 

 

Kæra A

á ákvörðun

þjónustuteymis B

 

og kveðinn upp svohljóðandi 

Ú R S K U R Ð U R:

 

A, hér eftir nefnd kærandi, hefur með kæru, dags. 12. september 2012, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála ákvörðun þjónustuteymis B, frá 28. ágúst 2012, um að setja umsókn hennar um stuðningsfjölskyldu fyrir C, á bið þar til um áramót 2013.

 

I. Helstu málsatvik og kæruefni

 

Þann 3. maí 2012 sótti kærandi um stuðningsfjölskyldu fyrir son hennar, C. Samkvæmt upplýsingum frá fjölskyldusviði D var umsókn kæranda tekin fyrir á meðferðarfundi fjölskyldusviðs D þann 7. júní 2012 og málinu þá vísað til þjónustuteymis B. Á fundi þjónustuteymis B þann 8. júní 2012 hafi niðurstaða fundar þess verið sú að ekki væri gert ráð fyrir fjármagni fyrir C samkvæmt fjárhagsáætlun vegna stuðningsfjölskyldna fatlaðra barna og var málið því sett á bið þangað til að gerð yrði ný fjárhagsáætlun. Með bréfi fjölskyldusviðs D, dags. 28. ágúst 2012, var kæranda tilkynnt um að umsókn hennar um stuðningsfjölskyldu yrði sett á bið þar til um áramót2013.

 

 

II. Málsmeðferð

 

Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 17. september 2012, var óskað eftir greinargerð af hálfu fjölskyldusviðs D þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir synjun um stuðningsfjölskyldu fyrir C. Enn fremur var óskað eftir öðrum gögnum sem legið hafi fyrir þjónustuteymi B. Greinargerð fjölskyldusviðsins barst með bréfi, dags. 27. september 2012.

 

 

III. Sjónarmið kæranda

 

Í kæru kemur fram að kærandi hafi þann 2. maí 2012 óskað eftir því við fjölskyldusvið D að gerður yrði samningur við stuðningsfjölskyldu vegna fatlaðs sonar síns. Hann hafi áður notið slíkrar þjónustu og er kæranda ekki kunnugt um að umdeilt sé að hann eigi rétt á slíkri þjónustu. Til staðar sé fjölskylda sem vilji gjarnan vera stuðningsfjölskylda sonar hennar og hafi sú fjölskylda verið það áður. Af hálfu kæranda byggt á því að í 21. gr. laga um málefni fatlaðs fólks segi að fjölskyldur fatlaðra barna skuli eiga kost á þjónustu stuðningsfjölskyldna eftir því sem þörf krefji. Í leiðbeinandi reglum velferðarráðuneytisins um stuðningsfjölskyldur sem hafi tekið gildi 1. febrúar 2012, sé að finna eftirfarandi ákvæði í 5. gr.: „Umsækjendur skulu fá svar við því hvort unnt sé að bregðast við umsókninni innan sex vikna frá því að hún barst sveitarfélagi.“ Kærandi telur að D hafi brotið gegn báðum þessum ákvæðum við meðferð umsóknar hennar. Kærandi fellst ekki á að réttur sonar hennar til þjónustu vegna fötlunar hans sé skertur vegna þess að fjármagn sem ætlað hafi verið vegna stuðningsfjölskyldna árið 2012 sé uppurið. Þá gerir kærandi athugasemd við að svar D hafi ekki borist fyrr en 17 vikum eftir að umsókn hafi borist þeim. Það svar sé ekki efnislegt heldur sé því slegið á frest í a.m.k. aðrar 17 vikur.

 

 

IV. Sjónarmið fjölskyldusviðs D

 

Í greinargerð fjölskyldusviðs D, dags. 27. september 2012, er vakin athygli á því að ekki hafi verið um synjun að ræða líkt og fram hafi komið í bréfi úrskurðarnefndarinnar heldur hafi málið verið sett á bið. Þá er á það bent að svarbréf vegna umsóknar kæranda frá 3. maí 2012 hafi borist 28. ágúst 2012 þar sem fram komi að umsóknin hafi verið sett á bið. Ráðgjafi sá er fór með málið hafi verið í reglulegu símasambandi við kæranda þar sem hún hafi verið upplýst um gang mála áður en henni hafi borist bréfið. Sú fullyrðing kæranda að henni hafi ekki borist efnisleg svör varðandi umsókn hennar fyrr en rúmum átta mánuðum síðar eigi því ekki við rök að styðjast. Einnig er á það bent að í 6. gr. reglna um stuðningsfjölskyldur vegna fatlaðra barna hjá fjölskyldusviði D komi fram að umsækjanda skuli tilkynnt um það skriflega hafi umsókn hans verið sett á bið.

 

 

V. Niðurstaða

 

Málskotsheimild kæranda er reist á 5. gr. a laga um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992, með síðari breytingum, en í 1. mgr. greinarinnar kemur fram að fötluðum einstaklingi sé heimilt að kæra stjórnvaldsákvarðanir um þjónustu sem teknar eru á grundvelli laganna til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, sbr. XVII. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga.

 

Í málinu liggur fyrir ákvörðun þjónustuteymis B, frá 28. ágúst 2012, um að setja umsókn kæranda um stuðningsfjölskyldu fyrir C, á bið þar til um áramót 2013.

 

Sveitarfélagið D ber ábyrgð á skipulagi og framkvæmd þjónustu við fatlað fólk, þar með talið gæðum hennar, sem og kostnaði vegna hennar, eins og fram kemur í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 59/1992. Félagsmálanefnd D fer með verkefni samkvæmt lögum um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992, sbr. 1. mgr. 3. gr. samþykktar fyrir félagsmálanefnd D frá 22. júlí 2010. Meðal þess sem líta verður til við ákvörðun um veitingu þjónustu við fatlað fólk er þörf þess fyrir slíka þjónustu. Í 1. mgr. 5. gr. laganna kemur fram að fatlaður einstaklingur eigi rétt til að njóta þjónustu þar sem hann býr og komi fram umsókn um slíka þjónustu skal skv. 3. mgr. 5. gr. laganna meta þá umsókn af teymi fagfólks, sem meti heildstætt þörf fatlaðs einstaklings fyrir þjónustuna og jafnframt hvernig koma megi til móts við óskir hans. Samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 3. gr. reglna um stuðningsfjölskyldur vegna fatlaðra barna hjá fjölskyldusviði D er sveitarfélaginu skylt að tryggja að fjölskyldur fatlaðra barna eigi kost á þjónustu stuðningsfjölskyldna eftir því sem þörf krefur. Þá kemur fram í 9. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, að ákvörðun í máli skuli taka svo fljótt sem unnt er.

 

Ákvörðun um að setja umsókn á bið verður ekki talin til stjórnvaldsákvarðana enda bindur hún ekki enda á málið. Í máli þessu er því ekki til að dreifa kæranlegri ákvörðun á grundvelli 5. gr. a laga um málefni fatlaðs fólks og er máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni til félagsmálanefndar D til löglegrar meðferðar, með framangreindum athugasemdum.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Kæru A, á ákvörðun þjónustuteymis B, frá 28. ágúst 2012, um að setja umsókn hennar um stuðningsfjölskyldu fyrir C, á bið þar til um áramót 2013 er vísað frá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála og er málinu vísað til félagsmálanefndar D til löglegrar meðferðar.

 

 

 

Ása Ólafsdóttir, formaður

Margrét Gunnlaugsdóttir

Gunnar Eydal

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum