Hoppa yfir valmynd
24. október 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 52/2011

Miðvikudaginn 24. október 2012 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 52/2011:

 

 

Kæra A

á ákvörðun

Íbúðalánasjóðs 

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R:

 

A, hér eftir nefnd kærandi, hefur með kæru, dags. 16. maí 2011, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála ákvörðun Íbúðalánasjóðs, frá 4. apríl 2011, vegna umsóknar um endurútreikning lána hjá sjóðnum. Á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála miðvikudaginn 14. september 2011 var kveðinn upp úrskurður í málinu og var ákvörðun Íbúðalánasjóðs staðfest. Eftir samskipti við umboðsmann Alþingis taldi úrskurðarnefndin rétt að endurupptaka málið.

 

 

I. Helstu málsatvik og kæruefni

 

Í málinu liggur fyrir úrskurður úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála frá 14. september 2011. Með bréfi, dags. 12. desember 2011, kvartaði kærandi til umboðsmanns Alþingis. Umboðsmaður Alþingis sendi úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála fyrirspurn með bréfi, dags. 29. febrúar 2012. Í svarbréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 29. júní 2012 tók nefndin meðal annars fram að vegna athugasemda kæranda um að aðeins hafi verið tekið tillit til hluta þeirra lána sem hvíldu á aðfararhæfum eignum foreldra kæranda myndi úrskurðarnefndin endurupptaka málið á þeim grundvelli.

 

Samkvæmt kaupsamningi, dags. 16. maí 2006, keypti kærandi íbúðina að B ásamt foreldrum sínum. Af kaupsamningi má ráða að kærandi keypti 50% hlut í íbúðinni en hvort foreldra hennar fyrir sig 25% hlut. Samkvæmt kaupsamningi yfirtóku kaupendur þau þrjú lán Íbúðalánasjóðs sem hvíldu á fasteigninni við kaupin, auk þess sem þau eru sameiginlegir skuldarar á láni Íbúðalánasjóðs sem var tekið í tengslum við kaupin, samkvæmt skuldabréfi, dags. 23. júní 2006.

 

Samkvæmt endurútreikningi Íbúðalánasjóðs, dags. 7. júní 2011, var skráð fasteignamat íbúðarinnar að B 10.950.000 kr. og 110% fasteignamat 12.045.000 kr. Þá kemur fram að eftirstöðvar íbúðalána þann 1. janúar 2011 voru 18.672.546 kr. Veðsetning umfram 110% nam því 6.627.546 kr. Hins vegar var ekki fallist á niðurfellingu lána þar sem tekið var fram að aðrar eignir næmu 21.844.770 kr. Til frádráttar niðurfærslu lána komu eftirfarandi eignir:

 

Aðrar eignir               Fastanúmer           Áramótastaða       Áhvílandi lán              Veðrými

Bifreið                         C                            574.000                  0                                  574.000

D                                 D                            22.850.000             9.076.346                    13.773.654

E                                 E                             15.450.000             8.736.552                    6.713.448

F                                  F                             283.500                  0                                  283.500

Bifreið                         G                            180                         0                                  180

Bifreið                         H                            1.840.360               1.340.372                    499.988

 

Bifreiðarnar G og H og fasteignirnar D, E og F voru í eigu foreldra kæranda.

 

Í bréfi kæranda til úrskurðarnefndarinnar, dags. 28. júní 2011, er því haldið fram að Íbúðalánasjóður hafi ekki tekið tillit til allra lána sjóðsins við afgreiðslu málsins. Í útreikningana vanti tvö lán frá Íbúðalánasjóði. Annað sé nr. I með veði í fasteign foreldra hennar að D. Staða þess láns um áramótin 2010–2011 hafi verið 22.727.569 kr. Hitt lánið sé einnig frá Íbúðalánasjóði og sé nr. J en staða þess hafi um áramótin 2010–2011 verið 1.073.600 kr. Samtals sé hér um að ræða áhvílandi lán frá Íbúðalánasjóði upp á 23.801.169 kr. Íbúðalánasjóður virðist hins vegar aðeins taka tillit til svokallaðs hattaláns frá K með veði í framangreindri eign foreldra hennar sem um áramótin 2010–2011 hafi staðið í 9.076.346 kr. Kærandi bendir á að áhvílandi lán á eignum þeirra þriggja sé langt umfram 110% veðrými aðfararhæfra eigna eða 12.742.787 kr. Með kæru fylgdu lánayfirlit frá Íbúðalánasjóði vegna kæranda og foreldra hennar þar sem fram koma upplýsingar um stöðu lána miðað við 31. desember 2010.

 

Þann 1. október 2012 bárust úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála upplýsingar frá Íbúðalánasjóði um að sjóðurinn hefði tekið nýja ákvörðun í máli kæranda þann 9. ágúst 2012. Íbúðalánasjóður var þá upplýstur um að fyrir lægi úrskurður nefndarinnar í málinu frá 14. september 2011 og að til stæði að endurupptaka málið. Þann 2. október 2012 tilkynnti Íbúðalánasjóður að ekki stæðu efni til þess að afturkalla ákvörðun sjóðsins frá 9. ágúst 2012. Um hafi verið að ræða endurupptöku á ákvörðun sjóðsins frá 4. apríl 2011 sem hafi byggst á ófullnægjandi upplýsingum og hugsanlega hefði getað verið til hagsbóta kæranda. Þá hafi niðurstaðan verið kæranleg til úrskurðarnefndarinnar og var ekki talin hindra úrskurðarnefndina í að taka málið upp.

  

II. Niðurstaða

 

Málskot kæranda er reist á 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998. Hlutverk úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er meðal annars að skera úr ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda.

 

Með bréfi, dags. 27. september 2012, barst úrskurðarnefndinni ný ákvörðun Íbúðalánasjóðs í máli kæranda. Endanleg ákvörðun í máli kæranda var tekin þann 4. apríl 2011 og staðfest með úrskurði úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála þann 14. september 2011. Úrskurðir nefndarinnar eru fullnaðarúrskurðir á sviði stjórnsýslunnar, sbr. 3. mgr. 65. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Með úrskurði nefndarinnar frá 14. september 2011 var því kveðið á um endanlegar lyktir máls kæranda á stjórnsýslustigi. Íbúðalánasjóður var því ekki bær til að taka nýja ákvörðun í málinu eftir að úrskurðarnefndin hafði kveðið upp sinn úrskurð í málinu, eins og hér stendur á, og er því um valdþurrð að ræða. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að ákvörðun Íbúðalánasjóðs frá 9. ágúst 2012 sé haldin verulegum annmarka og verður því felld úr gildi.

 

Kærandi bar úrskurð nefndarinnar frá 14. september 2011 undir umboðsmann Alþingis. Eftir athugasemdir umboðsmanns Alþingis hefur úrskurðarnefndin ákveðið að endurupptaka málið vegna upplýsinga um að áhvílandi lán sem hvíldu á aðfararhæfum eignum í skilningi laga nr. 29/2011 væru ekki rétt fram talin í ákvörðun Íbúðalánasjóðs. Ekki eru að mati úrskurðarnefndinnar, eins og hér stendur á, forsendur til að raska með öðrum hætti þeim málsgrundvelli sem hin kærða ákvörðun byggði á.

 

Í gögnum málsins liggja fyrir lánayfirlit Íbúðalánasjóðs vegna kæranda og foreldra hennar þar sem fram koma upplýsingar um stöðu lána miðað við 31. desember 2010. Upplýsingum í umræddum lánayfirlitum ber ekki saman við þær upplýsingar sem miðað var við í afgreiðslu á umsókn kæranda. Upplýsingar um fjárhæðir áhvílandi lána á eignum kæranda og foreldra hennar skipta verulegu máli þar sem þær hafa bein áhrif á það hvort og hversu mikil lækkun skulda verður við afgreiðslu umsóknar kæranda. Hin kærða ákvörðun Íbúðalánasjóðs frá 4. apríl 2011 er því staðfest og verður ekki endurupptekin að öðru leyti en því að áhvílandi lán á öðrum eignum kæranda og foreldra hennar skulu leiðrétt hjá Íbúðalánasjóði svo ákvörðun um niðurfærslu veðlána byggist á réttum lánaupplýsingum.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Ákvörðun Íbúðalánasjóðs frá 9. ágúst 2012 í máli A er felld úr gildi.

 

Ákvörðun Íbúðalánasjóðs frá 4. apríl 2011 um synjun um endurútreikning á lánum A áhvílandi á fasteigninni að B er staðfest að öðru leyti en því að áhvílandi lán á öðrum eignum A og foreldra hennar skulu leiðrétt hjá Íbúðalánasjóði.

 

 

Ása Ólafsdóttir, formaður

Margrét Gunnlaugsdóttir

Gunnar Eydal

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum